Gegnsósa af Guði

Gegnsósa af Guði

Það getur verið skelfileg tilhugsun að eiga Guð sem þekkir mig algerlega, merg minn og bein, allt sem ég hugsa og allt sem ég geri. Þegar ég anda anda ég Guði að mér. Ég er gegnsósa af Guði eins og ungir rennblautir menn í Jórdaná forðum daga. Það getur verið skelfileg tilhugsun að eiga Guð sem þekkir mig algerlega, merg minn og bein, allt sem ég hugsa og allt sem ég geri. Þegar ég anda anda ég Guði að mér. Ég er gegnsósa af Guði eins og ungir rennblautir menn í Jórdaná forðum daga.
fullname - andlitsmynd Sigríður Guðmarsdóttir
03. febrúar 2008
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Andi Guðs sveif áður fyrr yfir vatna djúpi. Upp þá lukust ljóssins dyr, létti af myrkrahjúpi. Upp reis jörðin ung og ný, árdagsgeislum böðuð í, þá úr dimmu djúpi.

Andi Guðs sveif annað sinn yfir vatni köldu, þegar lét sig lausnarinn lauga í Jórdans öldu. Opnast himinn, eins og nýtt upp rann náðar ljósið blítt dauða' úr djúpi köldu.

Andinn svífur enn sem fyrr yfir vatni tæru, opnast himins dýrðardyr Drottins börnum kæru. Eftir skírnar blessað bað blómið upp vex nýdöggvað lífs í ljósi skæru.

Guðspjallssálmurinn okkar er að mínum dómi einn af bestu sálmum séra Valdimars Briem. Í þremur versum hefur skáldinu, eins og góðum ljósmyndara, tekist að smella af þremur stórbrotnum myndum, myndum af réttlæti Guðs. Séra Valdimar er viðbúinn með þessa ímynduðu myndavél við sköpun heimsins þegar jörðin er ekki lengur umflotin vatni og rennur upp úr dimmu djúpinu eins og barn af skauti móður. Skáldið hefur einnig tekið sér stöðu við ána Jórdan, daginn sem Jesús kom til Jóhannesar og bað hann að skíra sig. Mynd sálmsins er tekin þegar Jesús er orðinn gegnblautur í straumi árinnar, Jóhannes sleppir af honum tökunum og himnarnir opnast yfir höfði þeirra. Þriðja myndin sem skáldið hefur tekið til að gefa okkur í dag, er af okkur sjálfum sem litlum börnum í hvítum kjólum, börnum sem eru borin til skírnar og böðuð í skírnarskálinni. Eftir baðið, segir Valdimar, þá rennur lífsblómið okkar upp í ljósi náðarinnar. Prédikun dagsins fjallar um þessar þrjár ljósmyndir sem sálmurinn færir okkur í dag, ein er af sköpun heimsins, önnur af skírn Jesú og sú þriðja af skírninni okkar.

I. Hvað er það sem tengir saman þessar þrjár myndir af jörðinni, Jesú og okkur?

Í þeim öllum má sjá merki um vatn, djúpt vatn sem jörð og manneskja rísa upp af. Þar má einnig greina rödd Guðs sem lýsir velþóknun sinni og von til þess sem fæðist af djúpinu með orði sínu. Og loks er þar andi Guðs „sem lífgar og nærir.“ Vatn, orð og andi er það sem tengir sköpun og skírn í Jesú Kristi.

Í sköpunarsögunni heyrist sama stefið hvað eftir annað þegar Guð talar til þess sem Guð hefur skapað. Ekkert okkar veit nákvæmlega hvernig jörðin varð til, eða hversu langan tíma það tók. Það þarf ekki að vera að fyrsta mannfólkið á jörðinni hafi heitið Adam og Eva. Adam á hebresku merkir „maður“ og Eva merkir „líf.“ Við getum haft skoðanir á því hversu bókstaflega eigi að túlka sköpunarsöguna. Það sem kristin sköpunartrú leggur alla áherslu á, er að Guð skapaði jörðina og allt sem á henni er. Guð gladdist þegar jörðin varð til og sagði hana góða. Guð þekkti Jesú og gladdist þegar hann lét skírast í Jórdaná. Og það sem jafnvel ennþá merkilegra er að Guð þekkir allt það sem Guð hefur skapað, fjöllin og dalina, börn, blóm og fugla, engisprettur og kóngulær. Jesús sagði eitt sinn að Guð gæti talið á okkur höfuðhárin, svo vel þekkti Guð okkur. Guð umlykur okkur, smýgur inn í vitin, inn undir fötin og streymir um skinnið, rétt eins og áin umlukti Jesú, þennan dag þegar Jóhannes dýfði honum ofan í vatnið. Sköpun sem á allt undir Guði sínum er gegnsósa af Guði.

II. Eitt sinn kom ungur maður til Jóhannesar skírara og bað hann um að skíra sig iðrunarskírn. Jóhannes leit upp í undrun. Hann skildi ekki hvers vegna Jesús var að biðja hann um að skíra sig, hann sem stóð Jesú að baki á allan hátt. „Það ætti nú heldur að vera öfugt!“ gæti hann hafa sagt við Jesú. Þá segir Jesús þessi merkilegu orð: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“

Hvers konar réttlæti er það sem er fólgið í skírn Jesú? Hvers vegna er sá sem er syndlaus og góður að þiggja skírn af hendi þeirra sem eru ranglátir?  Er ekki réttlæti einmitt fólgið í því að þeir sem eru góðir eru verðlaunaðir og hinum ranglátu er refsað?

Tilhugsunin um Guð sem smýgur í gegnum merg og bein getur verið jafn skelfileg eins og vatnið verður þegar manni er haldið niðri í því of lengi. Ef réttlæti Guðs er jafn mikið eins og af er látið, hvernig getum við þá kafað svona djúpt og staðið Guði svona nærri?  Það er kannski ekki alltaf þægilegt að hafa Guð svona inni á gafli hjá sér, svona innilega nálægt sér. Hvern langar til þess að láta Guð sjá öll sín leyndarmál, allt það sem við leynum af sjálfum okkur fyrir öðrum og höldum fyrir okkur sjálf? Hvern langar til þess að minnstu leyndarmál, reiði, sorgir, spenningur, einkamál líkamans og sálarinnar skot séu þekkt af Guði sem er réttlátur? Stundum langar mig til að loka Guð úti, Að geyma þessa vitund og veru einhvers staðar langt, langt í burtu, uppi á himninum eða bak við lás og slá inni í kirkjunni, en ekki hjá mér og innan í mér innan um ógeðfelldar hugsanir og meinlegar gerðir. Það getur verið skelfileg tilhugsun að eiga Guð sem þekkir mig algerlega,merg minn og bein, allt sem ég hugsa og allt sem ég geri. Þegar ég anda anda ég Guði að mér. Ég er gegnsósa af Guði eins og ungir rennblautir menn við Jórdaná forðum daga.

Guð sem veit og þekkir mig veit um allt sem ég geri rangt. Guð veit um það sem ég hengi mig í, beittu orðin sem ég hefði betur látið ósögð, vínglasið sem ég hefði ekki átt að drekka, matinn sem ég þurfti ekki að troða í mig, ruslið sem ég fylli jörðina með, mínúturnar og dagana sem ég fer illa með, brosin sem ég brosti ekki fólkið og dýrin sem ég tók ekki eftir og hirti ekki um loforðin sem ég hélt ekki allt það sem ég hef notið og aldrei þakkað eða glaðst yfir. Guð þekkir manneskjuna sem ég vil ekki vera. Og stundum líkar mér illa við Guð fyrir að þekkja þessa manneskju.

Og þess vegna er það svo stórkostlegt að skírnin okkar og sköpun heimsins skuli vera settar í samhengi við skírn Jesú í sálmi séra Valdimars Briem. Ljósmyndirnar sem skáldið tók verða gagnsæar eins og gamaldags glærur Þar sem ein glæran er lögð yfir aðra og saman mynda þær heild Mína brotagjörnu heild Þína margbreytilegu heild Sögu lífs okkar í ljósi skírnarinnar og náðarinnar fyrir Jesú Krist. Guð skapar okkur öll í gleði og von náðarinnar.

Og samt sjáum við mörg merki þess sem er ekki réttlátt og gott, heldur öllu heldur ranglátt og ljótt. Þegar jörðin er svívirt og börnin gráta, Þegar fuglarnir syngja ekki lengur þegar vatnið er orðið þurrt og jurtirnar skrælna, þá grætur Guð yfir sköpun sinni. Guð grætur yfir öllu því sem hefur farið aflaga í samskiptum okkar á milli, yfir særðum hjörtum og brostnum vonum, yfir fjölskyldum sem ekki tala saman, yfir stríðshrjáðum þjóðum, yfir konum sem dvelja í athvarfi vegna þess að ástin þeirra beitir þær ofbeldi, fyrir einmana mönnum, yfir fátækum þjóðum sem taka við rusli og mengun hinna ríku þjóða, yfir ríkum þjóðum sem glata trúnni á skaparann í velmeguninni miðri.

Guð grætur þegar réttlætið er ekki virt og trúfestin er að engu höfð.

En Guð grætur ekki aðeins með sköpun sinni þegar réttlætið hverfur. Guð gerðist manneskja Til að frelsa heiminn og þau sem að búa í skugga dauðans og ranglæti spillts hugarfars. Og vegna þessarar manneskju sem hét Jesús og við játum sem Krist Þá hljómar rödd Guðs um velþóknun og blessun og náð alls staðar Þar sem fólk hefur eyru til að heyra.  „Þessi er minn sonur, sem ég hef velþóknun á.“ Rétt eins og Guð sagði forðum við Jórdan þegar himnarnir opnuðust Þá segir Guð við okkur, eitt og hvert, sem berum krossinn á enni okkar og brjósti, í öllum okkar veikleika, ranglæti og syndum, „Þú ert mín elskaða dóttir, sem ég hef velþóknun á.“ „Þú ert minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

Guði finnst ekkert allt gott sem við gerum. Guð getum haft megnustu vanþóknun á mörgu því sem við gerum. En Guð elskar okkur og vill kalla okkur til góðra verka, til trúar, til trausts og öryggis og til réttlætis. Okkur kann að virðast að við séum ekkert sérstakar manneskjur, eða miklar fyrir mann að sjá. Okkur kann að virðast að það sé fátt og lítið sem við getum gert. En við erum Guðs börn, þekkt af Guði, frelsuð af Jesú Kristi, skírð í vatni, orði og anda.

Um allt þetta fjallar skírnin. Og nú þegar fer að líða að fermingum, þá vona ég að fermingarbörnin sem í kirkjunni sitja hugsi um skírnarheitið sitt á þennan hátt. Það er aðeins einu sinni á ævinni sem þið vinnið þetta heit upphátt í kirkjunni. En þið eruð kölluð til að játa það alla daga með verkunum ykkar, með því að treysta Guði og leyfa ykkur að líta á ykkur sjálf eins og Guð lítur á ykkur, Guðs börn, sem Guð hefur velþóknun á. Skírnin er það að lifa í trausti og þakklæti til Guðs og fylgja Jesú í því sem hann gerði inn í réttlætið. Þetta heiti er raunar ekkert einkamál fermingarbarnanna, við sem fullorðin erum erum líka kölluð til þess að skilja ranglæti og ranghverfu okkar eftir við Jórdan og stíga upp úr vatninu sem Guðs útvalin og elskuð börn. Þar kallar Guð til okkar. Þar er Jesús Kristur skírður ásamt okkur. Og þar er andinn yfir sem skapar, frelsar og helgar eins og á fyrsta degi.

 

III. Samtal Jesú og Jóhannesar við Jórdan er aðeins til í Mattheusarguðspjalli. Í hinum samstofna guðspjöllunum skírir Jóhannes Jesú orðalaust. Hér erum við hins vegar dregin inn í athyglisverð skoðanaskipti um það hver eigi að skíra hvern. „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti,“ biður Jesús Jóhannes. Réttlætið sem Jesús bendir okkur á með skírn sinni kallar okkur inn í guðsríkið og eilífa lífið, þar sem menn uppskera ekki eins og þeir sá Og þar sem manneskjan fær ekki borgað fyrir allt sem hún hefur illt unnið, Þar sem Guð hefur velþóknun á börnunum sínum vegna þess að Guð elskar dóttur sína og soninn sinn og dó fyrir þau á krossi.

Og vegna þess að réttlæti Guðs er yfirsterkara okkar ranglæti Þá getur líka sr. Valdimar kveðið í sálminum góða:

Eftir skírnar blessað bað blómið upp vex nýdöggvað lífs í ljósi skæru.
Guð gefi okkur öllum og lífsblóminu okkar góðan vöxt og líf í ljósinu, fyrir vatn og orð og anda.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.