Ágirndin

Ágirndin

Guðspjall: Mk. 10. 17-27 Lexia: 5. M. 10. 12-14 Pistill: 1.Jh. 2.7-11

Í guðspjalli dagsins segir frá ferðalangi sem lagði leið sína til Jesú og lagði fyrir hann spurningu. Hvað er vitað um þennan mann sem kemur til Jesú á veginum og leggur fyrir hann spurningu? Í frásögunni er þess getið að hann sé ríkur. Hann hefur því mjög sennilega haft nokkur völd í samfélagi síns tíma. Í Matteusarguðspjalli er hann talinn ungur. En varla hefur hann verið mjög ungur að árum, sennilega á miðjum aldri, hafði fótavist því hlaupið gat hann samkvæmt frásögunni. Hreykinn hefur hann verið af stöðu sinni og auðæfum, allvel bjargálna. Lögmálshlýðinn hefur hann verið því alls þessa sem frá greinir hafði hann gætt frá bernsku.

En það var eitthvað að. Þrátt fyrir allt var eitthvert tómarúm í lífi hans og því spyr hann þennan meistara sem mikið orð fór af fyrir visku sakir: "Hvað á ég að gjöra til þess að ég erfi eilíft líf?" Spurningin er um hjálpræðisgrundvöllinn, hún er spurningin um leiðina inn í konungsríki himnanna. Jesús undirstrikar fyrst þýðingu Móselögmálsins, ekki mun einn stafkrókur þess úr gildi falla. Maðurinn var með á því.

En þá kemur krafan um að hann selji allar eigur sínar og komi síðan og fylgi Jesú. Hvers vegna setur Jesús þessa kröfu fram í tilviki þessa manns? Jesús var ekki vanur að krefjast þess af eftirfylgjendum sínum að þeir gæfu eigur sínar. En hér er það algjört skilyrði. Hér er þessi krafa fram sett vegna þess að eigur mannsins stóðu í vegi fyrir andlegum þroska hans. Jarðneskar eigur mannins voru hinn raunverulegi farartálmi á leið hans til guðsríkisins, til eilífa lífsins. Þær voru ástæðan fyrir tómleikanum í hjarta hans. Þær urðu þess valdandi að samband hans við Guð rofnaði. Í dag er fjöldi fólks þessum sporum. Það leitar að lífsfyllingu og heldur að það fái hana með dauðum hlutum. Þess í stað verður tómleikinn innra með því meiri ef eitthvað er.

"Því að hvað mun það stoða manninn, þótt hann eignist allan heiminn en fyrirgjöri sálu sinni?" Hér er Kristur að tala um það sama. Er það satt að maðurinn sé tilbúinn að selja sál sína fyrir jarðneska hluti? Já, sú hryggilega staðreynd blasir við okkur í dag. Í dag virðast foreldrar jafnvel vera tilbúnir að leggja hamingju sína og heill barna sinna og einingu hjónabandsins á altari lífsgæðakapphlaupsins.

Það er of djúpt í árina tekið að halda því fram að hvít þrælasala eigi sér stað eða að fólk gangi kaupum og sölum hér á landi. E.t.v. er nú samt styttra í það en við höldum. En minnug skulum við vera orða Jesú um það að djöfullinn hefur þann eiginleika að geta birst í fjöldamörgum dulargervum. Mammon er eitt af þessum gervum, blekkingin er annað. Oft tvímenna þau hjú á sama folanum og kann það sjaldnast góðri lukku að stýra.

Maður nokkur bjó búi sínu í Svíþjóð. Vetrarmorgun einn fannst hann örendur í rúmi sínu. Hann hafði króknað úr kulda. Í ljós kom að gamli maðurinn taldi sig ekki hafa haft ráð á því að kveikja upp í ofninum sínum. Hann hafði þó ekki aðeins átt jörðina skuldlausa heldur líka peninga í banka. Það var sál hans sem hafði dáið úr ágirnd. Svo langt getur ágirndin leitt menn að þeir tíma ekki einu sinni að borða, klæða sig eða hita upp hús sín sæmilega af því að þeir eru að spara.

Mammón er sannarlega harður húsbóndi, hvort sem hann rekur menn út í óhóf og eyðslu eða nísku og naglaskap.

Þar sem ég er nú dottinn ofan í sögur þá ætla ég að halda áfram að segja sögur.

Þessi saga minnir mig á frásöguna um hinn lata þjón sem gróf það sem hann átti að ávaxta í jörðu. Er þá veraldleg fátækt sáluhjálparatriði?

Maður nokkur sigldi eitt sinn frá Írlandi til Ameríku. Í farangri hans kenndi ekki margra grasa. Þar voru gatslitnar buxur og sálmabók. Er hann kom til Bandaríkjanna hóf hann almenn verkamannastörf en hóf síðan störf við járnbrautir sem hann eignaðist síðar allflestar. Hann gjörðist auðugur mjög. En er hann dó átti hann ekkert eftir, hann hafði gefið allt til mannúðar-og menningarmála. Lifsmottó hans var: "It is a disgrace to die rich", sem útleggst: Það er smán að deyja ríkur. Hann hét Andrew Carnegie, við hann er t.d. Carnegie Hall í New York kennd.

Þessi maður ávaxtaði sitt pund vel. Hann skynjaði möguleika þess að hagnýta það vald sem fjármunir hafa í þágu hins góða og uppbyggjandi. Fjármunir hans stóðu lífi hans og sálarheill ekki fyrir þrifum og þess vegna mun honum hlotnast það sem Kristur lét húsbóndann í dæmisögunni segja: "Gott þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig" (Matt. 25.23)

Mér hefur oft dottið í hug sagan um húsbóndann, talenturnar og þjónana þegar ég hef hlýtt á fólk tala illa um þá sem komið hafa ár sinni vel fyrir borð. Vissulega hafa margir auðgast á mjög svo vafasaman hátt og síst ber að lofa það. En til eru þeir sem hafa þorað að stíga upp úr djúpi hinna illu og lötu þjóna, menn sem hafa lyft grettistaki samfélaginu til góðs. Einn ágætur útgerðarmaður í litlu sjávarplássi veitti fjölda fólks atvinnu sökum mannvits og ráðdeildar. Fólkið í plássinu kunni að meta þennan mann. Fjármálavit í þágu hins góða, t.d. í byggingarmálum sjúkrahúsa eru Guðs gjafir sem þakka ber fyrir.

Peningum fylgir ákveðið vald og það er alls ekki sama hvernig því valdi er beitt. Hér er ábyrgð hins kristna einstaklings mikil.

Í heiminum er þrenging. Púðurfnyk og nálykt ber að vitum manna. Stríðsrekstur er fjárfesting, maðurinn er fjárfesting. Allt er leyfilegt, allt er réttlætanlegt, samviskunni er fleygt á hauga líkt og slitnu fati. Maður 20. aldarinnar spyr líkt og maðurinn á veginum forðum: "Hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

Margt hefur breyst síðan þarna á veginum forðum. Heimsmyndin er gjörbreytt. En hefur eðli mannsins breyst? Nei, alls ekki. Í dag er tómleikinn jafnvel enn ógurlegri.

Ungur maður fannst örendur í Norðurmörk í Noregi. Hann hafði fyrirfarið sér. Engin skilríki fundust á honum heldur einungis lítill miði sem á voru skrifuð fjögur orð: "Vonlaus, vinalaus, vinnulaus, vegalaus".

Það er hryllilegt að vera einn og yfirgefinn í heiminum. Er til nokkuð átakanlegra en maður sem allir hafa snúið baki við? Já, maður sem telur að Guð hafi snúið baki við sér. Ekkert er voðalegra en að telja sig yfirgefinn af Guði, að þrá vináttu Guðs, gleði og frið Guðs, návist Guðs en finna svo að Guð er víðsfjarrri. Það er sárasta kvöl lífsins. Þetta mátti Jesús sjálfur þola á krossinum en þar sagði hann:"Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?". Það var dýpsti sársauki krossins, kvöl glötunarinnar.

En mitt í þjáningunni og einsemdinni er Guð nálægur á sinn óskiljanlega máta með sinn fórnandi kærleika.

Mér dettur í hug eitt af ævintýrum H.C. Andersen, ævintýrið um gömlu konuna á ströndinni. Gamla konan bjó í fátæklegum kofa. Þetta var um vetur og sjórinn var lagður. Fjöldi ungmenna renndi sér á skautum þarna á ísnum fyrir neðan kofann hennar. Gamla konan fylgdist með leik þeirra en allt í einu veitti hún athygli skýjabakka sem dró sig saman. Hún vissi hver fyrirboði þetta var og skildi því hina aðsteðjandi hættu. Fyrirvaralaust myndi stormurinn skella á og brjóta ísinn. Hún byrjaði að hrópa og kalla en enginn heyrði til hennar vegna hávaðans á ísnum. Hvað gat hún nú tekið til bragðs? Jú, hún hljóp inn í kofann og lagði eld í rúmið sitt. Brátt skíðlogaði í kofanum hennar. Ungmennin tóku fljótlega eftir eldinum og reyknum sem lagði upp af kofatetrinu. Skundað var í land til þess að athuga hvað væri á seyði. Er þangað kom var kofinn brunninn til ösku og gamla konan dáin. Hún hafði fórnað öllu sem hún átti, eignum sínum og lífi til þess að bjarga ungmennunum.

Hér segir H.C. Andersen fallega sögu af hinum fórnandi kærleika. Baksvið þessarar sögu er friðþæging Jesú Krists, hann fórnaði öllu, hans fórn var algjör.

Kærleikur Guðs er skilyrðislaus. Slíkur á kærleikur mannanna einnig að vera. Óþvingað verður hann fram að streyma, laus við hroka, öfund og annað slíkt. Ef allir kristnir menn leggjast á eitt þá munu hinir vonlausu eignast von, hinir vinalausu mun eignast vini, hinir atvinnulausu mun eignast atvinnu og hinir vegalausu munu ná áttum og koma auga á þann veg sem liggur til eilífs lífs sem er Jesús Kristur sjálfur. Amen.