Minningar, meðferð, mannorðsmissir

Minningar, meðferð, mannorðsmissir

Ellefu þjóðkirkjuprestar senda mér kveðju sína hér í Fréttablaðinu á laugardaginn. Eru þar á ferðinni kærir kollegar.
fullname - andlitsmynd Kristinn Jens Sigurþórsson
03. nóvember 2011

Ellefu þjóðkirkjuprestar senda mér kveðju sína hér í Fréttablaðinu á laugardaginn. Eru þar á ferðinni kærir kollegar. Finnst þeim miður hvernig ég í greininni “Bældar minningar á brauðfótum?” fjallaði um Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og bók hennar, “Ekki líta undan.” Gera þeir þrenns konar athugasemdir við skrif mín og kalla eftir veigamiklum ástæðum og gildum rökum fyrir þeim.

Eftir að hafa vitnað í grein mína segja ellefu-menningarnar, að sérhver sem geri upp minningar af kynferðisafbrotum og sifjaspelli upplifi mikla höfnun og sársauka þegar orð þeirra eru sögð marklaus og þau dregin í efa.

Nú er í sjálfu sér enginn ágreiningur á milli okkar prestanna um þetta, því vitaskuld þarf að mæta sérhverjum skjólstæðingi þar sem hann er staddur hverju sinni, og það verður ekki gert með því að gera lítið úr frásögnum, upplifun eða reynslu. Þá er sérlega mikilvægt á fyrstu stigum allra mála sem snúa að kynferðisofbeldi eða misnotkun, að þau komist í réttan farveg og fái faglega umfjöllun, og þá dugar auðvitað ekki að draga neitt í efa.

Hins vegar háttar þannig til í því tilfelli sem hér um ræðir, að viðkomandi hefur þegið sálfræðimeðferð í a.m.k. átta ár og einnig trúi ég að sálgæsla og stuðningur presta hafi mjög komið þar við sögu. Guðrún Ebba telur sig augljóslega það vel á veg komna í bataferli sínu og uppgjöri að hún kýs að koma fram fyrir alþjóð í sjónvarpi auk þess að opinbera einkamál sín í ævisögu. Með slíkri framgöngu má segja að málið hafi tekið nýja stefnu. Það er orðið opinbert og því ætti öllum að vera frjálst að fjalla um það á þeim sama vettvangi.

Í annan stað segja ellefu-menningarnir að skrif mín “nálgist atvinnuróg” og í því sambandi nefna þeir sérstaklega til sögunnar sálfræðinginn Ásu Guðmundsdóttur. Um hana segir Guðrún Ebba í bókinni, að ef hennar hefði ekki notið við væri hún ekki stödd þar sem hún er í dag og telur sig einstaklega lánsama að hafa kynnst sálfræðingi eins og Ásu. Jafnframt segist hún ennþá vera í reglulegum viðtölum hjá henni.

Í ljósi þessara staðhæfinga bókarinnar má gera sér í hugarlund að sálfræðingurinn Ása Guðmundsdóttir beri hér mikla ábyrgð; bæði á þeirri meðferð, sem Guðrún Ebba hefur fengið (og byggir að líkindum á hinni afar umdeildu hugmyndafræði bældu minninganna), sem og þeirri ákvörðun Guðrúnar Ebbu, að opinbera einkalíf sitt með þeim hætti sem hún hefur nú gert.

Hér vakna margar spurningar. Væri vissulega upplýsandi ef Ása Guðmundsdóttir sálfræðingur sæi sér fært að gera grein fyrir því hvað það er varðandi hinar endurheimtu minningar Guðrúnar Ebbu, sem í hennar huga sker úr um áreiðanleika þeirra og sannleiksgildi. Má t.d. nefna, að sérfræðingar telja meiri ástæðu til að efast um áreiðanleika bældra minninga, brjótist þær fram meðan á sálrænni meðferð stendur en þegar þær koma upp á yfirborðið án nokkurra tengsla við slíka meðferð. ( HYPERLINK "http://pps.sagepub.com/content/4/2/126.full" http://pps.sagepub.com/content/4/2/126.full) Þá er einnig afar sjaldgæft, ef ekki með öllu óþekkt, að áralöng misnotkun bælist svona gjörsamlega með þeim hætti sem Guðrún Ebba lýsir. Hér er því að ýmsu að hyggja, sem dregur verulega úr trúverðugleika minninga hennar.

Dr. Berglind Guðmundsdóttir, sálfræðingur, hefur fjallað opinberlega um mál Guðrúnar Ebbu og lagt áherslu á, að það sé ábyrgðarlaust að líta framhjá þeirri hættu, að um falskar minningar geti verið að ræða. Eins hefur hún undirstrikað að sérhvert mál þurfi að skoðast sérstaklega. Málflutningur hennar hefur hins vegar einnig verið á þá leið, að sumir hafa álitið hann vera allt að því staðfestingu á því að Guðrún Ebba hafi orðið fyrir kynferðismisnotkun í æsku. Væri ekki úr vegi að dr. Berglind talaði skýrar um þetta tiltekna mál og hvort hún telji unnt með óyggjandi hætti að skera úr um gildi umræddra minninga og þá hvernig.

Nú eru þessar spurningar og vangaveltur ekki settar fram til að vega að einum eða neinum, heldur til þess að þetta mjög svo margsnúna og erfiða mál megi skoðast betur og gera megi gleggri grein fyrir þeim grundvelli sem niðurstöður hvíla á.

Þá má ekki heldur gleymast, að “minningarnar” fela í sér alvarlegar ásakanir, sem varða mannorðsmissi látins einstaklings, sem ekki getur með nokkru móti borið hönd fyrir höfuð sér en neitaði ávallt sök á meðan hann lifði. Hvernig við tökum á þessu máli er því prófsteinn á vilja okkar til að umgangast þá grundvallarreglu réttarríkisins, að sérhver maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð.

Þriðja og síðasta athugasemd ellefu-menninganna lýtur svo að Þjóðkirkjunni og minnkandi trausti í hennar garð. Finnst þeim særandi að þjóðkirkjuprestur skuli draga reynslu Guðrúnar Ebbu í efa í blaðagrein þar sem kirkjan þurfi að endurvinna traust með faglegum vinnubrögðum og nærgætni við þolendur kynferðisofbeldis. Ellefu-menningunum finnst sem sagt að kirkjan eigi gagnrýnislaust að trúa Guðrúnu Ebbu svo að kirkjan megi aftur falla í kramið.

Í þessu sambandi er vert að benda á, að traust getur aldrei verið markmið í sjálfu sér, því þá er hættan ávallt sú að lýðskrum verði niðurstaðan, og ekki trúi ég að ellefu-menningar vilji gerast talsmenn þess. Kjarna málsins er samt að finna í ákalli þeirra um nærgætni og fagleg vinnubrögð, og eftir slíkum vinnubrögðum var ég einmitt að kalla í minni grein.

Guðrún Ebba leggur mikla áherslu á, að eina leiðin til bata sé að horfast í augu við sannleikann. Og þannig er nafnið á bókinni “Ekki líta undan” líka tilkomið. Hún vill ekki líta undan né heldur að aðrir geri það. Hún er m.ö.o. að hvetja til hugrekkis og vill fá fólk til að horfast í augu við vandamálin. Í samræmi við þetta vonast hún svo til að bókarskrifin eigi eftir að verða til góðs.

Það er engin ástæða til að efast um þau virðingarverðu markmið, sem Guðrún Ebba hefur sett sér með útgáfu bókarinnar. Aftur á móti þarf að horfast í augu við þau vandamál sem felast í frásögn hennar. Minningar hennar eru ekki venjulegar minningar og einmitt þess vegna er ástæða til að fjalla sérstaklega um þá hættu, að hér geti í raun verið um falskar minningar að ræða.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 3. nóvember 2011 undir yfirskriftinni “Minningar og meðferð” og var andsvar við grein 11 þjóðkirkjupresta sem birtist á þeim sama vettvangi 29. október. Grein prestanna má einnig finna hér: HYPERLINK "http://tru.is/pistlar/2011/10/um-falskar-minningar/" http://tru.is/pistlar/2011/10/um-falskar-minningar/