Náð Guðs í ljósi skuldaklafans

Náð Guðs í ljósi skuldaklafans

Nú þurfum við að byrja frá grunni, hyggja sem aldrei fyrr að því sem gefur lífi okkar raunverulegt gildi, hyggja að því hverjar eru grunnstoðir efnahagskerfisins á Íslandi, ná nýrri þjóðarsátt um stefnu okkar og markmið héðan í frá, efla með okkur gagnkvæmt traust. Þar er liðsinni þjóðkirkjunnar mikilvægt sem laðar og leiðir börnin og unglinga til fylgis við meistarann frá Nazaret sem kyrrði vind og sjó.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega hátíð  

Já, ég segi gleðilega hátíð þrátt fyrir allt vegna þess að við þurfum á því að halda að minnast með þakkargjörð þeirra sem gerðu íslensku þjóðinni kleift að komast út úr örbirgðinni forðum, þ.e. íslenskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra. En ég trúi því að þeir eigi enn og aftur eftir að koma íslensku þjóðinni út úr þeim erfiðleikum sem þjóðin glímir við um þessar mundir með vinnuframlagi sínu til lands og sjávar.  

Ég velti því fyrir mér hvort við séum nú að lifa afdrifaríkustu tíma íslandssögunnar í bráð og lengd ? Hrunið er að baki, eða hvað? Munum við sökkva í hyldýpi skuldafens sem við getum ekki komið okkur upp úr? Vissulega erum við sokkin upp á mitti sem stendur og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur rétt okkur hjálparhönd. En þar eru við stjórn aðilar ásamt öðrum sem settu á okkur hryðjuverkalög, íslendinga sem langflestir eru saklausir af þeirri óráðssíu í fjármálum sem siglt hefur þjóðarskútunni í strand með pappírslánum sem lítil sem engin innistæða var fyrir.  

Skuldaklafinn  

Þessi hjálparhönd er dýrkeypt, sjávarútveginum sem öðrum stoðum efnahagskerfisins á Íslandi. Vorum við íslendingar um þessa helgi að undirrita skuldabréf sem bindur okkur á klafa til áratuga í stað þess að leita réttar okkar fyrir dómstólum til að skera úr um hvort við þyrftum að standa undir greiðslum vegna ,,icesave” samninganna? Þetta er dýr inngöngumiði að Evrópusambandinu. Ég hefði frekar farið þá leið að neita að borga. Ég hefði frekar staðið í fæturna gegn þessum ráðsherrum handan hafsins og sagt þeim að éta það sem úti frýs, svo ég taki mér þessi orð í munn hér í prédikunarstól Húsavíkurkirkju. Við höfum verið beitt órétti. Það hefur ekki verið hlustað á okkur vegna þess að við erum ekki talin eiga okkur málsbætur sem þjóð. Það finnst mér út í hött. Þjóðin sem heild á ekki að þurfa að gjalda dýru verði fyrir óráðssíu örfárra fjármálamanna sem annað hvort vitandi vits mökuðu eigin krók á kostnað þjóðar sinnar eða vissu ekki hvað þeir voru að gera vegna þess að þeir voru blautir bak við eyrun sem nýútskrifaðir hálærðir viðskiptafræðingar.  Vissulega má segja að andvaraleysið hafi komið þjóðinni sem heild á kaldan klaka. Þeir sem gagnrýndu á góðæristímanum voru kallaðir liðleskjur af þeim sem hagsmuna áttu að gæta í fjármálageiranum, eigendum fjármagnsins.  

Spillingin  

Breskur hagfræðingur skrifaði nýverið grein í þarlent blað þar sem hann segir að spilling hafi þrifist innan embættismannakerfisins á Íslandi þar sem mörgum var hyglað vegna frændrækni og vinatengsla. Þessi frétt vakti athygli mína. Hvernig hefur þessari frétt verið tekið hjá íslendingum? Erum við sammála um það að hjá fámennri þjóð geti spilling þrifist? Við hefðum ekki tekið undir þetta fyrir hrunið. Við hefðum einfaldlega bent á könnunina frægu sem erlendir aðilar gerðu þar sem fullyrt er að spilling þrífist vart á Íslandi. Það er nefnilega hægt að ýta undir andvaraleysi fólks með hjálp fjölmiðla. Í dag renna á mig tvær grímur í þessu sambandi. Getur verið að fjármagnseigendurnir íslensku hafi greitt fyrir þessa könnun til þess að hlutirnir virtust líta vel út á yfirborðinu?  Í krafti auðmagnsins er hægt að kaupa allt og alla jafnvel þó engin innistæða sé til fyrir hlutunum. Í dag vitum við betur. Forfeður okkar lærðu þá lexíu að betra væri að eiga fyrir því sem þá vanhagaði um og herða ólarnar ella um tíma þangað til markmiðið næðist. Við gleymdum þessari lexíu því miður á góðæristímanum og sjáum nú fram á mörg mögur ár þar sem börn okkar og barnabörn þurfa að öllum líkindum að borga fyrir syndir tiltölulega fárra íslendinga og erlendra aðila sem sáu sér leik á borði og mökuðu krókinn sem mest þeir máttu meðan þeir gátu og komu fjármagninu undan í skattaskjól og eignir erlendis.  

Fullvalda  

Ég vil ekki að íslendingar glati fullveldi sínu. Við erum bara smápeð á taflborði stórveldanna sem ráða öllu í Evrópusambandinu. Það hefur sýnt sig á miðstýringin þar á bæ í sjávarútvegsmálum hefur komið sér mjög illa fyrir sjávarútvegsríki, ekki síst hin smærri. En nú ætlar sambandið að minnka miðstýringuna í þessum málaflokki og færa hann að einhverju leyti heim í hérað ef svo má segja. Bitur reynsla hefur kennt þeim að þetta er nauðsynlegt. Ella rísa þjóðirnar upp og sýna á sér þær fáu vígtennur sem enn prýða þær.  

Vaxtaklafi  

Ég vil ekki að íslendingar glati krónunni þó veik sé. Ég veit ekki betur en að við fáum töluvert mikið fyrir sjávarútvegsafurðir okkar um þessar mundir eins og genginu er háttað. Við eigum ekki annan kost en að versla með krónuna næstu árin.  Það hefur verið talað um það að það verði hagstæðara að taka lán sem aðili að Evrópusambandinu. Ég er ekkert viss um að við munum njóta þeirra lánakjara sem þar tíðkast um þessar mundir, ekki síst í ljósi þeirra vaxta sem við munum þurfa að borga vegna ,,icesave” samningsins.  

Þjóðarremban í ólgusjó lífsins  

Já, ég er  reiður, ég er ekki óttalaus maður frekar en lærisveinarnir forðum sem hröktust um í úfnum sæ og hrópuðu á hjálp. Ég er mennskur líkt og þeir. Hvað verður um mig? Mun ég farast? Hvað verður um afkomendur mína? Munu þeir komast af í ölduróti skuldafensins, geta haft í sig og á, komið sér þaki yfir höfuðið?  

Um þessar mundir er nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld að ýta undir sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar. Sjálfsákvörðunarrétturinn er svo sterkur og sjálfsbjargarviðleitnin svo rík að ég er sannfærður um að þjóðin mun komast í gegnum brimskaflana og ná landi úr braki þjóðarskútunnar. Hún mun reisa sér nýja skútu af eik, smíðaðri af þvílíkum hagleik að annað eins þekkist ekki í víðri veröld. Hér kemur þjóðarremban upp í mér og það er bara gott því að við íslendingar þurfum á stoltinu að halda til að halda sjó í fárviðri samtímans.  

Gagnkvæmt traust

En við þurfum líka að læra að treysta hvert öðru. Við þurfum að efla traust útlendinga í okkar garð en gengissig krónunnar má rekja lítils trausts útlendinga í okkar garð sem vilja ekki koma okkur til hjálpar nema veðin séu trygg. Sjómenn þekkja manna best hversu gagnkvæmt traust er mikilvægt í mannlegum samskiptum en sjómenn eru reiðubúnir til að hætta lífi sínu í þágu annarra félaga sinna um borð. Slysavarnarskóli sjómanna hefur kennt sjómönnum að bregðast við kringumstæðum sem þeir ráða ekki við og hefur bjargað mörgum mannslífum.  

Við þurfum líka að læra að treysta hvert öðru. Við þurfum að efla traust útlendinga í okkar garð en gengissig krónunnar má rekja lítils trausts útlendinga í okkar garð sem vilja ekki koma okkur til hjálpar nema veðin séu trygg. Sjómenn þekkja manna best hversu gagnkvæmt traust er mikilvægt í mannlegum samskiptum en þeir eru reiðubúnir til að hætta lífi sínu í þágu annarra félaga sinna um borð. Slysavarnarskóli sjómanna hefur kennt sjómönnum að bregðast við kringumstæðum sem þeir ráða ekki við og hefur bjargað mörgum mannslífum. 

Reiðin og óttinn

Þessar kringumstæður geta vakið ótt og ugga í brjóstum sjómanna sem annarra. Óttinn og hræðslan er sammannleg reynsla, tilfinning sem við þekkjum öll. Þessara kennda varð vart í haust þegar bankahrunið varð. Þá reis þjóðin upp og gerði byltingu, búsáhaldabyltlingu. Þessa tilfinningu áttu lærisveinarnir forðum á Genesaret vatni sem töldu að það væri úti um sig. Þeir settu traust sitt á Jesú sem svaf værum svefni frammi í skut. Við þekkjum áhrifamátt bænarinnar, þekkjum hvað trúin getur fengið áorkað í lífi okkar en trúin byggist á trausti til æðri máttarvalda, máttarvalda sem við náum ekki almennilega upp til en leitumst samt sem áður við að leggja traust okkar á, ekki síst þegar við finnum til smæðar okkar í lífsins ólgusjó, þegar við lendum í kringumstæðum sem við ráðum ekki við.  

Skilyrðislaus ríkisborgararéttur  

Við sjáum, ekki síst í skírninni, hvernig Guð bregst við ákalli okkar. Hann tók Þóreyju Leu að sér í dag sem sitt barn í heilagri skírn. Þessi ríkisborgarréttur hennar í ríki Guðs verður aldrei frá henni tekinn. Ekkert hrun getur valdið því að hún fái ekki notið sín sem kristin manneskja í þessu lífi. Hún á alltaf aðgang að nægum innistæðum í ríkisbanka Guðs. En það þarf að laða og leiða hana að þessari uppsprettu trúar, vonar og kærleika. Það er á ábyrgð foreldranna að gera það, kirkjunnar og skólanna finnst mér sem vilja hafa kristilegt siðgæði að leiðarljósi í námskrá sinni.  

Siðgæðisviðmiðið  

Ég tel að ein megin ástæðan fyrir bankahruninu í haust sé sú staðreynd að kristilegt siðgæðisviðmið hafi vikið á síðustu árum vikið fyrir einhverju öðru siðgæðisviðmiði ættuðu úr fjármálageiranum þar sem allt er leyfilegt að sögn ef það er löglegt. Bitur reynsla okkar sýndi að það var engin innistæða fyrir því sem gert var. Þetta var risastór fjármálabóla sem sprakk og hjaðnaði. Þetta hefur svo sem áður gerst en af einhverjum ástæðum erum við fljót að gleyma og erum tilbúin að hlaupa til ef gróði er í vændum. Því vorum við höll undir græðgisvæðinguna og létum spila með okkur.  

Þjóðarsátt til líkama og sálar  

Nú þurfum við að byrja frá grunni, hyggja sem aldrei fyrr að því sem gefur lífi okkar raunverulegt gildi, hyggja að því hverjar eru grunnstoðir efnahagskerfisins á Íslandi, ná nýrri þjóðarsátt um stefnu okkar og markmið héðan í frá, efla með okkur gagnkvæmt traust. Þar er liðsinni þjóðkirkjunnar mikilvægt sem laðar og leiðir börnin og unglinga til fylgis við meistarann frá Nazaret sem kyrrði vind og sjó. Þjóðkirkjan heldur uppi öflugu starfi að þessu leyti um land allt vegna þess að hún veit að það er mikilvægt að benda þeim og öðrum á þá fyrirmynd sem reynsla manna sýnir að hægt er að treysta. Megi íslenska þjóðin ákalla Guð á þessum neyðartímum í lífi þjóðarinnar. Við sem eigum afgangs á þessum óvissutímum skulum ekki gleyma okkar minnstu bræðrum og systrum að komast í gegnum brimskaflana í skjól. Það er mikilvægt fyrir alla að eiga griðastað, heimili, fæði og klæði. Helgidómurinn, kirkjan okkar er einnig þessi griðastaður. Hann er öllum opinn. Þegar fárviðri geisar allt um kring þá er nauðsynlegt að eiga vökustund með Guði í kirkjunni sinni, heima hjá sér með börnunum og fjölskyldunni og biðja hann um  huggun og styrk, hjálp og vernd gegn skaða öllum. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.