Hver er þá náungi minn?

Hver er þá náungi minn?

Eru það ekki venjuleg viðbrögð okkar þegar við erum í vörn að kasta fram spurningu eða ábendingu? Ber ég frekar ábyrgð en einhver annar? Ég er nú ekki eins slæmur og þessi. Við vitum nefnilega oft betur en við gerum!
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
06. október 2009

Spurningin var borin fram af lögvitringi, einhvers konar varnarviðbrögð við svari Jesú við fyrstu spurningu hans „Meistari, hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?” Lögvitringurinn vissi allt um það „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig”.

Það sem setti lögvitringinn í varnarstöðu var svar Jesú: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa”. Jesús staðfestir að þekking hins lögvitra var rétt og bendir honum á að framkvæma samkvæmt henni, lifa eftir henni. En eitthvað virðist það sitja í hinum lögvitra sem vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú „Hver er þá náungi minn?“

Eru það ekki venjuleg viðbrögð okkar þegar við erum í vörn að kasta fram spurningu eða ábendingu? Ber ég frekar ábyrgð en einhver annar? Ég er nú ekki eins slæmur og þessi. Við vitum nefnilega oft betur en við gerum! Þekking, viska, sem ekki fær að hafa áhrif, móta, leiða til athafna er ekki mikils virði. Getur jafnvel valdið skaða, orsakað hroka og yfirlæti.

Þekking sem ekki er í tengslum við raunverulegt, daglegt líf getur skapað firringu og fjarlægð. Þess vegna sagði Jesús lögvitringnum söguna um miskunnsama samverjann. Presturinn og Levítinn sem líka vissu hvað átti að gera til að öðlast eilíft líf en framkvæmdu ekki.

Og hinn fyrirlitni Samverji sem framkvæmdi og sannaði þannig að hann vissi, þó að hann ætti jafnvel erfitt með að setja það fram í málskrúði og fögrum orðum.

Náungi minn er sá sem ég sé þegar ég elska Guð af öllu hjarta. Svo einfalt er það og ég kenni í brjósti um, geng til og bind um sár og tryggi betri framtíð eftir bestu getu.

Elska Guðs verður raunveruleg þegar mennirnir framkvæma hana. Þess vegna skulum við svara kallinu og biðja og styðja eins og kirkjan kallar okkur til og Hjálparstarf kirkjunnar framkvæmir í orði og verki.