Þrenningarhátíð

Þrenningarhátíð

Þrenningarhátíð, trinitatis – hátíð hins mikla leyndardóms. „Hver er Guð?“ er spurning kynslóðanna: Hver er Guð og hvernig birtist hann mönnunum?

Þrenningarhátíð, trinitatis – hátíð hins mikla leyndardóms. „Hver er Guð?“ er spurning kynslóðanna: Hver er Guð og hvernig birtist hann mönnunum?

Á annarri öld e. Kr. var gríska orðið trias fyrst notað til að lýsa guðdóminum. Það er að finna í ritum Þeófílusar af Antíokkíu. Öld síðar sjáum við latneska orðið trinitas hjá Tertullianusi. Kappadókíufeðurnir á fjórðu öld e. Kr. settu svo fram þrenningarkenninguna – að Guð sé einn að eðli til, en þrennur í birtingu og hlutverki hinna þriggja persóna guðdómsins.

Fermingarbörnunum kennum við þessa hugmynd með því að sýna þeim þríhyrning, sem er ein stærð, en hefur þrjár hliðar. Við getum líka dregið líkingu af vatninu, sem hefur eitt og sama eðli, en getur tekið á sig þrjú mismunandi form. Vatnið birtist sem gufa, rennandi vatn og klaki, en er þó ávallt vatn.

Í guðspjalli dagsins, Jóh 3.1-15, erum við viðstödd fyrsta fund þeirra Jesú og Nikódemusar, sem vitnað er um. Sá síðarnefndi hefur greinilega fylgst með undraverkum Jesú og sér að samband Jesú við Guð er einstakt: „Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum“. Jesús vill leiða hann lengra og fer að tala um endurfæðinguna sem forsendu þess að tilheyra Guðs ríki. Gríska orðið sem þýtt er sem “að nýju”, anoþen, getur einnig merkt “að ofan”, þ.e. frá Guði.

Leyndardómur þrenningarinnar lýkst upp í þeirri bæn sem við lærðum sem börn:

Láttu Guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá bestu, blessuð hans orð sem boðast þér í brjósti og hjarta festu.

Hin sívökula, umbreytandi nálægð Guðs, sem skáldið líkir við hönd, getur verið hluti af þínu lífi þegar þú vilt þiggja hana, hvort sem þú kemur til Jesú um nótt eða hábjartan dag. Á þeim fundi getur orðið sú endurnýjun að ofan sem Jesús líkir við ferskan vindgust, sem feykir í burtu því gamla og færir nýtt líf.

Birt á vef Reykjavíkurprófastsdæmis vestra.