Áttu þér draum?

Áttu þér draum?

„Ég á mér engan draum“ var svar 17 ára Indverja sem hafði verið bundinn í þrælavinnu síðan hann var 10 ára. Þrælavinnan hafði algjörlega rænt hann voninni og neistanum. Viðtal við þennan dreng og fleiri börn má sjá í myndinni Upp úr öskustónni á YouTube.
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
24. ágúst 2013

„Ég á mér engan draum“ var svar 17 ára Indverja sem hafði verið bundinn í þrælavinnu síðan hann var 10 ára. Þrælavinnan hafði algjörlega rænt hann voninni og neistanum. Viðtal við þennan dreng og fleiri börn má sjá í myndinni Upp úr öskustónni á YouTube.

Hjálparstarf kirkjunnar vinnur í samstarfi við mannréttindasamtökin Social Action Movement (SAM) að því að leysa börn úr skuldaánauð. Sakir fátæktar og kúgunar setja foreldrar börn sín í vinnu gegn láni fyrir óvæntum útgjöldum og nauðþurftum. Að leysa barn úr skuldaánauð felur ekki bara í sér að greiða skuldina heldur veita foreldrum og börnum fræðslu um réttindi sín og langtíma stuðning. Foreldrar fá hjálp við að auka tekjur sínar svo þeir þurfi síður að taka lán. Hvert þrælabarn er búið undir almenna skólagöngu í sérstökum kvöldskólum. Þeim er svo komið í opinbera skóla og fylgt eftir þar svo þau heltist ekki úr námi. Allt verður þetta grundvöllur fyrir því að vonin og lífsneistinn kvikni aftur, já og bjartir draumar um framtíðina. „Ég ætla að verða læknir“ sagði ein stúlkan sem hafði verið leyst úr ánauð og byrjuð í skóla.

Í borginni Kanchipuram á Indlandi voru fyrir nokkrum árum 30.000 þrælabörn en nú hefur samkvæmt upplýsingum frá SAM þeim fækkað niður fyrir 10.000. Mörg samtök og einnig yfirvöld hafa lagt sitt af mörkum til að ná þessum árangri. En betur má ef duga skal.

„Hvað langar þig til að verða?“ spyrjum við oft börnin okkar og fáum fjölbreytt og skemmtileg svör. Við myndum hrökkva við ef við fengjum svarið „ég ætla ekki að verða neitt, ég á mér engan draum“. En þannig er staðan hjá allt of mörgum börnum.

Góð leið til að bæta ástandið er að gefa vinum og ættingjum gjafabréfið „Frelsa barn úr skuldaánauð“ á gjofsemgefur.is. Með því eru slegnar tvær flugur í einu höggi, vinurinn eða ættinginn fær persónulega kveðju með hamingjuóskum og SAM samtökin fá fjármagn til að leysa fleiri börn úr ánauð.