Ljóð Guðs og Liljuljóð

Ljóð Guðs og Liljuljóð

Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið. Fagnaðarerindið er hin mikla póesía Guðs, að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himinnn. Við erum elskuð og megum elska, vera aðilar að aðal-ástarsögu heimsins.

Bókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía,” Orðið, sem notað er um ljóð í mörgum tungumálum, er af sömu rót. En að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það að stafla orðum í ljóð, heldur líka hitt að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera, að skapa.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt og varðar venjulegt líf. Handverk við tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur skv. þessum lífsskilningi aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í nánum samskiptum, í pólitík, listum og deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Hinn póetíski Guð Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir bresti okkar. Guð elskar, kemur sjálfur og bjargar. Og af því Guð elskar erum við kölluð til að elska einnig.

Elskið Guðspjall dagsins varðar þetta. Það er ræða Jesú um ástina: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“

Hvað þýðir að Jesús elskar og hvaða afleiðingar hefur það fyrir þig? Merking þess, að Jesús elskar er að menn eiga að elska líka. Guð opnar okkur mönnum í Jesú Kristi sýn í elskustyrk ríkis síns með því að færa hina algeru fórn, að fórna sjálfum sér. Um allar aldir hafa menn vitað, að það er mesta fórnin að fórna lífi sínu til að bjarga öðrum. Stíll þeirra, sem fylgja þessum mikla meistara frá Nasaret, frelsaranum, er að elska af því að þannig var hann, elskaði alla, fórnaði jafnvel öllu vegna þeirrar elskuafstöðu. Líf fólks á að vera mettað sömu ást. Og þessi elskuskilgreining veraldarinnar, lífsins og kirkjunnar er sett fram sem boð. “Þetta býð ég, að þér elskið hvert annað.

Lilja Sólveig Í dag syngjum við í messunni nokkra sálma Lilju Sóveigar Kristjánsdóttur. Hún fæddist inn í vorið og dó inn í sumar himinsins – á sumardeginum fyrsta. Hún verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju á miðvikudaginn kemur. Sálmar eftir konur eru ekki margir í sálmabókum þjóðkirkjunnar, en engin kona á í þeim bókum birta fleiri sálma en Lilja. Þetta eru hughreystandi, nátturuvinsamlegir og elskuríkir sálmar. Á aðventunni syngur eða nýtur meiri hluti þjóðarinnar að syngja Við kveikjum einu kerti á. Það er Liljusálmur. Í skátamessum og kirkjum landsins er sunginn trúarjátningarsálmurinn: Stjörnur og sól sem við sungum áðan. Lilja Sólveig var móðursystir mín og hún og móðir mín voru mjög nánar. Í frumbernsku var Lilju komið fyrir í rúmi hjá móður minni sem var á fermingaraldri og gekk þeirri stuttu í móðurstað eins og vanalegt var á barnmörgum heimilum fortíðar. Lilja bjó erlendis í nokkur á og þegar ég fæddist starfaði hún í Noregi. Svo kom hún til landsins um nótt þegar ég var á öðru ári og gisti í stofunni á heimili mínu. Um morgunin fór móðir mín með systur mína í leikskólann og skildi mig eftir heima. Ég varð hræddur og grét hástöfum því ég vissi ekki af þessari “norsku” Lilju sofandi inn í stofu. Þegar hún heyrði hljóðin í smásveininum rumskaði hún og kallaði svo til mín: „Siggi Árni minn – ég er hér.“ Og ég vaggaði inn til hennar, horfði á þessa ókunnugu konu, leist vel á hana og skreið upp í hjá henni, hallaði mér aftur – og steinsofnaði. Frá þeirri stundu vorum við Lilja vinir. „Guð hefur stund, gleymir ei mér, Guð heyrir bænir allar. Tárum í bros, breytir hann hér, barnið sitt mig hann kallar.“

Sálmar verða ekki til úr engu. Hymni verður til í lofsyngjandi sálu. Lilja Sólveig var alla ævi næm á gjörning, ljóðrænu himinsins. Að yrkja var Lilju dægradvöl og hugsvölun alla tíð. Að ljóða var henni að íhuga ást Guðs, ígrunda verk Guðs og hvenig þau tengjast okkur mönnum. Allt varð henni tilefni til að yrkja; lækjarbuna, gleðiefni, sár reynsla, missir, áhyggjur, undur lífsins. Sum ljóð Lilju eru n.k. dagbókarskrif í bundnu máli. Það er samhengi í öllu, sem Lilja Sólveig orkti og hún veitir okkur innsýn í ljóðunum í sál sína og hugarheim. „Góði Jesú, gefðu mér, að geta sofnað rótt í þér, Meðan heilög höndin þín, heldur vörð og gætir mín.“ Þessa kvöldbæn samdi Lilja, þegar hún sjálf var tíu ára. Bænin vísar með efni og tökum fram á þann veg sem Lilja fór síðan. Sami boðskapur trausts og trúar blasir við í ljóðum hennar - um góðan og umhyggjusaman Guð sem ekki bregst. Með árunum og lífsreynslu dýpkuðu sálmar og ljóð og skuggarnir urðu jafnframt skarpari. Fólkið hennar á Brautarhóli í Svarfaðardal, þar sem hún fæddist og ólst upp, tengdist Guði persónulegum böndum. Trú þess var ekki ópersónulegur siður eða formlegur rammi, heldur náið og elskulegt samband við Guð. Lífsafstaða þessa fólks, sem hún þáði í arf, var jákvæð og traust, að öll veröldin sé orðin til vegna þess að Guð elskar. Hún lifði því í póesíu Guðs. Lilja orkti af hrifningu um lífið, náttúruna og fólk - tjáði að heimurinn sé fagur og lífið stórkostlegt. En hún átti einnig vonarhöfn á himnum. „En kærust verður koma þín er kvöldar hinsta sinn. Þú leggur aftur augun mín og opnar himin þinn.“

Himneska heimsljóðið

Jesús sagði: „En ég kalla yður vini ... Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður... ... Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ Lilja var næm á póesíu heimsins, að lífð er samfelld verðandi líkama og anda. Hún hreifst af póesíu Guðs í náttúrunni og mannlífinu. Og hún tók alvarlega boð Jesú að elska. Því umvafði hún alla sem tengdust henni elskusemi og vandaði sig í samskiptum og tengslum. Saga hennar var brot ástarsögu Jesú í heiminum. Jesú sagði „...elskið hvert annað.“ Það er ástarljóð Jesú til þín og hann vonast til að þú játist þeirri ást og iðkir það ljóðamál í lífi þínu.

Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið. Fagnaðarerindið er hin mikla póesía Guðs, að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himinnn. Við erum elskuð og megum elska, vera aðilar að aðal-ástarsögu heimsins. Amen.

Flutt í Hallgrímskirkju, 3. maí, 2015.

Bæn á 4. sunnudegi eftir páska – söngdegi – cantate.

Guð söngsins Gef að við mættum syngja þér nýjan söng. Þú hefur gert dásemdarverk – gef okkur rödd, mál og söng í lífi okkar. Gef að söngur um ást þína megi hljóma í öllu því sem við iðjum. Þökk fyrir öll þau sem hjálpa okkur að syngja um þig og til eflingar gleði í heimi.

Blessa samfélag okkar Íslendinga. Legg þú verndarhendi á forseta, ráðherra, þingmenn og dómara. Gef þeim réttlæti og þjónustuanda og vit til að greina milli eigin hags og almannahags.

Fyrir Jesú Krist, Drotinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Guð frelsis og lækningar Þökk fyrir páska – fyrir að lífið lifir – að þú lifir. Vitja allra þeirra er þjást og syrgja, sakna og gráta. Styrk þau öll og veit þeim von. Gef þeim trú, traust, björg og blessun.

Við biðjum fyrir öllum þeim sem eiga um sárt að binda í Nepal. Vitja allra þeirra sem eru ofsóttir fyrir trú á þig í þessum heimi.

Fyrir Jesú Krist, Drotinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Góði Guð Blessa þú heimili okkar. Gef okkur vit til að viðurkenna mistök okkar og kraft til að biðjast fyrirgefningar þegar við höfum brotið af okkur, mátt til að styðja heimilisfólk okkar til góðra starfa.

Gef að heimili okkar mættu vera vaxtarreitir til hamingju, iðkunarstaðir góðra gilda og glaðvær vettvangur fyrir fólk. Opnir staðir söngsins og faðmar fyrir hina grátandi.

Gef að við mættum lifa með þér og vera farvegir þínir. Hjálpa okkur að lifa í ástarsögu þinni og miðla henni í lífi okkar.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drottinn heyr vora bæn.

Amen

Textaröð: B Lexía: 5Mós 1.29-33 Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.

Pistill: 1Jóh 4.10-16 Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Guðspjall: Jóh 15.12-17 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.