Setningarræða á Prestastefnu 2016 í Digraneskirkju

Setningarræða á Prestastefnu 2016 í Digraneskirkju

Orð Guðs er undirstaða alls sem er í kirkjunni. Í því Orði leitum við huggunar og styrks, leiðbeiningar, visku og þekkingar. Öll veröldin fagni fyrir Drottni segir í 100. Davíðssálmi eins og sungið var hér áðan. Það er yfirskrift þessarar prestastefnu.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
13. apríl 2016

Vígslubiskupar, prestar, djáknar, gestir.  Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til setningar prestastefnunnar.  Ég þakka fólkinu hér í Digraneskirkju fyrir fundaraðstöðuna og allan undirbúninginn.  Einnig þakka ég synodusnefndinni samstarfið,  sr. Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur fyrir prédikunina við guðsþjónustuna og þeim er þjónuðu með einum eða öðrum hætti við guðsþjónustuna.  Einnig vil ég þakka starfsfólki biskupsstofu fyrir þeirra framlag við undirbúninginn og handbókarnefnd og sálmabókarnefnd fyrir þeirra ómetanlegu vinnu undanfarin ár  sem og þeim er  hafa lagt hönd á plóg með einum eða öðrum hætti.

Efni stefnunnar –  „Öll veröldin fagni fyrir Drottni“ (Sl. 100:1)

Við slit prestastefnunnar fyrir ári tilkynnti ég að efni stefnunnar í ár yrði helgihald.  Helgihald fer fram með margvíslegum hætti eins og kunnugt er og helgar verða stundirnar vegna þess að Guð er þar nálægur.  Á prestastefnum fer helgihaldið fram í morgun- og kvöldbænum,  guðsþjónustum, Biblíulestrum og sálmasöng.

Undanfarin mörg ár hefur farið fram vinna við nýja sálmabók og nýja handbók fyrir kirkjuna.  Báðar þessar bækur eru tæki sem notuð eru til helgihaldsins í kirkjunni.   Starfandi eru handbókarnefnd og sálmabókarnefnd sem eru undirnefndir helgisiðanefndar og hafa þær undirbúið það efni er kynnt verður á þessari prestastefnu.  Einnig er starfandi períkópunefnd.

Meginefni þessarar prestastefnu er að leggja fram til umræðu tillögur að nýrri sálmabók og handbók. Synodus hefur tillögu og umsagnarrétt og viðmið og drög að sálmabók þarf að samþykkja. Tillaga að handbókinni hefur verið lögð fram á vef prestastefnunnar, sem er að finna á ytra svæði innri vefs þjóðkirkjunnar.  Þar er hægt að koma með ábendingar til 1. júní n.k. Eftir það er stefnt að því að ganga frá endanlegri útgáfu og kynna og samþykkja á Prestastefnu 2017 og á kirkjuþingi 2017. Auk þess verða períkópurnar, textaraðirnar ræddar á þessari prestastefnu sem og sálmabókin sem einnig er fyrirhugað að út komi á næsta ári.  Þetta verður mikil vinnustefna, en áður en hópar hefja störf verða flutt stutt erindi um áskoranir og möguleika í helgihaldi, málfar og guðfræði handbókar, sagt frá nýrri rannsókn um nýsköpun í helgihaldi, auk þess sem við fáum að heyra um endurskoðun handbókar frænda okkar í Svíþjóð og yfirlit yfir handbókarvinnuna sem fram hefur farið undanfarin ár.

Allt eru þetta atriði sem skipta okkur og kirkjuna okkar miklu máli, því kirkjan er samfélag þar sem orð Guðs er boðað og sakramentunum veitt þjónusta.  Það gerist í og með helgihaldi og eru handbók og sálmabók mikilvæg tæki í þeirri boðun og þjónustu.

Innri samþykktir

Þegar losnaði um samskipti ríkis og kirkju  var þörf á að skýra hvað og hver innri málefni kirkjunnar eru.  Lögin um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar vísa til innri mála kirkjunnar, játninga og helgisiða og fela skipan þeirra mála kirkjunni sjálfri.  Samþykktir um innri málefni kirkjunnar voru staðfestar á kirkjuþingi árið 2009 og í þeim birtist sjálfsmynd kirkjunnar og vera.  Það er því nauðsynlegt að hafa þessar samþykktir í huga.  Þar er t.d. kafli um helgihald þar sem það er skilgreint og annar um hlutverk handbókar og sálmabókar.  Þar stendur um „Hlutverk handbókar og sálmabókar. Handbók kirkjunnar er einingarband og vitnisburður um samstöðu í tjáningu trúar og siðar á grundvelli játninga evangelísk-lúterskrar kirkju. Handbók kirkjunnar veitir leiðbeiningar um guðsþjónustu og helgihald.“ „Sálmabók kirkjunnar geymir í senn sálma og bænamál guðsþjónustunnar og trúarlífs einstaklinga og fjölskyldna. Í sálmum og bænum Sálmabókarinnar er fjársjóður trúararfsins. Þar er að finna reynsluheim trúarinnar, reynslu einstaklinga og safnaðar af samleið sinni með Guði.“

Kirkjan 

Kirkjan er samfélag þeirra sem játa trú á Krist.  Hér á landi eru hátt í 90% landsmanna kristinnar trúar samkvæmt tölum frá þjóðskrá.  Þjóðkirkjan er þeirra fjölmennust og segja síðustu tölur að um 71% landsmanna tilheyri þjóðkirkjunni.  Önnur skráð kristin trúfélög á landinu eru yfir 20.  Úrsagnir úr þjóðkirkjunni eru nokkrar eins og kunnugt er og eru ástæður þess rannsóknarefni.  Á síðustu prestastefnu var því fagnað að kirkjuþing hefði skipað starfshóp sem legði fram tillögur um nýliðun í þjóðkirkjunni.  Sá hópur skilaði skýrslu á kirkjuþinginu í haust.  Þar kemur m.a. fram að í greiningu Rúnars Vilhjálmssonar prófessors felist tækifæri fyrir kirkjuna þrátt fyrir vissan mótbyr.  Tækifærin felist m.a. í því að mikill meirihluti þjóðarinnar tilheyri  þjóðkirkjunni, að trú á Guð er   almenn meðal landsmanna, að meirihluti telur  að trú sé mikilvæg í sínu lífi, meirihluti lætur fermast, að mikill meirihluti telur enn að kirkjulegar athafnir við fæðingu og dauða séu mikilvægar og að skírnin sé   almenn og mikil þáttaka sé   í útfararþjónustu kirkjunnar.  Starfshópurinn bendir einnig á að tónlistarstarfsemi á vegum safnaða er öflug og starf kirkjukóra þróttmikið um allt land og að Hjálparstarf kirkjunnar njóti viðurkenningar og virðingar.

Það er einnig ánægjulegt að ungt fólk tekur þátt í starfi kirkjunnar um land allt.  Fjölmennasti kirkjulegi atburðurinn á ári hverju er landsmót æskulýðsfélaganna.  Þar safnast saman ungmenni sem eru þátttakendur í æskulýðsstarfi sóknar sinnar og hefur fjöldinn verið um 600 manns undanfarin ár.  Barna- og unglingastarf kirkjunnar er mikilvægt og faglegt.  Nú er sunnudagaskólinn ekki eini vettvangur barna til að taka þátt í kirkjulegu starfi og margt nýtt hefur verið gert til að efla og glæða það sem og auka fræðslu til barna og foreldra um kristna trú.  Unga fólkið í kirkjunni okkar hefur einnig sinn vettvang, kirkjuþingið,  til að koma fram með skoðanir sínar og leggja gott til málanna.  Allt er þetta mikilvægt þegar horft er til kirkjunnar sem þjónar öllum.  Á það má líka benda að samfélagið nýtir helgidagakerfi kristinna manna til að afmarka hvíldar- og frídaga.

Þjóðkirkjan hefur mikilvægu hlutverki að gegna í lífi einstaklings og samfélags.  Við skulum ekki festa hugann um of við það sem farið hefur úrskeiðis og láta það draga úr okkur kjark og kraft, heldur líta á styrkleikana og þann mikilvæga boðskap sem kirkjan flytur.  Þjóðkirkjan er stærsta fjöldahreyfing í landinu ef frá er talið sjálft þjóðfélagið.  Þar af leiðandi er ábyrgð hennar ekki smá.  Ég veit að öll viljum við leggja okkur fram í þjónustunni með Guðs hjálp og góðra manna.

Brugðist var við tilmælum prestastefnunnar 2015 varðandi tónlist við útfarir með því að halda málþing um efnið.  Það fór fram nýverið og var því varpað út um leið og það var haldið.  Þannig gafst fleirum kostur á að fylgjast með.  Þátttaka var góð og voru prestar, organistar og úrfararstjórar sammála um að samtalið væri af hinu góða.

Víða er öflugt tónlistarlíf í kirkjum landsins.  Með aukinni menntun organista hefur starfið eflst og kröfurnar orðið meiri, bæði hjá flytjendum og áheyrendum.  Unnið hefur verið að því að efla tónlistarlífið í kirkjum landsins og hefur verkefnisstjóri kirkjutónlistarinnar lagt þar mikið af mörkum.   Ekki er lengur starfandi skólaráð tónskólans heldur hefur starfsreglum verið breytt og kirkjutónlistarráð verið skipað sem er fagráð um kirkjutónlistina.

Samvinna

Stjórnsýsla þjóðkirkjunnar er flókin og býður upp á árekstra ef fólk hefur ekki sömu sýn á verkaskiptingu og valdmörk hvers aðila fyrir sig.  Þannig var um biskup, forseta kirkjuráðs og kjörna fulltrúa í kirkjuráði og því voru fengnir 3 lögfræðingar til að greina, skýra og gefa álit á ábyrgð biskups Íslands annars vegar og kirkjuráðs hins vegar.  Það álit liggur nú fyrir og er að finna á vefsíðu þjóðkirkjunnar, kirkjan.is.  Ég hvet presta  til að kynna sér efni álitsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögfræðingar eru fengnir til að veita slíkt álit því í kjölfar lagasetningar árið 1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og umfjöllunar kirkjuþings um hin nýju lög voru fengnir lögfræðingar til að gefa álit á   því hvert væri valdsvið og verkefni kirkjuþings íslensku þjóðkirkjunnar annars vegar og kirkjuráðs hins vegar. Hefur sú álitsgerð verið stjórnvöldum kirkjunnar mikilvægur leiðarvísir á umliðnum árum.

Synodusárið 2015-2016

Nývígðir prestar

Mag. theol. Halla Rut Stefánsdóttir var vígð 16. ágúst 2015, sem skipuð hefur verið sóknarprestur í Hofsóss- og Hólaprestakalli, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.

Cand. theol. Eva Björk Valdimarsdóttir, var vígð 20. september 2015, sem skipuð hefur verið prestur í Keflavíkurprestakall, Kjalarnessprófastsdæmi.

Mag. theol. Jóhanna Gísladóttir, var vígð 20. september 2015 til prestsþjónustu í Langholtssókn, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Cand. theol. Jóhanna Magnúsdóttir, var vígð 15. nóvember 2015 til prestsþjónustu á Sólheimum í Skálholtsprestakalli, Suðurprófastsdæmi.

Mag. theol. Hildur Björk Hörpudóttir, var vígð 7. febrúar 2016, sem skipuð hefur verið sóknarprestur í Reykhólaprestakalli, Vestfjarðaprófastsdæmi frá 1. febrúar 2016.

Nývígðir djáknar

Hrafnhildur Eyþórsdóttir var vígð 20. september 2015, til djáknaþjónustu í Laugarnessókn, Hátúni 10 og 12, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Áslaug Helga Hálfdánardóttir, var vígð 7. febrúar 2016, til djáknaþjónustu í Lindaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Skipanir í embætti

Séra Erla Guðmundsdóttir var skipuð sóknarprestur í Keflavíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 15. maí 2015.

Séra Guðbjörg Arnardóttir var skipuð sóknarprestur í Selfossprestakalli, Suðurprófastsdæmi frá 1. ágúst 2015.

Séra Ninna Sif Svavarsdóttir var skipuð prestur í Selfossprestakalli, Suðurprófastsdæmi frá 1. ágúst 2015.

Séra Petrína Mjöll Jóhannesdóttir var skipuð prestur í Árbæjarprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. ágúst 2015.

Séra Sigurður Grétar Helgason var skipaður prestur í Grafarvogsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. ágúst 2015.

Séra Karl Valgarð Matthíasson var skipaður sóknarprestur í Grafarholtsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. september 2015.

Séra Elína Hrund Kristjánsdóttir var skipuð sóknarprestur í Oddaprestakalli, Suðurprófastsdæmi frá 1. október 2015.

Sr. Skírnir Garðarsson var skipaður héraðsprestur í fjórum prófastsdæmum, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og eystra, Kjalarnesprófastsdæmi og Suðurprófastsdæmi þann 1. janúar 2016.

Séra Skúli Sigurður Ólafsson var skipaður sóknarprestur í Nesprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. febrúar 2016.

Séra Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var skipuð prestur í Nesprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. maí 2016.

Séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn var skipuð prestur í Mosfellsprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. maí 2016.

Séra Guðrún Karls Helgudóttir var skipuð sóknarprestur í Grafarvogsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. maí 2016.

Séra Arna Grétarsdóttir, var skipuð sóknarprestur í Reynivallaprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. júlí 2016.

Lausn frá embætti

Séra Sigfús Baldvin Ingvason, fékk lausn frá embætti prests í Keflavíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi, frá 1. ágúst 2015.

Séra Sigríður Guðmarsdóttir, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Grafarholtsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. september 2015.

Séra Örn Bárður Jónsson, fékk lausn frá embætti sóknarprests Nesprestakalls, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. febrúar 2016.

Séra Vigfús Þór Árnason, fékk lausn frá embætti sóknarprests Grafarvogsprestakalls, Reykjavíkurprófastsdæmi, eystra frá 1. maí 2016.

Andlát

Prestsmakar

Frú Anna Sigurðardóttir, ekkja séra Leós Júlíussonar, lést þann 17. ágúst 2015.

Frú Guðrún Nanna Sigurðardóttir, fulltrúi á Biskupsstofu og ekkja séra Stefáns Eggertssonar, lést þann 21. október 2015.

Frú Erla Gróa Guðjónsdóttir, eiginkona séra Kristjáns Búasonar, lést þann 7. desember 2015.

Árið 2017Árið 2017 nálgast óðfluga.  Árið sem við minnumst 500 ára afmælis siðbótarinnar.  Takist að gefa út nýja handbók fyrir hina íslensku þjóðkirkju og nýja sálmabók, ásamt kóralbók verður það að teljast verðug gjöf til kirkjunnar á siðbótarárinu.   Verum bjartsýn á að það takist.  Verum einnig bjartsýn á að okkur takist að snúa vörn í sókn varðandi umræðu um kirkjuna í  samfélaginu, varðandi úrsagnir úr þjóðkirkjunni, varðandi innri ágreining og valdabaráttu.  Það eru ekki utanaðkomandi öfl sem valda kirkjunni skaða.  Það er innri barátta og skortur á skilningi hópa í milli.
Það verður ekki nógsamlega undirstrikað hvað jákvæðni og bjartsýni fleytir langt í lífsins ólgusjó.  Enda er það í samræmi við fagnaðarerindi Jesú Krists, sem við erum send með út í heiminn.

Um allt land er fólk að þjóna í kirkjunni með einum eða öðrum hætti.  Einn okkar góðu þjóna, Benedikt Jóhannsson var að gefa út ljóðabókina, á leiðinni.  Ljóðin gleðja og kalla fram bros eins og ljóðið Stuð.  Þótt vanur sértu vísindum og veraldlegu puði.  Og þótt þú viljir vera trúlaus  með vinum þínum í stuði.  Á endanum samt ávallt ertu einn  með þínum guði.

Já, það er gott að minnast þess að við þjónum ekki ein og óstudd í kirkjunni.  Kirkja Krists  er til og lifir vegna þess að Kristur er upprisinn, frelsari okkar og lausnari, sem hefur treyst okkur til að flytja boðskapinn áfram til komandi kynslóða.

Orð Guðs er undirstaða alls sem er í kirkjunni.  Í því Orði leitum við huggunar og styrks, leiðbeiningar, visku og þekkingar.

Öll veröldin fagni fyrir Drottni segir í 100. Davíðssálmi eins og sungið var hér áðan.  Það er yfirskrift þessarar prestastefnu.

Göngum með gleði til starfa á þessari prestastefnu.  Göngum með gleði til þjónustunnar í kirkju Krists.  Bræður og systur.  Megi vinátta okkar styrkjast og samheldni okkar aukast.  Prestastefna Íslands árið 2016 er sett.