Þitt framlag skiptir máli

Þitt framlag skiptir máli

„Það er lærdómsríkt að sjá að svo margt annað en peningar geta skilað okkur aftur ríkidæmi, bæði fjármagni og öðru eins og velvild, virðingu, traust o.s.frv. Hvað átt þú verðmætt í þínum fórum? Við þurfum að spyrja okkur öll að þessu; og munum að ekkjan virtist ekki gera sér grein fyrir því sem hún bjó yfir. Í „krukku“ þinni getur verið viðmót sem lyftir upp huga vinar í þunglyndi. Það er dýrmætt. Í krúsinni þinni getur verið vinnan sem kennir barninu sem fær Nóbelsverðlaunin að lesa, hvað vitum við um það? Í „krukku“ þinni er kannski viskan og tíminn sem gefur barnabarni stuðning og skjól.“
fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
08. nóvember 2015
Flokkar

Þitt framlag skiptir máli. Við sjáum það í ritningatextum dagsins og við sjáum það í mannlífinu, fréttum, skólastofunni, á bryggjunni og í saumaklúbbnum. Hvert og eitt okkar skiptir miklu máli, því við erum dýrmæt eins og við erum og framlag okkar skiptir máli. Við efumst kannski um okkar framlag inn í samfélagið, við sjáum það hvergi skýrt. Svo eru líka til manngerðir sem finnst þær hafa mjög mikil áhrif og leggja mikið til samfélagsins. Þetta er eiginlega viðfangsefni ritningatexta dagsins. Mig langar að draga upp nokkrar myndir af eyri ekkjunnar og fá okkur til að hugsa um hvernig við pössum inn í það. Hvar er ekkjan í okkar samfélagi og hvar er auðmaðurinn og hvernig kallast líf okkar á við líf tveggja ekkna fyrir árþúsundum?

Fátæka ekkjan í Sarefta

Hún er merkileg sagan um ekkjuna í Sarefta sem gerðist mörg hundruð árum fyrir Kristsburð. Ekkjur fyrir botni Miðjarðarhafs á þessum tíma voru háðar ölmusu. Þær máttu ekki vinna fyrir sér og voru upp á velvild stórfjölskyldunnar komnar þar sem máginum bar skylda til að sjá fyrir ekkjunni og börnum hennar. Þegar þarna var komið sögu í borginni Sarefta geysaði þurrkur og miðað við stöðu ekkjunnar hefur líklega verið uppskerubrestur því þegar Elía spámaður kom til hennar og bað hana að gefa sér að eta snerti hann við skorti hennar. Hún fór fúslega að læknum að gefa honum vatn en þegar hann bað hana að gefa sér brauðbita sagði hún sem var að hún ætti ekkert að borða. Með hennar orðum: „Ég á aðeins mjölhnefa í krukku og örlitla olíu í krús. Ég er að tína saman nokkur sprek, síðan ætla ég heim að matreiða þetta handa mér og syni mínum. Þegar við höfum matast getum við dáið.“ (1. Kon. 17. 12b).

Af þessu sjáum við að neyð hennar hefur verið mikil. Hún var greinilega búin að missa alla von. Tryggingastofnun hennar og félagsþjónusta var í máginum og fjölskyldunni og þar hafði greinilega dregið verulega saman á krepputíma. Hún var farin að segja ókunnugum manni frá því að hún væri á vonarvöl, að hún og sonurinn væru á leið í dauðann sökum matarskorts. Þetta segir okkur að hún var aðþrengd á alla vegu.

Skoðum heildarsamhengið. Í samræðu spámannsins við Guð sagðist Guð hafa valið þessa ekkju til að fæða Elía á neyðartímanum. Það kemur spánskt fyrir sjónir. Afhverju valdi hann ekki einhvern vel stæðan hefðarmann í borginni til að annast þjón sinn? Hvað var það í fari ekkjunnar að hún var verð þess að annast spámann Guðs? Hún átti ekki fjárhagslegan auð, en hún átti eitthvað sem geðjaðist Guði og gat bjargað Elía frá hungurdauða. Já, hún átti það þó að hún skynjaði það ekki sjálf, því hún var að undirbúa síðustu máltíð sína þegar hún hitti Elía. Hvað átti ekkjan sem var jafnvirði þess auðs sem gat satt Elía í heil þrjú ár? Hér verður eitthvað nefnt, en þú getur örugglega bætt við það. Ekkjan var viljug að hjálpa, hún gaf Elía af skorti sínum, hún átti trú, vísaði í Drottin Guð spámannsins, þó að þar gætti aðeins kvörtunartóns yfir matarleysinu, en við sjáum að hún bar traust til Guðs af því hún fór eftir fyrirmælum Elía þrátt fyrir að það kæmi sér illa fyrir hana. Hún sýndi virðingu og bar traust til spámanns Guðs. Í öllu þessu birtist að hún var heil í því sem hún var að gera. Þetta voru eiginleikar sem Guð mat meira en fjármagn. Heyrum orð Elía spámanns til hennar þegar hún var að vandræðast með líf sitt og komin þar að auki með einn munn að metta til viðbótar: „„Óttastu ekki. Farðu heim og gerðu það sem þú sagðir. En bakaðu fyrst lítið brauð og færðu mér, síðan skaltu matreiða handa þér og syni þínum. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölkrukkan skal ekki tæmast, olíukrúsin ekki þorna fyrr en Drottinn lætur rigna á jörðina.““ (1. Kon. 17. 13, 14)

Mjölkrukkan og olíukrúsin tæmdust ekki.

Ekkjan frá Sarefta gerði eins og spámaðurinn sagði, hún setti Guð efstan í forgangsröðina með því að hlýða boði spámannsins. Hver var uppskeran? „Mjölkrukkan tæmdist ekki og ekki þraut olíu í krúsinni. Það var í samræmi við orð Drottins sem hann hafði flutt af munni Elía.“ (1. Kon. 17. 16) Það segir ekki frá því hvernig hún átti olíu og hveiti öll þessi ár. Kannski áskotnaðist henni reglulega matarlús frá vinum eða fjölskyldu, kannski gátu mæðginin týnt ólífur við og við. Kannski átti hún inni marga greiða frá fyrri árum. Þetta vitum við ekki en við fáum að vita að hún fékk góða endurgjöf frá Guði fyrir velgjörðir sínar við aðra. Það er lærdómsríkt.

Hvað er í „krúsinni“ þinni?

Það er lærdómsríkt að sjá að svo margt annað en peningar geta skilað okkur aftur ríkidæmi, bæði fjármagni og öðru eins og velvild, virðingu, traust o.s.frv. Hvað átt þú verðmætt í þínum fórum? Við þurfum að spyrja okkur öll að þessu; og munum að ekkjan virtist ekki gera sér grein fyrir því sem hún bjó yfir. Í „krukku“ þinni getur verið viðmót sem lyftir upp huga vinar í þunglyndi. Það er dýrmætt. Í krúsinni þinni getur verið vinnan sem kennir barninu sem fær Nóbelsverðlaunin að lesa, hvað vitum við um það? Í „krukku“ þinni er kannski viskan og tíminn sem gefur barnabarni stuðning og skjól. Í „krúsinni“ þinni er útsjónasemi, elja og réttlætiskennd sem kemur að gagni fyrir sveitafélagið eða allt þjóðfélagið. Í „krukku“ þinni er pláss fyrir útlendinginn sem á ekki lengur föðurland, vinnu, fjölskyldu, rúmfleti. Það er hægt að halda lengi áfram. Í „krús“ Hallgríms Péturssonar leyndist mikill fjársjóður sem kannski var ekki kominn til fulls í ljós er hann þjónaði hér. Hugsið ykkur, ef hann hefði þagað. Hvílíkur missir. Öll höfum við krukku og krús innra með okkur. Við þurfum að finna hvaða styrkleika við eigum og hvernig við getum af heilum hug eins og ekkjan gefið eitthvað af okkur á hverjum degi. Ef við virkjum það viðhorf innra með okkur og framkvæmum öðrum til góðs þá erum við rík. Og vittu; Guð mun sjá um þarfir þínar.

Ekkjan sem gaf af allsleysi sínu

Jesús fylgdist með fólkinu sem lét fé renna til kirkjunnar. Honum fannst ekki mest koma til heiðursborgara samfélagsins sem gáfu miklar fjárhæðir. Hann horfði til fátæku ekkjunnar sem var ein af þeim lægst settu í samfélaginu. Tveir smáaurar hennar höfðu ekki mikið að segja fyrir viðhald kirkjunnar sem þeir áttu að fara í, en hugarfar hennar að gera kirkjunni sinni eins gott og hún gat var mikilvægara en upphæðin. Viðhorf Jesú á að vera okkur leiðsögn. Hann er að benda á að hugur okkar og viðhorf stýrir gjörðum okkar, þess vegna er mikilvægt að við látum hug okkar og vilja verða fyrir góðum áhrifum. Bestu áhrifin þiggjum við er við snúum okkur til Guðs og biðjum hann að hjálpa okkur að vera góðar manneskjur og gefa af góðum huga okkar þá verður Biblíu-slagorðið að veruleika í okkar lífi er segir: „Sælla er að gefa en að þiggja“ (Post. 20. 35).

Hver er lærdómurinn?

Hér hafa verið dregnar fram sambærilegar sögur úr gamla- og nýjatestamentinu sem minna okkur umfram allt á að við eigum öll fjársjóð innra með okkur sem felst í því að við, hvert og eitt, erum dýrmæt eins og við erum og við getum haft áhrif. Við höfum öll hæfileika, erum í ákveðnum aðstæðu, eða höfum hlutverk sem eiga að nýtast okkur og öðrum til góðs. Vonandi eigum við öll kærleiksvott hvert til annars, öðruvísi þrífst ekki gott samfélag. Mig langar að rækta með ykkur í bænum slíkt kærleikssamfélag. Hin viskan sem við megum draga af þessum Biblíusögum í dag er að Guði er annt um okkur, það sést stundum skýrar í viðhorfi hans til lítilmagnans eins og ekknanna. En Guð elskar hvert okkar eins og við erum og Guð elskar glaðan gjafara bæði á líf okkar í þjónustu við aðra, tíma okkar, hæfileika og eða fjármagn. Guð veitir ríkulega sína endurgjöf, ekki endilega í því sem við vonumst eftir, Guð er ekki pöntunarlisti á netinu. Guð er elskandi pesónulegur Guð og hann veitir þér það sem þú þarfnast hverju sinni. Ekkjan frá Sarefta er fyrirmynd. Hún setti Guð í forgang í lífi sínu með því að þjóna Elía sem kom óvænt inn í líf hennar. Ekkjan í veikleika sínum gaf af því sem hún átti og uppskar vel. Þessar ekkjur eru fyrirmyndir til að hvetja okkur að stíga af heilindum í átt til Guðs og til að við gefum heiminum af þeim auðæfum sem við eigum.