Knúið er dyra

Knúið er dyra

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
27. nóvember 1994
Flokkar

Guðspjall: Matt: 21: 1-9 Lexia: Jes. 2. 1-4 Pistill: Róm 13.11-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú er jólafastan byrjuð og nýtt kirkjuár gengið í garð. Jólafastan á sér einnig annað nafn sem er orðið aðventa sem merkir koma og vísar orðið til komu Jesú Krists. Síðastliðin ár hefur aðventan skipað æ ríkari sess í hugum landsmanna sem undirbúningstími fyrir jólin. Landsmenn hafa ekki einungis undirbúið sig hið ytra fyrir komu jólanna heldur einnig hið innra og vitnar stóraukin kirkjusókn á aðventunni um það. Hinn ytri undirbúningur er jákvæður þar sem fjölskyldur koma saman á aðventunni og baka t.d. laufabrauð og smákökur og búa til jólakonfekt. Börnin fá að taka virkan þátt í þessu öllu sér til ánægju. Heimilin eru skreytt með ýmsu sem minnir á komu jólanna. Einn siður hefur rutt sér til rúms á fjölmörgum heimilum en það er að skreyta aðventukrans með lifandi greni, margvíslegu öðru skrauti að ógleymdum kertunum fjórum sem eiga að minna okkur á það að aðventan tekur yfir fjóra sunnudaga.

Fyrsta kertið er nefnt spádómakerti til þess að minna okkur á spámennina sem fluttu fyrirheitin um fæðingu frelsarans Jesú Krists. Annað kertið er kallað Betlehemskertið. Það minnir okkur á þær móttökur sem Jesús fékk þegar hann fæddist. María fædd son sinn í fjárhúsi, vafði hann reifum og lagði hann í jötu. Þriðja kertið er kallað hirðakertið. Það minnir á hirðana sem gættu sauðanna úti í haga. Þeir heyrðu fyrstir fagnaðarboðskapinn um fæðingu frelsarans og þeir fóru og fundu Maríu, Jósef og ungbarn reifað, liggjandi í jötu. Fjórða kertið er kallað englakertið. Það minnir okkur á lofsöng englanna sem sögðu: "Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu".

Aðventukransinn er hringur og táknar eilífðina. Hringurinn á sér engan endi og ekki eilífðin heldur. Það er til siðs að skreyta kransinn með greni. Í einni af dæmisögum sínum líkti Jesús sjálfum sér við vínviðinn en lærisveinum sínum við greinarnar. Þannig minna greinarnar á aðventukransinum á okkur sjálf þar sem við felum okkur Guði á vald og horfum í átt til eilífðarinnar.

Þar sem þessi Drottins dagur markar upphaf upphaf aðventunnar þá er hátíðarbragur á öllu og er ég hér skrýddur hvítum hökli og stólu til merkis um gleðina sem hátíðinni fylgir. En aðallitur aðventunnar upp frá þessum degi er fjólublár sem er litur iðrunar og undirbúnings. Ég vék að hinum ytra undirbúningi hér áðan. Ég tel hann mikilvægan og eiga fullan rétt á sér. Það er allt gott um það að segja að gera sér dagamun um jólin enda þótt alltaf sé hinn gullni meðalvegur vandrataður í þeim efnum. Það er ekki allt fengið með því að kosta sem mestu til ef það kemur niður á okkur síðar eftir áramótin þegar kemur að skuldadögunum í febrúarbyrjun.

Þeir einstaklingar eru til sem hlakka ekkert til jólanna vegna þess að þeir hafa ekki efni á því að halda jól eins og vera ber. Eða er til einhver mælikvarði á það hvernig halda skal jólin hátíðleg? Hvað eru eðlileg jól?

Það er búið að skapa ákveðna ímynd í hugum almennings um það hvernig halda skuli jólin hátíðleg og skilaboðin eru á þá leið að enginn sé maður meö mönnum nema hann geti uppfyllt þessar væntingar. Væntingar um allsnægtir valda þó streitu og áhyggjum hjá fólki í upplýsingaþjóðfélagi nútímans.

Það eru örfáir áratugir síðan fólk ólst upp við fábreytt jólahald sem það gerði sér dálítinn dagamun og fékk t.d. kerti og spil í jólagjöf, ný klæði og sauðskinnsskó. Margir muna eftir þessu fábreytta jólahaldi áður fyrr þar sem t.d. eplin töldust til munaðarvöru enda vandfengin. Boðskapur jólanna fór síður framhjá þessu fólki en nú gerist því að það var ekki margt sem gat truflað það frá að meðtaka fagnaðarboðskapinn með öllum skilningarvitunum. Þá var ekki öllum fjölmiðlunum fyrir að fara sem í dag reyna með margvíslegum aðferðum að fanga athygli okkar svo að við látum til leiðast að kaupa það sem er á boðstólum. Það eru fáir sem vilja verða undir í neyslukapphlaupinu og láta því tilleiðast að kaupa umfram efni. En þótt jólafastan og jólin geti um margt ýtt undir neyslukapphlaupið þá skildum við þó aldrei gleyma því sem mér finnst skipta mestu máli varðandi undirbúning okkar á jólaföstunni en það er að við notum tímann til þess að líta í eigin barm og athugum hvort við getum ekki gefið Guði meira rúm í hjörtum okkar svo að kærleikur hans og friður nái betur að móta viðhorf okkar til okkar sjálfra og náungans á kærleiksríkan og heilbrigðan hátt.

Guð hefur gefið okkur son sinn Jesú Krist sem kemur nú á aðventunni og knýr á hjartadyr okkar í því skyni að fá að koma inn. Það má vera að þessar dyr séu þaktar gróðri og hafi ekki verið opnaðar árum saman. Athygli vekur að það enginn snerill á dyrunum sem Kristur knýr á. Snerillinn er í okkar höndum. Við verðum að svara tilboði Krists sem knýr á. Ef til vill viljum við ekki svara vegna þess að innan við dyrnar eru ýmsar hirslur sem bera yfirskriftina: "Aðgangur bannaður". Við lítum á þær sem einkamál okkar en við gleymum því stundum að Guð þekkir það sem bærist innra með okkur. Hann þekkir hugsanir okkar, orð og verk og hann vill samt gjarnan að hann geti veitt okkur fyrirgefningu og frið hið innra. Við þurfum einnig að læra að hafa fyrirgefninguna að leiðarljósi í mannlegum samskiptum hvar sem er. Það getur verið býsna sárt að hugsa um samskipti sín við skólafélagana, maka sinn, samstarfsfólk, vini og frændfólk vegna þess að við hefðum e.t.v betur látið ógert að segja eða gera eitthvað sem sárindum olli. Sektarkenndin segir yfirleitt til sín en við erum lagin við það að bæla þá tilfinningu niður í staðinn fyrir að taka áhættu og biðjast afsökunar.

Það kostar svita og tár fyrir hjón sem hafa átt í samskiptaerfiðleikum að setjast niður andspænis hvort öðru án nokkurrar truflunar frá sjónvarpinu eða útvarpinu og gera upp fortíðarvanda sinn. Það verður ekki gert á einu kvöldi heldur nokkrum vinnukvöldum. Það er erfitt að taka áhættu í hjónabandinu og fara að tala við maka sinn og hlusta öðru vísi á hann, virða hugsanir hans og tilfinningar. Iðrunin mýkir hjartað og opnar fyrir tilfinningar sem öllum eru gefnar en sumir kunna e.t.v. ekki að tjá þær við maka sinn. Setningar eins og: "Mér þykir leiðinlegt að ég særði þig. Viltu fyrirgefa mér", hafa hljómað hvarvetna ýmist með hálfum eða heilum huga. En þegar hjartað er með þá kallar það fram jákvæð viðbrögð hjá þeim sem særður var. Það er betra að vera hreinskilinn og segja hug sinn en að láta þögnina tala því að þögnin gefur tilefni til misskilnings sem verður ekki leiðréttur nema fólk ræðist við í einlægni. Þá verður hægt að hefjast handa við það að mæta tilfinningalegum þörfum hvers annars.

Flestir þekkja hvernig tilfinning það er að reyna að tala við einhvern sem ekki hlustar. Þá finnst okkur að við séum ekki virt viðlits. Okkur finnst þá jafnvel að okkur sé hafnað og að viðkomandi þyki jafnvel ekki vænt um okkur. Þetta gerist stundum í mannlegum samskiptum, ekki einungis innan hjónabandsins heldur einnig annars staðar. Það getur vel verið að við segjumst hafa kærleikann að leiðarljósi í mannlegum samskiptum inni á heimilum okkar eða vinnustað. En þegar breytni okkar ber þessu ekki vitni þá getur kærleikurinn hljómað eins og hljómandi málmur eða hvellandi bjalla í eyrum þess sem við eigum samskipti við. Það má vel vera að Kristur sé aufúsugestur innra með okkur en ber hegðun okkar vitni um það að við höfum látið hann hafa áhrif á breytni okkar?

Gefum við okkur tíma til þess að hlusta á Krist, hlusta á orðin hans lesin eða lesa þau sjálf okkur til sálubótar? Gefum við honum færi á okkur? Hann er sífellt að tala til okkar með einum eða öðrum hætti og hvernig eru viðtökur okkar stundum? Ætli geti verið að við séum stundum í sporum mannfjöldans sem fagnaði innreið Jesú í Jerúsalem og bauð hann velkominn með því að veifa pálmagreinum og hrópa. "Hósanna syni Davíðs. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Hósanna í hæstum hæðum". En stuttu síðarr hrópaði þessi sami mannfjöldi: "Krossfestu, krossfestu hann".

Sá var háttur spámanna á tímum gamla testamentisins að færa orð sín í dramatískan búning til þess að leggja meiri áherslu á orð sín. Kristur vissi að hann var hinn smurði Guðs sonur og vildi gefa fólkinu til kynna á hógværan hátt að svo væri með því að ríða inn um borgarhliðið á asna en Sakaría spámaður hafði nokkrum öldum fyrr einmitt spáð fyrir um það að þessi atburður yrði er hann sagði: "Segið dótturinni Síon. Sjá konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip". Með þessum hætti gaf Jesú sig fólkinu á vald og örlög hans voru í þeirra höndum. En með þessum hætti vildi Jesú einnig hreinsa musterið í Jerúsalem, helgasta guðshús gyðinga, af ýmsu sem hafði spillt helgi þess í gegnum tíðina. En í Matteusarguðspjalli er greint frá því að Jesús hafi því næst gengið reiður inn í helgidóminn og rekið út alla sem voru að selja þar og hann hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: "Ritað er. Hús mitt á að vera bænahús en þér gjörið það að ræningjabæli". Því næst komu blindir og haltir til hans í helgidóminum og hann læknaði þá".

Páll postuli segir í einu bréfa sinna: "Vitið þér eigi að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður". Á aðventunni gerir Jesús ekki tilkall til veraldlegs konungdæmis heldur til konungdæmis hjartans innra með okkur.

Nú á aðventunni er snerillinn í okkar höndum. Við þurfum að opna dyrnar og bjóða Jesú velkominn að ganga inn fyrir dyrnar og hreinsa til innra með okkur. Ef við gerum það þá getum við örugglega tekið undir orð sr. Matthíasar Jochumssonar sem hafði eftir móður sinni eftirfarandi:

Þessa hátíð gefur okkur Guð, Guð, hann skapar allan lífsfögnuð án hans gæsku aldrei sprytti rós, án hans náðar dæi sérhvert ljós.

Þessi ljós sem gleðja ykkar geð, Guð hefir kveikt, svo dýrð hans gætuð séð, jólagleðin ljúfa lausnarans leiðir okkur nú að jötu hans.

Síðan hóf hún heilög sagnamál, himnesk birta skein í okkar sál, aldrei skyn né skilningskraftur minn skildi betur jólaboðskapinn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.