Brautryðjandinn

Brautryðjandinn

Brautryðjandinn, ævisaga Þórhalls Bjarnarsonar 1855-1916, er titill sem hæfir nýju og áhugaverðu ritverki eftir Óskar Guðmundsson. Séra Þórhallur var greinilega réttur maður á réttum stað á sviptingasömum tímum í íslensku þjóðlífi.
fullname - andlitsmynd Gunnar Kristjánsson
02. nóvember 2011

Ný bók eftir Óskar Guðmundsson rithöfund

Brautryðjandinn, ævisaga Þórhalls Bjarnarsonar 1855-1916, er titill sem hæfir nýju og áhugaverðu ritverki eftir Óskar Guðmundsson. Séra Þórhallur var greinilega réttur maður á réttum stað á sviptingasömum tímum í íslensku þjóðlífi. Hann var til forystu fallinn og tókst að sameina ólíkar fylkingar innan kirkjunnar og efla virðingu hennar með þjóðinni á umbrotatímum, þótt hann stæði oft í eldlínunni, síðustu átta árin í biskupsdómi, undir lokin við skerta heilsu.

Spor hins frjálslynda biskups liggja víða á einu mesta framfaraskeiði íslensku þjóðarinnar, árin fyrir og eftir aldamótin 1900. Hann var ekki aðeins biskup heldur einnig alþingismaður, bæjarfulltrúi og forstöðumaður Prestaskólans og lengi vel einn helsti leiðtogi bænda, heldur einnig kennari lengst af og skólamaður, ritstjóri og útgefandi og síðast en ekki síst mikill fjölskyldumaður.

Þórhallur Bjarnarson var tímamótamaður í sögu þjóðkirkjunnar þegar hann setti þjóðkirkjuhugsjónina á dagskrá á fyrstu prestastefnu sinni árið 1909. Sú hugsjón var þá valkostur andspænis óbreyttri ríkiskirkjunni sem fyrir var og fríkirkjuhugmyndum sem bárust hingað til lands frá vesturheimi.

Séra Þórhallur kom heim frá námi í Danmörku þar sem hann hafði kynnst róttækum hreyfingum á vettvangi stjórnmála, menningarumræðu og guðfræði og verið mótandi í vöskum hópi íslenskra stúdenta sem margir áttu eftir að setja svip á þjóðlíf og menningu næstu áratuga.

Brautryðjandinn er jafnframt spennandi ættarsaga sem minnir á Buddenbrooks eftir Thomas Mann og fleiri sambærilegar sögur. Sterkur þráður í verkinu er fjölskyldusagan, fyrst bernskuheimili séra Þórhalls í Laufási við Eyjafjörð. Síðar heimili þeirra biskupshjónanna, Þórhalls og Valgerðar Jónsóttur í Laufási í Reykjavík þar sem biskupinn gekk til bústarfa hvern dag líkt og bændur vítt og breitt um landið.

Frá sjónarmiði þeirra, sem láta sig landsmálasögu varða, er bókin mikilvægt innlegg. Sér í lagi hefur hún þó gildi fyrir kirkjusögu mikilla umbrotatíma um aldamótin 1900. Þráðurinn er rakinn allt frá tímamótalögunum um sóknarnefndir árið 1880 til lagabálka um skyld efni sem Alþingi fjallaði um upp úr aldamótunum. Þá varð afgerandi breyting á kirkjuskipaninni sem skilaði sér í kirkjulögunum árið 1907 og næstu ár. Eins og endranær var þar um málamiðlun að ræða um mörg meginatriði en engu að síður þokaðist í rétta átt. Allt byggðist þetta að meira eða minna leyti einnig á frjálslyndri guðfræði samtímans sem var að festa rætur hér á landi. Með hliðsjón af þeim örlagatímum, sem nú blasa við íslensku þjóðkirkjunni, er þessi bók grundvallarrit til þess að skilja þá kirkjuskipan og stjórnsýslu sem íslenska kirkjan býr enn að mörgu leyti við – þá var barist fyrir umbótum sem sáu fyrst dagsins ljós með þjóðkirkjulögunum 1997 og þá aðeins í formi málamiðlana. Þótt hugmyndafræði þjóðkirkjunnar sé ekki rakin að marki í bókinni – sú gróskumikla guðfræði aldamótanna sem skilaði sér í nýrri kirkjuskipan – er fengurinn ómetanlegur af umfjöllun höfundar um breytingar sem urðu á íslensku kirkjunni. Hér er sú saga rakin og þar með bætt úr brýnni þörf. Því er bókin góð uppbót á ritverkið Kristni á Íslandi sem kom út árið 2000.

Höfundur verksins, Óskar Guðmundsson, hafði úr drjúgum frumheimildum að moða. Séra Þórhallur stóð í sífelldum bréfaskiptum, þar eru ekki aðeins fjölskyldubréfin heldur einnig aragrúi bréfa vegna aðkomu hans að hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins, ýmist sem biskup, alþingismaður, búnaðarfrömuður eða ritstjóri. Að ógleymdum greinum og ritgerðum sem opna glöggum höfundi dyr inn í flókinn heim sterkra hugsjóna og örra breytinga.

Frumkvæði að ritun verksins átti séra Halldór Gunnarsson, sóknarprestur emeritus í Holti, en séra Þórhallur var langafi hans. Séra Halldór lét sér annt um framvindu verksins alveg frá upphafi. Afkomendur og ættingjar Þórhalls biskups sýndu verkinu mikinn áhuga eins og augljóst var þegar bókin var kynnt sunnudaginn 23. okt. í Grensáskirkju.

Bókin er hátt á sjötta hundrað síður að lengd með ítarlegum skrám, prýdd gömlum myndum, gefin út af Skálholtsútgáfunni. Óskar Guðmundsson á þakkir skildar, hér gildir það sem á við um góðar bækur: mikil og áhugaverð saga, vel sögð.