Trúarjátning vonarinnar

Trúarjátning vonarinnar

Ég trúi á Guð, á Guð allra trúarjátninga, með öllum sínum sannindum. En umfram allt trúi ég á þann Guð sem rís upp úr andvana orðum til þess að verða hluti af lífinu.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
21. júní 2011

Ég trúi á Guð, á Guð allra trúarjátninga, með öllum sínum sannindum. En umfram allt trúi ég á þann Guð sem rís upp úr andvana orðum til þess að verða hluti af lífinu.

Ég trúi á Guð sem er mér nærri, og fylgir mér hvert skref á jörðu. Sem oft og einatt gekk á eftir mér og fylgdist með mistökum mínum og þjáðist með mér þess vegna.

Sem stundum gekk við hlið mér, talaði við mig og kenndi mér, og stundum gekk á undan mér, leiðbeindi mér og gaf mér taktinn í göngulaginu.

Ég trúi á Guð sem er af holdi og blóði, Jesús Krist, Guð sem varð manneskja eins og ég og gekk í skónum mínum Guð sem fór sömu leið og ég og þekkir ljós og skugga. Guð sem neytti matar og leið hungur, átti heimili og var einmana, var fagnað og bölvað, var kysstur og hræktur, var elskaður og hataður.

Guð sem tók þátt í gleðskap og sorgarstundum. Guð sem hló og grét.

Ég trúi á Guð sem horfir með athygli á heiminn, sér hatrið sem breiðist út, og aðskilur, hrekur til hliðar, særir og deyðir: sér kúlurnar sem smjúga gegn um húð og hold sér saklaust blóð sem úthellt er yfir jörðina, sér höndina sem grípur ofan í ókunna vasa, og rænir því sem aðrir þurfa til matar, sér dómarann sem dæmir þeim í hag sem borga best og setur hræsnina á æðra sess en sannleika og réttlæti.

Guð sem sér menguðu fljótin og dauðu fiskana, sér eiturefnin sem eyðileggja jörðina og setja göt á himininn.

Guð sem sér hvernig framtíðin er fjötruð í veðböndum og skuld mannanna vex.

Ég trúi á Guð sem sér þetta allt, og heldur áfram að gráta.

En ég trúi líka á Guð sem sér móðurina sem fæðir, sér hvernig lífið fæðist með þraut, sér tvö börn að leik, sér útsæði samstöðunnar vaxa, sér runna blómstra í rústunum, sér nýtt upphaf.

Sér þrjár ruglaðar konur sem hrópa um réttlæti og eiga sér óskadraum sem aldrei deyr.

Sér sólina koma upp hvern morgunn því að núna er tími tækifæranna.

Ég trúi á Guð sem sér þetta allt og brosir breitt því að þátt fyrir allt

er von.

Játninguna samdi Gerardo Oberman, Argentínu. Kristján Valur Ingólfsson þýddi.