Sjálfstæði auðmýktar og samstöðu

Sjálfstæði auðmýktar og samstöðu

Við höfum fyrirmyndina og enski erkibiskupinn Rowan Williams hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði í einni hugleiðingu sinni: Við getum ekki höndlað Jesú af eigin geðþótta. Kristin trú lætur sér ekki nægja að horfa um öxl til Jesú sem mikils kennara og góðrar fyrirmyndar, heldur gengur fram á við, fetar í fótspor Jesú.

Til hamingju með daginn. Í dag minnumst við þess að 87 ár eru liðin frá stofnun fullveldisins, minnumst þess þegar sambandslögin tóku gildi og Ísland varð ríki út af fyrir sig. Það var stærsta formlega skrefið sem tekið var í átt að sjálfstæði þjóðarinnar. Þennan, einn kaldasta vetur í manna minnum varð Ísland fullvalda ríki og það var árangur baráttufólks sem hafði barist saman fyrir auknum réttindum þjóðar sinnar. Í dag höldum við hátíð samstöðu og sjálfstæðis.

Baráttusaga okkar Íslendinga til sjálfstæðis er merkileg og margir samverkandi þættir sem leiddu það af sér að þjóðin náði fullum réttindum, varð algjörlega sjálfstæð og öðrum þjóðum og ríkjum óháð. Annar stór áfangi í átt að þessum réttindum var þegar við eignuðumst stjórnarskrá 1874 það sama ár og haldið var upp á 1000 ára afmæli byggðar í landinu. Eins og við vitum var þá haldin mikil hátíð þjóðarinnar á Þingvöllum. Til að undirstrika hátíðleikann kom konungurinn danski til landsins. Þá höfðu fátækustu börnin verið lokuð inni í aumlegustu kotunum til þess að konungurinn skyldi ekki sjá tötra þeirra er hann gekk með fylgdarliði sínu sem fór hjá í glæsileika. Hin konunglega hirð. Það var ólíkt því þegar hinn mesti konungur kom inn í höfuðborg lands síns. Hann var ekki skrýddur gulli eða demöntum heldur kom hann fram í auðmýkt, ekki á forstjórajeppa eða öðrum táknum auðs og valds, heldur kom hann ríðandi á asna. Engu að síður var þarna hinn sanni konungur á ferðinni og var fjöldi fólks þar saman komið til að hylla hann. Það voru ekki einungis valdir aðilar sem fengu að taka þátt í hátíðarhöldunum og konungshyllingunni því þar á meðal voru menn og konur sem almenningsálitið fordæmdi vegna opinberra yfirsjóna eða synda. En allt þetta fólk sem lagði klæði sín eða greinar á veginn vissu það að þarna fór hinn sanni bróðir sem leit alla menn jafnt, sýndi samstöðu með öllum mönnum. Það höfðu þau fundið í handtaki hans, séð það í augum hans og sannfærst af verkum hans. Þau hafa ekki öll vitað, að hann var Guðs sonur. Hann hafði sjaldan sagt það, nema einslega í fámennum hópi. En það sem máli skipti var að þau vissu að hann leit á þau sem systkini, hann leit á hjörtu hvers og eins. Þetta hefur án efa verið upplifunarstund og eins og oft gerist við slík tækifæri hafa farið straumur um hverja sál er allir viðstaddir sungu saman einum rómi lofsönginn sem við syngjum enn þann dag í dag í messunni. Hósanna. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.

Já, blessaður sé sá sem kemur og á aðventunni undirbúum við okkur fyrir komu frelsarans í heiminn. Og við eigum sjálf sagt öll okkar eigin siði og venjur í sambandi við jólaundirbúninginn en markmiðið hlýtur þó alltaf að vera að undirbúa okkur innra sem ytra og njóta sjálfstæðis sem og samfélags við aðra menn.

* * *

Við erum öll sammála um að þau auknu réttindi sem við fengum á þessum degi fyrir tæpum nítíu árum, sem leiddu til sjálfstæðis voru þjóðinni mjög happadrjúg. Að við fengum að ráða okkar innri málum sjálf án afskipta annarra ríkja og ákvarðanavald og ábyrgð er í okkar í eigin höndum. Þeir sem unnu að þessu eiga þakkir skildar, þakkir fyrir samstöðu og sjálfstæði.

Við getum líka þakkað fyrir það að landið okkar er frjálst land, þar sem einstaklingurinn er sjálfstæður í ákvarðantöku og ekki undir oki einvaldsherra. Þó slíkt sjálfstæði eigi að vera eðlileg réttindi hvers manns í veröldinni þá eru þau ekki sjálfsögð. En slíkt sjálfstæði gerir á okkur kröfur, við megum nefnilega ekki verða svo sjálfstæð og öðrum óháð að við verðum algjörlega sinnulaus í garð náungans. Það er hættulegt að hugsa á þann hátt að mig varði einungis um mig og mitt fólk, aðrir geta séð um sig. Þetta er hættuleg hugsun, já, þetta er vond hugsun.

Í haust hafa nokkrum sinni borist þær fréttir að einstaklingar hafa legið látnir á heimilum sínum um langan tíma, jafnvel svo vikum og mánuðum skipti og enginn saknaði þeirra eða nokkur yfirhöfuð vitað af þeim. Er þetta eðlilegt? Það er óhugnaleg tilhugsun, og maður óskar engum þess að deyja algjörlega einn, það er einmanaleikinn í sinni sárustu mynd og enginn vill hafa það á samviskunni að hafa kannski átt að vera búinn að hringja eða heimsækja viðkomandi. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er þetta sorgleg staðreynd í íslensku samfélagi. Það er ekki síður áhyggjuefni að þessir alltof mörgu einstaklingar sem deyja á þennan hátt geta verið vísbending um allan þann fjölda sem búa við slíka einsemd hér á landi. Vísbending um þá sem búa einir og óafskiptir og fyrir um hálfum mánuði fengum við þær fréttir að á milli 40 og 50 Íslendingar væru heimilislausir. Þau eiga ekki í nein hús að venda, útigangsmenn og útigangskonur sem lifa ein og óafskipt. Allt þetta fólk lifir án allrar umhyggju og samfélags. Af einhverjum sökum sem geta verið jafn ólíkar og þær eru margar hafa hagirnir þróast í þessa átt hjá þessu fólki og við getum alveg gefið okkur það að enginn óskar sér þess að lifa við slíkar aðstæður.

Við getum öll tekið undir það að þetta eru mál sem virkilega þarf að taka á. En hvernig? Lausnin felst ekki í því að skella skuldinni sífellt á ríkisstjórn eða félagsmálayfirvöld og segja þau sofandi yfir málum einstæðinga. Það þarf að verða hugarfarsbreyting hjá okkur öllum, við þurfum að klæðast hertygjum ljóssins. Við höfum fyrirmyndina, komum því fram líkt og frelsarinn af auðmýkt og lítum á hjarta náungans án fordóma og hroka eins og okkur er svo gjarnt. Samfélag er félag þar sem allir eiga þátttökurétt og þannig fá þeir veikari hjálp frá þeim sem sterkari eru til að taka þátt og vera með. Með því sýnum við samstöðu sem er ein af grundvallarforsendum þess að samfélagið geti þrifist. Jólafastan er tími íhugunar og við höfum tækifæri til að snúa við blaðinu og breyta. Við megum ekki vera svo sjálfstæð að okkur varði ekki samfélagið sem við lifum í, við þurfum þó að vera svo sjálfstæð að við getum tekið af skarið, sýnt liðsstyrk og kjark og þor til þess að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Við höfum fyrirmyndina og enski erkibiskupinn Rowan Williams hittir naglann á höfuðið þegar hann sagði í einni hugleiðingu sinni: Við getum ekki höndlað Jesú af eigin geðþótta. Kristin trú lætur sér ekki nægja að horfa um öxl til Jesú sem mikils kennara og góðrar fyrirmyndar, heldur gengur fram á við, fetar í fótspor Jesú, til móts við þá djúpu heimþrá til Guðs, sem hann hefur vakið til lífs í veraldarsögunni. Jesús segir: Gangið með og fáið aðra til að slást í hópinn.

Hvernig ætlar þú að haga undirbúningi komu frelsarans? Ætlar þú að setja þig á hærri stall en Kristur sjálfur gerði, konungurinn mesti sem alltaf kom fram í auðmýkt og horfði á hjörtu manna frekar en stétt þeirra eða eignir. Eða ætlar þú að taka á móti boðskapnum og undirbúa jólin í samræmi við hann? Ef það er valið gefurðu mun dýrmætari gjafir heldur en allt það sem hægt er kaupa. Þetta vissi stofnandi munaðarleysingjahælis í Hamborg á miðri 19. öldinni þegar hann undirbjó jólin með börnunum sem bjuggu á heimilinu. Hann bjó til ljósakrónu úr hjóli með kertum og setti hana upp á aðventunni. Þetta var þáttur í því að hjálpa börnunum að upplifa helgi jólanna. Á hverjum degi las hann fyrir þau úr Biblíunni um fæðingu frelsarans og fjallaði um merkingu þess fyrir börnin svo þau skynjuðu betur að Jesús kom í heiminn fyrir alla menn, líka fyrir þau sem voru föður- og móðurlaus eða yfirgefin af foreldrum sínum og höfðu kannski aldrei fundið hlýju eða kærleika. Þá setti hann við hvern lestur kerti fyrir eitt barnanna á stórt hjól. Ljósið átti að vera til marks um að Kristur væri frelsari hvers og eins þeirra. Með árunum þróaðist þessi ljósakróna í þá átt sem við þekkjum, hringurinn sem vafinn er kransi og kveikt á fjórum kertum fyrir hvern sunnudag aðventunnar. Hvert kerti kransins er sem áminning um boðskap jólanna og hvetur hvern mann til íhugunar, áminning til okkar í dag um hvað það er sem skiptir máli, hinn sanni boðskapur jóla og aðventu snýst ekki um að baka sem flestar smákökutegundir, þrífa sem mest eða setja upp sem flest jólaljós, þó það sé vissulega sjálfsagður þáttur í okkar jólaundirbúningi. Gleymum ekki því sem skiptir öllu máli, ,,sjá konungur þinn kemur til þín” – taktu á móti honum eins og honum ber, konungi konunganna.

Kristur hefur gengið gönguna, fetum í spor hans og leitumst við að styðja samfélagið í trú okkar og verkum. Á aðventu og öllum tímum skulum við minnast okkar minnsta bróður og gott betur, styðjum hann til sjálfstæðis. Og á fullveldisdegi skulum við þakka fyrir baráttu genginna kynslóða og nota hana sem hvatningu til áframhaldandi samstöðu, samfélaginu til heilla og Guði til dýrðar.