Hann er frelsarinn

Hann er frelsarinn

Kristin kirkja hefur sinnt kristniboði þvert á menningarmörk í tæp tvö þúsund ár. Kirkjunni var falið af Jesú Kristi sjálfum að fara út um allan heiminn, bera frelsaranum vitni og boða trú á hann. Til að fólk trúi þarf það að heyra og til að það heyri þarf að prédika.
fullname - andlitsmynd Ragnar Gunnarsson
12. nóvember 2010

Kristniboðsdagurinn 2010

Kristin kirkja hefur sinnt kristniboði þvert á menningarmörk í tæp tvö þúsund ár. Kirkjunni var falið af Jesú Kristi sjálfum að fara út um allan heiminn, bera frelsaranum vitni og boða trú á hann. Til að fólk trúi þarf það að heyra og til að það heyri þarf að prédika. Við þetta hefur kirkjan starfað allar aldir. Því skyldi maður ætla að verkinu fari að ljúka, ekki síst í ljósi þess að margvísleg tækni hefur verið notuð síðustu áratugi til þess að breiða út boðin um Jesú með hjálp útvarps og sjónvarps, gervihnatta og veraldarvefs. Jesús kemst víða að. Fyrir hundrað árum, árið 1910, var haldin mikil kristniboðsráðstefna í Edinborg. Stórhuga áætlanir voru gerðar um að ljúka verkinu. Áhersla var lögð á að vinna saman og skipta með sér verkum. Liðin öld varð fyrir bragðið mikil kristniboðsöld. Kirkjan óx, ekki síst í Afríku og Asíu og er enn í örum vexti á þeim slóðum. Ef þetta öfluga kristniboðsstarf hefði ekki komið til væri staða kristninnar í heiminum bágborin. En þrátt fyrir þennan mikla vöxt er margt enn óunnið.

Í kristniboðsstarfi er sjónum jafnan beint að þeim sem eiga eftir að heyra og taka við boðskapnum. Ef aðeins 10-12% þjóðar eða þjóðarbrots hefur tekið við boðskapnum er talað um að enn eigi eftir að ná til viðkomandi. Miðað við þá skilgreiningu á enn eftir að flytja 632 þjóðarbrotum, sem telja 50 þúsund manns eða fleiri, fagnaðarerindið. Ef miðað er við öll þjóðarbrot, og sum þeirra telja aðeins nokkur þúsund, er um að ræða vel á annað þúsund hópa. Sum þjóðarbrotanna telja reyndar meira en milljón og búa í Kína eða öðrum löndum Asíu, þar sem fjöldinn allur aðhyllist hindúisma, búddisma eða íslam. Á þetta vorum við minnt á fjölmennri ráðstefnu um boðun fagnaðarerindisins í Höfðaborg nú seinni hluta októbermánaðar.

Líta má á þessa þrjá trúarbragðahópa sem stærsta akur kristniboðsins á komandi árum og áratugum. Sums staðar eru aðstæður þannig að erfitt er að boða fólki trúna og það getur kostað lífið að reyna það. Annar hópur sem er vaxandi kristniboðsakur eru íbúar stórborga heimsins. Talið er að helmingur jarðarbúa muni búa í stórborg eftir 20 ár. Miklir fólksflutningar eiga sér stað til borganna. Loks má minnast á að börn og unglingar heimsins eru hátt í helmingur mannkyns. Sérhver kynslóð þarf að fá að heyra um og kynnast Jesú Kristi.

Vitnisburður kristniboðsins og kirkjunnar er þessi: Jesús er frelsarinn. Við erum ekki kölluð til að fara fram með offorsi eða látum, en til að benda á Jesú með orðum okkar og verkum í auðmýkt, kærleika og með sannfæringarkrafti heilags anda. Okkar er að boða, andans að koma trúnni til leiðar. Ef við gerum okkar getur Guð notað okkur og boðskapinn sem verkfæri sitt. Hver og einn þarf að gera upp við sig hvernig hann bregst við. Þar getum við aldrei vaðið inn á aðra eða þvingað nokkurn til trúar. Boðun trúarinnar snýst heldur ekki um völd eða stöðu kirkjunnar heldur um það að hver og einn fái að mæta Jesú Kristi. Hann er frelsarinn, það þarf hvert og eitt mannsbarn að fá að vita. Aðeins þannig getur það valið Jesú.