Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa

Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa

Á landsmótinu safna þau fjármunum til styrktar börnum og unglingum sem hafa misst foreldra í jarðskjálftunum og fljóðbylgjunni í Japan. Þarna fannst mér ég sjá hið unga Ísland á grundvelli hins gamla, síunga Orðs, sem æ er hið sama: Vegurinn, sannleikurinn og lífið.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
30. október 2011
Flokkar

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ Fólkið svaraði honum: „Við erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þið munuð verða frjálsir?“

Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem drýgir synd er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur á heimilinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir Jóh 8.31-36

Úthell þú anda þínum yfir oss þetta sinn, og stjórna munni mínum að mæla sannleik þinn. Amen (HP) Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi. Amen. Gleðilega hátíð, 25 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju. Öllu því góða fólki sem hefur lagt fram krafta sína til hátíðarinnar, með undursamlegum söng og tónlist og annarri þjónustu og kærleiksgjöfum, þakka ég og bið Guð að launa og blessa það allt og þau öll sem kirkju sinni þjóna og henni unna.

Á vígsludegi Hallgrímskirkju, fyrir aldarfjórðungi, þegar Hermann Þorsteinsson, formaður sóknarnefndar, las upphafsbæn kirkjuvígslunnar:„Drottinn, þú býrð ekki í þeim musterum sem af höndum eru gerð....þó höfum vér reist þetta hús þínu heilaga nafni til dýrðar og biðjum þig að helga það með nálægð þinni...“ þá fundum við að hér var mikill, kirkjusögulegur atburður og tímamót. Tími mikillar baráttu og fórna var að baki.

Þjóðin fól Hallgrímssöfnuði það vandasama hlutverk að reisa þjóðarhelgidóminn, minningarkirkju Passíusálma-skáldsins. Það var stefnuyfirlýsing gagnvart nýrri öld í lífi þjóðarinnar á frelsisvegi og sjálfstæðis, stefnulýsing um rækt við rætur kristinnar þjóðmenningar og köllun til samfélagsbyggingar á traustum grunni þess besta sem íslensk menning geymir: Sálmarnir og bænirnar hans sem „svo vel söng að sólin skein í gegnum dauðans göng“ eins og þjóðskáldið Matthías orðaði það. Þjóðin tók undir og í þeim söng og við þau stef og sannleiksorð horfðist kynslóð eftir kynslóð í augu við leyndardóma gleði og sorgar, lífs og dauða. Orð guðspjallsins sem hér var lesið þekkjum við flest, orð frelsarans:„Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ Þessi orð eru skráð í hornstein Alþingishússins: „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Já, þessi orð meistarans frá Nasaret eru í hornsteini löggjafarvalds okkar frjálsa þjóðríkis! „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Ekki löngu eftir að Jesús mælti þessi orð stóð hann bundinn andspænis landstjóranum, Pílatusi, og sagði: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“ Hann var smáður og hræktur bandingi yfirvalda ríkis og kirkju sem espuð af almenningsálitinu höfðu einsett sér að þagga niður í honum fyrir fullt og allt. Og Pílatus sagði: „Hvað er sannleikur?“

Og Sannleikurinn horfði í augu hans. Og þagði.

Hann sem kominn var til að bera sannleikanum vitni og taka á sig synd heimsins, lygi, hatur, hemdargjöld, með dauða sínum á krossi.

Pílatus er ekki einn um það að sjá sannleikann sem pólitík, hugmyndafræði, áhugaverð spursmál. - Og umfram allt það sem hæst glymur, best selst og nær að hrífa athygli og samsinni fjöldans.

Mörg okkar munum þá tíð þegar Hallgrímskirkja var í byggingu að það var hinn stóri sannleikur og helst til marks um vitsmuni, víðsýni og smekkvísi þeirra stóru ljósa, sem réðu skoðanamyndun í menningarlífi landsmanna þá, að hún væri forljót og þau sem hana báru fyrir brjósti ómarktæk. Fáir voguðu að andmæla því. En hollvinir Hallgrímskirkju létu það ekki stöðva sig. Kvenfélagskonurnar létu verkin tala á sinn hljóðláta hátt, og kærleikskeðja hinna trúföstu bilaði ekki, sem með gjöfum og áheitum og framlögum og fyrirbænum sáu til þess að byggingasjóðurinn tæmdist aldrei – alveg. Þess vegna, vegna fórna þessa góða og trúfasta fólks, erum við hér og fögnum.

Nýlega gerði virt alþjóðleg ferðaskrifstofa könnun sem sýnir fram á að Hallgrímskirkja telst ein tíu fegurstu kirkna heims, aðeins ein önnur kirkja á Norðurlöndum fyllir þann flokk, stafkirkja í Noregi. Hallgrímskirkja er þjóðarstolt.

Er það ekki makalaust hvernig sleggjudómarnir og upphrópanirnar hafa einatt tekið yfir. Það er gömul saga og ný. Ærumeiðingar og mannorðsmorð eru daglegt brauð í opinberri orðræðu fjölmiðla og bloggheima. Það er alvarlegt samfélagsmein og ógnun við grundvöll heilbrigðs þjóðfélags.

Við erum í sorg, þessi þjóð, sem fyrir nokkrum árum taldist ein sú hamingjusamasta í heimi.

Bankahrunið og meðfylgjandi þrengingar heimila og fjölskyldna, vonleysið og neikvæðnin hafa lagst þungt á þjóðarsálina. Leitin að sökudólgum og blórabögglum tekur á og reiðin spýtir galli sínu um þjóðarlíkamann. En hún mun engu skila! Þar er ekki sannleikann að finna, lausnirnar, framtíðina. Það mun ekki heldur fást í vísitölum og greiningum. Engar hagtölur hugga í sorg. Hvað þá hatrið og hefndin. Heldur hin andlegu verðmæti, andlegu viðmið, sem beina sjónum sálar og anda til birtunnar. Sannleikurinn. Og sem helst og fremst verður tjáður og þekktur með ljóði og list, söng og bæn, elsku til Guðs og náungans.

Andspænis sannleikanum er hin hljóðláta lotning, virðing og hógværð ein við hæfi. Ekki hróp og köll og formælingar. Hlustum, heyrum, hlýðum! Hlustum með hjartanu! Skoðum hug okkar hvað það er sem við viljum lifa fyrir. Hvers konar samfélag viljum við móta og rækta á Íslandi og færa niðjum okkar í arf? Og hvar finnum við leiðarmerkin og viðmiðin heilu og sönnu?

„Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“

Andspænis erfiðleikum og upplausn, illsku og ranglæti, múgæsing og sefjun þá virðist Guð einatt máttvana, varnalaus og veikur. Og sömuleiðis talsmenn hans. Það bregður stundum fæti fyrir traustið og getur auðveldlega leitt okkur til efasemda og örvæntingar. En trúin á Hann er sigurafl. Sigurafl Sannleikans. Hún getur bognað og bælst - en aldrei brotnað.

Hið besta í evrópskri menningu sprettur af boðskap Jesú og sögunni af krossi hans og upprisu. Þó að Vesturlönd virðist óðum vera að hrista það af sér, troða fótum eða þagga í hel, þá dylst það eins og hulinn fjársjóður í akri siðmenningarinnar, þrátt fyrir allt lifandi og virkur áhrifavaldur. Enn og aftur fáum við að reyna og sjá að Sannleikurinn - lækningin, sjálfsþekkingin og Guðsmyndin, lýkst upp í breytninni, í trú og von og kærleika, í glímu manna við að lifa vel og gera öðrum gott og leitast við að verða heilar manneskjur öðrum til heilla og blessunar.

Það var gæfa þessarar þjóðar að þeir sem helst og fremst lögðu henni til orð til að tjá tilfinningar sínar og leiðsögn í lífsbaráttunni þegar þjóðin var í allra mestri hættu, það voru þeir séra Hallgrímur og Meistari Jón. Kjarnyrðin og trúarhitinn á traustum grunni sterkrar hefðar, orð sem vísuðu á Orðið, Sannleikann, Jesú Krist. Einlægnin og auðmýktin og beinskeitt ádeilan sem hvergi geigar, málsnilldin og viskan, og mannúðleg siðfræðin, þetta varð veigurinn og uppistaðan í trúarlífi og siðferðismótun þjóðarinnar og lá henni á hjarta og á tungu til ómældrar blessunar. Þarna var uppistaðan sterka sem hélt.

Mér finnst það einhver mesta gæfa mín í starfi að hafa sem prestur hér í Hallgrímssöfnuði komist í tengsl við þennan trausta trúarstreng meðal karla og kvenna þeirrar kynslóðar sem bar fram hugsjónina um þakkarfórn þjóðar fyrir Hallgríms sálma og ljóð. Guð blessi minningu þess fólks og ávöxt fyrirbæna og fórna þess. Við höfum þakkarskuld að gjalda. Ekki síst með því að sjá til þess að arfurinn helgi berist áfram til nýrra kynslóða.

Öldruð kona, sem tók mig ungan prest og fjölskyldu mína upp á bænararma sína – reyndar amma núverandi útvarpsstjóra – sagði mér frá því að þegar hún var þetta fimm ára gömul þá sagði fóstra hennar við hana: „Nú skaltu læra Passíusálmana. Ef þú kannt þá, verður þér aldrei orða vant hvorki í gleði né sorg.“ „Og það gerði ég,“ sagði hún Magnína mín blessuð, „ég lærði þá utanað, og hef aldrei orða-laus verið síðan.“

Við erum kannski komin æði langt frá baðstofunum og grútarlömpunum, lífsháskinn er ef til vill annars konar nú en fyrri kynslóðir þurftu að horfast í augu við. Og þó. Manneskjan er söm við sig þó að ný kynslóð þarfnist nýrra tjáningarforma og samskiptaleiða. Á föstudagskvöldið var naut ég þeirrar gleði að opna Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar sem haldið er á Selfossi. Það var uppörvandi vonartákn að hitta fyrir þessi fimm hundruð ungmenni af öllu landinu sem þar eru undir forystu dugmikilla presta, djákna og æskulýðsleiðtoga. Þau eru að fræðast um fagnaðarerindið og eflast í lífi í trú og von og kærleika. Á landsmótinu safna þau fjármunum til styrktar börnum og unglingum sem hafa misst foreldra í jarðskjálftunum og fljóðbylgjunni í Japan. Þarna fannst mér ég sjá hið unga Ísland á grundvelli hins gamla, síunga Orðs, sem æ er hið sama: Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

„Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“

Þegar íslenska þjóðin reisti sér þinghús voru þessi orð sett í hornsteininn. Það var stefnulýsing. Þegar kristni þessa lands skipaðist um það verkefni að heiðra minningu séra Hallgríms og reisa honum höfuðkirkju landsins, þá var það stefnuyfirlýsing: Um hlýðni við þessa trú, rækt við þessar kristnu rætur meðan Guðs náð „lætur vort láð lýði og byggðum halda.“

Á tímamótum skulum við treysta þau heit og fyrirbæn.

Fegurð helgidómsins er óviðjafnanleg, tónlistin dásamleg nú sem endranær. En það sem mest er um vert er að hér á sér stað uppbygging musteris sem byggt er af lifandi steinum. Þar sem orðið er boðað og því er vitni borið með bæn, fræðslu og þjónustu, listiðkun og söng sem mótar samfélag umhyggju, elsku og fegurðar sem blessar og reisir og eflir til dáða á vettvangi dagsins.

„Víst er ég veikur að trúa“ getum við áreiðanlega öll játað með Passíusálmaskáldinu. En Hann sem er Sannleikurinn er trúr og hönd hans sleppir ekki. Fylgjum hinni styrku leiðsögn orðs hans. Þar munum við þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera okkur frjáls.