Vaxta sitt pund!

Vaxta sitt pund!

Svartur dagur á miðvikudaginn var á hlutabréfamarkaðinum heima á Íslandi. Sum fyrirtækin á aðallista verbréfamarkaðarins lækkuðu í verði en svo var smáhækkun degi síðar. Skjálfti er á markaðnum og ýmsar kenningar í gangi.

Svartur dagur á miðvikudaginn var á hlutabréfamarkaðinum heima á Íslandi. Sum fyrirtækin á aðallista verbréfamarkaðarins lækkuðu í verði en svo var smáhækkun degi síðar. Skjálfti er á markaðnum og ýmsar kenningar í gangi, þenslan að minnka, botninum náð og svo framvegis og fyrirsögn á forsíðu Morgunnblaðsins í vikunni sem leið: “Íslenska bankakerfið er ekki að bráðna.” að mati erlends banka.

* * *

Stærsti banki Frakklands tilkynnti á laugardeginum fyrir viku að upp hefði komist að einn starfsmaður bankans hefði stundað spákaupmennsku fyrir hönd bankans og þannig tapað að andvirði 400 milljörðum íslenskra króna á þessum eina starfsmanni.

Dag eftir dag flytja fjölmiðlar fréttir af viðskiptalífinu, og fréttirnar þessa daganna eru tap hér og tap þar. Fréttirnar fyrir ári af viðskipalífinu voru hins vegar, ávöxtun hér og ávöxtun þar.

Okkur íslendingunum í Bretlandi hefur fjölgað nú síðustu ár ekki síst vegna aukinna umsvifa íslenskra fyrirtækja hér í Bretlandi. Fjármunir og tímanleg velferð skiptir okkur eðliega máli.

* * *

En hvað stjórnar lífinu og hvað á að stjórna því? Heilsan, fjölskyldan, peningarnir, eitur eða áfengisfíkn, atvinnan, þú sjálf eða sjálfur? Veraldleg eða andleg gæði? Eða bæði? Ert þú eitthvað að ávaxta í lífinu? Ertu að tapa eða að græða, eða hvorugt?

* * *

Í dag er Biblíudagurinn og í bæninni sem var beðin hér í upphafi prédikunar segir: “Þitt orð er, Guð, vort erfðafé.” Hvernig er sá arfur ávaxtaður í umhverfi, sem tekst á um huga og viðhorf fólks með miklum krafti til dæmis í búningi tilboða og tála? Fáum dylst að ekkert rit hefur haft viðlíka áhrif á mörgum sviðum mannlífsins í stórum hluta heims og Biblían. Hvert er helsta kennileyti Reykjavíkur víða um heim? Hallgrímskirkja. Á listasöfnunum eru mörg verk innblásin af frásögum Biblíunnar. Mögnuð tónverk eru ofin um fæðingu Jesú, píslir hans og upprisu. Í bókmenntum má oft sjá tilvísanir í biblíuleg minni og sama í kvikmyndum. En Kristin trú á víða í vök að verjast og svo sem ekki í fyrsta skipti. Hið heilaga er í hugum margra ekki hið sama og áður. Sumir hafa snúið baki við stofnavæddum trúarbrögðum og einstaklingshyggjan knýr viðkomandi til að búa sér til átrúnað, sem hentar þeim. Hver og einn gengur inn í sinn heim lífsviðhorfanna og tínir til það sem ætlað er til í sviptingum lífsins. Hið trúarlega er gjarnan litið á sem einkamál sem aldrei fyrr. Það er svosem hægt að ræða hverju maður trúir, til að skiptast á skoðunum, en mín trú og þín trú er sitthvað og ég smíða mér mina trú sjálfur er gjarnan viðhorfið.

Og einhver, sem stígur fram og segist kristinn getur verið litinn hornauga af jafnvel maka sínum og gert er góðlátlegt gys af viðkomandi að vinum og fjölskyldu. Er kristin trú þér hjálp í viðlögum? Eitthvað sem þú getur tekið fram ef þú þarft að láta til dæmis: skíra, ferma, gifta, jarða eða þegar þú er hrædd eða hræddur við eitthvað? Þreyttur prestur eftir útför ungs manns á nýverið var beðinn að tala við unga konu í trúaruppgjöri. Presturinn var ekki að nenna því sökum andlegarar þreytu en ákvað þó að segja já. Konan sagðist vera svo reið út í Guð vegna þess að góður vinur hennar og fjölskyldunnar hafði fengið hjartaáfall og orðið bráðkvaddur öllum að óvörum. Fram kom í samtalinu að konunni fyndist Guð hafa ákveðið að viðkomandi fengi alvarlegt áfall og svo demdi hún yfir prestinn alls konar spurningum. Niðurstaðan í samtalinu var meðal annars sú að hún hafði gefið sér lítinn tíma undanfarin ár, til að velta kristinni trú fyrir sér sökum anna við hið veraldlega vafstur og undrandi var hún þegar presturinn svaraði til dæmis spurningum um eilífa lífið: ”Ég get ekki sagt þér hverju þú átt að trúa, en ég trúi að...........” Og eins sagði presturinn henni að Guð væri ekki forlagaguð sem ákveddi að þetta eða hitt kæmi fyrir þennan eða hinn út af einhverju slæmu sem viðkomandi hefði gert eða sagt. Heldur væri Guð kærleika, sem væri alltaf hjá okkur viki ekki undan. Spurningin væri hins vegar hvort við hefðum hann með í för í okkar daglega líf og tækjum hann ekki bara fram þegar við þyrftum eða á hátíðisdögum. Hvað er kristin trú þér? Ávöxtun? Ávöxtun, sem hefur brugðist? Hefur gengi kristinnar trúar á markaði lífsviðhorfa fallið eða gleymst að huga að ávextinum? Hverjir eru að sá fræi Guðs? Prédikarar? Eða fólk í flottum fötum með flotta farsíma, á flottum bílum eða í flugvélum fljúgandi um heiminn til að ávaxta þetta eða hitt, til að verða ríkari af peningum? “Nei það má ekki nota orðið, að prédika, það er svo neikvætt að vera prédika yfir einhverjum”:, var sagt í mín eyru fyrir nokkrum vikum síðan. Hafa einhverjir brugðist í boðun orð Guðs? Hafa aðrir lagt undir sig akurinn og uppskorið vegna fálætis eða vanrækslu?

* * *

Sáðkornið, Guðs orð, hefur í sér fólgið líf, sem Jesús talar um í guðspjallinu. Er jarðvegurinn sem sáðkornið fellur í dag, grítt og annað sem er vinsælla og gróskumeira hefur það náð festu í góða jarðveginum? Það var deilt í vikunni um fatakaup stjórnmálamanna á Íslandi. Stjórnmálamennirnir leita stundum til þeirra sem eru læsastir á samtíðina, til að hafa áhrifa á hugina, á lífsviðhorfin, á gildismatið. Klæðast réttu fötunum og segja réttu hlutina á rétta tímapunktinum. Hefur kirkjan tekið af ákafa þátt í þessari baráttu um hugarfarið, sannfærð um að sáning hennar skipti máli, venga þess að sáðkornið hefur í sér fólgið líf, sem ber ávöxt til lífs, til eilífs lífs fyrir einstaklinginn. Sumum er gjarnt að tala djarflega um siðferðilegt mikilvægi kristinnar trúar og þann arf kristilegs kærleika og siðgæðis sem okkur hefur verið falinn. Það er gott og blessað - og mikilvægt vissulega. Kristin trú er ekki fyrst og fremst siðaboðskapur. Hún er boðskapur um að Guð hafi vitjað mannsins í Jesú Kristi manninum til lífs, manninum til bjargar. Kristinn boðskapur kallar eftir andsvari mannsins við við erindi Jesú Krists, kallar eftir því að maðurinn grípi í þessa útréttu hönd sér til lífs. Það er erindi kirkjunnar að sá þessu lífgefandi sáðkorni, koma þessu erindi til skila og treysta því að það beri ávöxt, komist það í mold, komist það í huga og hjarta manna. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um eilífð til eilífðar. Amen.