Hin dýra list

Hin dýra list

Hin dýra list, hefur hún verið kölluð, tónlistin. Kirkjan hefur á öllum öldum verið farvegur og aflgjafi fyrir listir. Tónlistin og trúin hafa alltaf verið samofnar í hvaða trúar- og tónlistarstíl sem þekkist.
fullname - andlitsmynd Margrét Bóasdóttir
03. júní 2021

Hin dýra list, hefur hún verið kölluð, tónlistin.

 Kirkjan hefur á öllum öldum verið farvegur og aflgjafi fyrir listir. Tónlistin og trúin hafa alltaf verið samofnar í hvaða trúar- og tónlistarstíl sem þekkist.

 Hörður Áskelsson var ráðinn til Hallgrímskirkju strax við námslok í kirkjutónlist frá tónlistarháskólanum í Düsseldorf árið 1982. Hann hefur helgað kirkjunni starfskrafta sína og byggt upp tónlistarstarf sem þekkt er orðið langt út fyrir landssteinana. Hið óviðjafnanlega orgel Hallgrímskirkju, Mótettukórinn og kammerkórinn Schola Cantorum eru ávextir starfs hans. Listvinafélag kirkjunnar telur hundruð hollvina sem hafa stutt starfið með áhuga og árgjöldum ásamt stjórn og framkvæmdastjóra sem hafa unnið að árlegri dagskrá Orgelsumars, Kirkjutónlistarhátíðar, kórtónleika, flutnings helstu stórverka kirkjutónbókmenntanna, myndlistarsýninga og fleiri viðburða.

 Á kveðjustund Harðar og kóranna úr kirkjulegri þjónustu er þakklæti efst í huga. Í tæpa fjóra áratugi hefur tónlistin göfgað og glatt, huggað og hlúð að þeim sem notið hafa.

 Sunnudagssöfnuður kirkjunnar hefur átt vandaða kirkjutónlist vísa og flutningur stórvirkja kirkjutónbókmenntanna hefur fyllt kirkjuna af þakklátum áheyrendum sem annars hefðu ekki átt þess kost að upplifa lifandi flutning verkanna í túninu heima.

 Lútersk kirkja er syngjandi kirkja og tvöfalt biður sá er syngur sagði Ágústínus.

 Þakklæti fylgir Herði Áskelssyni, organistasyninum frá Akureyri og kórunum hans áfram veginn. Söngur þeirra mun tvöfalda bænir okkar um kærleika og þakklæti.