Fyrsta sætið

Fyrsta sætið

Kannski höfðar ímynd Trumps, sem sigurvegari í samkeppni veraldlegra gæða, sterkar til okkar Vesturlandabúa en við viljum vera láta.
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
25. desember 2016
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þau voru sex ára gömul, börnin sem Fréttatíminn tók tali skömmu fyrir jól og spurði hvað þau vildu helst fá í skóinn. Ein stúlkan var ekkert að skafa utan af því, brosti blítt til lesenda og jólasveina og svaraði að óskagjöfin í skóinn væri IPhone, „til þess að hringja og fara í leiki“ eins og hún orðaði það sjálf.

Bragð er að þá barnið finnur. Brosbjarta litla stúlkan endurspeglar auðvitað bara það sem hún heyrir og sér hjá þeim sem eldri eru. Svarið hennar minnir á tvennt af því sem einkennir vestrænt samfélag í nútímanum og börnin litast snemma af, það er neyslu og svo samkeppni. Neysluhyggjan virðist vera aftur á fleygiferð hjá okkur Íslendingum þessi jólin eftir að hlutaveikin tók svolitla dýfu fyrst í stað eftir efnahagshrunið. Hún helst í hendur við sterka samkeppnishyggju. Hægt og hljótt er okkur snemma innrætt mikilvægi þess að standa okkur sem best í samanburði við aðra. Þá gildir einu hvort rætt er um að eignast flottasta snjallsímann eða aðra hluti, keppni í íþróttum, PISA-könnun skólakerfisins eða að sem flestir láti sér líka við nýju forsíðumyndina okkar á Facebook. Að verða undir í samkeppninni er streitu- og kvíðavaldur.

Í neyslu- og samkeppnissamfélaginu er líka stöðugt áreiti. Fáeinum dögum eftir brosbirtu þeirrar stuttu sem vildi Iphoninn, birtist önnur frétt á netmiðlunum, tengd snjallsímum, en miklu alvarlegri. Þar var sagt frá nýrri íslenskri rannsókn sem sýndi fram á að mikil notkun þessara síma geti haft slæm áhrif á tengslamyndun foreldra og ungra barna þeirra, því að stöðugt titra og pípa símarnir með nýjar tilkynningar og draga athygli okkar frá börnunum. Fyrr í haust höfðum við svo heyrt af fylgni milli aukins kvíða og vanlíðunar hjá unglingum og aukinnar notkunar þeirra á samfélagsmiðlunum.

Þegar áreitið er mikið á börn og fullorðna og samkeppnin hörð á ýmsum vígstöðvum, þá getur verið erfitt að finna frið og kyrrð í huga og hjarta. Sjálf hátíð ljóss og friðar getur orðið rótlaus ef friðarhöfðinginn sjálfur, Jesús Kristur, fær ekkert að koma þar við sögu.

Fyrirtæki sem fæst við greiðslumiðlun taldi sig reyndar geta leyst þetta með frið hugans ef marka má auglýsingu þess í sjónvarpinu, um hann Gunnar sem hafði víst fundið sína hugarró fyrir jólin. Og hvers vegna? Jú, hann þarf ekki að borga jólareikninginn sinn fyrr en í febrúar! Engum sögum fer hins vegar af því hvort fyrirtækið muni bjóða Gunnari upp á hugarró í febrúar! En það stakk að heyra svona orð notað í þessu samhengi.

Heimsbyggðin stóð enn fremur á öndinni fyrir nokkrum vikum þegar Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Í því sambandi vekur athygli að hann er einn af holdgervingum samkeppnis- og neyslugildanna í samtímanum. Hann hefur skapað þá ímynd af sjálfum sér að vera hörkutólið sem tók fram úr öðrum og komst þannig á toppinn í bygginga- og peningageiranum. Hann felur hvergi lúxuslíf sitt þar sem engu er til sparað. Ímynd hans felst m.a. í að vera sigurvegari í samkeppni veraldlegra gæða. Kannski höfðar sú ímynd sterkar til okkar Vesturlandabúa en við viljum vera láta.

Nú má ekki skilja þessi orð mín sem svo að hugtök á borð við samkeppni eða neyslu, eða afkvæmi þeirra eins og snjallsímarnir, séu neikvæðir í sjálfu sér. Það er alls ekki svo. Ekkert okkar myndi vilja skipta á þægindum neyslusamfélagsins og sjálfsþurftarbasli fyrri tíma. Hið sama gildir um þetta og svo ótalmargt annað í tilverunni: Við þurfum að finna jafnvægi.

Skaparinn gefur okkur frjálsan vilja í lífinu. Það þýðir að við berum ábyrgð á forgangsröðun okkar. Þegar talað er um neyslu- og samkeppnishyggju er átt við að þessi atriði, eða fylgifiskar þeirra, hrifsi fyrsta sætið í lífi okkar sem einstaklinga eða samfélags. En þar, í mótandi forystu, þar á Guð að fá að vera, hinn helgi lífsandi með kærleikann sinn sem vill knýja okkur til góðs.

Sem kristnar manneskjur þurfum við á fæðingarhátíð frelsarans, að horfast í augu við að þessi neyslu- og samkeppnishyggja sem við upplifum í nútímanum - og tökum trúlega öll þátt í, á einn eða annan hátt - er í skýrri andstöðu við boðskap og starf Jesú Krists.

Á jólunum erum við að fagna fæðingu þess sem sagði:

„Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu ... heldur [ ] á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“ (Matt. 6.19-20)

Og líka: „Elska skalt þú náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Lúk. 10.27)

Og: „Elskið óvini yðar og gjörið gott... Verið miskunnsöm“ (Lúk. 6.35,36)

Og meira að segja þetta: „Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn, sá er mestur í himnaríki“ (Matt. 18.4).

Þeir sem vilja sem minnst áhrif kristinnar trúar í þjóðlífinu geta e.t.v. glaðst yfir aukinni neyslu og harðnandi samkeppni í vestrænu samfélagi!

Með því að horfa gagnrýnum augum á okkar eigin samfélag erum við stöðugt minnt á hversu ófullkomið það er. Hér er vitaskuld ótalið, að sums staðar í heiminum mætum við hreinræktaðri og óskiljanlegri illsku þar sem voðaverk eru framin á saklausu fólki. En breyskleiki í ýmsum myndum blasir þó líka við þegar við horfum í eigin barm í okkar heimshluta.

En hér sjáum við líka ástæðuna fyrir jólunum: Heimurinn er ófullkominn og verður það í eigin mætti. Frjálsi viljinn getur leitt okkur til góðs, en líka til glötunar. Fullkominn heimur hefði ekki þurft nein jól, ekki þurft neitt Jesúbarn.

Heimurinn þarf á Kristi að halda. Samfélag sem knúið er áfram af áherslu á neyslu og samkeppni þarf á Kristi að halda.

Nokkur hundruð árum fyrir fæðingu hans, ritaði spámaðurinn Jesaja (9.6) um barnið sem ætti eftir að fæðast heiminum til góðs: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn... Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ Englarnir sem sungu fyrir hirðana á Betlehemsvöllum töluðu líka um „frið á jörðu“ í tengslum við fæðingu Jesú (Lk 2.14).

Friðurinn sem Kristur færir er vissulega kyrrð og ró innra með okkur í trausti til handleiðslu hans. Þar keppir greiðslumiðlunin, sem nefnd var áðan, á sömu miðum og Kristur! En þegar talað er um frið í Biblíunni er þó ekki síður átt við þjóðfélagslegt réttlæti með sérstakri áherslu á vernd til handa þeim sem lenda undir í samkeppni dagsins.

Hún Katrín Lóa var skírð hér áðan í hans nafni, vatni ausin og helguð með krossinum yfir höfuð og hjarta, tákn hugsana og tilfinninga. Við skulum líka helga okkur sjálf daglega og snúa okkur stöðugt til friðarhöfðingjans, Drottins Jesú Krists. Við skulum finna þar kyrrð andspænis friðleysi samtímans og leyfa trúnni á hann að knýja okkur áfram til góðs.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.