Grunnskólinn og bækurnar sem eru boðlegar

Grunnskólinn og bækurnar sem eru boðlegar

Mér finnst jákvætt og gott að rithöfundar megi á skólatíma kynna bækur sínar, þótt innihald bókanna sé óþekkt. Ætti það sama ekki að gilda um alþekkt grundvallarrit, sem hópur fólks vill koma á framfæri og gefa?
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
05. maí 2015

Á aðventu heimsótti hinn glaðværi leikari og rithöfundur, Gunnar Helgason, Snælandsskóla. Hann kynnti bók sína, las úr henni og ef ég þekki rétt miðlaði nemendum af lífsgleði sinni og jákvæðni.

Upplýsingar um heimsóknina voru sendar foreldrum, eins og upplýsingar um annað gott starf sem skólinn býður upp á. Upplýsingaflæðið er mikilvægt og að mínu mati til fyrirmyndar hjá starfsfólki og stjórnendum Snælandsskóla.

Skemmst er frá því að segja að börnin sem ég þekki best tóku rithöfundinum vel, bókin féll í kramið og var ein af jólabókunum á mínu heimili á liðnu ári.

Innihald bókarinnar hans Gunnars var óþekkt fyrir marga, en þrátt fyrir það var honum leyft að koma í eigin persónu, kynna sitt ritverk og lesa úr því á skólatíma fyrir börnin.

Að nemendur fái slíka heimsókn er góð leið til að skólinn sinni því mikilvæga hlutverki sínu að vera skapandi og frjór vettvangur. Fleiri leiðir sem mér sýnist skólinn fara að sama marki, eru til dæmis að hafa á dagskrá tónleika, listviðburði og sýningar. Skólinn er einnig vettvangur þar sem börnin sjálf eru hvött til að vera skapandi og hugmyndarík, með því til dæmis að skrifa eigin sögur, setja upp leiksýningar og vinna handverk, svo eitthvað sé nefnt.

Mér finnst Snælandsskóli góður skóli og sinna þessum hlutverkum sínum af stakri prýði.

Önnur hlið á sömu umræðu er þessi. Hópur fólks hefur í áratugi gefið af tíma sínum og fjármunum til að hægt sé að prenta og gefa börnum í fimmta bekk bók. Sú bók er reyndar heilt bókasafn og innihald þess kunnugt flestum sem fullorðnir eru.

Í þeirri bók má finna grundvöll okkar siðmenningar og þar má m.a. finna uppruna fjölda orðtaka í íslenskri tungu, sem við skiljum betur þegar við fáum tækifæri til að lesa og eignast bókina sjálfa.

Fyrir marga veitir umrædd bók lesandanum svölun er hann glímir við mannlegar spurningar um tilvist og tilgang. Fyrir aðra er hún næring fyrir sálina, eins og vatn fyrir rætur trjánna. Og fyrir enn aðra er hún og boðskapur hennar lífgefandi og frelsandi, veitir lesandanum hugrekki til að takast á við myrkustu aðstæður og atburði á ljóssins máta.

Sumir skólastjórnendur og jafnvel forystumenn sveitarfélaga hafa bannað að þessi gjöf standi fimmtu bekkingum til boða á skólatíma. Það finnst mér mjög umhugsunarvert í ljósi þess að ritið er eitt af grundvallarritum samfélagsins og innihaldið alþekkt fyrir okkur sem fullorðin erum.

Mér finnst jákvætt og gott að rithöfundar megi á skólatíma kynna bækur sínar, þótt innihald bókanna sé óþekkt.  Ætti það sama ekki að gilda um alþekkt grundvallarrit, sem hópur fólks vill koma á framfæri og gefa?

Mér finnst að við ættum í sameiningu að hugsa þessi mál í rólegheitum.