Guð sem kemur og er alltaf hér

Guð sem kemur og er alltaf hér

Ég held að það sé Immanúel sem þjónar okkur, stressuðu, þreyttu, sívinnandi fólkinu best. Það er í lagi að leggja mikið á sig um jólin ... ef mig langar til þess. Það er líka í lagi að vera dapur um jólin, ef ég vil ekki láta huggast. Ég get verið glaður á jólum, ef ég vil. Og ég get látið það vera að taka þátt í jólympíuleikunum í ár.
fullname - andlitsmynd Carlos Ari Ferrer
29. nóvember 2005

Þversögn aðventunnar er sú að hún er tími kyrrðar og íhugunar mitt í hátíðarundirbúningi sem útheimtir að við lengjum sólarhringinn um a.m.k. tíu klukkustundir. Að minnsta kosti finnst mér það, prestinum sem er alltaf jafn undrandi á því þegar líður á nóvember hve geðillur og tættur hann verður af álagi. Ég horfi í kringum mig og sé að ég er ekki einn um þetta.

Margir vina minna í öðrum stéttum, t.d. kennarar sýna svipuð einkenni þegar jólin nálgast. Nýyrðið "jólympíuleikarnir" finnst mér hitta beint í mark. Við eigum að vera í svo miklu jafnvægi, eyða tíma með okkar nánustu en líka þrífa, kaupa, baka, vinna fyrir krítarkortareikningum í febrúar ... kröfurnar eru miklar sem við gerum til okkar.

* * *

Þessi þversögn aðventunnar er borin uppi af þversögn þess að við undirbúum komu jólabarnsins sem er Guð í persónu lítils Jesú, sem við segjum og játum að er alltaf hjá okkur. Við leikum okkur nokkrar aldir aftur í tímann, finnum kjarna jólanna og þar með friðinn, sem okkar kynslóð missti af. Með söngvum okkar og bænum hrærum við vöggu Jesú litla, trommum jólalag á litlu trommuna okkar og leyfum okkar innstu þrám að hreyfa við okkur eitt andartak.

Þversögnin er borin uppi af spennu þess að Guð er í senn ekki í þessum heimi en jafnframt mitt á meðal okkar. Guð sem er ekki hér þarf að finna leið til okkar ef hann vill við okkur tala. Guð sem er ætíð á meðal okkar þarf að sýna það að hann er Guð en ekki einhver hversdagsleg virkni í heilabúinu. Kristninni er það nánast um megn að tala um þetta þannig að vit sé í því tali. Barn fætt af óspjallaðri meyju? Algildið, sannleikurinn búandi í einum, áþreifanlegum manni? Það er auðvelt að grípa til groddalegra myndlíkinga í þessu samhengi og það hefur verið gert í gegnum tíðina.

Við leitum á svið dæmisögunnar, ævintýrisins og ljóðsins til að slaka eilítið á þessari spennu. Jesús kemur sem þurfalingar í sögu Leo Tolstoy um skósmiðinn á jólunum. Andar jólanna í sögu Charles Dickens um Ebenezer Scrooge sýna okkur hvernig þrá okkar eftir samfélagi við ástvini getur bjargað okkur. Meira að segja í stríðssögunum getur friður jólanna verið svo máttugur, að svarnir óvinir leggja niður vopn um stund, deila gjöfum hver með öðrum kyssast, faðmast og játa, að óvinurinn er líka bara manneskja eins og við öll.

* * *

Myndin af hinum stranga himnaguði sem sendir okkur son sinn til að bjarga okkur rímar illa við myndina af Immanúel, Guði sem er handa okkur og er alltaf hér, mitt á meðal okkar, mitt á milli okkar, þar sem fólk mætist. Tungumál hins fyrri er sagan, náttúruöflin og örlögin. Söngur hins síðara er margslungið mannlíf þar sem við eigum samskipti hvert við annað í gleði og sorg, til uppbyggingar, huggunar, gleði og blessunar.

Ég held að það sé Immanúel sem þjónar okkur, stressuðu, þreyttu, sívinnandi fólkinu best. Það er í lagi að leggja mikið á sig um jólin ... ef mig langar til þess. Það er líka í lagi að vera dapur um jólin, ef ég vil ekki láta huggast. Ég get verið glaður á jólum, ef ég vil. Og ég get látið það vera að taka þátt í jólympíuleikunum í ár af því að ég er blankur eða vil eyða fjármunum mínum í annað. Læt bara duga það sem ég hef og geri. Það er nógu gott.

Það sem skiptir máli er að það er næring í þeim samskiptum sem ég á við vini mína og fjölskyldu. Að það er næringu að finna í kirkjunni minni fyrir anda minn, í kórnum mínum, í félaginu mínu og í þeim uppákomum sem ég sæki eða einsemdinni sem ég á með mér. Vegna þess að þar er Guð. Alltaf. Handa mér.