Hvenær ferðu í sumarfrí?

Hvenær ferðu í sumarfrí?

Það er mikilvægt að hafa vinnu og verkefni og njóta þess að vera skapandi og virkur í sínu lífi. Iðjuleysi birtist með ýmsum hætti og dregur úr okkur lífskraftinn. Því er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að vera skapandi í öllu því sem maður tekur sér fyrir hendur.

„Hvenær ferðu í sumarfrí?“ er algeng spurning þessa dagana. Nú er sá tími ársins runninn upp þar sem fólk telur dagana þar sumarleyfið byrjar og er svolítið þreytt á vinnunni sinni. Við erum gjörn á að kvarta reglulega undan vinnunni en hún er okkur engu að síður mikilvæg. Ekki bara vegna launanna til þess að sjá fyrir okkur heldur vegna þess sem hún gefur okkur að öðru leyti. Það er vont þegar vinnan er að sliga okkur og við sjáum ekki fram úr verkefnunum en enn verra ef við höfum ekkert að gera.

Hví hímið þér iðjulausir allan daginn er spurt í dæmisögu Jesú um verkamennina í víngarðinum. Spurningunni er beint til okkar og krefur okkur um svör.„Hvers vegna hímið þið iðjulaus þegar svo margt er hægt að gera?“ Lífið er áskorun og tækifærin eru allsstaðar. Það eru næg verkefni fyrir alla og engin ástæða til að gera ekki neitt. Í vinnunni eru margvísleg viðfangsefni, heima hjá okkur einnig og í félagslífinu líka.

Iðjuleysi felst ekki aðeins í því að sitja aðgerðarlaus. Það getur einnig verið fólgið í því að gera eitthvað en ætíð það sama svo einhæfnin ræður ríkjum. Verkefnin eru sem þrautir sem harka þarf af sér og engin gleði ríkjandi yfir vel unnu verki.

Það er ekki sjálfsagt að hafa verkefni og viðfangsefni til að takast á við. Við kunnum ekki alltaf að meta það. Á stundum verðum við samt óþyrmilega vör við hve slæmt er geta ekki unnið. Við missum kannski atvinnuna eða verðum veik og getum ekki sinnt henni um tíma. Þá finnum við hve vinnan er okkur mikilvæg og hve mikla gleði hún getur veitt okkur.

Iðjuleysi er slæmt. Þegar við gerum ekki neitt í langan tíma höfum of mikið ráðrúm til að hugsa og þá oftar á neikvæðu nótunum. Hugurinn fyllist af áhyggjum, óuppfylltum væntingum og óánægju yfir aðgerðarleysinu. Því minna sem við gerum því ver líður okkur og æ erfiðara verður að takast á við nokkurn skapaðan hlut. Í iðjuleysinu gleymum við mikilvægi starfanna og hve verkefni okkar og viðfangsefni eru í rauninni dýrmæt.

Hvernig sem iðjuleysinu er háttað hjá okkur þá er spurningunni beint til okkar. „Hvers vegna gerirðu ekki það sem þú getur?“ Við höfum ef til vill næg viðfangsefni en Guð spyr okkur um innihaldið í því sem við erum að gera.

Guð vill að við séum skapandi og virk í því sem við erum að fást við og leyfum gleðinni af því að vinna að streyma fram. Ef einhæfnin er mikil er nauðsynlegt að reyna að finna nýjar leiðir í því sem við erum að gera. Ef verkefnin eru fá þá er nauðsynlegt að finna sér ný.

Hvernig get ég verið virkari í mínu daglega lífi? Get ég lært eitthvað handverk eða farið á námskeið? Komið mér upp áhugamáli eða skrifað ævisöguna mína? Get ég rétt einhverjum hjálparhönd? Kirkjur og félagasamtök sækjast eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í starfi sínu og margir þurfa á hjálp að halda.

Lífið er áskorun og það er okkar að taka henni. Það er alltaf eitthvað að gerast og margt að taka þátt í. Við getum átt frumkvæði að einhverju nýju heima og heiman og gert eitthvað nýtt. Þökkum fyrir vinnu og verkefni og njótum þess að vera skapandi og virk.