Ef það er einhver grátandi…

Ef það er einhver grátandi…

Undirstaðan okkar er sú, eins og sést í smásögunni úr elliheimilinu: ,,Ef það er einhver grátandi, þá huggum við hann.“ ,,Ef einhvern vantar hjálp, þá hjálpum við honum.“

Flutt 8. október 2017 · í Breiðholtskirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
„Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“(Mk.2:17) Þessi orð Jesú hlutu að vera talsvert undraverð og óvæn fyrir gyðinga sem höfðu alveg hefðbundinn skilning á Guði og björgunaráætlun hans á þeim tíma.

Eins og við höfum heyrt mörgum sinnum hingað til, voru syndarar eins og tollheimtumenn eða vændiskonur hataðir af gyðingum, yfirgefin og fólk forðaðist að eiga í daglegum samskiptum við þá. Gyðingadómur er trú gyðinga sem þjóðar. Fyrir gyðinga, sem reyna að vera réttlátir fyrir augum Guðs, með því að fylgja lögmálum bókstaflega, eru syndarar ekkert annað en fólk sem hindrar þjóð gyðinga í að vera syndlaus fyrir Guði og því vilja þeir ekki eiga nein samskipti við syndara.

Gyðingar vildu komast í ramma björgunaráætlunar Guðs, en þeir sem gyðingar kölluðu syndara voru neyddir til þess að sitja utan björgunarramma Guðs.

Við öll vilja vera á öruggum stað. Burtséð frá trúarlegu sjónahorni, þá munum við leita að öruggari stað í hversdagslífi okkar ef einhver hætta nálgast okkur. Ef til vill munum við enn vel hvernig fólk flúði borgina Miami þegar fellibylurinn „Irma“ nálgaðist hana í september. Miamibúar leituðu skjóls.

En hvað mun gerast ef fólk er komið í skjól þar sem það telur sig öruggt og geti fengið frið, en allt í einu kemur það í ljós að það skjólið er ekki lengur öruggur staður, t.d. vegna þess að fellibylurinn breytir stefnu sinni og kemur þangað? Líklegast mun fólkið verða ofsahrætt.

Orð Jesú: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara“ eru raunar mjög lík slíkum aðstæðum. Jesús lýsir því yfir að björgun Guðs er fyrst og fremst að ætluð syndurum sem ættu að vera fyrir utan björgunarrammann, en ekki til „réttláts fólks“ sem ætti að vera á „öruggari stað“ til að fá björgun Guðs.

Sem sé, Jesús dregur allt öðruvísi línu til að aðgreina björgunarsvæði Guðs en þær hefðbundnu hugmyndir sem gyðingasamélagið hefur.

2.
En þá spyrjum við: „Er Jesús búinn að útiloka gyðinga frá björgunaráætlun Guðs, eins og tollheimtumenn, vændiskonur eða útlendingar höfðu verið útilokuð fram að þeim tíma?“ Nei, slíkt gerðist ekki. Raunar losaði Jesús um „ramma“ sem hafði umkringt bjargað fólk, svo að fólk sem hingað til hafði ekki verið bjargað kæmist líka inn.

Jú, samt er það lína sem aðgreinir björguðu fólki frá öðrum. En það er mjög auðvelt að komast yfir þá línu fyrir fólk sem enn er ekki bjargað. Það þarf aðeins að ákveða og vilja vera samstíga Jesú í sínu lífi.

Mig langar að forðast misskilning, en þegar ég segi eins og „fólk sem hefur verið bjargað og fólk sem enn hefur ekki verið bjargað“, bendir það eingöngu á að annað hvort sé maður með Jesú eða ekki, og það er allt annað en hvort maður sé góður eða vondur, mikilvægur eða ekki. Allir eru mikilvægir og öllum er boðið til Jesú.

Breyting á björgunaráætlun Guðs: þetta er það sem Jesús hafði lýst yfir hjá Leví Alfeussyni og með því að fórna sér á krossinum varð hún til í raun. Með henni náði björgun Guðs einnig yfir syndara og útlendinga.

Þið Íslendingar gætuð gleymt þessu venjulega en samkvæmt skilningi gyðinga í tíma Gamla Testaments eru Íslendingar líka „útlendingar“ jafnt sem Japanir, aðrir Asíubúar eða Afríkubúar. Við erum öll utangarðsmenn þegar kemur að björgunaráætlun Guðs. Við ættum að vera fólk sem enn hefur ekki verið bjargað. Stundum verðum við að rifja upp þetta atriði, þar sem það er mikilvægt að skilja þetta vel þegar við ræðum um aðstoð við náunga okkar.

Björgun Guðs, sem við erum nú þegar búin að fá, er trúarleg upplifun og hefur mjög djúpa merkingu. Hún er sú að við erum í sátt við Guð þrátt fyrir syndir okkar, og virði okkar sem börn Guðs endurheimtum við í okkur sjálfum. Þetta er núna undirstaða lífs hvers og eins okkar.

Og síðan kemur ýmislegt upp í hversdagslífi okkar sem afleiðing þessarar undirstöðu eða vextir hennar. Einn af þessum vöxtum er að við lifum lífi okkar með því að hjálpa öðrum og þiggja hjálp frá öðrum. Við erum nú forritað til þess að lifa í kærleikssamböndum við náunga okkar. Þetta er auðskilin staðreynd ef við hlustum á Jesú og reynum að fylgja honum. Er það ekki satt?

Og munum það vel að þetta er afleiðing þess að Jesús hefur fært möguleika björgunar Guðs yfir okkur öll án neinnar aðgreiningar.

3.
Engu að síður, byrjum við, jafnvel ómeðvitað, að draga ýmisar línur meðal náunga okkar og segjum: „Ég fellst á að veita þessu fólki aðstoð en ég vil ekki hjálpa hinu fólki. Hananú!“

Þegar hásettur embættismaður segir svona, gæti það jafnvel þótt glæsilegt. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir t.d. „America first“ og í kjölfarið byrja margir stjórnmálaleiðtogar í heiminum að segja sams konar slagorð.

Undanfarna daga heyrist þetta hér á Íslandi. „Íslendingar skuli hjálpa öðrum Íslendingum fyrst, en ekki innflytjendum eða útlendingum.“ „Hvers vegna þurfum við að hjálpa flóttafólki, á meðan margir Íslendingar búa í neyð?“

Þessir raddir eru ekki komnar úr tómarúmi. Það er ástæða til. Lífskjör margra eldri borgara eru mjög hörð og hið sama gildir um öryrkja. Einstæðar mæður með smábörn geta ekki fengið húsnæði til að búa í. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að það er til fólk á Íslandi sem hefur gleymst og verið yfirgefið lengi í íslensku þjóðfélagi. Og það er alveg rétt að rétta því hjálparhönd. Engin spurning.

Hins vegar verðum við að fara rosalega vandlega í umræðunni um hvort við eigum að hjálpa innflytjendum eða flóttafólki. Hver er raunveruleg ástæða þess að við þurfum að bera stöðu Íslendinga í neyð og flóttafólks saman? Hvaða ástæða er nægileg til þess að við getum ekki að reynt hjálpa öllum? Það eru margar ástæður fyrir því hvers vegna ákveðnir hópar Íslendinga hafa gleymst og fá ekki almennilega aðstoð.

Ef umræðan, sérstaklega umræða í pólitísku samhengi, er í stöðugum upphlaupum án þess að umræðan sé nægilega ígrunduð getur hún leitt ályktana eins og : „Flóttafólk rænir Íslendinga velferð.“ Flóttafólk rænir engu. Það er samfégaskerfið sem heild sem rænir ákveðið fólk velferð og réttindum þess til hennar.

Sumir geta sagt: „Við skulum einnig hjálpa flóttafólki, en eftir við hjálpum Íslendingum. Þetta er spurning um forgangsröð.“ Auðvitað er mikilvægt að ákveða hvernig á að forgangsraða. Það er nauðsynlegt að ákveða t.d. hvers mikið af fjármagn á að renna í ákveðið málefni. En forgangur á að vera settur ekki aðeins milli á Íslendinga í neyð og flóttafólks, heldur eiga öll málefni í þjóðfélaginu að vera skoðuð og mikilvægi þeirra metin.

4.
Um daginn heyrði ég mjög áhugaverða smásögu og athyglisverða frá samstarfspresti mínum. Hún var saga um atburð sem hafði átt sér stað í elliheimili nokkru. Á elliheimilinu var deild fyrir fólk sem var með Alzheimer sjúkdóminn og þar voru um tuttugu sjúklingar. Deildin var með hjúkrunaraðstoð og starfsfólk, sem töldu sex til sjö manns, veitti fólkinu aðstoð á hverjum degi.

En einn daginn lést einn af starfsmönnum án nokkurs fyrirvara. Hann dó skyndilega. Forstöðumaður elliheimilisins hélt þessi frétt yrði íbúunum á deildinni áfall svo hann kallaði til prests til að tilkynna dauða mannsins og biðja með íbúunum. Allir í deildinni mættu á sal og presturinn sagði frá fráfalli starfsmannsins og bað fyrir honum með öllum þar.

Presturinn sagði við mig seinna: „Þegar ég var búinn að biðja fyrir hinum látna, þá sá ég að allt starfsfólkið var grátandi í sorg og saknaði vinar síns. En eldra fólkið sem var með Alzheimer sjúkdóminn tók í hönd hins grátandi starfsfólks og vildi hugga það.

Vitaskuld voru nokkrir meðal eldra fólksins sem ekki gat skilið nákvæmlega um hvað málið snérist en atriði eins og„ef það er einhver grátandi, þá á ég að hugga hann“ er svo djúpt í minni fólks að það gleymir því ekki svo auðveldlega. Það var bara sjáanlegt. Ég held að fólk af þeirri kynslóð sem var á elliheimilinu hafi ef til vill sterka tilfinningu fyrir þessu.“

Mér finnst þetta vera mjög góð smásaga og þýðingarmikil fyrir okkur. „Ef einhver er grátandi, þá huggum við hann.“ „Ef einhvern vantar hjálp, þá hjálpum við honum.“ Það er svo einfalt. Það er svo skýrt. Það er svo mikilvægt. Samt sem áður er raunveruleikinn líklega sá að við getum ekki hjálpað öllum í erfiðleikum eða neyð, af einhverri ástæðu.

En áður en við byrjum að ræða hvers vegna við getum ekki gert það, þurfum við að staðfesta hvar við stöndum, hver undirstaða okkar er. Undirstaðan okkar er sú, eins og sést í smásögunni úr elliheimilinu: „Ef það er einhver grátandi, þá huggum við hann.“ „Ef einhvern vantar hjálp, þá hjálpum við honum.“

5.
Við erum fylgendur Jesú. Við lifum lífi okkar með því að hjálpast að. Það er ekki vegna þess að það sé siðfræði eða reglua að hjálpast að. Það er reyndar meira en siðferði eða regla. Það er vegna þess að við viljum að gera það. Við finnum þörfina. Það eru eðlileg viðbrögð okkar sem stafa af trú okkar á Guð, gleði og þakklæti til Jesú fyrir náð björgunar í nafni hans.

Í samskiptum við flóttafólk í gegnum starfsemi í kirkjusöfnuðum, hef ég margsinnis heyrt flóttafólk segja: „Ég varð hissa þegar ég lærði þegar ég kom til Evrópu að kristin kirkja hjálpaði flóttamönnum án tillits til þess hvort við værum kristin, múslimar eða annarrar trúar. Ég vissi það ekki. Ég hélt að kirkjan hugsaði eingöngu um sitt fólk. Nú er ég mjög glaður/glöð þegar ég kemst í kirkju. Mér liður vel hér.“

Ég lærði eitt af þessu. Þegar við í kirkjunni reynum að hjálpa fólki í neyð, meðal annars fólki á flótta, sér fólkið ekki hvort við séum góðar manneskjur eða hlýjar, heldur sér það eitthvað stærra gegnum okkur, eitthvað miklu magnaðra sem ýtir okkur áfram og lætur okkur þjóna.

,,Í samfélaginu við Krist Jesú gildir hvorki umskurn né yfirhúð heldur trú sem verkar í kærleika.“(Gal. 5:6): segir Páll postuli. Þegar við viljum halda fast í þessa trú í kærleika og hugsa til fólks í neyð, án nokkurar aðgreiningar, þá munum við fá meiri kraft frá Jesú og við skynjum hann nærri okkur. Jesús vinnur í okkur þegar við mætum einhverjum grátandi og reynum að hugga hann.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen