Geisli frá Guði

Geisli frá Guði

Kirkjan er ekki aðeins innan þessara veggja, heldur líka þarna úti. Hér á heimilunum í sókninni er börnum kennt að signa sig og biðja í Jesú nafni, og þannig leggja sig í geislann frá Guði.

Grafarvogskirkja

Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, þeim stað sem þú hefur sagt um: Þar skal nafn mitt búa. (1..Kon.8.29)

Í dag leikur geisli um Grafarvog, um götur og nes og sund. Hann sendur er hæstum himni frá á heilagri náðarstund.

Sá geisli mun lýsa á gluggann þinn þegar Guð er að vitja þín og benda á helga húsið sitt, þann himin sem við þér skín.

Og geislinn skal berast í barminn þinn, þar blundar sú lífsins þrá sem Drottinn þinn, orðið elsku hans, og aðeins hann svala má.

Sjá, geislinn bendir á barnið þitt sem biður um skjól og hlíf en fyrst og síðast um frelsara sinn, hans forsjá, styrk og hlíf.

Og hamingja jafnt sem harmur þinn skal helgast við geislann þann frá lausnara heims sem leið og dó og lífsins sigur vann.

Svo vermi sá geislinn Grafarvog að grói hvert blessað sáð og mannlífið Kristi verði vígt, hans vilja, ást og náð. (Sbj Ein)

Þannig orti Sigurbjörn Einarsson, biskup, og var sungið við vígslu Grafarvogskirkju, 18. júní aldamótaárið 2000. Þetta var dýrlegur dagur fyrirheita um fagra framtíð gróandi og gleði í Grafarvogi, í Reykjavík, á landinu okkar fagra, þjóðhátíð að baki, kristnihátíð framundan. Þetta var ógleymanleg hátíð. Forsætisráðherra afhenti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar æsku Íslands kórgluggann að gjöf, þetta mikla og fagra listaverk.

Nú söfnumst við hér á heilagri náðarstund og minnumst 10 ára vígsluafmælis helgidómsins, og enn leikur geisli um Grafarvog og enn biðjum við þess að sá geisli vermi svo „grói hvert blessað sáð og mannlífið Kristi verði vígt, hans vilja, ást og náð.“

Ég samfagna prestum og djákna, sóknarnefnd og öllu starfsliði og hollvinum Grafarvogskirkju á þessum tímamótum og þakka það allt sem þið hafið gert til að prýða þessa hátíð í dag. Ég þakka í nafni þjóðkirkjunnar það allt sem hér er lagt að mörkum þjónustunnar í þessari fjölmennustu sókn landsins. Hér hefur verið unnið mikið uppbyggingarstarf þar sem náðst hefur að laða hinar mörgu stofnanir og félagasamtök hverfisins til samstarfs að uppbyggingu hins góða samfélags hér í hverfinu. Ég bið þess að svo megi áfram verða, og sú velvild sem Grafarvogskirkja nýtur í samfélaginu, og það hlýja og góða viðmót sem hér hefur ætíð mætt þeim hingað kemur megi ætíð verða aðalsmerki hennar.

Mér er nú sérstaklega hugsað til þess mikla fjölda barna og ungmenna sem umliðinn áratug hafa staðið undir þessum fagra glugga, þegar geisli gleðinnar hefur leikið um Grafarvog á mikilvægum krossgötum ævi þeirra. Geisli Guðs hefur brosað við þeim í undursamlegu litaspili gluggans, sem minnir á hve heimur Guðs er margbreytilegur í litauðgi sinni og fegurð, og undursamlegu samræmi. Nú er bæn mín sú að sá mildi og fagri geisli lýsi þeim ungu og fylgi þeim á gæfuvegum og farsældar. Og að þau gleymi ekki að leita auglitis Guðs, og að beina sjónum og hjörtum sínum til þess.

Í lexíu dagsins sem hér var lesin áðan voru þessi orð Salómons konungs er hann vígði musterið mikla í Jerúsalem: „Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, þeim stað sem þú hefur sagt um: Þar skal nafn mitt búa. “

Í dómkirkju einni á Englandi er mikill og forn myndgluggi sem dregur að sér fjölmarga ferðamenn sem koma hvaðanæva til að skoða hann. Á 17. öld óð Cromwell yfir landið, hann var ofstækismaður, sannfærður um að hann væri á bandi réttlætisins og sannleikans og gagntekinn af hroka og vandlætingu yfir því að ekki mættu vera neinar myndir í húsi Guðs. Myndbrjótar eru af ýmsum toga fyrr og síðar, andlegir og pólitískir, sem í ofstæki og einsýni vilja bylta fornum gildum og ryðja þeim úr vegi, sannfærðir um að vera Guðs megin, á bandi réttlætisins að brjóta niður myndir, tákn, orð. Cromwell kom þarna og lét hermenn sína mölbrjóta gluggann. Þegar þeir voru horfnir á braut týndi söfnuðurinn saman glerbrotin og setti þau saman á ný. En eitthvað hefur það verið flausturslega unnið því myndirnar eru allar ruglaðar. Maður sér bara eyra hér og hönd þar, hjálm og laufblað, lamb og skó, samhengislaust allt, eintómt rugl. En í miðjum glugganum er auga, sem horfir á mann. Svona er heimurinn okkar. Sundraður, brotinn, svívirtur, og þegar við leitumst við að raða saman brotunum þá verður það einatt samhengislaus óreiða. En mitt á meðal brotanna, einmitt þar sem glerbrotin hæðast sem mest að tilburðum okkar að skilja og sjá samhengi og meiningu í þessu, þá birtist auglit, hin glataða merking og mynstur: Auglit Guðs. „Í dag leikur geisli um Grafarvog,“ geisli frá Guði, mildur geisli auglitis Guðs, sem yfir vakir. Við eigum oft erfitt með að skilja merkingu og tilgang þess sem yfir dynur í lífinu. Sorgin, áföllin, harmarnir, neyðin, það mætir okkur með margvíslegu móti. En einhvers staðar í þeirri óreiðu allri er auglit Guðs, birtan af geislanum hans kemur á móti þér og brosir við þér.

Hverjum degi máttu mæta í þeirri birtu. Guð hefur gefið þær björtu og hlýju hátíðir sem klukkur Grafarvogskirkju eins og aðrar sóknarkirkju landsins kalla til, jól, páska, hvítasunnu, sem hafa glatt og blessað kynslóðirnar í þessu landi í þúsund ár, já, og hann hefur líka gefið sunnudaginn, Drottins dag, fyrsta dag hverrar einustu viku, sem helgast af upprisu frelsarans og boðar að hvað sem annars kann að ganga yfir þennan heim og lífið þitt, þá er það víst að það líf kærleikans, sem birtist og þjáðist í Jesú, það líf sigrar, og er á sigurför. Og eina spurningin sem skiptir máli er sú hvort við viljum gefast þeim mætti, ganga í hlýjum og björtum geisla hans og sigra með honum, eða að lúta því valdi sem krossfestir kærleika Guðs og tapa með því.

Í spádómsbók Jeremía segir „Svo segir Drottinn: Nemið staðar við vegina og litist um, spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin og farið hana svo að þér finnið sálum yðar hvíld. En þeir sögðu: „Við viljum ekki fara hana.“

Ég fyrirverð mig ekki fyrir að vera gamaldags ef það er að bera virðingu fyrir gömlu götunum og gömlu gildunum sem brugðið er upp á blaðsíðum hinna gömlu guðspjalla. Ég leyfi mér að efast um að bloggið og fésbókin, spekingar félagsvísindanna og dægurflugur stjórnmálanna og hins pólitíska rétttrúnaðar á hverjum tíma, hafi margt fram að færa sem standi því framar. Ég vona að við verðum alltaf svo gamaldags í kirkjunni að við treystum því að elska Guðs sé þrátt fyrir allt við stjórnvölinn. Ég vona að bæn og boðun kirkjunnar beri ætíð vitni um mynstur og merkingu að baki lífinu, og að þótt þetta mynstur og merking sé brotið, marið og laskað vegna syndarinnar og afls hins illa, láti Guð sér þó annt um það, vaki yfir og elski. Ég bið að vonin, hin kristna von, lýsi veg barnanna okkar og stýri skrefum þeirra til góðs og blessunar fyrir líf og heim, jafnvel þótt hún þyki gamaldags og úr sér gengin götuslóð til hliðar við upplýst breiðstræti heimsins með öll sín glitrandi, glæstu ljós.

Guðsþjónustan er að koma fram fyrir auglit Guðs, að gera eitthvað fallegt fyrir hann, þiggja heimboð hans, eiga samfund við hann, leitast við að nema staðar í geislanum milda og hlýja frá augliti hans. Allar línur helgidómsins hér leiða að borðinu, altarinu, sem er dúkað hátíðarborð. Þangað beinast bænir okkar. Þaðan hljómar orðið helga sem leiðbeinir, líknar, huggar, vekur von og trú. Geislinn af skini altarisljósanna fellur á ásjónu foreldranna sem bera barn sitt til skírnar. Og það er birtan af augum Guðs. Ljómi altarisljósanna skín við fermingarbörnunum sem játa trúna, og hann blikar í augum brúðhjónanna sem vinna sín helgu heit. Og til þeirra, sem í sorg og söknuði kveðja látinn ástvin, berst geisli altarisljósanna. Og þessi mildi geisli er blik af ásjónu Drottins, sem um síðir vill lauga alla veröldina ljósi sínu. Og hann vill gefa okkur nesti til lífsferðarinnar, lítið brauð og dropa víns þar sem hann er til staðar sjálfur, hann sem er ljós heimsins og lífsins.

Sagt er um Þorkel Mána, sonarson Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins í Reykjavík, að þegar hann fann dauðann nálgast bað hann um að vera borinn út í sólargeislann, og þar fól hann sig þeim Guði sem sólina hafði skapað. Það er falleg saga frá þeim tíma þegar heiðni og kristni vógu salt í íslensku samfélagi, geisli kristinnar trúar á Guð föður, skaparann, Guðs son, frelsarann, heilagan anda lífgjafann lýsti yfir landið okkar og snart hjörtu æ fleiri. Og það leiddi til að sú trú varð loks lögð til grundvallar sið og lögum íslenska þjóðríkisins. Síðan hefur það verið svo á Íslandi. Mörgum finnst þó nú sem sá tími sé senn á enda, ljóskastarar nútíma vísinda og hugmyndafræði afstæðishyggju í andlegum og siðferðilegum efnum móta lífsviðhorf sífellt fleiri og hin gömlu viðmið eru dæmd úrelt og úr sér gengin. Þeim mun meiri ástæða er fyrir okkur sem viljum halda trúnað við hinn kristna sið að halda vöku okkar og tryggð við trú og kirkju og gæta þess að viðmið hans týnist ekki.

Kirkjan er ekki aðeins innan þessara veggja, heldur líka þarna úti. Hér á heimilunum í sókninni er börnum kennt að signa sig og biðja í Jesú nafni, og þannig leggja sig í geislann frá Guði. Í barnastarfi kirkjunnar er heimilunum veittur stuðningur í því verki, að miðla barninu tungutaki og orðaforða tilað orða það sem innst og dýpst í barmi býr, móðurmál sálarinnar. Bænin sem umvefur barnið í fyrstu bernsku er þetta sem skírnin minnir á með sérstökum hætti, að hið kristna samfélag á himni og á jörðu tók okkur á bænararma og bar okkur inn í geislann hlýja þegar við komum inn í þennan heim. Og þegar við förum héðan erum við borin inn í þann milda geisla og falin honum sem sólina skapaði og lífið gefur og blessar.  Athafnir kirkjunnar á krossgötum ævinnar minna okkur á að við erum samfélag, við eigum hvort annað að, við komum hvert öðru við, af því við erum systkin, börn hins sama eilífa föður, umvafin og nærð sömu bæn og blessun heilagrar trúar. Með helgu orði og atferli er brugðið upp fyrir innri augu okkar markmiðinu sem lífi manns er sett, geisladýrð eilífðarvonar. Þar erum við minnt á viðmiðin og gildin sem varða hamingjuleið einstaklingum og samfélagi. Og við erum leidd fram fyrir auglit Guðs sem elskar þig og vill þér allt hið besta. Af þeim augum lýsir geisli inn um gluggann þinn í margbrotinni litadýrð lífsins

„Og hamingja jafnt sem harmur þinn skal helgast við geislann þann frá lausnara heims sem leið og dó og lífsins sigur vann.

Svo vermi sá geislinn Grafarvog að grói hvert blessað sáð og mannlífið Kristi verði vígt, hans vilja, ást og náð.“