Sinnaskipti

Sinnaskipti

Óvinir Jesú töldu best að hann dæi. Þeir óttuðust áhrif hans og töldu stöðu sinni ógnað. Það er betra að fórna einum en eiga á hættu almenna upplausn. Í krísu þjóðar er hentugt að finna einn sökudólg, skella öllu á hann, láta hann taka á sig syndagjöldin.

Þessi vika byrjaði mjög vel hjá Jesú frá Nasaret. Hann kom til Jerúsalem og var hylltur af mannfjöldanum, greinilega vinsæll og almennt viðurkenndur. En þegar leið á vikuna breyttist myndin og undir vikulokin var hann tekinn af lífi. Mannfjöldinn, sem fagnaði Jesú á pálmasunnudag, snerist gegn honum nokkrum dögum síðar, hrópaði hann niður og krafðist þess að hann yrði líflátinn. Þetta er alvanalegt. Fólk skiptir fljótt um skoðun. Hentistefna og tækifærismennska eru jafnaldrar mannkynsins og lifa enn góðu lífi. Lærisveinarnir höfðu viljað vera sem næst Jesú og þráttað um hver þeirra ætti það helst skilið. Nokkrum dögum síðar flýðu þeir allir og jafnvel Pétur afneitaði Jesú, sagðist ekki þekkja hann. Það er sammannlegur veikleiki að fylkja sér um sigurvegarann en snúa óðara baki við þeim sem verður undir. Þannig er grímulaus tækifærismennska. Óvinir Jesú töldu best að hann dæi. Þeir óttuðust áhrif hans og töldu stöðu sinni ógnað. Það er betra að fórna einum en eiga á hættu almenna upplausn. Í krísu þjóðar er hentugt að finna einn sökudólg, skella öllu á hann, láta hann taka á sig syndagjöldin. Og öllum hinum líður svo miklu betur, er það ekki? Nei, mannfórnir leysa engan vanda. Þær eru ekki lykill að framtíðinni. Í sögu og samtíð eru þess mýmörg dæmi að ekkert breytist undir niðri þótt topparnir séu afhausaðir. Frá upphafi hrunsins var lögð áhersla á að koma þeim frá sem mesta ábyrgð þóttu bera. En þær afsagnir og uppsagnir voru fyrst og fremst til að friða lýðinn, báru meiri keim af ódýru lýðskrumi en raunverulegu réttlæti. Sama má segja um yfirlýsingar ráðamanna þegar bankastjórar föllnu bankanna voru handteknir og yfirheyrðir. Því hvað hefur í raun breyst til batnaðar í þjóðlífinu eftir hrun? Hvar er „nýja Ísland“? Hvað er nýtt annað en nöfn lykilfólks? Hvað með raunverulega breytingu, hugarfarsbreytingu? Það er til lítils að skipta um fólk í ábyrgðarstöðum ef hugsunarhátturinn er sá sami, ef klíkuskapur og kunningjatengsl eru áfram jafn áberandi og löngunin til að skara eld að eigin köku ræður enn för. Hugarfarsbreyting hefur áhrif á samskipti og samfélag í stóru og smáu. Hún er alltaf erfið því hún byrjar í eigin huga, mínum huga og þínum huga. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Viljum við í raun og veru afleggja tækifærismennskuna og endurnýja hugarfarið? Undanfarin ár hefur þjóðin staðið á öndinni af hneykslun og reiði yfir glannaskap útrásarvíkinga, sofandahætti eftirlitsstofnana og dugleysi stjórnmálamanna. Nema hvað? Vissulega er auðvelt að dæma helstu persónur hrunsins – en hvernig værum við sjálf í sömu sporum? Hefðum við kannski líka misnotað aðstöðu okkar? Sláum við nokkuð hendinni á móti því að fá forgang eða aukaafslátt? Þykir okkur nokkuð verra að vera hleypt framfyrir röðina eða njóta sérkjara? Þjóðfélagið mun ekki breytast til batnaðar fyrr en við horfumst öll í augu við eigin bresti og hættum að ríghalda í þá einfölduðu mynd að hrunið sé alfarið á ábyrgð fáeinna siðspilltra einstaklinga. Alltof mörg okkar líta með söknuði til áranna fyrir hrun, áranna þegar óraunhæf gengisskráning lét okkur líta út fyrir að vera svo miklu ríkari en við vorum í raun, áranna þegar við vorum hvött til að kaupa sem dýrast og skulda sem mest. Við tókum þeirri áskorun. Skuldir heimilanna margfölduðust í góðærinu. Sem einstaklingar, fjölskyldur og þjóð lifðum við um efni fram. Horfumst í augu við það og vinnum úr því. Þá fer landið að rísa, þá er von um bata, fyrst siðferðislegan, svo efnalegan. Það verður að byrja frá grunni. Meðan við bendum hvert á annað komumst við ekkert áleiðis heldur berumst með straumnum sem fylgir þeim er hæst láta hverju sinni. Þá erum við ekkert skárri en mannfjöldinn forðum á götum Jerúsalemborgar sem lét telja sér trú um að Jesús væri hættulegur uppreisnarmaður og vissara að koma honum fyrir kattarnef. Var ekki ótrúlegt að einhverjum skyldi finnast slíkt um Jesú? Í Jerúsalem fylgdu alltof margir straumnum. Straumurinn lá fyrst með Jesú, svo á móti honum. Hvað var fólkið að hugsa? Skorti það alfarið sjálfstæða og gagnrýna hugsun? Í góðærinu þótti skorta á slíkt og það hefur ekkert breyst. Núna er bara ný hjarðhegðun með nýjum umræðustjórum. Í dægurmálaumræðu samtímans eru alltof áberandi háværar raddir þeirra sem tjá sig óhikað um ýmis mál án þess að hafa til þess nægar forsendur og leiða jafnvel umræðuna af því að fjöldinn þegir. Í skólum, á vinnustöðum og víðar viðgengst einelti fárra af því að meirihlutinn leggur óbeint blessun sína yfir það með þögn og aðgerðarleysi. Það er auðveldast að láta berast með straumnum, miklu auðveldara en að berjast gegn honum. En Jesús hélt sínu, fylgdi ekki straumnum, fór ótroðnar slóðir. Sigurreið hans inn í Jerúsalem hefur sérstakan blæ af því að hann kemur á asna, ekki hesti. Hann er sannur sigurvegari en samt hógvær og lítillátur. Hann er vinsæll og dáður en líka öfundaður og hataður. Hlutleysi er aldrei valkostur þegar Jesús á í hlut. Grikkirnir í guðspjallinu voru forvitnir. Þá langaði til að sjá Jesú. Langar okkur til þess? Eða höfum við þegar gert okkur endanlega mynd af honum, mynd sem við viljum alls ekki láta hrófla við? Viljum við hafa allt slétt og fellt? Reynum við að forðast óþægilegu drættina, eins og þjáninguna? Sneiðum við hjá þeirri staðreynd að Jesús gat verið mjög ákveðinn og komið við kaunin á fólki? Sjálfur vissi hann að leið hans lægi gegnum smán til dýrðar, þjáningu til sælu, dauða til lífs. Hann líkir því við kornið sem er sáð í moldina og deyr til að gefa líf, er fórnað til að bera ávöxt. Fórn Krists er ein meginstoðin í kristinni trú. Án hennar gat hann aldrei orðið frelsari. Hann dó vegna synda okkar, í þágu okkar, í stað okkar. Hann dó dauða okkar og gefur okkur líf sitt. Leið okkar liggur oft gegnum þjáningu og böl. Flest eigum við okkar píslargöngu á einhverjum sviðum lífsins. Á þeirri göngu erum við hvorki ein né yfirgefin. Hið illa og neikvæða er staðreynd en það á aldrei síðasta orðið af því að Jesús er með okkur, alltaf. Frelsarinn ber með sér öryggi og frið. Hann getur umskapað og endurbætt hvaðeina sem fór aflaga. Og það vill hann einmitt gera. Í Fimmtu Mósebók standa orð sem eru eins og töluð beint til okkar: „Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum,…..inn í land þar sem þú þarft ekki að neyta matar í fátækt og þar sem þig mun ekkert skorta….. Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans….. Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur og hefur reist glæsileg hús og hefur komið þér fyrir og þegar…..allar eigur þínar margfaldast,  gæt þess þá að fyllast ekki ofmetnaði og gleyma Drottni, Guði þínum….. Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag…..“ (V.Mós. 8:7-18). Hér er vísað í sáttmála náðar og kærleika. Í skírninni gefur Guð okkur aðild að þeim sáttmála og í fermingunni er gildi hans staðfest. Núna standa fermingar yfir. Á fermingardegi hefur meginþorri þjóðarinnar játað því að vilja hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Hinn eini sanni Guð býður okkur áfram samfylgd, vernd og leiðsögn. Samtíð okkar eltir ýmsa aðra guði. Mammon og Bakkus eru ákaft dýrkaðir en þó allra mest Egóið, eigin persóna, sem kemur alltof oft í stað Guðs þannig að eigin hugsun verður upphaf og endir alls. Samt þurfum við öll á æðri mætti að halda þegar herðir að. Hvernig væri nú að endurnýja fermingarheitið, taka ígrundaða og meðvitaða afstöðu til Jesú, láta trúna verða rauðan þráð í lífinu? Grikkirnir voru reiðubúnir að athuga málið. Þeir vildu sjá Jesú. Kristin trú snýst einmitt um að sjá Jesú, sjá hann með augum trúarinnar, sjá hann sem son Guðs og frelsara okkar. Trúin felur líka í sér að sjá sjálfa(n) sig í ljósi Jesú, sjá sig með augum hans, sjá sig samtímis sem fallna, synduga manneskju og frelsað barn Guðs. En það er ekki allt: Kristin trú opnar einnig augu okkar fyrir umheiminum og öðru fólki, lætur okkur sjá það með augum Guðs og skynja að náungi okkar er sérhvert mannsins barn um gervalla jörð. Þá kemur okkur við óhugnaður eins og eiturlyfjasala, nauðganir og vændi og önnur kúgun þar sem öðrum er miskunnarlaust fórnað í eigin þágu hinna siðspilltu. Þá áttum við okkur líka á því að mannréttindi og reisn eru ekki eingöngu ætluð þessum þrjú hundruð þúsundum sem búa á íslandi heldur öllum sjö milljörðunum. Þá sjáum við einnig að Íslendingar hafa það almennt mjög gott miðað við aðra jarðarbúa. Það er hvorki sjálfsagt né eðlilegt og því fylgir mikil ábyrgð. Við eigum hvorki meðfæddan né áunninn rétt til forréttinda umfram systkini okkar í öðrum heimshlutum. Okkur ber að miðla til þeirra af þeim gæðum sem okkur hafa hlotnast. Það er í anda Jesú Krists. Hann er konungur sannleikans og kærleikans. Ríki hans er ekki veraldlegt heldur ítök í hugum og hjörtum fólks, áhrif á vilja og val okkar. Fulltrúar mannkynsins hylltu hann á pálmasunnudag. Sömu fulltrúar mannkyns kröfðust aftöku hans nokkrum dögum síðar en vissu þó ekki að fórn hans var nauðsynleg. Án hennar hefði hann ekki risið upp frá dauðum sem frelsari okkar. Aftaka Jesú hafði tilgang, öfugt við aðrar mannfórnir sem byggja á grimmd og hatri. Ekkert sprettur upp nema sjálft sáðkornið deyi. Upprisan var auðvitað ekki möguleg nema Jesús dæi fyrst. Það leit út sem ósigur en varð dýrsti sigur hans. Þjáning, höfnun og dauði Jesú er lykillinn að sigri hans sem okkur býðst hlutdeild í. Nú kemur hinn sigrandi en hógværi Jesús Kristur og kallar okkur öll til að fylgja sér, að kærleikur hans verði drifkraftur okkar, vilji hans leiðarljós okkar, fordæmi hans viðmið okkar. Þá getum við eignast rétt hugarfar til að byggja upp hið „nýja Ísland“, samfélag sem einkennist af réttlæti, miskunnsemi og heiðarleika. Sú uppbygging byrjar í hjörtum okkar, hvers um sig, þegar við tökum á móti Kristi inn í líf okkar, hjörtu og hugi.