Klukkur landsins

Klukkur landsins

Hringið nú, klukkur landsins, hringið inn von og trú, frið og kærleika. Hringið út synd og ranglæti, hroka, hatur og hleypidóma! Hringið inn virðingu og innsýn í að allra er þörf við þau borð þar sem ákvarðanir eru teknar sem varða heill og heilsu einstaklinga og samfélags, og jarðarinnar, lofts, láðs og lagar.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
10. desember 2009

Kirkjuklukkur Hallgrímskirkju - mynd: Árni Svanur Daníelsson

Klukkurnar í turnum kirknanna marka eyktir mannlífsins, signa landið og lífið blessun Guðs og friði.

Hljómur klukknanna er vitnisburður um lifandi Guð sem lætur sig hag okkar og ráð varða. Klukkurnar kalla til bænar, tilbeiðslu og trúar. Samhringing kirkjuklukkna er sigurhljómur og hátíðar, þakkaróður og vitnisburður um að Guð er góður. Líkhringing er sorgarhljómur og samúðar, vitnisburður um forgengileika hins brothætta lífs og vonina sem trúin gefur. Klukkum er líka hringt þegar hætta steðjar að, minna þá á dóm og harm, og kalla til iðrunar og viðbragða.

Klukkur hringja inn hátíð og helgi og lýsa friði og gleði yfir landið. Jólaklukkurnar boða alþjóð návist og náð lausnarans.

Hringið nú, klukkur landsins, hringið inn von og trú, frið og kærleika. Hringið út synd og ranglæti, hroka, hatur og hleypidóma!

Hringið dóm yfir sjálfselsku og sjálfbirgingskap hinna auðugu og voldugu.

Hringið inn virðingu og innsýn í að allra er þörf við þau borð þar sem ákvarðanir eru teknar sem varða heill og heilsu einstaklinga og samfélags, og jarðarinnar, lofts, láðs og lagar.

Hringið út hrokann við vegatálma hernumdra landa, hringið út kúgun og yfirgang gagnvart þeim fátæku og smáðu. Hringið inn eftirfylgd við alþjóðlegar skuldbindingar og alþjóðalög hvað varðar meðferð fanga og flóttamanna og framkomu við óbreytta borgara í stríðshrjáðum svæðum.

Hringið út trúleysi efnishyggjunnar, hringið út hugarfar faríseans sem dylst í dimmum skotum sjálfumgleði og hroka. Hringið inn lotningu og virðingu, heiðarleika og hugrekki, hringið inn elsku til Guðs og náungans, kærleika sem skirrist ekki við að fórna og gefa af sér öðrum til heilla og lífs.

Hringið til kirkju sem þráir auglit Guðs og náð, hringið bænahringing fyrir þeim sem þjást og líða, syrgja og kvíða í sveit og borg, heima og heiman.

Hringið inn Guðs lýð sem lyftir upp höfðum sínum í vissu þess að lausnin er í nánd, og vinnur að réttlæti, friði, sátt og lækning hvar sem leiðir liggja í öruggu trausti til Drottins.

Hringið, klukkur landsins, ómið tærum og skærum, djúpum og háum, helgum hljómum sem enduróma dýrðaróð Guðs engla. Hringið frið og náð yfir landið, líkn og ljós hverri sál, kærleika og sátt, vernd og hlíf húsum og heimilum og vinnustöðum.

Hringið, klukkur landsins! Hlýðum og trúum, syngjum og vinnum í von og trú, landsins börn.