Ræktum vináttuna

Ræktum vináttuna

Guðspjall: Matt. 20. 1-16 Lexia: Jer. 9. 23-24 Pistill: 1. Kor. 9. 24-27

Guðspjall þessa Drottins dags fjallar um samband einstaklinga, lög og reglur, réttlæti og óréttlæti, umbun og sektir, rétt og rangt.

Jesús segir sögu af samskiptum landeiganda og verkamanna sem störfuðu fyrir hann. Suma réð hann í dögun, aðra kl. 9 að morgni, enn aðra réð hann í hádeginu og nokkrir voru ráðnir kl. 4 síðdegis. Jesús segir að landeigandinn hafi borgað þeim öllum sömu laun í lok vinnudags. Auðvitað mótmæltu þeir sem voru ráðnir fyrst. Þeim fannst þetta mjög óréttlátt. Þeir höfðu unnið tíu sinnum lengur en þeir sem ráðnir voru síðast.

Samkvæmt okkar venju og skilningi þá finnst okkur að réttlætið hafi farið fyrir lítið. En er það rétt þegar grannt er skoðað? Það var rétt af landeigandanum að greiða öllum sömu laun vegna þess að hann kom ekki fram við verkamennina sem þjóna sína, né heldur systur eða bræður. Landeigandinn ávarpaði verkamennina með öðrum hætti. Hann kallaði þá vini sína.

Við köllum stundum hvort annað bróður eða systur í trúnni á Jesú Krist. Sagði Jesus okkur ekki að við ættum öll einn föður, föður okkar á himnum? Erum við ekki öll mynduð af sömu móður, móður jörð? Erum við ekki öll afkomendur sömu forfeðra, Adams og Evu? Þrátt fyrir þetta kallar Jesús okkur sjaldan bræður eða systur, kannski einu sinni, ef til vill tvisvar. Hins vegar kallar hann okkur mjög oft vini sína.

Við getum átt bróður án þess að eiga vináttu hans. Við getum átt systur án þess að eiga vináttu hennar. Blóðtengsl eru engin trygging fyrir kærleika og virðingu. Biblían er full af þess háttar samböndum: Abel og Kain, Ísak og Ismael, Jakob og Esáu, Jósef og bræður hans.

Þess vegna er ekkert skrítið þótt lærisveinninn Pétur spyrji Jesú einu sinni. “Hversu oft á ég að fyrirgefa bróður mínum?”

Jesús kallar okkur vini sína. Auðvitað er hann bróðir okkar en er ekki gott að eiga bróður eða systur einnig að vini? Samband sem byggir á vináttu breytir öllu Þetta er m.a. undirstrikað í guðspjalli dagsins þar sem fjallað er um verkamennina í víngarði Drottins.

Við íslendingar eigum fallegan sálm sem við þekkjum vel sem hefst á þessum orðum:”Ó þá náð að eiga Jesú / einkavin í hverri þraut / ó þá heill að halla mega höfði sínu í Drottins skaut” Í þessum sálmi er einmitt lögð áhersla á það hvað það er dýrmætt að eiga Jesú að einkavini sem ætíð er unnt að snúa sér til jafnt á gleði sem sorgarstundum.

Jesús sýnir með þessari dæmisögu sinni um húsbóndann og verkamennina að Guð er miskunnsamur og réttlátur og auðsýnir m.a. réttlæti sitt með því að koma jafnt fram við alla. Sagan á að minna okkur á miskunn Guðs. Víst fór húsbóndinn undarlega að. Í nútímanum hefði hann líkast til ekki verið álitinn séður atvinnurekandi því það eru lítil hyggindi að ráða nýja starfsmenn undir lok vinnudagsins og borga þeim síðan saman kaup og öllum hinum. Eða var það ef til vill einmitt viska þess sem átti fyrirtækið til þess að tryggja sér starfsmenn og geta haldið þeim? Alla vega var við þeim tekið og þeim fengið verk að vinna sína stuttu stund. Ekkert spurt um hvað hver átti skilið. Og þessu líkt er himnaríki, segir Jesús. Í Guðs ríki erum við ávallt velkomin.

Hér er himneskt að vera segjum við stundum þegar okkur líður vel í góðra vina hópi eða úti í náttúrunni sem heillar okkur þegar við stöldrum við á vegferð okkar að sumarlagi eða að vetri.

Einu sinni var lítil stúlka spurð að því hvaða tungumál væri talað í himnaríki. Hún sagði umsvifalaust að það væri himneska. Við brosum að þessu svari. Í fari barnanna má greina það ástand sem einkennir himnaríki. Þar ríkir fegurðin og birtan, miskunnsemin, góðvildin og umhyggjan.

Þegar Jesús var spurður að því hvar Guðs ríki væri þá svaraði hann því til að það væri innra með okkur. Og Kristur er stöðugt að banka á hjartadyr okkar í því skyni að kalla okkur til starfa í því hjartnanna samfélagi sem við lifum og hrærumst í þar sem að sönnu er full þörf á kærleiksþjónustu, ekki síst í garð sjúkra og aldraðra. Við sem fullorðin eru höfum ýmsar afsakanir á reiðum höndum. Það er svo mikið að gera hjá okkur að við höfum ekki tíma til að gefa andlegum málefnum gaum sem skyldi. Vinnan og fjölskyldan og áhugamálin taka tíma okkar allan. Sem börn vorum við hins vegar móttækilegri fyrir fagnaðarerindinu. Þá höfðum við enga fyrirvara og opnuðum hjartadyr okkar upp á gátt þegar foreldrar okkar kenndu okkur bænirnar og ólu okkur upp í Guðs ótta og góðum siðum. Þá var okkur kennt að bera virðingu fyrir náunganum og auðsýna honum tillitssemi og hlýhug.

Alltaf er full þörf á verkamönnum í víngarði Drottins sem er þar sem við lifum og störfum hverju sinni. Mér finnst að það mætti ýta meira undir sjálfboðaliðastarf í íslensku þjóðfélagi. Rauði krossinn hefur sýnt gott fordæmi að þessu leyti og skipulagt heimsóknarþjónustu til aldraðra og sjúkra. Þjóðkirkjan mun tileinka næsta ár kærleiksþjónustunni þar sem leitast verður við að fjölga sjálfboðaliðum á þessum vettvangi í hverri sókn. Það gæti verið verðugt verkefni fyrir okkur hér á Húsavík að hlúa vel að þessum lið í safnaðarstarfinu.

Sumum hafa verið falin mikil verk í þessum garði og nöfn þeirra sumra ljóma skært í sögu þjóðanna. Þar má t.d. nefna móður Teresu. En fleiri voru þeir sem enginn þekkir nema Drottinn einn. Störf sumra ollu straumhvörfum eða vörðuðu heilar þjóðir. Annarra köllun markaðist af heimili þeirra eða þröngu sviði umhverfis þá.

Jesús færir okkur sömu verkefni í hendur frá morgni til kvölds. Þessi verkefni varða heimili okkar og fjölskyldu, vinnustað og vinnufélaga, samfélag okkar nær og fjær. Öll erum við mikilvæg í augum Guðs sem vill að við látum gott af okkur leiða í samfélaginu þar sem við auðsýnum ábyrgð gagnvart okkur sjálfum og náunganum í orði og verki. Þannig tökum við þátt í verki Drottins sjálfs

Og svo kemur kvöld. Starfsdegi er lokið. Verkalaunin greidd. Sá sem aðeins vann eina stund fær sömu laun og allir hinir. Og alltaf finnst einhverjum það hneykslanlegt að Guð skuli ekki meta afköst og endurgjald á sama hátt og við erum vönust. En Jesús bendir á í dæmisögunni að í Guðs ríki gildir allt annað mat. Þar gildir réttlæti kærleikans. Hér horfum við til launa. Ekki þar. Hér er ávinningur verka okkar. Þar er náðargjöf Guðs. Það er sá ávinningur sem Jesús Kristur hefur til unnið, - ekki við.

Torveldast af öllu til skilnings er þetta, að hjá Guði getur enginn átt neitt skilið. Við eigum ekki neitt sem við höfum ekki þegið úr hendi Guðs. Jafnvel bestu verk okkar, göfugustu hugmyndir okkar, dýrmætasta framtak okkar, já, trú okkar líka og umhyggja og elska. Allt er þetta gjöf Guðs til okkar.

Náðargjöf Guðs er eilíft líf í samfélaginu við Jesú Krist. Það eru okkar laun. Þökk sé þér Guð fyrir þína óumræðilegu gjöf. Amen

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.