Trúir þú á kraftaverk?

Trúir þú á kraftaverk?

Kraftaverkasögur eru opnunarsögur. Tilgangur þeirra er ekki þekkingarfræðilegur, heldur varðar hamingju manna og lausn fjötra. Kraftaverk varða kraft tilverunnar en ekki úrelta heimsmynd, Guðstengsl en ekki náttúrulögmál. Sagan af laugarbarminum er um nýtt upphaf og nýtt líf.

[audio:http://db.tt/Qu1JLCkl] Þegar allt er á floti í íbúðinni okkar og rafmagnið slær út hringjum við ekki í rafvirkjann! Vænlegra er að hafa samband við píparann. Það getur auðvitað verið tilefni til að hringja í sálfræðing ef við keyrum út í móa. En ef einhver er slasaður hringjum við í 112 – nú eða dráttarbíl ef bíllinn er bara fastur. Ef við erum gjaldþrota eða erum með fjármálin í graut ættum við ekki fyrst af öllu að rjúka út í búð til að kaupa happdrættismiða. Þegar allt er hrunið fara sumir í örvæntingu sinni og kaupa lottómiða og vona að kraftaverkið verði, peningarnir komi hrynjandi í stórum slumpum. Ef við gerum sömu mistökin æ ofan í æ er ráð að fara að tala við sálfræðinginn eða prestinn og fara að vinna með viðbrögð, mótun, bernsku og félagsaðstæður. Rétt greining aðstæðna og skilvirk úrvinnsla er aðalmálið. Við leitum stundum að svörum á röngum stað. Og það er auðvelt að festast í rangri skýringu, afstöðu og viðbrögðum.

Lottó á laugarbarmi Texti dagsins varðar lífsafstöðu okkar manna. Þar kemur við sögu biðlisti í heilsugæslukerfinu. Listinn sá er hrikalega langur, maður er búinn að bíða eftir lækningu í nær fjóra áratugi! Ekkert 112, enginn björgunarsveit bara ofurlítið lottó á laugarbarmi. Frásögn Jóhannesar guðspjallamanns er mjög nákvæm. Hann segir frá staðsetningu heilsulindarinnar í Betesda við Sauðahliðið í Jerúsalem, lýsir vel húsaskipan og aðstæðum, rétt eins og hann væri að lýsa leið og aðbúnaði í Bláa Lóninu eða Heilsuhælinu í Hveragerði.

Til þessa líknarhúss og líknarlindar sótti stór hópur fólks. Þar hefur verið uppspretta. Hugsanlega hafa loftbólur komið upp, einhver hreyfing orðið og þá var töfrastundin, augnablikið sem allir biðu eftir. Lindir eru misgóðar og henta mismunandi lækningum eins og við vitum. Bláa lónið er eitt og miklar stofnanir hafa verið byggðar upp víða erlendis við lækningalindir. Um allan heim eru svona staðir fyrir sjúkt fólk, sem leitar lausna meina sinni. Og sögur verða til um hvenær og hvernig menn læknast. Samkvæmt alþýðusögninni um þessa lind nærri Sauðahliðinu kraumaði í keri laugarinnar. Fólk taldi og sagði, að það væri engill sem hrærði í vatninu. Fólk vildi trúa að sá eða sú, sem fyrst færi ofan í eftir engilhræruna, yrði heill eða heil. Því var hópur fólks tilbúinn í augnablik töfranna.

Jesús á bakkanum Á laugarbakkanum var sjúkur maður sem hafði komið sér þar fyrir. Í guðspjallinu segir fallega: „Jesús sá hann.“ Og Jesús kom til hans og bar upp spurningu sem var nú eiginlega fáránleg og sjálfsagt enginn annar sem spurði svo: „Viltu verða heill?“ Maðurinn hefði auðvitað getað svarað í axarskaft. En Jesús vissi, að hann var langlegusjúklingur, hefur líklega oft séð hann. Svarið var einfalt: „Jú auðvitað vil ég verða heilbrigður. Ég hef verið sjúkur í öll þessi ár, mannsævi, 38 ár.“ Svo minnir hann Jesú á að engin lækning sé möguleg því enginn sé til að velta honum í laugina þegar lækningar sé von.

Jesús fer engar krókaleiðir, heldur kemur magnlausum manninum á fætur og býður honum að fara með flet sitt. Krafturinn kom snöggt, hugurinn ringlaðist og manninum var ómögulegt að gera heilbrigðis - og helgidagalögreglu Gyðinga grein fyrir hver hafði unnið hið þarfa verk á honum. Þeir hittust svo síðar, Jesús og hinn nýlæknaði og upprisni maður og þá minnti Jesús hann á að syndga ekki framar, lifa vel. Kraftaverkasögur Hvað eigum við nú að segja um svona sögu? Er hún bara um biðlista sjúkrahúsanna, um 112, um skottulækningar eða eitthvað annað? Hvað segið þið heilbrigðisstarfsfólk, sem eruð í kirkju í dag? Er þetta kannski ein af þessum upphöfnu og ljúfu ævintýrasögum um Jesú, sem við þurfum ekki að velta vöngum yfir? Margir eru í keng yfir kraftaverkasögum. Það er skiljanlegt því málfar Biblíunnar er forvísindalegt og erindið handanvísindalegt. Biblían segir öðru vísi frá en ef hún hefði verið skrifuð í samtíma okkar, því samhengi, samfélag og þekking hefur breyst. Og það skiptir máli að skilja markmið og erindi sagna og skrifa Biblíunnar til að skilja erindi hennar. Við þurfum að sjá kraftaverkasögur í nýju ljósi.

Heldur þú, að tilgangur kraftaverkasögu sé að fá þit að trúa einhverjum yfirnáttúrulegum atburði? Nei, hlutverk þessara frásagna í Biblíunni er ekki að fá okkur til að trúa hvernig hlutir gerast. Þessar sögur eru ekki rannsóknarskýrslur um ferli eða náttúrulögmál. Þessar sögur eru ekki uppteknar af hvernig heldur af hverju og til hvers. Þær beina sjónum fyrst og fremst að tilgangi, dýpri rökum, lífsskilyrðum, andlegum gæðum, innsæi og visku.

Kraftaverkasögur eru sögur til að kalla fram viðbrögð og visku í fólki, hjálpa því að skilja og sjá sig í réttu samhengi. Kraftaverk varðar að fólk læri lífsleikni, skilji hvar svörin er að finna gagnvart lífsgátunni. Þar með eru kraftaverkasögur ekki í stríði við vísindi. Það er ekki trúaratriði hvernig menn skilja náttúrlögmál í tengslum við kraftaverkasögur. Sumir hafa mjög víða sýn á efnisveruleikanum og eiga ekki í neinum vandræðum með frávik, aðrir skilja þröngt og vilja enga lausamennsku í vísindum eða skýringum á viðburðum. Og það er í góðu lagi og að mínu viti í góðu samræmi við heilbrigða trú, að menn séu gagnrýnir í skýringum og trúi hvorki með einfeldni né bókstaflega. Kraftaverkasögur eru alltaf opnar og frásögnin er á mörgum plönum. Tilgangur þeirra er ekki þekkingarfræðilegur, heldur varðar dýpri rök, hamingju manna og velferð. Merkilegar sögur megna stundum að opna vanda og veröld með nýjum hætti og leysa þar með fjötra. Kraftaverk varða kraft tilverunnar en ekki úrelta heimsmynd og vísindi. Kraftaverk varða Guðstengsl en ekki náttúrulögmál. Og þá getum við farið að íhuga sögu dagsins í fimmta kafla Jóhannesarguðspjalls og boðskap hennar.

Viltu verða heill? Jesús sá manninn á laugarbarminum og spurði: „Viltu verða heill?“ Svarið sem hann fékk var „Já, en“ og svo komu skýringarnar. Jesús spurði vinarspurningar: „Að hverju ertu að leita.“ Það er þetta „já en” sem einkennir svar okkar margra. Við leitum að svörum á röngum stað. Það er sjálfsblekking, að greina ekki meinið rétt og ruglast því fullkomlega á því hvar lækningu er að finna.

Viltu verða heill? Maðurinn horfði á hræringu vatnsins og vildi fleygja sér í heita pottinn þegar rétta stundin kæmi og engillinn færi um. Þetta er trú á töfrastundina og á sér hliðstæðu í fólki allra alda. Þegar stór heilsufarsáföll verða í lífi fólks er á okkar tímum leitað til sjúkrastofnana. Þegar lækningar bregðast er oft leitað til kuklaranna. Þegar þeir bregðast er hægt að vitja miðla og þegar þeir bregðast er leitað til trúarinnar. Hvað er trúin í því sambandi? Er hún galdra- eða töfratrú, trú á að Guð sé einhvers konar hinsta 112-björgunarlið, þegar annað hefur brugðist, síðasta hálmstráið.

Guð, skapari, lausnari og andi heimsins sem hálmstrá? Það er dapurleg afstaða til trúar því trú er allt annað og meira en síðasta haldreipið. Trú er að tengja sig við upphaf og endi alls sem er, uppsprettu alls, orkubú alheimsins, Guð. Guð er ekki strá, ekki björgunarsveit, heldur sá sem gefur lífið, efnið, lækningu – allt þetta sem þú hefur mestan áhuga á. Guðspjall dagsins lyftir upp spurningunni: Ertu heilbrigður eða heil? Er veraldarsýn þín í samræmi við sýn Guðs? Ertu í sambandi við lifandi trúarheim? Ertu kanski heilsulaus á laugarbarminum og bíður? Jesús sá mannin, kemur og segir: „Rístu á fætur. Hér er lækning lífsins, njóttu og lifðu vel.”

Rækt trúarinnar Jesús sá manninn með hugann fastan við ranga aðferð og lausnarleið. Jesús kom til hans og gaf honum lífið. Kraftaverkið er ekki í lauginni, ekki í skottulæknunum, ekki miðlunum, ekki lyftumönnum við laugarbarm. Undrið mikla er að Guð sér þig -þegar þú ert vanheil eða veikur og líka þegar þú ert í fullu fjöri.

Guð sér og er þér nærri alltaf og í öllum aðstæðum. Það er kraftaverk þitt, heimsins alls. Guð kemur til þín á þinn laugarbarm og segir þér: “Rístu á fætur, lifðu vel og með ábyrgð. Lifðu í góðum tengslum við Guð og njóttu því hins góða og farsæla lífs.”

Amen

Neskirkja 25. september, 2011

14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - Textaröð B

Lexía: Slm 103.1-6 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn; lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn. Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn. Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.

Pistill: Gal 2.20 Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.

Guðspjall: Jóh 5.1-15 Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“ En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.