Gegn stríði - Ræðan sem ég varð að flytja

Gegn stríði - Ræðan sem ég varð að flytja

Þá er það hin ræðan í anda Erasmusar frá Rotterdam, sem ég varð að flytja. Nú er það bók Erasmusar Gegn stríði sem er andagiftin og uppgjör við siðbót eftir 500 ár. Þessi texti Erasmusar á vel við í dag þegar veröldin stendur frammi fyrir stríðsógn, nú eins og þá. Stríð er fáránleiki og brjálæði. Það veit hvert barn. Lexía dagsins var þessi 17. sd. eftir þrenningarhátíð: Hættið að gera illt, lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. (Jesaja 1)
Mynd

Flutt 8. október 2017 í Dalvíkurkirkju

Þá er það hin ræðan í anda Erasmusar frá Rotterdam, sem ég varð að flytja. Nú er það bók Erasmusar Gegn stríði sem er andagiftin og uppgjör við siðbót eftir 500 ár. Þessi texti Erasmusar á vel við í dag þegar veröldin stendur frammi fyrir stríðsógn, nú eins og þá. Stríð er fáránleiki og brjálæði. Það veit hvert barn. Lexía dagsins var þessi 17. sd. eftir þrenningarhátíð:

Hættið að gera illt,
lærið að gera gott,
leitið réttarins,
hjálpið hinum kúgaða. (Jesaja 1)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég eins og sumir hér inn fór í vikunni til að sjá íslensku kvikmyndina Undir trénu. Hvað finnst ykkur um myndina sem hafið séð hana? Ég var í hálfgerðu uppnámi og vissi ekki hvað ég átti að halda eða finnast.

Nú má ég náttúrulega ekki eyðileggja fyrir ykkur sem eigið eftir að sjá myndina með því að segja frá því hvernig hún endar. En það hlýtur að vera óhætt að segja að það fór allt í hund og kött. Það er bara orðatiltæki sem leikið er með í myndinni. Þetta er „satyrisk“ mynd svo ég slái um mig á erlendu máli og eins og kvikmyndagagnrýnandi gæti gert til að þykjast vera gáfaðri en hann er. Satýr eða fánn upp á íslensku var furðuskeppna í grískri og rómverskri goðafræði, hálfur maður og hálf skeppna, geit að neðan, gjarnan með tjúguskegg eins og geit og horn á hausnum. Þessar skepnur koma fyrir í Hringadrottinssögu og Narníu sögunum og kvikmyndum sem gerða hafa verið eftir þeim. Fáránlegar skepnur það. Og það er einmitt satyriskt, fáránleiki.

Í kvikmyndinni Undir trénu er djúpur mannlegur harmur, sorg og þjáning. Frábærlega spunnið saman við skoplegan söguþráð eða sprenghlægilegan, yfirdrifinn. Og það er neðri hlutinn á skepnunni. Leikurinn er frábær. Svo eru ýmis tákn í myndinni og það biblíuleg. Lífsins tré vex þarna í garðinum miðjum og nágrannaerjurnar kviknuðu út af tré. Kannast nokkur við það? Táknmál myndarinnar segir yfirsögu, aðra sögu, en þennan grátbroslega söguþráð. Og þá sögu vilji ég halda áfram að segja í ræðu minni, um trjástubbinn sem verður kannski einn eftir af lífsins tré.

Einn mesti sérfræðingur allra tíma í latneskum orðatiltækjum var Erasmus frá Rotterdam. Mikill húmanisti. Hvað er það á íslensku? Mannvinur eða mannúðarstefna stundum kölluð. Og það var hann. Hann var kristinn mannvinur. Hann skrifaði afar vinsæla bók fyrir meir en fimm hundruð árum sem hann nefndi Gegn stríði. Nú er hún gleymd flestum. Skrifuð á latínu. Þar útskýrir hann orðið stríð (l. bellum). Hernaðarsinnarnir geta leyft sér að tala um fegurð stríðsins, hetjudáðirnar og hugrekkið. En uppruni orðsins er annar að mati þessa meistara latínunnar, lágkúrulegri og villimannslegri. Hann hallast að því að það sé komið af orðinu óargadýr (l. belva) og lýsir það fyrirbærinu betur. Stríð er gegn mennsku og þekkingu, kveikt af heiðnu helvíti.

Erasmus lýsir því í bókinni hvernig lágkúra stríðsins byrjaði með því að menn fóru að drepa dýr. Fyrst sér og sínum til matar í stað þess að lifa af jurtaríkinu. Svo til skemmtunar. En þegar það var orðið vani að slátra dýrum, fóru menn að líta á aðra menn sem kjötstykki. Drápið orðið að vana og svo var stríð gert að hetjudáð og málað upp í dýrðarljóma helst til að véla menn til þátttöku í vitleysunni. Ekki veit ég hvað Erasmus myndi segja í dag um alla tölvuleikina sem þjálfar börn upp í því að drepa. Þetta dásamlega vestræna samfélag með þversögnunum mörgu! Ágætur vinur minn og prédikari norskur lýsti þessari hugarfarsbreytingu fyrir mér hvernig hann var þjálfaður að drepa þegar hann gegndi herskyldu í Norður Noregi við ískaldan raunveruleikann, þjálfaður að drepa aðra menn.

Þegar Erasmus skrifaði bókina gerðu menn sér háar vonir um friði með nýjum páfa Leó 10, sem við þekkjum kannski fyrir annað, en þannig hafði það verið að hvaða smákonungur sem var gat hafið stríð við nágrannaríki sín út af hvaða smámunum sem þeim datt í hug sem ástæðu. Húmanistarnir dirfðust að andamæla hernaðarbröltinu og fengu sumir bágt fyrir. Erasmus skrifar í bók sína að mesti hryllingurinn er þegar kristnir menn berast á banaspjót, drepa hvern annan. Þeir sem þó hafa fyrirmyndina í Kristi. Hann vitnaði í röksemdafærslur manna fyrir stríði og dró þær sundur og saman í háði. Ef menn fylgja Kristi þá drepa menn ekki bræður sínar og systur í trúnni. Þá tekur hann aðra táknmynd, kröftuga, eins og myndin af lífsins tré. Trúaðir menn eru líkami Krists, eins og álitið var. Kirkjan var einn líkami og Kristur höfuðið, sem allt samlíf átti að stefna að.

Þá voru allir kristnir í Evrópu. Það var eiginlega ekki annarra kosta völ. Hryllingurinn var og er sá að ef þú heggur bróður þinn og stingur þá ertu að höggva í líkama Krists. Svo sterk var samkenndin eða það kenndi kirkjan. Bæði Erasmus mannvinurinn og Lúther siðbótamaðurinn, en þeir voru samtímamenn, vildu að kirkjan myndi fylgja Kristi í alvöru en ekki bara í þykjustunni.

En þeir sáu aðeins út fyrir eigið ríki og litu til þeirra sem voru kallaðir heiðingjar. Þeir litu á menningu þeirra með virðingu og ótrúlega mikilli þekkingu. Við erum fáráðlingar um menningu Islam miðað við þessa lærðu menn þó að við hrósum okkur af þekkingu en visku þeirri skortir okkur. Erasmus bendir á að kristnir menn höfðu tekið upp villimennsku heiðingjanna í hernaði og ef eitthvað var þá voru þeir verri. Hann kallar eftir því að við séum mannvinir í orðsins dýpstu merkingu. Til dæmis gagnrýndi hann landvinningamennina fyrir hrottalegt framferði þeirri á nýlendunum við undirsáta sína.

Höfum við eitthvað breyst? Það er búið að leggja af kristindóm sem grundvöll samfélagsins í Evrópu. Í staðin eru komnar mannréttindayfirlýsingar. Þær eru einhvers konar endurvakning á mannúðarstefnunni. Frelsið tryggir best friðinn að sagt er. En mannúðin virðist ná svo skammt. Hvers vegna skyldi það vera?

Í stofunni heima birtast oft myndir stríðsins á skjánum. Danska prestamyndin, Vegir Drottins, er óþægileg og nærgöngul á köflum. Sonur söguhetjurnar vildi fara og þjóna sem herprestur í Afganistan. Boðskapur hans var alltof kristilegur fyrir liðsforingjann sem vildi herða ungu mennina til átaka. Það átti ekki að gefa rúm fyrir tilfinningar og tilvistarvanda hermannsins. Svo þegar ungu Danirnir missa vin sinn í átökunum verða orð herprestsins léttvæg. Þá hvetur liðsforinginn prestinn unga að koma með þeim í hernaðarleiðangur sem hann gerir. Angist stríðsins, fáránleiki, er dreginn upp. Þeir missa einn af sínum en fella marga andstæðinga. Þeir eru króaðir af og liðsforinginn skipar prestinum að taka til vopna. Hann lætur til leiðast. Svo sér hann konu klædda í hefðbundinn fatnaða Islam með púrku en foringi múslimanna átti einmitt að klæða sig þannig til að villa um fyrir andstæðingum sínum. Svo liðsforinginn skipar prestinum sem var með hann í sigtinu að skjóta. Það gerir hann. Þeir fá aðstoð og losna með skrekkinn. Einn fallinn þrátt fyrir hátæknihermennsku í þeirra liði. Þeir ganga á götunni framhjá líkunum sem lágu í valnum. En presturinn er látinn taka púrkuna frá andliti hins fallna sem reynist þá vera saklaus kona, hann lítur inn um dyr þar hjá, þar sér hann dreng, orðin munaðarlaus. Fáránleiki stríðsins. Stríð er í eðli sínu kúgun, andstaða lífsins og frelsisins, sem þó á að vera grundvöllur mannfélags okkar.

Eitt atriði í viðbót úr bók Erasmusar. Hann skoðar stríðið út frá hagfræðinni. Hann heldur því fram að ef stríðshöfðingjarnir myndu reikna út kostnaðinn kæmi það í ljós að tap stríðsins væri slíkt að þeir færu aldrei af stað. Fær það staðist? Heimstyrjöldin síðari var risaverkefni að gera eina þjóð meiri en aðra, til drottnunar var hildarleikurinn hafinn. Erasmus er ekki upptekinn af hagvexti sem við höfum tilhneigingu til að lúta sem guði sjálfum og tilbiðja. Þá verðum við réttlát og góð ef við höfum efni á að að byggja og gera hitt og þetta. Erasmus tók inn í reikninginn kostnað og þjáningu þeirra saklausu og stríðshrjáðu.

Nú höfum við tvo hana á haug sem sýna sprotana sína og hænurnar gogga hver í aðra til að vera ofar í röðinni. Það var ágætt að samtökin gegn kjarnorkuvá fengu friðarverðlaun Nóbels í vikunni til að undirstrika vilja til friðar. Stríð er fráránleika, það er gegn mannlegu eðli, það er satýr, fánn, bland af skepnu og manni. Ég verð eiginlega að biðja dýravini afsökunar á þessari mynd að líkja mönnum við hænur og hana. Mannskepnan í stríði er andstyggilegri en öll dýr merkurinnar til samans. Það segir Erasmus.

„Hættið að gera illt og lærið að gera gott“, segir í lexíunni sem okkur var lesin. Hvernig lærum við það? Ég ætla að taka dæmi frá siðbótinni sem því miður lærði ekki af Erasmusi og því síður kaþólska kirkjan hans. Það braust út stríð og þá fara hugsjónir, lífsstefnur og trú til andskotans. Illskan birtist í allskonar myndum. Ber Guð ábyrgð á því þegar við förum í stríð? Biðjum við Guð að blessa stríðið? Biðjum við Guð að gefa okkur sigur yfir andstæðingunum? Biðjum við Guð að blessa skriðdrekana og byssurnar? Það var gert og er gert en það er liðin tíð, trúi ég, að það sé réttlætanlegt. Ef við förum í stríð þá berum við fulla ábyrgð á því og þannig hefur það alltaf verið. Pétur átti ekki að lyfta sverði sínu og höggva í Getsemane garðinum samkvæmt orðum Jesú. Að fylgja Kristi í alvöru er að ganga friðarveg. Ég get ekki séð það öðru vísi þegar ég les guðspjallið og auk þess leggst það við að eins og staðan er í dag þá sér það hvert barn að stríð er brjálæði. Ætlum við að höggva niður lífsins tré?

Kórinn ætlar að syngja siðbótarsálm frá Tékklandi eftir Jiri Translosky. Hann var siðbótarmaður Tékka. Hann lifði við ofsóknir og kúgun. Var einn af þeim er hafði fundið leið sem ég trúi að sé fær, eins og Erasmus og síðar Lúther bentu á, að fylgja Kristi, ekki aðeins í orði heldur líka í verki. Það að eiga Krist í hjarta sér, setja traust sitt á hann einan, í staðin fyrir styrk sinn og mátt, hertygi og drápstól. Sú upphefð að vera Krists, sem er konungur konunganna, eigum við að láta næga okkur, að vera börn hans. Hann býr í hjarta þess sem trúir. Kærleikurinn einn á að vera okkur leiðarljós í samskiptum við náunga okkar eins og við fjarlægar þjóðir og fólk af öðrum lífsskoðunum og trúarbrögðum. Trúa því og treysta að það sé til Guð sem kemur til hjálpar.

Lag: God, My Lord, My Strenght

Drottinn, þinna krafta’ og kærleiks nýt ég,
krýning hlýt ég,
vernda mig frá voða’ og neyð,
vonskan sækir að
svo grimm, mér veginn greið,
Guð, þú megnar það.

Kristur í mér, frið ég á og frelsi
frá því helsi,
þér heilshugar þjóna hlýt,
hjartað slær, ei steinn,
fagna ég, náðar nýt,
núna aldrei einn.

Upp mín sál, sem angurljóðin kyrjar,
undrið byrjar
þegar hverfur vonsku vald,
veröld sér Guðs mátt,
himinbjört birtist öld,
ber því höfuð hátt.

(Textinn eftir Jiri Transloský en þýðing Guðm. G. úr ensku eftir þýðingu Jaruslav J. Vajda, lagið eftir Pan Buh birtist í Gradual, Prague, 1567)

Lúther útbjó sér skjaldamerki, lútherrósina. Í miðjunni er rautt hjarta með svörtum krossi. Tákn um að krossinn á að stoppa okkur af í vitleysunni, fáránleikanum sem stríð og hatur leiðir okkur út í. Út frá hjartanu vex liljurósin sem tákn um það líf og vöxt sem vonin um upprisu frá dauðum gefur. Það er ávöxtur trúarinnar, traustsins, sem Guð vekur í brjóstum okkar, og við eigum að yfirfæra á sköpun hans og alla menn, að skapa traust og öryggi, frið. Þannig lærum við að gera gott.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.