Öreigar og tjaldbúðargestir

Öreigar og tjaldbúðargestir

Nú er tekist á um rétt Eflingarfólksins til að krefjast kjarabóta. Þar er þungur róður og stormur í fang. Þó hindra nú ekki eldgos, pestir eða óáran þau er «útgerðir» eiga í að fylla þar skip og hirslur allar af fé. Ferðamenn streyma til okkar fallega lands til að njóta hér einstakrar náttúru og gestrisni. Það eru fjármunir í fegurðinni! Það vita líka hinir erlendu sjóðir sem nú sækjast eftir að kaupa hér upp flest hótel og ferðaþjónustusvæði. Það vilja margir kaupa fjöllin og dalina til að selja öðrum þá guðsopinberun sem felst í að standa á tindi tilverunnar einhvers staðar úti í auðninni. Þannig á að gera út á fjöllinn líkt og fiskinn. Að þar verði allt eign fárra. Einhverskonar lokuð tjaldbúð sem aðeins fáir megi koma til, þessi fáu sem eiga næga peninga. Aðgengi að fjöllum má ekki selja eða takmarka.

«Gott er að við erum hér» segir Pétur postuli og eiga þau orð oft við. Við þekkjum það eflaust flest að það er oft gott að vera á tilteknum stað. Staðir eru oft fallegir. Þó vísar slík fullyrðing oftar en ekki til félagsskaparins. Það er gott að vera með góðu fólki. Það er gott að eiga gott samfélag. Gott að búa í góðu landi. Ísland er vissulega fallegt og samfélag okkar um flest gott. Þar gætum við svo vel tekið undir orð postulans. Þessi orð vísa til þakklætis. Að kunna að greina eigin stöðu og þakka það sem við eigum er mikilvægt. Þakklæti er nefnilega ástand sem lætur okkur líða vel. Í þakklæti ríkir ákveðin sátt og friður.  

Að sækja til fjalla hefur lengi tíðkast. Í guðspjalli dagsins heyrðum við að Jesús hafi verið «fjallamaður». Hann hélt til fjallsins með sinn nánasta vinahóp til að komast í kyrrð og ró.  Hann hefur farið þangað með þá til til að biðja og íhuga eflaust. En þarna á fjallinu varð skyndilega heilmikill uppákoma. Jesús ummyndaðist og klæði hans urðu hvít og löngu dánir spámenn, Elía og Móse, sáust á tali við Jesú. Um er að ræða guðsopinberun þar sem sem vinir Jesú fá að sjá hver hann raunverulega er. Þarna vill Pétur reisa tjaldbúðir í þakklætisskini. Sú hugsun er góð sem slík en alltof smá og takmörkuð miðað við hlutverk Jesú. Hann var ekki kominn til að eiga sæti í einni tjaldbúð á fjalli heldur í hjörtum allra manna.

Að ganga á Esjuna, Úlfarsfell, Helgafell eða önnur fell og fjöll er vinsælt. Tilgangurinn í senn andlegur og líkamlegur. Líkamsþjálfun vöðvanna skapar vellíðan. Undirbúningurinn  er gagnlegur færir okkur margt í sjálfu sér og svo  markmiðið að standa á tindi fjalls felur í sér endanlegan sigur. Það er mikil upplifun af að ná settu marki almennt og yfirleitt. Að ljúka fjallgöngu er einstök lífsreynsla. Að standa á fjallstoppi veitir andlega hugljómun. Það er víðsýnt af fjöllunum. Hægt að horfa yfir gegnin spor og rifja upp allt erfiðið við að komast á leiðarenda. Það er svo fjarlægt og hverfur allt fyrir tilfinningunni að hafa lokið göngunni. Síðan kemur útsýnið allt sem er eins og verðlaunafé.  Það er allt svo smátt niðri í dölunum. Hin fjöllin virðast heldur ekki há í fjarskanum. Sá er stendur á fjallstindi er sigurvegari. Og þannig hlýtur Pétri, Jakobi og Jóhannesi  að hafa liðið er þeir voru  þar með frelsaranum og varð vitni að ummyndun hans.  Þeir fengu nýja sýn og stærri upplifun en nokkrum manni getur hlotnast.

Í dag er bænadagur að vetri. Þegar vetrarvertíðin  hófs þá þótti sjálfsagt að biðja fyrir því að allt gengi vel. Góður afli var mikilvægur en ekki síður hitt að sjómennirnir myndu lifa vertíðina af. Við búum á eyju þar sem veðrið leikur stórt hlutverk. Við þekkjum það nú á þessu landsvæði með mestu snjóalög í manna minnum og storma sem skapa ýmsan vanda. Áhyggjur okkar í dag tengjast því hvort við komumst á Selfoss og Eyrarbakka eða yfir Þrengslin og Hellisheiði. Skyldi þá Suðurstrandarvegur vera lokaður og hvað með flugið frá Keflavík? Veðrið setur oft strik í reikninginn í okkar ferðaplönum.  En hér áður þá varðaði þetta allt öllu og var hreinlega spurning um líf eða dauða.

Sjómenn sem reru hér af Eyrarbakka, Stokkseyri eða Loftsstöðum bjuggu við einhverjar þær erfiðustu aðstæður er þekkjast. Hingað komu ungir menn víða að til að róa á opnum bátum til sækja fisk, mest fyrir húsbændur sína. Þessir menn voru í mörgu tilliti ekki frjálsir. Þeir voru bundnir skorðum samfélagsins sem skipaði þeim í stétt sem varla má kallast sjálfstæð. Þrælalýður lífsbaráttunnar, öreigar sem börðust fyrir lífi sínu hvern dag hér í brimgarðinum við ströndina.  Sú sjósókn kostaði miklar fórnir, mörg mannslíf. Við getum þakkað fyrir að nú þegar öll tækni er betri og veðurspár að þá skuli enginn maður róa frá þessum stöðum. Hin stöðuga lífsógn hér við ströndina er liðin.

Nú öflum við okkur lífsviðurværis með öðrum hætti. Útgerð er vissulega enn til staðar en þar fer flest fram á stórum skipum með hátæknibúnaði. Iðn og þjónusta er lifibrauð margra í dag. Þar þarf ekki að hírast í þröngri verbúð eða vefja sig lélegum vosklæðum sem betur fer. Ekki er þó allt fullkomið.  Sumt er nefnilega eins og áður. Einhverjir eru húsbændur og sitja heima meðan aðrir vinna og bera hita og þunga erfiðisns. Barátta verkafólks fyrir betri kjörum er stöðug, hún hefur aldrei verið auðveld eða sjálfsögð. Ævinlega hefur hún kostað hálfu meira erfiði en það streð sem verkafólkið er vanið við í sinni erfiðisvinnu hjá húsbændum sínum.

Nú er tekist á um rétt Eflingarfólksins til að krefjast kjarabóta. Þar er þungur róður og stormur í fang. Þó hindra nú ekki eldgos, pestir eða óáran þau er «útgerðir» eiga í að fylla þar skip og hirslur allar af fé. Ferðamenn streyma til okkar fallega lands til að njóta hér einstakrar náttúru og gestrisni. Það eru fjármunir í fegurðinni! Það vita líka hinir erlendu sjóðir sem nú sækjast eftir að kaupa hér upp flest hótel og ferðaþjónustusvæði. Það vilja margir kaupa fjöllin og dalina til að selja öðrum þá guðsopinberun sem felst í að standa á tindi tilverunnar einhvers staðar úti í auðninni. Þannig á að gera út á fjöllinn líkt og fiskinn. Að þar verði allt eign fárra. Einhverskonar lokuð tjaldbúð sem aðeins fáir megi koma til, þessi fáu sem eiga næga peninga. Aðgengi að fjöllum má ekki selja eða takmarka.  

"Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima." Eru orð sem Halldór Kiljan Laxnes leggur í munn Arnasi Arnæusi. Hvort húsbóndinn er íslenskur bóndi og útgerðarmaður eða erlendur fjárfestingarsjóður má kannski einu gilda. Mikilvægt er að sú höndin er vinnur verkið fái notið erfiðis síns á mannsæmandi hátt. Að landið og hafið sé sameign okkar allra og þau gæði öll falli okkur í skaut en endi ekki í vösum fárra.  Gæðum jarðar ber að skipta bróðurlega því það er nefnilega í anda Jesú Krists.

Þegar Jesús ummyndaðist á fjallinu þá varð þar ákveðin Guðsopinberun. Þeir Pétur, Jakob og Jóhannes fá að sjá hver Jesús raunveruleg er. Að hann eigi stöðu framar en hinir gömlu leiðtogar Elía og Móse. Á þeim tímapunkti vill Pétur reisa þrjár tjaldbúðir þarna á fjallinu. Jesú, Elía og Móse til heiðurs. Á slíkum minnisvarða var ekki þörf. Rödd Guðs úr skýinu segir: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Síðan hverfur sýnin, þeir eru einir. Jesús bannaði þeim að segja frá þessu í bili. Það skyldi bíða þess tíma er hann hefði dáið og sigrað dauðann í upprisunni.

Þörf manna að reisa minnisvarða er oft mikil. Ekki tjaldbúð heldur styttur eða einhver verk sem ætlað er að standa lengi. Stundum eru slíkir minnisvarðar til merkis um eitthvað gott og göfugt. Stundum minna þeir á græðgi og heimsku. Lifi okkar er ætlað er vitna um það sem er gott.  Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. Segir í Hávamálum. Og það er satt, góðar minningar lifa.  

Verum þakklát fyrir okkar góða samfélag og að við þurfum ekki að berjast þeirri hörðu baráttu sem forfeður okkar stóðu í. Við þurfum hins vegar að temja okkur meiri sanngirni í skiptum gæða og umburðarlyndi í tali og framkomu gagnvart öðrum. Við skulum á þessum bænadegi biðja um að sanngirni og réttlæti megi opinberast í hjörtum allra.