Trú og fræðsla: Con Dios

Trú og fræðsla: Con Dios

Fræðslan kemur sem ljúfur þytur nú síðsumars. Skólar hefjast senn og fólk streymir inn í menntastofnanir og sækir fjölda námskeiða. Mennta- og þekkingarþorsta má lesa úr svip þess.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
23. ágúst 2013

Fræðslan kemur sem ljúfur þytur nú síðsumars. Skólar hefjast senn og fólk streymir inn í menntastofnanir og sækir fjölda námskeiða. Mennta- og þekkingarþorsta má lesa úr svip þess. Um leið og laufblöðin fjúka út í veður og vind verður þráin eftir haldbærri þekkingu sterkari – varla mun hún fjúka út í veður og vind – eða hvað? Jú, hún getur fokið ef menn bæta ekki við hana og efla. Rækta hana eins og garðinn sinn. Vor, sumar, vetur og haust. Símenntun.

Fermingarfræðslan hefst senn í flestum söfnuðum. Söfnuðir og prestar vita að á þeim hvílir mikil ábyrgð gagnvart fermingarbörnunum. Góð fræðsla um kristna trú er þar efst á blaði ásamt því að bindast þeim vináttuböndum. Vel frædd fermingarbörn og kirkjuvön eru mikilvægur hlekkur í framtíð kirkjunnar. Þau fylla okkur öll bjartsýni með spurningum sínum og gáska. Kirkjan verður að mæta þeim með virðingu og bros á vör. Hvað ætlar hún að segja þeim í fræðslunni? Hvernig ætlar hún að bera sig að? Hvaða veganesti gefur hún þeim út í lífið? Það eru margar leiðir til að taka á móti þeim. Hver söfnuður velur sína leið en ætíð verður að hafa velferð fermingarbarnsins sem kristins einstaklings í fyrirrúmi. Efla trú þeirra og virkni, segja þeim frá meistaranum frá Nasaret, og vekja með þeim kærleika til náungans og þeirra er minna mega sín.

Ætíð verður að hafa augun opin fyrir nýju og góðu fermingarfræðsluefni og hvernig megi bæta það sem fyrir er til. Gott fermingarfræðsluefni getur fylgt fermingarbarninu ævina út eins og slæmt efni getur reynst sumum sem kökkur í hálsi. Fermingarbörnin eiga aðeins skilið vandað fræðsluefni og skilmerkilegt sem höfðar til þeirra með markvissum hætti. Þess vegna hefur Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar í samstarfi við fræðslusvið Biskupsstofu, gefið út nýtt fermingarnámsefni, Con Dios. Það er nútímalegt í allri framsetningu en gleymir þó ekki hefðinni. Í nýja fermingarnámsefninu er leitast við að skoða margt í kristinni trú og hversdagslegu lífi út frá sjónarhorni fermingarbarnsins. Bókin Con Dios er nútímaleg og ríkulega myndskreytt og í henni er tekið á kjarnaatriðum kristinnar trúar. Samhliða útgáfu bókarinnar eru gefnar út mjög svo gagnlegar kennsluleiðbeiningar og í þeim fá finna fjölmörg verkefni. Þá voru gerðar tíu íslenskar stuttmyndir þar sem nokkrum Biblíusögum eru gerð skil með listrænum og líflegum hætti. Stuttmyndirnar geta vakið fermingarbörnin og fermingarfræðarana til umhugsunar og eru tilvalin sem kveikja að umræðum.

Con Dios fermingarnámsefnið hefur reynst vel í Svíþjóð og Danmörku. Spennandi verður að sjá hvernig það mun reynast hér. Óskandi er að það verði notað af sem flestum söfnuðum.

Enginn efast um mikilvægi fræðslu í safnaðarstarfi sem á rætur sínar í skírnarfræðslunni. Fræðslu um kristna trú og samspil hennar við líf líðandi stundar. Þar geta allir notið sín því flestir hafa frá einhverju að segja og hafa skoðanir. Umræða er mikilvæg sem og heiðarleg skoðanaskipti ásamt dirfskunni til að skipta um skoðun í ljósi hins fornkveðna að vitur maður hefur ekki óbifanlegar skoðanir. Virða skoðanir annarra og leggja sig fram um að skilja að aðra. Auka þroska sinn – og annarra. Hver getur ekki bætt við sig nokkrum aukakílóum af þroska? Og hvar eru þær andlegu líkamsræktarstöðvar sem aðstoða okkur við þá góðu iðju? Þær eru m.a. í kirkjunum og safnaðarheimilunum. Og þangað koma fermingarbörnin til að sækja uppfræðslu og samfélag. Þennan tíma með þeim er skylt að nýta af kostgæfni og fagmennsku; bjóða þeim aðeins upp á þá bestu fermingarfræðslu sem möguleg er hverju sinni. Það verður þeim til heilla á lífsleiðinni sem og söfnuðunum.

Safnaðarstarf er víða blómlegt svo sómi er af. En alltaf má gróðursetja meira, hlúa að og prýða.

Kristin trú flytur ákveðna sögu. Eins og í öllum góðum sögum er þar að finna söguþráð sem menn verða að setja sig inn í. Þetta er merkilegur söguþráður sem fléttar samskipti milli fólks, rekur sögu Guðs í heiminum og samskipti hans við mennina. Söguþráður þar sem forn hugsun lætur til sín taka og bankar upp á í nútímanum. Við tökum þátt í þessari sögu sem kristið fólk og hún mótar okkur hvert og eitt á sinn hátt. Þessi saga hefur alltaf verið túlkuð á öllum öldum með einhverjum hætti og þar mega nútímamenn ekki vera eftirbátar annarra. Í fræðslustarfi safnaðanna er reynt að koma til móts við nútímafólk svo það getið notið ávaxta kristinnar trúar.

Skálholtsútgáfan er útgáfufélag þjóðkirkjunnar. Hún hefur á umliðnum áratugum gefið út fjöldann allan af bókum og hvers kyns fræðsluefni um trú og kirkju. Söfnuðir hafa getað gengið að því vísu að efnið sé vandað og uppbyggilegt og ekki orðið fyrir vonbrigðum. Þeir hafa notað efnið í fræðslu sinni og það hefur fallið í góðan jarðveg. Auðvitað má alltaf gera betur og tekur Skálholtsútgáfan á móti öllum góðum ábendingum þar um. Söfnuðir og prestar eru hvattir til að kynna sér nýtt efni og nota það eftir efnum og ástæðum. Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, getur orðið enn öflugri með því að söfnuðir noti það efni sem hún gefur út. Gleymum því ekki. Heimasíða Skálholtsútgáfunnar – útgáfufélags þjóðkirkjunnar, er: http://skalholtsutgafan.is/

Og að sjálfsögðu eru allir velkomnir í verslunina Kirkjuhúsið við Laugaveg 31, Reykjavík. Í versluninni má finna nær allt það efni sem Skálholtsútgáfan –útgáfufélag þjóðkirkjunnar hefur gefið út. Þar er einnig hægt að fá ýmsa muni er tengjast kristni og trúarlífi. Öllum er tekið fagnandi!