Innlifunaríhugun 5: Í húsi Maríu

Innlifunaríhugun 5: Í húsi Maríu

Í dag ætlum við, í tilefni mæðradagsins, að mæta annarri persónu guðspjallanna í innlifunaríhugun að hætti Ignatíusar Loyola. Hún er sú sem stóð Jesú næst, hún sem fyrst fann líf hans innra með sér, hún sem gaf honum af sínu lífi, nærði hann og annaðist og fylgdi honum allt til dauða og aftur þaðan, var vitni upprisunnar og máttarstólpi í fyrsta kristna söfnuðinum.
Mynd

Kyrrðarstund í streymi frá Grensáskirkju 12.5.20: Innlifunaríhugun 5

„Okkar kristna trú leiðir okkur að orkulindum umhyggjunnar, kraftuppsprettum kærleikans“ (Karl Sigurbjörnsson í hugvekju á Fasbókinni 10.5.20).

Undanfarna þriðjudaga höfum við verið með vinahópi Jesú og fengið að sjá Jesú upprisinn, horfast í augu við hann, heyra hann segja: Friður sé með þér, finna snertingu hans með því að lifa okkur inn í frásagnir guðspjallanna af gleðidögunum, dögunum sem Jesús dvaldi upprisinn á jörðu. Jesús slóst í för með okkar þar sem við eigruðum um í reiðileysi, kom til okkar þar sem við höfðum lokað okkur inni af ótta við hvað myndi gerast næst og svo vorum við með honum á ströndinni og hann gaf okkur grillaðan fisk og glóðað brauð og ræddi um kærleika og umhyggju.

Í dag ætlum við, í tilefni mæðradagsins, að mæta annarri persónu guðspjallanna í innlifunaríhugun að hætti Ignatíusar Loyola. Hún er sú sem stóð Jesú næst, hún sem fyrst fann líf hans innra með sér, hún sem gaf honum af sínu lífi, nærði hann og annaðist og fylgdi honum allt til dauða og aftur þaðan, var vitni upprisunnar og máttarstólpi í fyrsta kristna söfnuðinum og varði síðustu árum sínum í Efesus ásamt besta vini Jesú, Jóhannesi, eins og helgisagan segir.

Nú komum við okkur vel fyrir þannig að sem fæst trufli. Við gefum gaum að andardrættinum og finnum súrefnið flæða um líkamann. Lokum augum og eyrum og opnum innri skynjun.

Við erum stödd ásamt hópi fólks í húsi Maríu í fjallendinu fyrir ofan Efesus. Heit sólin bakar allt úti en þykkir steinveggirnir veita kærkomið kul. Lindin helga hjalar undir húsinu, lindin sem talin er hafa lækningamátt. Vatn úr henni hefur verið borið fram og við dreypum á því, vinnum vökvann væta kverkarnar og lífsins lindir streyma. Þarna situr hún María, komin yfir miðjan aldur, og við finnum frið og kærleika sem stafar frá henni, skynjum þá djúpu lífsreynslu sem nærvera hennar miðlar. Við komum okkur fyrir með hinum og hlustum á Maríu segja frá:

Þegar ég var ung stúlka heima fékk ég óvenjulega heimsókn. Engill kom og sagði mér að ég myndi verða barnshafandi. Hugsið ykkur, engill! Og engillinn sagði við mig: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“ Ég varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Þá sagði engillinn: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ.“ Ég skildi þetta ekki alveg af því að ég hafði ekki karlmanns kennt, en engillinn útskýrði fyrir mér að heilagur andi myndi koma yfir mig og kraftur Hins hæsta yfirskyggja mig. „Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs,“ sagði engillinn.

Allt var þetta mjög yfirþyrmandi en stundin var heilög og friðsæld fylgdi nálægð engilsins. Ég þorði ekki að tala um þessa lífsreynslu við foreldra mína en vissi að Elísabet móðursystir mín átti líka von á sér, komin sex mánuði á leið með sitt fyrsta barn. Til þess að átta mig betur á þessu öllu fór ég í heimsókn til frænku þegar ég var komin þrjá mánuði á leið. Það var alveg einstakt að hitta hana, við báðar að verða mæður í fyrsta sinn, ég við upphaf frjóseminnar, hún komin að lokum þess tíma. Við vorum saman í þessu og Guð hafði snert við okkur. 

Það  sem gerðist þegar ég kom og heilsaði frænku var alveg sérstakt. Ófædda barnið hennar tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda og hrópaði: „Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. Sæl er sú sem trúði því að rætast mundi það sem Drottinn lét segja henni.“ Og ég sá hvernig kviður frænku minnar hreyfðist til og frá, eins og barnið í lífi hennar dansaði af gleði. 

Sæl er sú sem trúði því að rætast mundi það sem Drottinn lét segja henni. Já, ég trúði því að allt myndi rætast og fagnaði litla lífinu sem óx innra með mér og nærðist af líkama mínum. Þegar ég fæddi hann svo var ég í nauð því stundin var komin en þegar ég hafði alið barnið minntist ég ekki framar þrauta minna af fögnuði yfir því að Guð og maður var í heiminn borinn. Já, allt var svo óvenjulegt en þvílík dásemd og dýrð, himnarnir opnuðust og englarnir sungu og fjárhirðarnir komu til að samfagna okkur Jósef. Og á áttunda degi fékk hann nafnið Jesús sem merkir Guð frelsar og ég var svo snortin af því að halda sjálfri nærveru Guðs í fanginu, lífinu sjálfu sem ég gaf líf og horfast í augu við Umhyggjuna holdi klædda.

Svo fékk ég að fylgja honum, alla leið að krossinum og það var sem sverð nísti sálu mína. En hann leit á mig með kærleika í augum sem fyrr og gaf mér besta vin sinn sem son og ég varð honum móðir og við fylgdumst að í gegn um gleði- og vonartíma upprisunnar og hingað erum við komin, í húsið okkar Jóhannesar í fjöllunum fyrir ofan Efesus sem fólk kallar hús Maríu. Hér erum við eftir að hafa borið fram nærveru Guðs og kærleika í öll þessi ár. Og ég er orðin eldri kona og horfi yfir líf mitt og gleðst yfir því að hafa fengið að vera með í verki Guðs. 

Kæru vinir mínir, eins og lindin sem streymir fram með lækningu frá Guði, eins og ég bar Líf Guðs inn í heiminn, gef ég ykkur áfram það sem ég hef þegið, umhyggju Guðs, kjark og dug til að vera heiminum ljós og líf í öllum aðstæðum.

Guð veri með ykkur, kæru vinir, góðar stundir úr húsi Maríu. 

Svo mörg voru orð Maríu guðsmóður og við dveljum áfram þarna við orkulindir umhyggju Guðs, kraftuppsprettur kærleikans, lífsins lind sem rennur til mín og þín og áfram út til alls sem lifir.