Treystið Guði

Treystið Guði

Páll hvatti menn til að treysta Guði algerlega. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði, með bæn og beiðni og þakkargjörð… Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum, sagði Jesús. Treystið Guði og hann mun vel fyrir sjá.

Slm 119.65-72, Kól 3.8-11 og Jóh 15.18-25

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Í fyrri ritningarlestrinum segir sálmaskáldið að honum þurfti að verða á í lífinu áður en hann treysti Drottni. Hann sagði: Áður en ég varð auðmjúkur, villtist ég en nú varðveiti ég orð þitt. Okkur verður öllum eitthvað á í lífinu en spurningin er hvernig við náum að vinna úr áfallinu…

Hann er ekki sá eini sem hefur orðið var við smægð sína og vanmátt þegar lífið barði dyra. Þegar hann uppgötvaði í hinum dimma dal hvað það er dýrmætt að eiga Guð að og geta treyst Guði fyrir öllu sínu, geta lagt allt í hans hendur, og sálmaskáldið biður Guð um að veita sér dómgreind og þekkingu því að núna treysti hann boðum Guðs. Ég hef yndi af lögmáli þínu segir hann… það er mér mætara en þúsundir skildinga úr silfri og gulli

Á meðan að sumir sjá það sem kvöð, höft eða veikleika að fylgja Guði, finna aðrir til léttis, að geta lagt allt sitt traust á Guð. Við erum eins og börnin og þeim líður best þegar þau vita hvað má og hvað má ekki. Jesús sagði: ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið… sannleikurinn gerir okkur frjáls… í orðsins fyllstu merkingu…  Um leið og við tökum þá ákvörðun að við höfum ekkert að fela, þá verðum við frjáls. Hvort sem við erum að tala um trúmál eða það sem við köllum ,,vankanta” okkar, veikleika eða líðan, þá verðum við frjáls þegar við viðurkennum eða opinberum þá fyrir öðrum. þá þurfum ekki að burðast með þetta lengur ein og í gegnum sannleikann fáum stuðning…

Páll postuli sagði í Kólossubréfinu að í frelsi trúarinnar yrðum við nýjir einstaklingar.  þið hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja. Jesús hafði þetta einfaldara er hann sagði: takið sinnaskiptum. Hann er að tala um átrúnað okkar og með breyttu trúarviðhorfi breytist allt annað af sjálfu sér, því fólk segir að trúin hafi breytt þeim, og hefur síðan haft áhrif á líf þeirra beint og óbeint. Margir segjast hafa meiri ró í hjarta, hafa innri frið, hafa meiri samúð með öðrum, eiga auðveldara með að samgleðjast öðrum og sé almennt þakklátara fyrir það sem lífið gefur. Þetta er vellíðan sem Guð gefur okkur í gegnum trúna og traustið á hann og í öllu okkar góðæri og velsæld, gilda enn í dag hin mörg þúsund ára orð sálmaskáldsins. að það sé dýr-mætara en þúsundir skildinga úr silfri og gulli 

Þó lífið sé auðveldara og áhyggjulausara þegar við erum fjárhagslega örugg… vitum við öll að við kaupum ekki hamingjuna. Hún þarf að verða til innra með okkur, þ.e.a.s. koma frá hjartanu, hamingjan fyllir hjörtun þegar við erum sátt við lífið og tilveruna, Guð og menn.

Guð skapaði okkur í sinni mynd, þ.e. við erum eins uppbyggð en ólíkir þættir hafa áhrif á okkur í umhverfi og uppeldi. Við sjáum heiminn í ólíku ljósi, höfum ólíkar væntingar og bregðumst ólíkt við mótlæti.

Páll postuli fékk sinn skerf af mótlæti… hann skrifar til Korintumanna um hrakfarir sem hann hafði lent í um ævina. Hann hafi verið fangelsaður, húðstrýktur, 5x refsað með 39 höggum, komist í hann krappann á ferðalögum, í ám, í óbyggðum og á sjó, lent í höndum ræningja, stritað og erfiðað, verið svangur og svefnlaus, kaldur og klæðlaus.[1]
Eins og guðspjallið sagði, þá fylgdu því engin forréttindi að prédika Guðs Ríki og hið vonda í þessum heimi nær oft yfirhöndinni. 
Þrátt fyrir þessar raunir skrifaði hann til Filippímanna: Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.  Og hann hvetur okkur til að ljúflyndi okkar verði kunnugt öllum mönnum, því Drottinn er í nánd… 

Og Páll hvatti menn til að treysta Guði algerlega. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði, með bæn og beiðni og þakkargjörð… Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum, sagði Jesús.[2] Treystið Guði og hann mun vel fyrir sjá.

Það er svo margt í þessum heimi sem við höfum enga stjórn á.  Þegar covid kom upp, urðum við áþreifanlega vör við hvað vist-og lífkerfi jarðarinnar er viðkvæmt, að áætlanir geta breyst eins og hendi væri veifað og hvað það er nauðsynlegt að við stöndum saman. Í þessu ástandi misstu margir ástvini og aðrir upplifðu einsemd og ótta.  Það er ekki bara líkaminn sem hefur takmarkað þol, sálin er líka viðkvæm og það er sálin sem hefur áhyggjur af morgundeginum, það er sálin sem er einmana, sem kvíðir eða óttast.

Og það er hægt að upplifa raunir Páls og áföll, þ.e. skipbrotin, fangelsið, húðstrýkinguna, svipuhöggin og háskana, á andlegan hátt. Sálin, eins og líkaminn – hefur ákveðin þolmörk og brotnar fyrr ef við berjumst ein, höfum því Guð með okkur…    

Við erum musteri heilags anda[3]Maðurinn var mótaður af leiri jarðar og Guð blés í hann lífsanda svo hann varð lifandi vera[4]. Hugsið um það, ef það koma erfiðir tímar, að gefa Anda Guðs sem er þegar  innra með ykkur, tíma og rúm til að lækna og hressa sálina. Munið orð Páls: verið glöð í Drottni og orð Jesú: Biðjið og yður mun gefast…

Bænin Faðir vor er þekktasta og mest beðna bæn í heiminum. Jesús kenndi lærisveinum sínum þessa bæn. Hún inniheldur bæn og beiðni fyrir allt sem við þörfnumst. Mér finnst það alltaf jafn magnað að heyra þegar kirkjugestir taka undir… þegar öll kirkjan fer með þessa bæn saman.

Fyrir rúmum 5 árum (ég hef ekki nýrri tölur) var búið að þýða Biblíuna í heild.. á um 3 þús tungumál  og valda hluta hennar á enn fleiri svo að bænin Faðir vor er flutt í öllum kristnum kirkjum jarðarinnar, oft í viku af mörgum milljónum manna og bænin virkar jafnvel fyrir alla. Páll postuli sagði að þegar við höfum lært að treysta Guði fyrir öllu okkar, þá muni friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveita hjörtu okkar og hugsanir okkar í Kristi Jesú.[5]  Með frið Guðs í hjartanu kemur lækning fyrir líkama og sál, svo notum bænina óspart. Munum, að Guð er bara eina bæn í burtu, og munið, að við þurfum að biðja, til að verða bænheyrð.

 Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen[1] Kor 11:23-27 [2] Matt 6:34 [3] 1.Kor 6:19 [4] 1.Mós 2:7 [5] Fil 4:4-7