Ekki ég, heldur Guð, í mér

Ekki ég, heldur Guð, í mér

Tvisvar hef ég vitjað friðarkapellu Uppsaladómkirkju þar sem Dag Hammarskjölds er minnst og staðið við leiði hans í gamla hluta Uppsalakirkjugarðs og lesið áletrunina á legsteininum. Þar er ritað: "Ekki ég, heldur Guð, í mér. Dag Hammarskjöld 1905-1961."
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
04. febrúar 2007

Skammt fyrir vestan Uppsaladómkirkju hvílir Dag Hammarskjöld. Hann fórst í flugslysi yfir Zaire, eða Kongo, á leið til Zambíu aðfaranótt 18. September 1961. Orsök flugslyssins virtist vera ókunn á þeim tíma, en síðar kom í ljós að flugvélin hafði einfaldlega verið skotin niður.

Ég hafði verið fermdur sama ár um vorið og var því að eigin mati orðinn bæði fullorðinn og ábyrgur og fylgdist með fréttum. Þess vegna man ég þetta. 1998 voru birt gögn um flugslysið. Þau gefa vísbendingar um að leyniþjónusta Zambíu, Bandaríkja Norður Ameríku og Stóra Bretlands hafi staðið þar að baki er vél hans var skotin niður. Ástæðan var Kongo og hagsmunir nefndra aðila þar. Rétt er að sjálfsögðu að geta þess að stjórnvöld í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum hafa alltaf andmælt kenningum um aðild þeirra að málinu. Trúi því hver sem vill.

Tvisvar hef ég vitjað friðarkapellu Uppsaladómkirkju þar sem Dag Hammarskjölds er minnst og staðið við leiði hans í gamla hluta Uppsalakirkjugarðs og lesið áletrunina á legsteininum. Þar er ritað:

Ekki ég, heldur Guð, í mér. Dag Hammarskjöld 1905-1961.
Dag Hammarskjöld, aðalritari Sameinuðu Þjóðanna 1953 – 1961 glímdi við mörg stór verkefni sem vörðuðu alla heimsbyggðina, eins og innrás Sovetríkjanna í Ungverjaland 1956 og átökin um Suezskurðinn sama ár.

Dag Hammarskjöld tamdi sér kristna íhugun. Það var leið hans til að halda styrk í amstri erfiðra daga.

Eftirfarandi íhugun hans er lögð í hendur lesenda til leiðbeiningar við eigin íhugun.

Íhugun Frammi fyrir þér, Drottinn, sit ég hér upprétt(ur). Ég teygi út hryggnum og ég slaka á. Ég læt þyngd mína falla lóðrétt gegn um mig niður á gólfið þar sem ég sit.

Þú sem ert yfir okkur þú sem ert mitt á meðal okkar þú sem ert einnig í okkur.

Ég held anda mínum fast í líkama mínum. Hann þrýstir á og vill svífa út um gluggann og dvelja á öðrum stað en þessum hér. Ég spyrni á móti honum.

Hann leitar til hins ókomna hann leitar í hið liðna til þess að flýja það sem er hér og nú.

Mjúklega en ákveðið held ég anda mínum kyrrum þar sem líkami minn er:

Hér. Á þessum stað.

Á þessu augnabliki leysi ég böndin af öllum mínum áformum, áhyggjum mínum, ótta mínum.

Ég legg það allt í þínar hendur, Drottinn minn. Ég losa takið sem ég hef á þeim og leyfi þeim að fara til þín.

Á þessu augnabliki fel ég þér það allt.

Ég bíð þín í eftirvæntingu. Þú kemur til mín og ég leyfi þér að halda mér uppi.

Ég byrja ferð mína til hins innra. Ég ferðast inn í mig til míns innsta kjarna, þar sem þú býrð.

Í þessum dýpsta punkti veru minnar ert þú. Þú varst þar alltaf. Fyrri en ég varst þú þar.

Þú skapar, þú lífgar, þú styrkir, án afláts, allt sem ég er, veru mína og veruleika minn.

Guð. Þú ert lifandi. Þú ert í mér. Þú ert hér. Þú ert núna.

Þú ert grundvöllur veru minnar. Ég sleppi. Ég sekk. Ég fer til þín.

Þú flæðir yfir veru mína. Þú býrð í mér.

Ég læt anda minn verða að bæn um að mega fela mig þér á vald.

Öndun mín, innöndun og útöndun eru tjáning veru minnar allrar.

Þetta geri ég fyrir þig með þér og í þér.