Ég fór í fóstureyðingu

Ég fór í fóstureyðingu

Þessi lífsreynsla er sennilega sú reynsla sem hefur kennt mér hvað mest í lífinu. Ég lærði það m.a. að enginn getur dæmt um siðferðilegar ákvarðanir annarra þar sem allir valkostir eru vondir. Og ég lærði það líka að viðhorf okkar til ýmissa grundvallarmála breytast hvað mest ef við stöndum sjálf í þeim sporum að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir.
fullname - andlitsmynd Arna Ýrr Sigurðardóttir
02. október 2014

Ég hef farið í fóstureyðingu.

Þegar ég var 17 ára fór ég í fóstureyðingu. Þetta þykir ekkert tiltökumál á Íslandi í dag og þar með bættist ég í hóp þúsunda annarra íslenskra kvenna sem hafa valið að binda enda á þungun af einhverjum ástæðum.

Ég var (og er) trúuð manneskja. Ég tók virkan þátt í kristilegu félagsstarfi í KFUM og K á Akureyri sem var á þeim tíma mjög íhaldssamt samfélag, ekki síst þegar kom að kynferðismálum. Kynlíf fyrir hjónaband var ekki aðeins litið hornauga, það var mjög ákveðið talað gegn því sem mjög alvarlegri synd, og þegar vinkona mín varð ófrísk 16 ára, þá voru haldnir Biblíulestrar um 6. boðorðið (þú skalt ekki drýgja hór) nokkur föstudagskvöld í röð á unglingafundum. Skilaboðin voru skýr. Og í þessu andrúmslofti kom að sjálfsögðu ekki til greina að nota getnaðarvarnir, það var jú bannað að sofa hjá, og ef strákur eða stelpa fór í apótek að kaupa smokka, þá var verið að undirbúa verknað sem var skilgreindur sem synd.

Þar sem ég og kærastinn minn vorum bara nokkuð heilbrigð og eðlileg ungmenni, þá endaði þetta að sjálfsögðu með því að ég varð ófrísk. Það var mikið áfall, ekki síst fyrir kærastann minn, sem upplifði þetta sem mikla skömm. Hann gat alls ekki hugsað þá hugsun til enda að við myndum eignast þetta barn, og hann þrýsti mjög á mig að fara í fóstureyðingu. Það sama gerði móðir mín. Ég þráaðist við, því að það var jú synd að láta eyða fóstri. Jafnmikil synd og að sofa hjá...

Ég samþykkti það fyrir beiðni mömmu að hitta félagsráðgjafa. Hana hitti ég tvisvar, vegna þess að eftir fyrra viðtalið sagðist hún hafa efasemdir um að ég væri tilbúin að taka þá ákvörðun að láta eyða fóstri. Hún sagði mér að það væri ég sem yrði að taka ákvörðun og standa við hana. Eftir samtalið við hana fór ég heim, hugsaði málið og ákvað eftir seinna viðtalið að fara í fóstureyðingu. Þetta er erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni. Ég var í þeirri stöðu að enginn af þeim valkostum sem ég hafði var góður, allar ákvarðanirnar sem ég hefði tekið hefðu verið rangar eða vondar á einhvern hátt. Og ég var algjörlega ein, enginn annar gat tekið þessa ákvörðun nema ég. Og þar með fannst mér ég bera alla ábyrgðina. Það má vera að einhverjum finnist að þessi ákvörðun mín hafi verið ábyrgðarlaus og eigingjörn. Mér fannst það sjálfri á þeim tíma. Og ég leið vítiskvalir vegna þess að ég var sannfærð um að Guð dæmdi mig. Og dæmdi mig hart. Ekki svo mjög vegna þess að ég hafði syndgað. Fyrir það var alltaf hægt að fá fyrirgefningu, það er jú sérsvið Guðs að fyrirgefa. Það sem þvældist fyrir mér var að þegar ég hafði tekið ákvörðunina, og búin í aðgerðinni, var ég bara svo rosalega fegin! Og Guð getur ekki fyrirgefið manneskju sem sér ekki eftir því sem hún hefur gert...

Það tók mig nokkur ár að vinna úr þessari reynslu minni. Sektarkenndin, skömmin og tilfinningin að eiga ekki aðgang að Guði vegna þessarar stóru syndar sem ég gat svo illa iðrast, nöguðu mig að innan lengi. En ég sá aldrei eftir því að hafa valið þessa leið og upplifði mjög sterkt nokkrum árum seinna að Guð dæmdi mig ekki fyrir þetta val mitt (hvernig það gerðist er efni í annan pistil).

Þessi lífsreynsla er sennilega sú reynsla sem hefur kennt mér hvað mest í lífinu. Ég lærði það m.a. að enginn getur dæmt um siðferðilegar ákvarðanir annarra þar sem allir valkostir eru vondir. Hver einasti einstaklingur í siðferðilegri klemmu upplifir ólíkar aðstæður, hefur ólíkar ástæður og forsendur fyrir þeirri ákvörðun sem hann eða hún tekur. Og ég lærði það líka að viðhorf okkar til ýmissa grundvallarmála breytast hvað mest ef við stöndum sjálf í þeim sporum að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir.

Varðandi fóstureyðingar finnst mér mikilvægast að leggja áherslu á að þegar kemur að ákvarðanatöku um fóstureyðingu er það alltaf á endanum konan sjálf sem þarf að taka ákvörðunina og standa við hana og lifa með henni. Þess vegna verða það að vera konur sem hafa síðasta orðið í umræðu um fóstureyðingar.

Ég get alveg tekið undir það að við getum sem kristið samfélag beðið fyrir aukinni ábyrgðarkennd í kynferðismálum. Flestir virðast vera sammála því að konur sem velja að fara í fóstureyðingu þjáist mikið út af ákvörðuninni (og ég get alveg viðurkennt að ég upplifði það á sínum tíma). Það hlýtur að segja okkur það að þetta sé vond ákvörðun að þurfa að taka, og við sem samfélag eigum að sjálfsögðu ekki að sætta okkur við það að konur séu sífellt að lenda í þeirri ómögulegu stöðu að vera í þeim sporum.(eða koma sér í þá aðstöðu). Og þess vegna þurfum við sem samfélag að taka alvarlega það hlutverk okkar að kenna ungmennum að umgangast kynlíf með virðingu og ábyrgð, því að það fylgir því mikil ábyrgð að lifa kynlífi. Það fylgir því sú ábyrgð að sýna bólfélaganum virðingu, að vera meðvituð um möguleikann á þungun, og nota getnaðarvarnir ef kynlíf á ekki að leiða til þungunar, og ekki síður til að koma í veg fyrir kynsjúkdóma. Ég vil hrósa kynfræðingnum Siggu Dögg og Ragnheiði Eiríksdóttur hjúkrunarfræðingi, fyrir opinskáa og fræðandi umræðu um þessi mál, bæði í fjölmiðlum og með fyrirlestrum, t.d. á vegum kirkjunnar. Sigga Dögg verður t.d. með fræðslu fyrir unglingana sem fara á landsmót æskulýðsfélaga á Hvammstanga í október. Ég vil aftur á móti gagnrýna þau stjórnvöld sem móta heilbrigðisstefnu landsins okkar fyrir að gangast ekki í það að gera getnaðarvarnir aðgengilegri. Ungt fólk á að hafa aðgang að ódýrum, jafnvel ókeypis, getnaðarvörnum og góðri fræðslu um notkun þeirra. Það er okkur sem samfélagi til skammar hversu tíðni kynsjúkdóma er há miðað við hversu auðvelt er að koma í veg fyrir þá! Og þá verð ég að fara alla leið og segja líka að það er okkur líka til skammar hversu tíðni fóstureyðinga er há miðað við hversu auðvelt er að koma í veg fyrir þær! En sú skömm liggur á okkur sem samfélagi, ekki hverri einstakri konu sem stendur frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að fara í fóstureyðingu.

Í dag er ég að verða 47 ára gömul. Mér líður bara býsna vel í eigin skinni (hvað sem allar rannsóknir segja), er hamingjusöm móðir þriggja sona og þjóna Guði sem prestur í Þjóðkirkjunni. Ég myndi aldrei dæma konu sem hefur valið þá leið að láta eyða fóstri, eða biðja fyrir aukinni ábyrgðarkennd hennar, og ég trúi því að Jesús Kristur myndi ekki heldur gera það. Ég veit það að í Guði er að finna miklu meiri kærleika, líf og von en nokkurt okkar mannanna barna getur ímyndað sér og það er í þeim kærleika og von sem við eigum að ganga fram á hverjum degi og mæta sérhverri manneskju sem elskuðu Guðs barni.