Af gnægð hjartans mælir munnurinn

Af gnægð hjartans mælir munnurinn

Bloggið og fésbókin hafa minnt okkur á gildi orða, áhrif orða og þá ábyrgð sem við berum þegar við orðum hlutina. Jesús talaði hreint út. Á bak við orðin hans var hugsunin um velferð manneskjunnar. Sem kristnar manneskjur eigum við að feta í sporin hans, líka í orðum okkar.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
18. ágúst 2013
Flokkar

Prédikun flutt í Hóladómkirkju 12. su. e.d tr. 18. ágúst 2013. Ps 40:2-6; Jak. 3:8-12; Matt. 12:31-37. Við skulum biðja: Hver er að gengur hingað inn hæstan að prísa guðdóm þinn honum gef helgan anda, svo kunni hreint, ljóst bæð´ og leynt lofgjörð þína að vanda. Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við gengum inn í Hóladómkirkju þar sem vígslubiskupinn sr. Bolli Gústafsson tók á móti okkur. Í hópnum voru fermingarbörn frá Bolungarvík og árið var árið 2000. Við virtum fyrir okkur kirkjuskipið og vígslubiskup sagði okkur sögu kirkjunnar í grófum dráttum. Við heyrðum um múrarasveininn Sabinsky, hinn dugandi handverksmann sem safnaði liði til að ná í og höggva steininn í kirkjuna. Fræddumst um Jón Ögmundsson, nafna hans Arason, Guðmund góða, sem líka kom til Bolungarvíkur og blessaði brunn og Guðbrand, sem stóra Biblían er nefnd eftir sem stendur á útskorna púltinu í Hólskirkju í Bolungarvík. Þegar við gengum innar blasti altarisbríkin við og þá varð einni stúlkunni að orði: „Í þessari kirkju ætla ég að gifta mig“ svo heilluð var hún af fegurð hinnar norðlensku kirkju.

Í dag minnumst við 250 ára vígsluafmælis Hóladómkirkju, elstu steinkirkju landsins. Það er fátítt hér á landi að kirkjur standi svo lengi en í gegnum tíðina hefur kirkjunni verið haldið við og voru síðustu stóru efndurbæturnar unnar fyrir um aldarfjórðungi. Þjóðmenning og þjóðararfur hafa borið á góma í umræðu nú um stundir og er Hóladómkirkja dæmi um þann mikla arf sem við eigum í kirkjum landsins og þá miklu menningu sem Kirkjan hefur stutt og stuðlað að í gegnum tíðina. Þegar kirkjan var vígð orti Hallgrímur Eldjárnsson prestur að Bægisá margra erinda bænasálm sem sunginn var við vígsluna. Eitt erindið er bænaversið hér í upphafi og í öðru erindi er Guð beðinn um blessun hússins. Friður þinn sé í húsi hér, heilagt verði það enn fyrir þér, Blessa þess bygging alla, Halt´ því við, styrk það og styð Um stund heimsins gjörvalla. Hér hefur margt fólk gengið um hlað og í þessa kirkju. Sagan geymir sögu einhverra þeirra en ekki allra. Saga þeirra er hafa breytt og bætt líf og haft áhrif á framtíðina hefur lifað þó vissulega beri sagan sem lifað hefur ekki alltaf vitni um mannúð og mildi. Hér hefur verið tekist á og fórnir færðar. Hér hafa líka góðar minningar uppvaxtaráranna á Hólum skilað fróðleik og sögu til okkar nútímamanna, eins og kveðskapur Jóns Arasonar, sem drengurinn Ásgeir Jónsson safnaði saman í bók, þá fullorðinn maður og kom út fyrir nokkrum árum. Jón Arason orti bæði veraldleg og andleg ljóð. Andleg ljóð sem tjá trú hans á hinn krossfesta Krist, sem þjáist með og fyrir mennina. „Jesú, vísa oss fyrir krossins pínu inni að finna með ráði ríki þínu“ orti Jón meðal annars. Alla tíð hefur fólk vitnað um Guð og máttarverk hans. Lofað Guð og þakkað. Sagt frá máttarverkum Drottins. „Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau“ segir skáldið í 40. Davíðssálmi sem lesinn var hér áðan.

Það getur verið vandi að koma orðum að hugsunum sínum. Skáld eru þjálfuð í því að koma hugsunum sínum í orð, orð sem oft hafa áhrif. Það er vandaverk oft á tíðum að koma fróðleik á framfæri, boðun eða hugsun. Það er ekki nóg að hugsa um það sem sagt er, því það skiptir máli hvað er sagt og hvernig það er sagt og jafnvel hvers vegna. „Af sama munni gengur fram blessun og bölvun“ segir Jakob í bréfinu sem lesið var úr áðan. Orð hafa áhrif. Þau geta hreyft við tilfinningum, sært, glatt, huggað. Við lesum orð, heyrum orð, tölum orð, þau berast manna á milli. Þegar Hólakirkja var byggð fyrir 250 árum tók langan tíma að koma boðum á milli Kaupmannahafnar og Hóla. Nú tekur það nokkrar sekúndur. Veröldin hefur mikið breyst á 250 árum, en Orð Guðs stendur óhaggað, en talar samt alltaf inn í samtíðina. Viðhorf breytast og aðstæður, en mannlegt eðli breytist lítið. Við nútímafólk höfum sömu væntingar um gott líf og þau sem gengu hér um grundir á fyrri tíð. Hver kynslóð þarf alltaf að berjast fyrir sínu. Ný viðhorf líta dagsins ljós, viðhorf sem við meðtökum og veltum fyrir okkur og spyrjum spurninga um, meðal annars út frá Orði Guðs.

Það er talað um synd og guðlast í guðspjalli dagsins. Í sama orðinu er líka talað um fyrirgefninguna. Þeim sem mælir gegn Mannssyninum verður fyrirgefið, en ekki þeim sem mælir gegn heilögum anda segir Jesús samkvæmt guðspjalli Matteusar. Það er ekki verið að skafa utan af hlutunum. Það er komið beint að efninu. Trúuð manneskja mælir ekki gegn heilögum anda. Trúin er henni heilagri en það. Hún á haldreipi í trúnni og stendur því traustum fótum ef fundið er að trúarafstöðu hennar.

Í nútímanum veltir fólk meira fyrir sér trú en oft áður í sögunni. Trúin var haldreipi sem menn höfðu og áttu þegar veröldin ógnaði eða gerði lífið erfitt og svo er enn. Það er talað um að trúfrelsi ríki hér á landi og er það sjálfsagt og gott. Við megum iðka trú okkar, segja frá henni án þess að eiga á hættu að vera dæmd fyrir. Framganga okkar ætti að bera trú okkar vitni eins og fram kemur í orðum Jesú: „ Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“

Í guðspjalli dagsins segir Jesús: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði“. Hvernig er hægt að finna út hver er góður og hver er vondur? Mælikvarði okkar er gjarnan orð og framganga. Börnum finnst stundum foreldrarnir vondir þegar þeir banna, en átta sig á því síðar að bak við orðin og framgönguna var kærleikur. Velferð barnsins sat í fyrirrúmi og þess vegna þurfti að banna.

Hver kynslóð heyrir orð Jesú út frá samtíma sínum og aðstæðum. Þau sem voru nærstödd þegar hann talaði og bar fram líkingar úr nærumhverfinu áttuðu sig á hvert hann var að fara. Þau hafa horft á Jesú og kenningar hans með augum nálægðarinnar mótaðir af kennisetningu forferðanna sem réði lögum og lofum í samfélagi þeirra. Við horfum á kenningarnar úr fjarlægð frá því þjóðfélagi sem þær komu fyrst fram í en í nálægð þess samfélags sem við búum í, en þær kenningar hafa vissulega mótað það.

Hér í þessu aldna húsi hefur verið minnt á lífsgildin. Þau eru hinn trausti grunnur lífs okkar og þess vegna er svo mikilvægt að við rannsökum Ritninguna og veltum fyrir okkur hvernig hún talar inn í samtíma okkar. Að við viðhöldum ekki gömlum siðum nema þeir þjóni trúnni. Siðirnir eru aðeins settir fram til þess að stuðla að henni og hætti þeir að gera það, ber að víkja þeim til hliðar — um stundarsakir eða að endingu.

Við megum velta fyrir okkur hvort við erum bundin í klafa formsins, á kostnað lífsgildanna. ” Til frelsis frelsaði Kristur oss” segir Páll postuli í Galatabréfinu.

Við getum öll verið þrælar einhvern tímann og í einhverjum skilningi. Bundin einhverju sem við þurfum ekki að vera bundin. Bundin einhverju sem við viljum ekki vera bundin. Þar er álit okkar ofarlega á lista. Líf hverrar manneskju er líf í baráttu þar sem við eigum að miða að því að leiða fram hið góða.

Trúin á Krist og kenningu hans miðar að því. Um leið og við kjósum samfylgdina við þann Guð sem Jesús boðaði og birti leitumst við við að fara eftir boði hans, kenningu hans sem Kirkjan hefur miðlað hér í heimi í tvöþúsund ár.

Kristinn siður haft áhrif á fólk og þar með samfélög sem kenna sig við kristnina. Í dag heyrast raddir sem sá fræjum efa um gildi þess að tilheyra þessum sið. Telja jafnvel að annar siður sé heppilegri til farsældar. Því hvað svo sem tali um hlutleysi líður í trúarlegum efnum og siðferðilegum þá er ljóst að á einhverju verður að byggja þegar lög eru sett og lífsgildin mótuð.

„Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða“ segir í lokaorðum guðspjallsins í dag.

Snemma á lífsgöngunni lærum við að nota orð. Smám saman lærum við merkingu orðanna, hvernig á að nota þau og hvar á að nota þau. Orð geta verið beitt vopn en þau geta líka verið smyrsl á sár. Þess vegna ber að vanda orðavalið þegar skoðanir eru birtar. Almenningur hefur, jafnvel í fyrsta sinn í sögunni, tækifæri til að koma hugsunum sínum í orð og dreifa þeim um víða veröld. Lokaðir veggir stoppa þau ekki af.

Bloggið og fésbókin hafa minnt okkur á gildi orða, áhrif orða og þá ábyrgð sem við berum þegar við orðum hlutina. Hægt er að orða sömu hugsun á marga vegu. Jesús talaði hreint út og tók líkingar úr nærumhverfi sínu máli sínu til skýringar og áherslu. Á bak við orðin hans var hugsunin um velferð manneskjunnar. Sem kristnar manneskjur eigum við að feta í sporin hans, líka í orðum okkar. En við verðum líka að vera tilbúin til að standa við orðin og þora að standa frammi fyrir fólki með orðin okkar. Það er ekki boðlegt að skýla sér á bak við tölvuskjáinn og úthúða fólki og gera lítið úr skoðunum þeirra. Hver skoðun, líka trúarskoðun hlýtur að vera jafnrétthá og hver önnur, svo framarlega sem hún skaðar ekki lífið.

„Af gnægð hjartans mælir munnurinn“ segir Jesús í dag. Orðin endurspegla hugsanir okkar og tjá tilfinningar og lífsafstöðu. Heyr himnasmiður, hvers skáldið biður, sagði stórhöfðinginn Kolbeinn Tumason frá Víðimýri í Skagafirði árið 1208. Í sálminum sem við öll þekkjum og við syngjum hér á eftir. Sálmurinn ber vott um innilegt trúarþel manns sem stóð í bardaga. Manns sem hafði sögu vígaferla á samviskunni. Manns sem tilbað Krist, konung konunganna, milding á himni og jörð og Maríu móður hans, drottningu himnanna. Þessi sálmur frá miðöldum er okkur kær enn þann dag í dag. Bæði vegna lagsins sem fer svo vel saman við textann og eins vegna þess að Jesús er í dag hinn sami og þá og mannlegt eðli það sama. Manneskjan er í sömu þörf fyrir trúnna og þá. Haldreipi hennar er nú sem þá trúin á Guð. Við stöndum frammi fyrir spurningunni um afstöðu okkar. Í guðspjalli dagsins erum við spurð: Hverju trúir þú? Við svörum hvert og eitt. Kolbeinn Tumason svaraði:

Gæt, mildingur, mín, mest þurfum þín helst hverja stund á hölda grund. Set, meyjar mögur, máls efni fögur, öll er hjálp af þér, í hjarta mér. Til hamingju með afmæli Hóladómkirkju og þakkir fyrir undirbúning og framkvæmd alla. Gleðilega hátíð í Jesú nafni. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.