Guðs barn og bróðir Jesú Krists

Guðs barn og bróðir Jesú Krists

,,Sonur Guðs, umskapa hjarta mitt. Andi þinn gefur fuglum sönginn og býflugum suðið. Ég bið þig aðeins um eitt kraftaverkið enn. Fegra sál mína.” E.t.v. bendir þessi forna keltneska bæn á kraftaverkið, að sál, vera og vitund fegrist og endurspegli guðlega nánd og tilgang.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
28. ágúst 2012
Flokkar

Lexía: Jes. 29.17-24 Pistill: 2. Kor 3.4-9 Guðspjall: Mark. 7.31-37

Það líður á sólbjart og gjöfult sumar, sem hefur verið viðburðaríkt um margt hér á landi sem og víðar, að minnsta kosti á sjónvarpsskjáum, þar sem Ólympíuleikar hafa verið sýndir með íþróttaafreksverkum sínum og tilkomumiklum opnunar- og lokahátíðum. Þingvellir hafa verið fjölsóttir af ferðmönnum erlendis frá og innlendum, og auðvitað líka núna í ágúst. Og enn getur það hafa hent svo sem segir í sönglaginu góða, að... ,,á ágústkvöldi/ austur í Þingvallasveit/ gerðist í dulitlu dragi/ dulítið sem enginn veit,/ nema við og nokkrir þrestir/ og kjarrið græna inn í Bolabás...” Það er að minnsta kosti réttlætanlegt að fagna einlægri ást og lífsgleði.

Landslag Þingvalla hefur sem jafnan hrifið í sumar með einstæðri fegurð sinni, grónum völlum, mosa og lyngi í gjám og gilskorningum, bláma vatnsins sem endurspeglar himinbirtuna og blæbrigðum hamrabeltanna og glæstri ásýnd fjallahringsins. Lágreist en þó tignarleg Þingvallakirkja vísar til Guðs, sem líf og fögnuðinn gefur og gjört hefur sér musteri í náttúru Þingvalla, þar sem hjarta landsins slær og saga þjóðarinnar birtist í máttugum myndum.

Vel fer á því að færa barn hér til skírnar í kirkjunni og þakka með því Guði, sköpun þess og líf, færa það honum í trú og bæn um það, að ljós hans og lífsandi fái sem best bundist hjarta þess og huga í Jesú nafni og lýst upp veginn fram. Skírnin skuldbindur ykkur foreldra og ástvini Guðmundar Egils til að glæða með honum guðsvitund og elsku og segja frá Jesú, syni og ásjónu Guðs á jörðu, viðhorfum hans og verkum, og sinna kirkjunni hans og trúarsamfélagi.

,,Allt gerir hann vel” sögðu þau sem urðu vitni að lækningu Jesú á hinum daufdumba og málhalta manni. Biblían hefst á því að gera grein fyrir sköpun heimsins. Þar segir að Guð hafi skapað himin og jörð og allt lifandi og kvikt, og þessi orð eru endurtekin eftir hvern sköpunardag. ,,Og Guð sá að það var gott.”

Er við þiggjum góðar gjafir Guðs sköpunar, líf og ljós, fegurð og yndi, erum við minnt á elsku hans. Og þrátt fyrir þá röskun, sem ill uppreisnaröfl hafa leitt yfir sköpun hans, skín hinn upprunalegi góði vilji Guðs og veruleiki í gegnum tilveruna.

Í guðspjallinu er sá þó í sviðsljósinu, sem ber með sér annmarka og röskun á sköpunarverki Guðs. Hann er daufdumbur, heyrir hvorki né talar og skynjar því ekki umhverfi sitt sem skyldi og einangrast frá því, þótt reyni auðvitað að tjá sig. Jesús hvetur aldrei fylgjendur sína til að sætta sig við böl og helsi. Orð hans voru enda á allt annan veg þegar hann hitti fyrir sjúka og þjáða. Þau bættu úr annmörkum og leystu fjötra. Þau veita samt ekki rökræn svör við gátum illsku og þrenginga. Jesús ræðir það ekkert við hinn fatlaða mann hví í ósköpunum hann sé eins og hann er en gerir honum á táknrænan hátt grein fyrir því, að hann ætli að opna eyru hans og losa um haft tungu hans, til þess væntanlega líka að glæða trú hans og von og hæfni til þess að taka við himneskum frelsandi mætti.

Jesús andvarpar og það andvarp er undanfari bænar. Hann finnur til með þeim sem þjást og líða. Öll mæða og andvörp þjáðra manna verða að andvarpi hans. Í Jesú Kristi opinberast hugur Guðs og hjartalag. Hann heyrir og skynjar andvörpin öll og tekur þau að sínu föðurhjarta. ,,Allt gerir hann vel.” Þau orð benda ekki aðeins á einstakan atburð heldur vísa fram á veg til þess, að dýrð frelsarans birtist sem augljós sigur á allri raun og illsku í tilverunni. Orð Jesaja spámanns í Lexíu dagsins vitna um þann komandi veruleika. ,,Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók, og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur. Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir hinum heilaga Ísraels.” Krossfórn Jesú og upprisa hans frá dauðum eru áreiðanleg fyrirheit um þann lokasigur. Máttarverk hans eru tákn og merki um komandi lausn og vitnisburður um þann lifanda Guð sem græðir sár og gjörir brotin heil.

Kristin trú felst í því að höndlast af kærleiksanda Jesú Krists og upprisumætti sem veruleika nýs sáttmála Guðs og manns. Hún felst ekki í þröngu lögmáli, ósveigjanlegri reglu og bókstaf, sem kæft getur líf og lífsgleði, svo sem fram kemur í pistli dagsins, heldur í þeim skapandi anda og virkni sem fær framrás til verndar og uppbyggingar lífi á hverri stundu og til að líkna því og lækna það.

Dásamlegt þakkarefni er að fá læknast af mál- og heyrnarleysi en ekki síður að hafa jafnan haft öll skynfæri heil og getað notið þeirra. En það er sjaldan metið sem skyldi. Og því menga, myrkva og fjötra orðin svo oft í stað þess að lífga og leysa, hæfileikar misfarast og illskunni er hampað í stað líknandi gæsku, fórnfúsra dáða og græðandi kærleika. Það telst til tíðinda, þegar kvikmynd lýsir góðum verkum og áhrifum hugrekkis og elsku í stað þess að fjalla um glæpi og misindisverk.

Franska myndin Intoucables, ,,Hinir ósnertanlegu” eða allt eins ,,Hinir viðkvæmu”, sem sýnd er í tveimur kvikmyndahúsum höfuðborgarinnar, er kærkomin undantekning frá myndunum myrku. Eftir að hafa séð hana eru menn enda glaðir í sinni og bjartsýnni en fyrr. Kvikmyndin fjallar, svo sem þið vitið, er hafið séð hana, um samskipti Philippe, auðugs Frakka, og Driss, ungs og fíleflds blökkumanns frá Senegal, sem slæpist á götunum eftir að hafa hrakist frá fósturmóður sinni, er hefur fyrir mörgum börnum að sjá.

Philippe er lamaður alveg frá brjósti eftir svifflugslys og hefur að auki misst ástkæra eiginkonu sína, en hann heyrir þó bæði og talar. Driss er ráðinn til þess að annast Philippe og hlúa að honum enda þótt hann hafi gerst sekur um óskammfeilni í starfsviðtalinu og alls ekki átt von á ráðningunni. Philippe metur strax glaðværð Driss, hreinskilni hans og hispursleysi.

Með óhefluðum aðferðum sínum fjörgar Driss brátt mjög upp á tilveru Philippe en lærir líka af honum að meta verðmæt málverk og sígilda tónlist enda þótt kunni öllu betur við tón og takt í dansslögurunum nýju. Þegar Driss tekst sjálfum að mála furðu góða abstraktmynd selur Philippe hana fyrir dálaglega upphæð sem verk upprennandi listamanns.

Driss ekur á ofsahraða með Philippe í glæsibifreið hans, þegar hann er niðurdreginn og dapur eftir að hafa misst kjarkinn á síðustu stundu til þess að hitta Elinoru, bréfavinkonu sína, á stefnumóti. Þeir eru auðvitað gómaðir af lögreglunni. Phillipe gerir sér þá upp hjartaáfall, svo að í stað þess að handtaka þá og sekta fylgja lögreglumennirnir þeim auðsveipir á sjúkrahús. Þeir félagarnir taka meira að segja upp á því þrátt fyrir slysið örlagaríka, sem lamaði Philippe, að svífa í háloftunum á svifdrekum. Og að því kemur að Driss hagar málum svo, að þau Elinora og Philippe hittast á gefandi stefnumóti. Þegar þeir hverfa hvor frá öðrum félagarnir, sem nánir vinir, er líf þeirra beggja mjög breytt til hins betra. Phillipe og Driss voru veikir og styrkir hvor á sínu sviði. Er þeir lögðu saman efldust þeir og styrktust.

Kvikmyndin, ,,Hinir viðkvæmu”, mun vera byggð á sögulegum grunni, sem gerir hana enn álitlegri. Hún vitnar um það, á svo einkar hrífandi hátt, hve margt gott hlýst af því, ef þeir sem eru heilsuhrausir leggja sig fram um að hlúa að þeim vanmáttugu og særðu með uppörvandi gleði og kjarki og fá fyrir vikið reynt það, að þeir hafa oft mikið að gefa.

Það segir til um gæði hvers samfélags hversu hátt þessum sjónarmiðum er haldið þar á lofti og hve greitt þau fá framgang. Og þess ber að geta að þau sækja sér styrk og stoð í kristinn arf og trú.

Við fylgdumst mörg, svo sem vert var, með Ólympíuleikunum í London, glæstri umgjörðinni og íþróttaafrekunum. Við Íslendingar áttum þar sannarlega góða fulltrúa. Við eigum það líka nú, er aðrir Ólympíuleikar hefjast brátt í London, Ólympuleikar fatlaðra. Þeir láta minna yfir sér en eru ekki síður merkir, því að fagnaðarríkur boðskapur þeirra er sá, að fatlaðir geti látið vel að sér kveða, fái þeir aðstæður og kjör til þess.

Þegar nýtt skólaár er að hefjast ber að þakka það, að fötluðum sé gert fært svo sem kostur er að sækja venjulegan skóla hér á landi og stuðlað sé að eðlilegri blöndun nemenda í skólum fremur en aðgreiningu. Þetta hefur aukinn kostnað í för með sér fyrir fræðslukerfið en færir með sér margvíslega blessun fyrir samskipti og samfélag.

Hver menntastefnan er varðar miklu fyrir framtíðina. Í framsæknu samfélagi þarf að bjóða upp á fjölbreytta fræðslu- og þekkingarkosti en jafnframt verður að glæða siðferðisvitund og lífsskilning, vilja og þrá til að þroska hæfileikana til að láta gott af sér leiða, þroska næmleika fyrir lífinu og þörfum þess. Guðstrúin í Jesú nafni er þar hvati og hreyfiafl og verður því að fá að segja vel til sín svo að rétt sé stefnt og farsællega.

Effata, Opnist þú. Lausnarorð Jesú Krists eru ekki aðeins saga úr fortíðinni, þau varða nútíð og framtíð, farnað og heill í viðtækasta skilningi. Eftir krossfórn hans og upprisu frá dauðum og úthellingu andans helga, er höndla vill alla til hjálpræðis í Jesú nafni, á ekki að halda kraftaverkum hans leyndum. Segja ber fagnandi frá þeim sem víðast og breiða út orð hans og erindi um elsku Guðs og tilgang lífsins, tala og vitna um hann af einlægni og kjarki sem krossfestan frelsara er líður með þeim sem þjást en einkum þó vitna um hann sem upprisinn Drottin er enn vinnur máttarverk, líknar og læknar fyrir trú og bæn.

,,Sonur Guðs, umskapa hjarta mitt. Andi þinn gefur fuglum sönginn og býflugum suðið. Ég bið þig aðeins um eitt kraftaverkið enn. Fegra sál mína.”

Ef til vill bendir þessi forna keltneska bæn á kraftaverkið mesta, að sál, vera og vitund manns fegrist og fái endurspeglað guðlega nánd og tilgang. Bænin á vissulega heima hér í Þingvallakirkju á björtum ágústdegi er haustið húmar að og við þökkum sumrið góða og einkum þó skírn Guðmundar Egils. Skírnin vísar til þess, að jafnframt því sem hann er barn ykkar foreldra sinna, er hann Guðs barn og bróðir Jesú Krists og þarf að fá að heyra fagnaðarerindi hans og geta séð lífið í ljósi hans. Til þess að geta borið skin þess og fegurð inn á veg sinn allan. Guð gefi að hann geri það og reyni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.