Hungur eftir kærleika og umhyggju

Hungur eftir kærleika og umhyggju

“Það er hungur. Það er skortur í landi ykkar.” Með þessum orðum ávarpaði Móðir Teresa nemendur og kennara hins virta háskóla Hardvard University í Boston í Bandaríkjunum.
fullname - andlitsmynd Vigfús Þór Árnason
14. apríl 2015
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

“Það er hungur. Það er skortur í landi ykkar.” Með þessum orðum ávarpaði Móðir Teresa nemendur og kennara hins virta háskóla Hardvard University í Boston í Bandaríkjunum. Tilefni ræðu hennar var, að hinn virti háskóli ákvað að gera móður Teresu að heiðursdoktor við skólann. Vildi háskólinn á þann hátt heiðra hana fyrir hið göfuga starf á meðal fátækra, já á meðal þeirra fátækustu í heimi okkar. Þeir vildu heiðra hana fyrir starf hennar á meðal þeirra sem minna mega sín um gjövallan heim.

Þessi orð komu sterkt upp í huga minn er ég fékk að heimsækja þennan merka háskóla fyrir nokkrum árum ásamt þó nokkrum íslenskum prestum. Þegar gamla konan, Móðir Teresa, sem svo sannarlega geislaði af í öllu lífi og starfi, sagði fram þessi orð á háskólahátíðinni var nemendum og kennurum, prófessorum, eðlilega brugðið er þeir hlýddu á orð hennar. Þeir nemendurnir og kennararnir voru/eru þegnar ríkustu þjóðar í veröld allri.

Móðir Teresa hélt áfram ræðu sinni á háskólahátíðinni og bætti við: “Það er skortur á, það er hungur eftir kærleika og umhyggju á meðal ykkar. Slíkt hungur og slíkur skortur er án efa meiri hér en hungur eftir brauði sem er svo algengt þar sem ég starfa. Þið hafið án efa öll einhvern tíman verið einmana og einmanaleikinn leitt af sér angist, ótta og kvíða, sagði gamla konan. Stúdentahópurinn í fylgd með kennurum sínum kinkaði kolli til gömlu konunnar og samþykkti orð hennar og yfirlýsingar.

Ef þessum orðum væri beint til okkar í dag í velferðarsamfélagi okkar. Gæti það þá verið að þau ættu við hér á meðal okkar, okkar sem á margan hátt höfum allt af öllu, eða hvað?

Kæru vinir! Við höfum fagnað heilögum páskum, fagnað aðalhátíð kristinna manna,við sem slóumst í för með þremur samviskusömu konunum á leið þeirra að gröfinni hvar Kristur Jesús hafði verið lagður til hinstu hvíldar.

Á leiðinni að gröfinni höfðu konurnar áhyggjur af steininum við grafarmunnann. En þegar þær komu að gröfinni við sólarupprás hafði steininum verið velt frá. Inn í gröfina héldu þær og þar var hvítklæddur engill sem sagði við þær: “Verið óhræddar, óttist eigi! Því ég veit að þér leitið að hinum krossfesta. Sjá þarna er staðurinn sem þeir lögðu hann. Hann er ekki hér. Hann er upprisinn. Farið og segið lærisveinum hans að hann sé upprisinn frá dauðum.” Og þær skunduðu frá gröfinni með ótta og mikilli gleði.”

Nú þegar upprisan blasir við okkur, kristnum mönnum, höldum við upp á “gleðidaga” í kirkjunni vegna þess að Kristur Jesús, sem hafði gefið lærisveinum sínum og samferðafólki sínu svo mikið á jarðvistardögum sínum, var um tíma að þeirra áliti ekki mitt á meðal þeirra. Því urðu stundaskil er þeir hittu hann fyrir upprisinn.

Þegar lærisveinarnir hittu Krist Jesú fyrir upprisinn, tóku þeir um fætur hans og lutu honum í bæn eins og segir í einu af guðspjöllunum á gleðidögunum þessar vikurnar. Öll guðspjöllin fjalla um sjálft fagnaðarerindið, kjarnann í trú okkar, sjálfa upprisutrúna.

Okkur er gefin óendanlega dýrmæt gjöf. Hún kristallast fyrst og síðast í kærleika þess sem er upprisinn. Hann, hinn upprisni, verður þó fyrst að umbreytandi veruleika í mannlegu lífi ef kærleikur hans og umhyggja fær einkennt og mótað líf okkar. Með hjálpræðisverki sínu var Kristur Jesús að vinna verk svo að við öll mættum eignast von um eilíft líf. Sú von gefur lífinu tilgang mark og mið. Já “lífið sjálft rúmar í sér dauðann” ef við leyfum ljósi hins upprisna, þeim sem benti á að hann væri ljós heimsins, að lýsa í lífi okkar.

Einhverjir, jafnvel prestar og prófessorar í guðfræði, detta hvað eftir annað í þann pytt að boða og segja að það skipti ekki máli hvort Kristur sé upprisinn eður ei. Er það ekki næsta ótrúlegt? Nei getur það bara verið? Svarar Páll postuli þeim ekki í pistli dagsins? Í fyrsta Korintubréfi 15. kapitulanum segir hann: “Ef ekki er til upprisa dauðra þá er heldur ekki Kristur upprisinn en ef Kristur er ekki upprisinn þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar” Í guðspjalli sama dags er greint frá því, er Kristur gaf lærisveinum sínum “brauðið svo og fiskinn, að það hafi verið í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upprisinnn frá dauðum.”

Hann Kristur Jesús er svo sannlega upprisinn.

Kæru kollegar, kæri söfnuður, endutakið páskakallið með mér! “Kristur er upprisinn. Sannlega er hann upprisinn.”

Ég hef verið svo lánsamur að fá að þjóna hinum upprisna Drottni í nærri fjörutíu ár. Fyrst út á landsbyggðinni á Siglufirði. Það var ómetnanlegt að fá að þjóna þar hjá góðu fólki, í sterkum söfnuði. Hjá Kristsvinum sem héldu vel utan um kirkju sína sem var og er í miðju kaupstaðarins og miðlæg í hugum og hjörtum þeirra sem þar búa við hið nyrsta haf.

Síðan hefur það verið mikil gjöf að fá að þjóna Grafarvogssöfnuði í rúmlega 25 ár eða frá stofnun safnaðarins. Eftir að ég var valinn til að gegna sóknarprestsstarfi í Grafarvogi hélt ég á fund biskups Íslands og spurði hvað ég ætti að gera. Hann sagði orðrétt: ”Farðu þarna upp eftir og bjargaðu þér.”

Í för með hinum upprisna og með fólki sem vill breiða út erindið um hann, vinnast sigrar. Kirkjan okkar er alltaf að vinna sigra í öllu lífi og tilveru um landið okkar allt.

Við könnumst við það prestarnir að við séum spurðir að því hvað hafi leitt til þess að við ákváðum að gerast prestar. Oft hef ég hugleitt þessa spurningu og örugglega við öll sem höfum verið vígð til að gegna hinu heilaga prestsembætti.

Ég hef leitt hugann að eigin bernsku. Þegar ég var fimm ára gamall lagði ég oft leið mína í Hallgrímskirkju og hlustaði á séra Jakob Jónsson flytja sögur um hinn upprisna Drottinn. Að lokinni messu einn sunnudaginn, á heimili Guðrúnar ömmu minnar, hafði ég lagt leið mína inn í miðstöðvarkompuna á heimili hennar og Jóns afa míns, þar sem til staðar var olíufýring. Hitaveitan var þá ekki kominn inn á öll heimili í höfuðborginni. Ég hafði nælt mér í þykka ullarleista frá afa, lagt þá á axlir mér og síðan lokað að mér í miðstöðvarkompunni. Amma kíkkaði inn í kompuna og sá að ég var að blessa söfnuðinn sem var sjálf olíufýringin og sokkaleistarnir hans afa áttu að tákna prestakragann. Eftir þetta sagði amma mín í gegnum tíðina: “Þór þú verður örugglega prestur,” en sjálf var hún trúuð og mikil kirkjukona.

Síðar á lífsleiðinni var ég svo heppinn að gerast skiptinemi á vegum Þjóðkirkjunnar og kynnast ungur að árum lifandi og fjölþættu kirkjustarfi í Bandaríkjunum. Ég var einnig heppinn að alast upp í Langholtssöfnuði hvar margar nýungar í kirkjustarfi sáu dagsins ljós en ég var fermdur þar fyrir réttum 55 árum. Gamla liðið, við fermingarsystkinin, hittumst í Langholtskirkju fyrir nokkrum dögum og minntumst við fermingar okkar og fermingarfræðslunnar hjá séra Árelíusi Níelssyni, þeim mikla hugsjónamanni.

Efst í huga mínum og okkar sem önnuðumst æskulýðsstarfið á sínum tíma , var að standa að svonefndri fyrstu poppmessu kirkjunnar. Við æskulýðsleiðtogarnir fengum vinsælustu hljómsveit þeirra tíma til að syngja í messunni. Fórum líklega ekkert sérstaklega vel yfir sálmavalið. Popparanir sungu vinsælasta popplag þeirra tíma: “Haltu kjafti og slappaðu af.” Deilur urðu um messuna en áhrifin urðu ágæt til lengri tíma litið. Afsprengið varð síðan svonefndar æskulýðsmessur. Já það er svo sannarlega dýrmætt að hafa fengið að þjóna í kirkjunni okkar, Þjóðkirkjunni.

Ein stutt saga greinir í raun frá því hversu mikils þeir fara á mis sem eiga ekki samleið með hinum upprisna Drottni sem gefur sinn frið og segir við okkur hvert og eitt: “ Friður sé með þér. Sagan segir frá tveimur snillingum, þeim Ole Bull, fiðlumeistarnum heimsfræga og Jon Erickson, sem fann upp gufuvélina og skipsskrúfuna. Þeir voru miklir vinir þó ólíkir væru.

Eitt sinn bauð Ole Jon á tónleika hvar hann átti að spila. Erickson svaraði;” að hann hefði ekki tíma fyrir slíkan hégóma. ”þá kem ég heim til þín og spila fyrir þig, sagði Ole.” “Nei, gerðu það ekki, sagði Erickson, þá brýt ég fiðluna þína mélinu smærra.” “Gerðu það ekki, kæri vinur, ekki koma að spila, ég hef ekki eyra fyrir tónlist.”

Daginn eftir kom Ole í vinnusal Erickson þar sem Erickson vann með starfsfólki sínu. Bull snerti þá fiðlustrenginn svo sem í ógáti. Laðaði hann fram unaðslega tóna þannig að starfsfólkið hætti samstundis störfum sínum en Ericson stóð sjálfur agndofa. Að lokum hætti Bull og leit upp. Þá stóð Erickson upp með tár í augunum og sagði: “Haltu áfram, nú fyrst er mér það ljóst, að þetta hefur mig vantað allt mitt líf.

Þörfin fyrir að eiga trú og síðan að byggja hana upp og rækta er svo sannarlega til staðar hjá okkur mannfólkinu. Margir, sem hafa fundið sína trú og slegist í för með hinum upprisna Drottni, geta tekið undir orð Jon Erickson, vísindamannsins þekkta: “Þetta hefur mig vantað allt mitt líf.”

Rétt eins og Erickson uppgötvaði hve mikilvægt það væri að geta notið tónlistar komst Móðir Teresa svo undur vel að orði er hún benti á hve mikilvægt það væri að eiga trú; “ Í fylgd með honum, hinum upprisna Drottni, þarf ekki að vera skortur á kærleika og umhyggju á meðal ykkar.”

Leyfum kærleika Guðs að komast að í lífi okkar!

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun við setningu Prestastefnu 2015.