Kirkjan fræðir!

Kirkjan fræðir!

Hvaðan kemur orðanotkunin boðun, trúboð í skólum inn í umræðuna, hverjir nota það orðalag? Getur verið að það sé úr ranni þeirra sem tala um fermingu sem borgaralega?

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesús Kristi. Amen. Játningar Vissu þið að játningar Þjóðkirkjunnar eru fimm talsins? Fyrst að nefna er Postullega trúarjátningin sem oftast er farið með í messunni og við fórum með í sameiningu áðan. Önnur er síðan játning sem kennd er við kirkjuþingið í Nikeu frá 325. Hún er einnig notuð við helgihald og hægt er að finna hana í sálmabókinni, á bókarkápunni aftast. Sú þriðja heitir Aþanasíusarjátningin og er kennd við Aþanasíus biskup í Alexandríu sem uppi var á fjórðu öld. Þessar þrjár eigum við sameiginlegar með Rómversk kaþólsku kirkjunni og fleirum. Ágsborgarjátningin og Fræði Lúthers minni eru síðan sér lútherskar játningar frá 16. öld.

Síðustu tvær Fræðin minni (Catechismus minor; Der kleine Katechismus) eru lærdómskver handa almenningi. Erlenda orðið catechismus er af grísku sögninni katechizein, sem þýðir “að kenna". Eins og við þekkjum var allt helgihald fyrir siðbót á latínu sem almenningur skyldi ekki. Krafa Lúthers um siðbót snérist meðal annars um að allir ættu að fá tækifæri til að skilja, læra, fræðast og lesa í hinu helga orði. Öll stöndum við jú jöfn frammi fyrir Guði og getum átt persónulegt samfélag við Guð í bæninni. Hvaðan kemur sú hugmynd inn í umræðu dagsins í dag um kirkju og skóla að þar stundi kirkjan eitthvað annað en fræðslu og kennslu? Siðbótarmenn lögðu mikla áherslu á innihald fræðslunnar og var uppistaðan sömu atriði og voru í kverum miðaldanna. Um 1530 samdi Lúther ritin tvö, Fræðin minni og Fræðin meiri. Fræðin minni innihalda útskýringar og fræðslu á grundvallaratriðum trúarinnar, s.s. boðorðunum tíu, trúarjátningunni, faðir vorinu, skírninni, altarisgöngunni, bænum ofl. Þar er upptalningin svipuð og á námskrá fermingarstarfanna hjá okkur í dag. Yfirskrift þessa grundvallarrits Lútherskrar kirkju er sem sagt ,,fræðsla“. Eins er það í Ágsborgarjátningunni. Þar eru ríkjandi hugtök fræðsla og kennsla. Ágsborgarjátningin er kennd við borgina Ágsborg í Bæjaralandi, Bayern. Hún var saminn af Filippusi Melankton samstarfsmanni Marteins Lúthers. Játningin var lögð fram á ríkisþingi í Ágsborg sem málsvörn þeirra safnaða sem játast höfðu kröfum Lúthers um umbætur í kirkjumálum. Markmiðið með framlagningu hennar var að setja fram vitnisburð um sameiginlega trú kirkjunnar. Það er merkilegt að sjá að hugtakið sem aftur og aftur er notað í Ágsborgarjátningunni er ,,kennsla“. Þar er talað um kennslu á ýmsu. Grundvallarhugtökin hér sem og annars staðar í þessum játningum tveimur eru sem sagt ,,kennsla og fræðsla“. Boðun og kennsla/fræðsla Mikið hefur verið rætt um kirkju og skóla, trúboð og kennslu síðustu misserin. Ekki er ofsagt að segja að skólinn hafi staðið sig betur í mörgu öðru en kristinfræði- og trúarbragðafræðslu síðustu áratugi. Þar má sannarlega gera betur. En hver er munurinn á boðun og fræðslu? Það fer alveg eftir því hvernig við skilgreinum þessi hugtök. Margar skilgreiningar eru sjálfsagt til. Ein er eftirfarandi: Boðun er tiltal, fræðsla er samtal. Að boða eitthvað felur því í sér að sá sem boðar tekur sér stöðu yfir þeim sem hlustar og ætlast til þess að sá sem hlustar hlýði, taki við upplýsingunum þegjandi og hljóðalaust. Að fræða/kenna felur það í sér að fræðarinn og þeir sem þiggja fræðsluna eru á sama plani og skoðanir allra eru virtar. Virðing ríkir fyrir ólíkum skoðunum, enginn er ofar öðrum, þótt hlutverk geti verið misjöfn. Hvaðan kemur sú hugmynd inn í umræðuna á Íslandi að Þjóðkirkjan stundi eitthvað annað en fræðslu þegar starfsfólk kirkjunnar er fengið í heimsókn inn í skólastofnanir? Hvaðan kemur orðanotkunin boðun, trúboð í skólum inn í umræðuna, hverjir nota það orðalag? Getur verið að það sé úr ranni þeirra sem tala um fermingu sem borgaralega? Hvað er borgaraleg ferming annað en blekkingarleikur, skrumskæling, lygi, afbökun á þeirri grundvallartengingu sem er á milli skírnar og fermingar?

Íslensk Þjóðkirkja er stöðugt í samtali við þjóð sína og innan veggja skólans er kirkjan ávallt á forsendum skólans. Kristniboðadagurinn Í dag er kristniboðsdagurinn í kirkjum landsins. Það er því ekki úr vegi að ræða þennan grundvöll kirkjunnar, játningargrundvöllinn. En á þessum degi er starfi kristniboða lyft upp og minnt á það. Kristniboðar eru þeir sem starfa meðal framandi þjóða að boðunar- og líknarstarfi. Kristniboðar eru kennarar, læknar, hjúkrunarfræðingar, guðfræðingar o.s.frv. Áður en þeir halda til starfa læra þeir tungumál viðkomandi þjóðar eða þjóðarbrots. Einnig fræðast þeir um siði og menningu fólksins. Íslenskir kristniboðar hafa unnið gríðarlega mikilvægt starf víða um heim. Samband íslenskra kristniboðsfélaga er samstarfsaðili kirkjunnar. Sambandið er ekki starfrækt af kirkjunni sjálfri, það er sjálfstætt samband. Við tölum ekki um presta kirkjunnar hérlendis sem kristniboða. Hvers vegna ætli þeir sem gagnrýna skólayfirvöld fyrir að eiga í samstarfi við kirkjuna noti hugtakið ,,trúboð“ í sínum málflutningi, þegar kirkjan stundar ekki trúboð í skólum? Það er vegna þess að með því er verið að afvegaleiða umræðuna. Ákveðnir einstaklingar, ákveðin öfl og félög í samfélaginu vilja kirkjuna út, kristni út, hvarvetna sem hana er að finna. Með því að ætla prestum og starfsfólki kirkjunnar innrætingu og jafnvel ofbeldi fær málstaður þessara aðila byr. Sé grundvöllur kirkjunnar skoðaður, játningar hennar má glögglega sjá að kirkjan er samfélag fólks, þar sem enginn er öðrum æðri, þótt hlutverkin geti verið mismunandi. Þar eru fræðsla og kennsla grundvallarþættir. Trúfrelsi Rannsóknir á milli landa og menningarsamfélaga hafa sýnt að trúfrelsi er hvað mest virt og ríkjandi á norðurlöndunum, þar sem evangelískar lútherskar þjóðkirkjur hafa verið sterkar. Rannsóknir sem báru saman stöðuna í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Tyrklandi, ríkjum Suður Ameríku, norðurlöndunum og víðar gáfu þessa vísbendingu. Er það tilviljun? Nei, það er ekki tilviljun. Því virðing, umburðarlyndi, opinn faðmur og víðsýni eru innbyggð í játningargrundvöll evangelískrar lútherskrar kirkju. Íslensk þjóðkirkja sem byggir á játningunum fimm hefur það hlutverk að vera í samtali við þjóðina. Að þessu gefnu mætti spyrja, hver er grundvöllur annarra trúarbragða og lífsskoðunarfélaga? Hvaða afstöðu hafa þau til þeirra sem ekki tilheyra þeirra eigin hópi? Er það virðing, umburðarlyndi, víðsýni, opinn faðmur. Það er sjálfsagt býsna misjafnt. Stjórnarskrárákvæði Framundan er stjórnlagaþing. Í stjórnarskránni er ákvæði um að ríkisvaldið eigi að styðja hina evangelísk lúthersku Þjóðkirkju. Hvernig ætli verði tekið á þeirri grein á komandi stjórnlagaþingi?

Miðað við umræðuna í samfélaginu síðustu misseri er líklegt að fólk vilji sjá breytingar. Sumir eru róttækir og vilja þetta ákvæði út, sem væri glapræði fyrir íslenska þjóð.

En kannski þarf að breyta þessari grein í takt örar þjóðfélagsbreytingar. Önnur trúarbrögð þurfa hugsanlega að koma þarna við sögu. Það mætti orða slíka breytingu einhvern veginn á þessa leið: ,,Hin evangelisk lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda, sem og önnur trúfélög eftir nánara samkomulagi“.

Trúin og hinn kristni siður verður að vera rótfestur í stjórnarskránni en um leið verða aðrir hópar hugsanlega að fá nýtt rými. Trúin má ekki verða hornreka í nýrri stjórnarskrá, að þurrka hana út stuðlar að þöggun og fordómum. Textar dagins Dæmisaga Jesú um meyjarnar tíu er í raun nokkuð einföld saga en hún geymir mikilvæg skilaboð til okkar allra. Hún fjallar um viðbúnað, um það að vera vakandi til hinstu stundar. Sagan fjallar einnig um dóm. Öll þurfum við að koma fyrir dóm á efsta degi. Verðum við viðbúin þegar þar að kemur?

Þegar Jesús talar um hinstu tíma þá gerir hann það oft í tvennskonar tímaskilningi. Annars vegar talar hann um endalokin í óljósri framtíð og hins vegar hér og nú. Endalokin eru ekki bara við efsta dóm heldur eru endalok alltaf að gerast. Því má spyrja: Hvernig erum við á vegi stödd í dag og á hverjum tíma? Hvernig erum við búin undir hin daglegu endalok sem stöðugt eiga sér stað? Og svo einnig: Hvernig erum við undir það búin að mæta hinsta degi? Dæmisagan fjallar einnig um fyrirhyggju. Það að geyma ekki það mikilvægasta þar til of seint. Verja hverri stund sem hún væri hin síðasta.

Dæmisagan um meyjarnar tíu minnir okkur á að sumt er ekki hægt að fá að láni. Fávísu meyjarnar fengu ekki olíu að láni þegar þær uppgötvuðu þörf sína. Enginn fær að láni hjá öðrum samfélag við Guð. Hvert og eitt okkar verður að rækta samband sitt við Guð og viðhalda því eins og loga á lampa.

Sefanía Í lexíu dagsins úr spádómsriti Sefanía er sagt að Drottinn hafi „ógilt refsidóminn yfir þér“. Þessi orð rættust og rætast enn í Kristi Jesú. Hann er von okkar í hverjum aðstæðum lífsins, hvort sem um er að ræða veikindi, kreppu, vonbrigði, afleiðingar gleymsku, kæruleysis eða sofandaháttar. Við þurfum ekki að óttast að koma fyrir dómstól Krists. Guðspjöllin kenna okkur hver hann er, við þekkjum elsku hans og umhyggju, kærleiksverkin öll sem hann vann og vinnur enn og fórn á krossi fyrir syndugan heim. Hvatning Hebreabréfsins á því alltaf við. Verum því hughraust og upplitsdjörf. Gerum upp sekt okkar við Guð með játningu syndanna og bæn um iðrun og göngum héðan sýknuð af Kristi út í lífið til að leggja fólki lið með góðum verkum og kærleiksþeli. Kristur, brúðgumi kirkjunnar, kemur á efsta degi og heldur dóm. Hann kemur líka hvern dag á hverju andartaki. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.