Tekjustofn safnaðanna

Tekjustofn safnaðanna

fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
22. júní 2010

Sóknir landsins, sem eru um 270 talsins, eru félagslegar einingar sem safna saman fólki til uppbyggilegrar samveru sem skilar sér til samfélags okkar alls. Einu föstu tekjur sóknanna eru sóknargjöldin sem sóknarbörn, 16 ára og eldri, greiða til sóknar sinnar. Sóknargjöldin standa undir margvíslegri starfsemi. Nefna má barna- og æskulýðsstarf, félagsstarf aldraðra, þjónustu við einmana og fátæka, vitjun sjúkra, fræðslustarf, námskeið af ýmsum toga, fjölbreytt kórastarf og annað listastarf. Allt er þetta þjónusta sem hefur góð samfélagsleg áhrif. Sama á við um margskonar menningarstarfsemi aðra sem sóknirnar sinna, svo sem varðveisla friðaðra kirkjuhúsa sem eru um 200 og sem margar hverjar eru þjóðargersemar. Eins má nefna ferðaþjónustu á kirkjustöðum auk margvíslegrar fyrirgreiðslu sem veitt er án endurgjalds. Óhætt að fullyrða að kirkjustarf hafi almenna þýðingu í félags- og menningarlífi þjóðarinnar.

Sóknir og þar með önnur trúfélög hafa því orðið fyrir umtalsverðri skerðingu undanfarin ár eins og aðrir í þjóðfélaginu. Í niðurskurðartillögum ríkisins er þjóðkirkjan og sóknargjöldin flokkuð með stjórnsýslunni en ekki menningar eða velferðarmálum og taka því mun meiri skerðingu.

Sóknargjöld eru félagsgjöld

Þjóðkirkjan starfar á grundvelli laga og samninga við ríkisvaldið. Í samningi ríkis og kirkju frá 4. september 1998 segir m.a.: „Auk þess innheimtir ríkissjóður eins og verið hefur sóknar – og kirkjugarðsgjöld fyrir Þjóðkirkju Íslands og innir af hendi lögbundnar greiðslur í Kirkjumálasjóð, Jöfnunarsjóð sókna og Kirkjugarðasjóð”.

Um sóknargjöld gilda lög um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987. Þau eru byggð á 62. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins en þar segir í 1. mgr.: „Hin evangelísk lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda”. Samkvæmt þessu ákvæði stjórnarskrár er ljóst að ríkisvaldið vill standa vörð um þjóðkirkjuna og telur hana gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu.

Eins er ljóst að ríkisvaldið gengur út frá því að þjóðkirkjusóknir og trúfélög séu félög og þeir einstaklingar sem þeim tilheyra gjaldi til þeirra. Sóknargjöld hafa ætíð verið innheimt til allra skráðra trúfélaga og sókna þjóðkirkjunnar. Lengst af voru það sóknirnar og trúfélögin sjálf sem innheimtu gjaldið, síðan færðist innheimtan til sveitarfélaganna. Með tilkomu staðgreiðslunnar voru sett ný lög um sóknargjöld þannig að ríkið innheimtir gjaldið og skilar því til viðkomandi þjóðkirkjusókna og trúfélaga. Sóknir þjóðkirkjunnar misstu einnig rétt sinn til að jafna niður á sóknarbörn kostnaði við kirkjubyggingar. Í stað þess var Jöfnunarsjóður sókna settur á laggirnar. Framlag til sjóðsins er tengt fjárhæð sóknargjalda, þannig að ef þau lækka þá skerðast framlögin í sjóðinn að sama skapi.

Ríkið innheimtir sóknargjöldin fyrir sóknirnar og trúfélögin í landinu með sköttum. Þessi gjöld eru ekki framlög úr ríkissjóði, heldur félagsgjöld. Nú þegar hefur orðið veruleg skerðing á þessum félagsgjöldum. Verður ekki séð hvernig sóknirnar geti mætt frekari niðurskurði nema með uppsögnum á starfsfólki og skertri þjónustu við íbúana.

Jöfnunarsjóður sókna er í raun kirkjubyggingasjóður sem sóknir leita til þegar reistar eru kirkjur eða safnaðarheimili. Þannig hafa allar nýjar kirkjur sem reistar hafa verið að undanförnu verið fjármagnaðar annars vegar með sóknargjöldum og lánum og hins vegar framlagi úr Jöfnunarsjóði sókna. Sá sjóður hefur jafnframt gengist í ábyrgð fyrir lánum sem sóknirnar hafa tekið hafi verið leitað eftir því. Margar þessara sókna eru mjög skuldsettar og treysta á stuðning sjóðsins. Því er ekki að neita að sumar hverjar væru í raun komnar í þrot ef Jöfnunarsjóðs nyti ekki við. Sjóðurinn er því mjög viðkvæmur fyrir hvers kyns skerðingum. Eignarréttur

Framlög ríkissjóðs til þjóðkirkjunnar sérstaklega eru að lang mestu leyti laun presta og yfirstjórnar kirkjunnar. Er það framlag afgjald fyrir eignir sem afhentar voru með samningum og staðfest með lögum. Nú þegar hefur það afgjald verið skert umtalsvert og virðist ekkert lát á. Kirkjan hefur viljað koma til móts við ríkið í þessum efnum og hefur tekist á við skerðinguna með hagræðingu og niðurskurði. Embætti voru lögð niður svo sem þjónusta við Íslendinga erlendis og eins er prófastsdæmum fækkað um þrjú nú þegar og enn er stefnt að frekari fækkun prófastsdæma og prestsembætta. Slíkur samdráttur bitnar á þjónustunni og veldur auknu álagi á prestana sem er ærið fyrir á erfiðleikatímum. Því verður að halda til haga að í siðuðu samfélagi skulu samningar gilda og eignarétturinn vera virtur. Við göngum út frá því að svo verði og að tímabundnir erfiðleikar þjóðarinnar verði ekki til þess að grunnstoðir samfélagsins laskist varanlega.

Félagsauður

Núgildandi fyrirkomulag á innheimtu sóknargjaldanna er viðurkenning ríkisvaldsins á því að þjóðkirkjusöfnuðir og trúfélög sinni mikilvægri þjónustu við samfélagið og hafi skyldur gagnvart því og menningu landsins. Með lögunum um sóknargjöld var gengið út frá því að nú væri tryggt að sanngjörn viðmið væru fundin og að tekjustofn þjóðkirkjunnar og trúfélaganna væri tryggur.

Sóknargjöldin eru ekki framlög úr ríkissjóði, heldur greiðsla frá meðlimum þjóðkirkjunnar og meðlimum annarra trúfélaga í landinu. Sóknargjöldin standa undir rekstri og stofnkostnaði, sem og safnaðarstarfsemi þjóðkirkjusókna og annarra trúfélaga. Ljóst er að skerðing á sóknargjöldum umfram það sem þegar hefur verið gert verður til þess að sóknir verða að draga enn meir úr þjónustu og fækka starfsfólki. Það mun bitna á allri þjónustunni og ekki síst á því fjölþætta barna- og æskulýðsstarfi sem unnið er í kirkjum landsins og er mikilvægur stuðningur við foreldra og sem er eitt af mikilvægum forvarnastörfum sem unnin eru í samfélaginu. Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar og starf fyrir foreldra ungra barna hefur ævinlega verið án endurgjalds og opið öllum. Í skerðingum undarfarinna missera hefur sjálfboðastarf aukist verulega í söfnuðunum og margir komið til liðs við að halda uppi þjónustunni. Það skilar miklum arði til samfélagsins og er mikið þakkarefni. Eins er um það mikla hjálpar og líknarstarf sem söfnuðirnir sinna ekki síst gegnum Hjálparstarf kirkjunnar. Æskulýðsleiðtogar, starfsfólk í öldrunarstarfi, djáknar og prestar um land allt virkja fólk með sér til góðra verka. Allir landsmenn njóta með einum eða öðrum hætti góðs af því og þeim félagsauði sem þar er að finna og mun stuðla að uppbyggingu og eflingu hins góða samfélags á Íslandi.