Ávöxtun arfsins

Ávöxtun arfsins

Það er Biblíudagur. Þitt orð er, Guð, vort erfðafé. Mig langar að við hugleiðum hvernig við ætlum að ávaxta þann arf í því harkalega umhverfi þar sem tekst á um huga og viðhorf fólks í upphafi nýrrrar aldar.

Þá sagði hann: Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin.

Og hann sagði: Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess. Mark. 4.26-32

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi.

Þitt orð er guð vort erfðafé …

Það er mikið talað um ávöxtun fjár þessa mánuðina. Venjulegt fólk, sem er að leggja fé inn á banka til ávöxtunar og sér að af þessari litlu ávöxtunarprósentu sem spariféð ber er tekinn skattur, þannig að eftirtekjan er býsna rýr, starir skilningssljóum augum á þessar stóru tölur sem milljarðamæringarnir guma af. En það dylst engum að þeir eru vakandi og sofandi yfir nýjum tækifærum til enn betri ávöxtunar. Fjármunir og tímanleg velferð skiptir okkur máli, eðlilega, og ekkert við það að athuga. Ég ætla ekki að fjargviðrast vegna auðsöfnunar, skattlagninga og annars í dag. Það er annars konar ávöxtun sem mig langar að hugleiða.

Það er Biblíudagur. Þitt orð er, Guð, vort erfðafé. Mig langar að við hugleiðum hvernig við ætlum að ávaxta þann arf í því harkalega umhverfi þar sem tekst á um huga og viðhorf fólks í upphafi nýrrrar aldar.

Engum dylst sem sjá vill að ekkert rit hefur haft viðlíka áhrif á nánast öllum sviðum mannlífsins í stórum hluta heims og Biblían. Gangið um stórborgir um gjörvallan hinn kristna heim og litist um. Hvarvetna blasa við turnar veglegra kirkjubygginga sem benda til himins. Í þeim byggingum mörgum rís byggingalistin hæst og turn þessa helgidóms er orðinn kennimark höfuðborgar Íslands um allan heim. Lítið inn á listasöfn þessara sömu borga og hvarvetna blasa við listaverk innblásin af frásögum Biblíunnar. Farið á tónleika og hlýðið á rismestu tónverk stóru meistaranna í nútíð og fortíð, sem gjarnan eru ofin um fæðingu frelsarans, píslir hans og upprisu. Lesið bókmenntir og sjáið tilvísanir í biblíuleg minni blasa við, farið í kvikmyndahús og þar blasir hið sama við. Flettið bókinni Rætur íslenskrar tungu og skoðið áhrif ritningarinnar á móðurmál okkar. Lítið yfir svið mannúðarstarfa í sögu og samtíð og leitið að rótum þess starfs og þið rekið það til boðskaparJesú Krists um umhyggju fyrir náunganum Spyrjið fjöldann allan af fólki um allan heim hvar það leiti styrks og á hverju það nærir von sína.

Þitt orð er, Guð, vort erfðafé.

Hvernig verður sá arfur best ávaxtaður á nýrri öld?

Hverjir bera ábyrgð á þeirri ávöxtun.

Hinn svo kallaði kristni heimur er í deiglu. Kristin trú á þar í vök að verjast. Til skamms tíma var talað mikið um afhelgun samfélaga og hugarfars á Vesturlöndum, í framhaldi af þeirri þróun sem varð í kjölfar vísindabyltingarinnar á 18. og 19. öld og og þeirrrar áherslu forystumanna upplýsingastefnunnar að maðurinn og vitsmunir hans hefðu óendanlega möguleika til að svara spurningum um tilvist mannsins og marka honum heillaríka stefnu til framtíðar.

Bjartsýnin ein réði ríkjum þar til fyrri heimsstyrjöldin skall á og innan við 20 árum eftir að henni lauk skall á önnur enn ógnvænlegri. Trúin á manninn hefur beðið hnekki. Hvert leita menn þá? Þeir sem smíðuðu kenningarnar um afhelgun samfélags og hugarfars eru að draga í land með kenningar sínar um afhelgun hugarfarsins. Hugur fólks hefur ekki afhelgast, en hið heilaga í hugum fólks er ekki hið sama og áður. Fjöldinn hefur snúið baki við hinum stofnanavæddu trúarbrögðum, einstaklingshyggjan knýr mennn til að smíða sér átrúnað sem hentar þeim, hver og einn gengur inn í kjörbúð lífsviðhorfanna og tínir í eigin körfu það sem ætlað er að haldi í sviptingum lífsins. Hið trúarlega er ekki á undanhaldi, en það er lítt sýnilegt vegna þess að þetta er prívatmál sem aldrei fyrr. Hægt er svosem að ræða hverju maður trúir, til að skiptast á skoðunum, en mín trú og þín trú er sitthvað og ég smíða mér hana sjálfur. Og samfélag um trúna er á undanhaldi vegna einstaklingshyggjunnar. Það trúr hver á eigin hátt.

Hvað hefur gerst?

Þitt orð er, Guð, vort erfðafé.

Hefur ávöxtun þess arfs brugðist. Hefur gengi kristinnar trúar á lífsviðhorfamarkaðinum fallið eða gleymdist að huga að ávöxtuninni?

"Svo er guðsríki sem maður sái sæði í jörð. Han sefur síðan og vakir nætur og daga en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt." Sáðmaður gekk út að sá. Hefur það gleymst? Hverjir eru sáðmennirnir? Þeir sem standa í prédikunarstólunum? Hafa þeir brugðist? Eða við? Hefur okkur kannski öllum, hverjum einstaklingi sem tilheyrir kirkju Krists, verið falinn sekkur sáðkorns að fara með og sá. Hefur það brugðist? Hafa aðrir lagt undir sig akurinn og uppskorið vegna fálætis okkar og vanrækslu?

Sáðkornið, Guðs orð, hefur í sér fólgið líf. Jesús líkir því í guðspjalli dagsins við sinnepsfræ, sem er öllum frækornum smærra. Það lætur sem sé við fyrstu sín lítið yfir sér, en í því er fólgið líf, sem grær og vex og dafnar og ber áv öxt, komist það í mold. Höfum við, kirkjan, hugsanlega verið svo sjálfumglöð í fulvissunni um að við lifum í kristnu þjóðfélagi og þannig muni það alltaf verða, að við höfum sest í helgan stein og látið ógert að erja akurinn, látið ógert að sá? Eða hafa okkur ef til vill fallist hendur, höfum við misst trúna á lífsmátt sáðkornsins í samkeppninni við allt hitt og alla hina sem sá linnulaust einhverju öðru sem í fljótu bragði virðist gróskumeira og vinsælla?

Mér barst í hendur bók fyrir skömmu eftir breskan kunningja minn, háskólakennara, sem fengist hefur við menntun kennara áratugum saman. Titill bókarinnar er í íslenskri þýðingu: Innræting, menntunog Guð. Baráttan um hugarfarið. (Copley: Indoctrination, Education and God. The Struggle for the Mind.) Þetta er vekjandi lesning. Í allri menntun, í öllu uppeldi, í allri félagsmótun eiga sér stað bein og óbein átök um hugarfarið, viðhorfin, lífsskoðun einstaklinganna og sú barátta heldur áfram svo lengi sem maðurinn dregur andann. Við erum kyrfilega minnt á áhrifamátt umræðunnar og áróðursins nú fyrir kosningar, fylgi sveiflast, viðhorf breytast allt eftir ákafa og trúverðugleika þeirra sem keppa um fylgið. Áhrifavaldarnir í samtímanum eru legíó. Hinir háværustu, þeir sem besta aðstöðuna hafa, þeir sem læsastir eru á samtíðina, þeir sem brenna heitast fyrir því að koma á framfæri viðhorfum sem þeim finnast mikilvæg, hafa áhrif á hugina, á lífsviðhorfin, á gildismatið.

Höfum við, hefur kirkjan, tekið af ákafa þátt í þessari baráttu um hugarfarið, sannfærð um að sáning hennar skipti máli, vegna þess að sáðkornið hefur í sér fólgið líf sem ber ávöxt til lífs, til eilífs lífs fyrir einstaklinginn? Sáðkorn, sem upp af sprettur brauð lífsins.

Okkur er gjarnt að tala djarflega um siðferðilegt mikilvægi kristinnar trúar og þann arf kristilegs kærleika og siðgæðis sem okkur hefur verið falinn. Það er gott og blessað - og mikilvægt vissulega. En það er smættandi fyrir kristna trú. Hún er ekki fyrst og fremst siðakerfi og siðakerfi hennar á sitthvað sameiginlegt með siðakerfum annarra trúarbragða, þótt við séum sannfærð um sérstöðu grundvallarþátta kristins siðaboðskapar. Kristin trú er ekki fyrst og fremst siðaboðskapur. Hún er boðskapur um að Guð hafi vitjað mannsins í Jesú Kristi manninum til lífs, manninum til bjargar. Kristinn boðskapur kallar eftir andsvari mannsins við við erindi Jesú Krists, kallar eftir því að maðurinn grípi í þessa útréttu hönd sér til lífs. Það er erindi kirkjunnar að sá þessu lífgefandi sáðkorni, koma þe3ssu erindi til skila og treysta því að það beri ávöxt, komist það í mold, komist það í huga og hjarta manna.

Þitt orð er Guð vort erfðafé.

Íslendingar eru í hópi tuttugu þjóða sem fyrstar fengu þetta orð á eigin tungu. Fámenn kotþjóð við ysta haf. Þeir Oddur og Guðbrandur voru með púlsinn á samtíðinni, nýttu sér nýþróaðan fjölmiðil, prentverkið, og tóku að sá. Það bar ávöxt. Að þessu leyti erum við forréttindaþjóð. En dekurbörnum hættir til að slævast. Við fengum arfleifð í margvíslegum skilningi. Hvernig höfum við og hvernig ætlum við að ávaxta hana?

Á þessu ári kemur út ný þýðing Biblíunnar á íslensku sem unnið hefur verið að síðastliðin 20 ár og einskis látið ófreistað að vanda til þess verks. Og án efa verður einskis látið ófreistað að búa prentgripinn sem best úr garði. En þetta er ekki nema fyrsta skrefið í því að ávaxta þennan arf á nýrri öld. Við getum sagt að verið sé að stafla sæðinu í hlöður. Þar bíður það sáðmanna.

Mín og þín. Ekki til að við grúfum okkur yfir þessar fallegu bækur þegar þær berast okkur í hendur, heldur að við tökum orðið til okkar og tökum þátt í sáningarstarfinu í einarðri samkeppni við þá sem ætla sér að vinna samkeppnina um hugarfarið. Framtíð Guðs kristni á þessu landi veltur á því, hún er ekki sjálfgefin. Gleymum því ekki að þótt sú samkeppni hafi unnist á einum stað á tilteknum tíma, segir sagan okkur að að akur kristninnar á tilteknum stöðum hefur lent í órækt og aðrir síðan lagt hann undir sig og sáð öðru sæði. Það gæti gerst hér ef við sinnum ekki skyldum okkar, ef brauð lífsins hættir að skipta okkur öllu máli og við tökum sjálf að lifa á hrati og látum okur í léttu rúmi liggja hvað aðrir leggja sér til munns.

Við söfnum í dag til starfs Biblíufélagsins í Eþíópíu. Þar hefur íslensk kristni erjað akur í hálfa öld og séð það sáningarstarf bera ríkulegan ávöxt. það er ómetanlegt, því það er einnig tekist á um sálairnar í Afríku. Gefið gaum að því sem framkvæmdastjóri eþíópska Biblíufélagsins sagði við framkvæmdastjóra Hins íslenska Biblíufélags og tíundað er á messublaðinu. "Ef við ættum í dag 10 milljón Biblíur væru þær horfnar eftir hálft ár." Tökum þátt í því sáningarstarfi með framlögum okkar í dag. En svíkjumst ekki um að erja grýttan akur íslenskrar kristni af trúmennsku svo sá arfur sem okkur er trúað fyrir beri ávöxt. Guð gefi okkur að við fáum ekki þau ummæli þeirra sem á eftir okkur koma að vera kynslóðin sem glutraði niður hinu góða sæði, vanrækti sáningarstarfið, skildi akur Guðs kristni í landinu í órækt, gafst upp og lét hann örðum eftir.

Guð forði okkur frá því og gefi okkur þrótt og djörfung til að reynast trú.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um eilífð til eilífðar.

Amen.