Þegar gott verður illt

Þegar gott verður illt

Freistingar nútímans heita neysla, spenna og vald. Þau geta verið slæmir hjáguðir.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
21. febrúar 2010
Flokkar

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er fyrsti sunnudagur í föstu og liturinn á messuklæðunum er þess vegna orðinn fjólublár. Fjólublátt er litur iðrunar og íhugunar.

Íhugunarefni okkar í dag er frásagan af freistingu Jesú í eyðimörkinni. Í lífi sínu og starfi mætti Jesús margvíslegum freistingum eins og til að mynda þeim að misnota vald sitt sjálfum sér til framdráttar. Guðspjallstextinn endurspeglar þessa baráttu, sem Jesús þurfti að glíma við alveg fram á hinstu stundu þegar hann dó á krossinum. "Frelsaðu sjálfan þig af krossinum!” “Breyttu þessum steinum í brauðmola!” “Sýndu okkar kraftaverk, ha, sýndu að þú getir eitthvað, maður!”

Allir verða fyrir freistingum á lífsleiðinni; ég, þú, manneskjan við hliðina á þér. Við höldum oft að freisting sé það að langa til að gera eitthvað, sem er bannað. Breyskleiki heitir það að þegar við gerum það, sem við vitum innst inni að er rangt. Svoleiðis freistingar eru reyndar margar til.

En er eitthvað rangt við það breyta steinum í brauð til að seðja hungur sitt með, - það er að segja ef maður hefði nú máttinn til að gera það? Ég held ekki! Allir þurfa að borða til að geta lifað. Það er bæði hollt og gott að borða. Flestir snæða og fá sér hressingu fimm sinnum á dag. Að borða er eitthvað, sem er í sjálfu sér jákvætt. Og þetta er fyrsta freistingin, sem skrattinn teflir fram. “Fáðu þér að borða, ljúfurinn, og nóttu matarins!”

Stundum getur það, sem er gott í sjálfu sér, orðið að freistingu, orðið til þess að við komumst í vandræði og það fer að reyna á okkur. Það er um svoleiðis freistingar, sem ég ætla að tala um í dag við ykkur.

Hún amma mín sagði alltaf að það þyrfti sterk bein til að þola góða daga. Þetta þótti mér lengi vel hin furðulegasta setning. Hvernig getur það, sem er gott í sjálfu sér, orðið manninum að fótakefli, komið honum í ógöngur þannig að hann tapi sér og allt fari fjandans til?

Ég hef gaman af því að elda mat. Í gær fann ég fína uppskrift að karrýkjúklingi í Silfurskeiðinni, sem er Biblía ítalskrar matargerðarlistar. Þá góðu bók fékk ég í bóndadagsgjöf og í dag er konudagurinn, fyrsti dagur Góu og þá stendur upp á okkur karlana að gleðja spúsur okkar. Það er gaman að borða gómsætan mat og það er líka gaman að kaupa eitthvað, sem mann langar í. Ég fæ vatn í munninn við að hugsa um hægeldaðan mat með kryddi og dýrum veigum. Og ég játa það líka að ég fæ stundum svolítið kikk út úr því að fara í bókabúðir og versla. Að borða og kaupa, að eignast og njóta. Eitt orð yfir þetta: Neysla!

Fátt veitir nútímamanninum meiri hamingju en að kaupa og njóta. Og almenn neysla er stór þáttur í hagkerfi okkar. Að fara í verslunarmiðstöðina á laugardegi er fastur liður í tilverunni hjá mörgum, stundum er bara farið til að skoða. Þannig halda margir upp á sinn hvíldardag. En lífið á ekki bara að snúast um neyslu. Ekki lifir maðurinn á brauði einu saman. Freisting neyslunnar er sú láta hana yfirtaka öll svið tilverunnar, vera í fyrirrúmi og það, sem stjórnar okkur, mótar hugsanir og framferði. Taumlaus neysluhyggja er það þegar maginn er orðinn okkar guð og hamingjan er það að eignast nýja spjör á hverjum degi.

Stundum getur verið of mikið af því góða. Hann Siggi Sveins ber skít á túnið á Góustöðum. En góður bóndi veit að það er hægt að bera of mikið á. Sé það gert þá sviðnar túnið eða brennur eins og það er kallað.

Allt er best í hófi. Hófsemi er ein af dyggðunum sjö. Forn-Grikkir nefndu hana dyggð dyggðanna. Að hafa allt í jafnvægi, ætla sér ekki um of, fara ekki offari, þekkja sín takmörk.

Hvað segir það um okkur Íslendinga að Reykjavík hefur fleiri verslunarfermetra per íbúa en nokkur önnur borg Evrópu, fleiri bíla per íbúa en aðrar borgir Evrópu og mengun er þar meiri en á götum Dýflinnar? Við erum neyslufrík. Enda fríkuðum við út í velmeguninni. Útrásin var einmitt hámark neysluhyggjunnar og græðginnar.

II.

„Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“

Ég held að þessi freisting snúist um spennu. Það er gaman að lesa spennusögur, horfa á spennumyndir, að ég tali nú um adrenalínið, sem getur flætt um líkamann þegar maður brunar niður brekku á skíðum, stekkur á snjóbretti, þeysist um á sæsleða. Spenna er í sjálfu sér jákvæð og skemmtileg. Hún er svona krydd í tilveruna.

En hvað gerist þegar ásókn í spennu fer að vera sjálft inntak lífsins? Mestu spennufíklarnir eru víst ekki skíðafólkið heldur þau, sem leita að spennu í hringiðu mannlífsins. Það er spennandi að fara á diskótek og prófa að droppa einni gleðipillu. Það er spennandi að halda framhjá, spennandi að taka sjéns í viðskiptum, vera á hálum ís og vona að það reddist og maður geti sagt “hjúkket” í lokin.

Þó svo að spennan sé skemmtilegt krydd í tilveruna þá getur hún einnig orðið að freistingu og líkt og neyslan farið úr böndunum þannig að líf okkar skaðist.

Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Þetta er freisting valdsins. Vald er í sjálfu sér ekki slæmt. Það er nauðsynlegt að sumir hafi völd og beri ábyrgð. Það þarf að vera skipstjóri á skipinu. En vald getur spillt, sérstaklega ef það er óskorað vald, vald sem enginn bönd er hægt að leggja á. Valdahroki, misbeiting valds, þetta er freisting, sem getur náð tökum á öllum. Kirkjan hefur líka í gegnum sögu aldanna fallið fyrir þessari freistingu og misbeitt vald sínu, gleymt köllun sinni og í stað þess að standa með hinum kúguðu og veiku líkt og þjónn Drottins gerði á sínum jarðvistardögum þá hefur kirkjan mært valdhafana, stutt kúgarana.

III.

Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa. Þannig hljóðar fyrsta boðorðið. Freistingin í eyðimörkinni er í raun atlaga að þessari grundvallarreglu. Líkt og hvísl í eyrað, skrif í dagblaði, almannrómur, venja, doði; leiðirnar til að fá okkur til að gleyma Guði er margvíslegar. Og þegar Guði hefur verið ýtt til hliðar þá setjast önnur lífsgildi í hans sæti. Stundum eru það önnur góð lífsgildi, sannar hugsjónir um mannkærleika, auðmýkt og menningu. En freistingin, hættan er sú að fólk setji í stað Guðs hluti eða langanr, sem geta verið mannskemmandi. Guð er nefnilega ekki bara hugtak yfir það, sem við erum að tilbiðja hér í kirkjunni og syngja um í sálmunum. Guð þinn er það, sem þú treystir á, reiðir þig á, skiptir þig öllu máli. Það sem þú lætur móta gildismat þitt og móta viðhorf þín er þinn guð.

En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“

Fasta er tími íhugunar. Og þetta ættum við að gera. Líta í eigin barm og spyrja okkur að því: Hvað er það, sem skiptir mig öllu máli í lífinu? Hvað er mikilvægt? Fastan á að vera tími andlegrar uppbyggingar. Bæn, íhugun, lestur og tilbeiðsla, hlustun eftir því sem gefur tilverunni tilgang. Það er það mikilvæga í lífinu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.