Í miðjum alheimi

Í miðjum alheimi

Því miðja alheimsins er sannarlega til og við þurfum engar óbeliskur til að staðsetja hana. Við leitum miðjunnar í eigin hjarta. Umhverfis hana er sjóndeildarhringur okkar og þar vinnum við allt okkar starf. Frá þeim upphafspunkti vakna stórar spurningar okkar um tilgang, líf og tilvist.

Flutt 10. maí 2018 í Neskirkju

Á uppstigningardegi stefnir hugurinn upp á við. Þetta er dagurinn þegar við rifjum upp þær frásagnir sem hér voru lesnar af himnaför Krists. Heiti dagsins hefur enn skýrari merkingu hjá nágrannaþjóðum okkar – Kristi himmelfartsdag, heitir hann. Hér ruglar fólk gjarnan með nafnið - uppstillingardagur segja sumir og eru augljóslega litlu nær um það hvert tilefni hans er. Í fermingarfræðslunni finnst mér það hjálpa börnunum að renna yfir aðra grein trúarjátningarinnar og reyna að telja upp alla hátíðsdaga ársins. Þegar kemur að setningunni: „steig upp til himna“ verður flestum svara vant og þá fá þau um leið útskýringu á þessum merka degi – uppstigningardegi.

Hugurinn stefnir upp

Já, nú stefnir hugurinn upp á við. Hvað er annars upp og niður í himingeimi? Saga ein hermir frá því, að eitt sinn eftir messu á uppstigningardegi hafi eðlisfræðingur nokkur, dyggur kirkjugestur, tekið prestinn á tal yfir kaffibollanum. Hvað segirðu - sagði eðlisfræðingurinn, steig Jesús upp til himna? Jú, mikil ósköp sagði klerkur. Sáu menn bara undir iljarnar á honum? Einmitt svaraði guðsmaðurinn. Hvernig er það, spurði þá eðlisfræðingurinn - er hann ekki enn á leiðinni upp?

Von að spurt sé því okkar kynslóðir vita, að í hinu endalausa rými sem jörðin okkar sveimar um í, er auðvitað ekkert upp og ekkert niður. Þær áttir eiga aðeins við innan aðdráttarsvið jarðar. Upp, er ekki annað en áttin frá miðju þessarar plánetu sem fólk hélt einu sinni að væri miðja alheimsins.

Það var ekki bara jörðin sem stóð í miðju alls. Ýmsir staðir á yfirborði hennar áttu að hafa slíkt vægi að þeir voru sérstaklega skilgreindir sem hin eiginlega miðja. Mikið hefur fólk lagt á sig í gegnum tíðina til að undirstrika þá afstöðu. Steinaldarmenn drösluðu ógnarstórum björgum frá einum stað til annars sem að öllum líkindum hafa táknað sjálft hjarta heimsins. Fyrir gyðinga var sögusvið frásagna guðspjallsins, Jerúsalem, löngum talin vera í miðjunni. Hjá Múslímum var það borgin Mekka. Egyptar slógu upp mögnuðum steinturnum eða óbelískum með oddhvössum enda sem benti ákveðið upp til himins: Já, þetta er miðjan!

Sumar þeirra voru um síðir fluttar yfir Miðjarðarhafið til Evrópu þar sem þær fengu sess á áberandi stöðum í borgum. Ein er í Vatíkaninu við hlið Péturskirkjunnar, rækilega römmuð inn af hringlaga formum. Það var eins og páfinn hafi viljað sýna fram á að ferðalangar og pílagrímar sem þangað kæmu þyrftu ekki að leita lengra að sjálfum kjarna alls: Hérna er hjarta alheimsins.

Já, hvað er upp og hvað er niður? Er eitthvað í miðið og eitthvað úti á kantinum? Svona geta hugtökin breyst og við kunnum að spyrja okkur að því hvað það þýði yfir höfuð að Jesús hafi stigið upp eins og dagurinn dregur heiti sitt af.

Fæðing og uppstigning

Guðspjall uppstigningardags lýsir því þegar Jesús kvaddi lærisveina sína og já, eins og nafn þessa dags gefur til kynna steig upp til himna. Það var í samræmi við spádóma hans og þótt lærisveinarnir hefðu séð og skynjað svo margt var skilningur þeirra takmarkaður. Það var jú svo fjarstæðukennt að sjálfur Guðssonurinn sem átti að frelsa lýðinn og þjóðina, myndi líða þrautir á krossi og deyja.

Þrátt fyrir það hversu mjög himnaför Krists reynir á trú okkar og þanþol þá er þetta engu að síður sú reynsla sem hinir fyrir kristnu menn fengu að upplifa. Hið forna voru guðirnir tengdir við stjörnurnar og konungar sameinuðust himninum við dauða sinn. Sjálf Bethlehemstjarnan sem vitringarnir fylgdu var til marks um þetta þegar þeir sáu fyrir sér að nýr konungur myndi fæðast. Hún leiddi þá ekki til glæsilegrar hallar eða óvinnandi vígis, heldur að fjárhúsi í litlum bæ í fátæku landi.

Allt mætist í Biblíunni. Fæðingin og uppstigningin. Mátturinn sem bjó í orðum og verkum Krists átti eftir að leiða út til postulanna og þeirra sem skipuðu raðir kristinna manna. Það er kraftur heilags anda sem við svo minnumst eftir tíu daga, þegar hvítasunnan rennur upp.

Kraftur af trú

Þeófílus sem Lúkas höfundur Postulasögunnar ávarpar er hluti af þessum hópi. Nafnið merkir í raun sá sem elskar Guð. Lúkas ræðir starf postulanna sem buðu hverri hættu byrginn og gengu inn á vettvang stórvelda og magnaðrar menningar. Þeir höfðu ekki heri með sér í liði eða burðarklára klyfjaða gulli. Nei, máttur þeirra bjó í þeim krafti sem Jesús lýsir í guðspjallinu – það er kraftur trúarinnar sem gerði þeim kleift að sigra heiminn.

Það er krafturinn sem talar til okkar á þessum degi sem í kirkjunni okkar er helgaður eldri borgurum. Þessi máttur sem Guð boðar að búi í brjósti okkar allra endurspeglast í kærleika okkar til náungans og veita hverjum þeim þá reisn sem honum eða henni ber. Á þessum degi beinast sjónir okkar að þeim sem skipa efstu lögin í aldurspíramídanum. Samfélag sem vanrækir þann aldurshóp er á miklum villigötum. Það er í rauninni prófsteinn á hverja menningu og hvert þjóðfélag hvernig við ölum önn fyrir þeim sem byggðu upp þau gæði sem við hin fáum notið af. Þar horfum við upp í móti, til æðri hugsjóna, gilda og þess tilgangs sem í hverjum manni býr – að ala önn fyrir systrum sínum og bræðrum. Himnaför Krists mætir okkur í þeirri áminningu sem hann skildi eftir handa fygjendum sínum.

Í miðjum alheimi

Raunar mætti ætla af orðfæri okkar í nútímanum að jörðin væri miðja alls og þar fyrir ofan séu himnarnir sjö. Við tölum eins og ekkert sé eðlilegra um að sólin rísi og hnígi til viðar, erum í sjöunda himni og alveg í skýjunum og mörg fleiri dæmi mætti nefna. Þegar við tölum á þann hátt, erum við í raun að taka undir með þeim sem voru í miðju sögusviði texta dagsins. Biblían talar ekki um að einn tiltekinn staður sé miðja alheimsins og þar er ekki að finna neina stjörnu- eða eðlisfræði í nútímaskilningi. Eðlisfræðingurinn sem gantaðist við prestinn um atburði uppstigningardags hefði mátt líta sér nær þegar hann velti fyrir sér hugtökunum upp og niður.

Því miðja alheimsins er sannarlega til og við þurfum engar óbeliskur til að staðsetja hana. Við leitum miðjunnar í eigin hjarta. Umhverfis hana er sjóndeildarhringur okkar og þar vinnum við allt okkar starf. Frá þeim upphafspunkti vakna stórar spurningar okkar um tilgang, líf og tilvist. Við vitum ekki betur en að í öllu þessu stóra rými óreiðu, þenslu og aðdrætti sé ekkert annað til sem kann þá list að spyrja, trúa og leita að lífinu.

Það sem eðlisfræðin vissi ekki á þeim tíma þegar samtal prestins og fræðingsins fór fram var hversu ótrúleg sköpun þessi heimur okkar er. Sú staðreynd hefur opnast okkur á allra síðustu árum að allt hangir í raun á slíkum bláþræði jafnvægis krafta og efnis að þar má engu skeika svo efnisheimurinn hrapi ekki saman í einn punkt eða leysist upp í minnstu eindir. Nú blasir það við hversu mikil undrasmíði sköpunin er, í raun miklu merkilegri og dýpri en fólk gerði sér grein fyrir hér forðum. Ekki ber á öðru en að þar búi að baki einhver hugur eða máttur í þeim anda sem Biblían talar um.

Í öllu þessu rými stöndum við og brjótum heilann um hin dýpstu sannindi. Sá sem lagður var í jötu á hinum fyrstu jólum undir stjörnubjörtum himni og staðfesti mátt sinn með upprisu og uppstigningu bendir okkur á þetta. Hið sanna og góða líf birtist í störfum okkar fyrir náungann. Þá horfum við með sönnu upp til hinna æðstu gilda því það er einmitt kjarni hins góða lífs.