Frelsið

Frelsið

Guðspjall: Lúk. 13.10-17 Lexia: Jes. 30. 15. 18-19 Pistill: Róm. 14. 13-23

"Við höfum verið í hlekkjum í sjötíu ár og nú langar okkur til þess að losna við þá". Þannig mæltist armenskum skæruliða í fréttatíma sjónvarpsins í gærkveldi. Þessi orð hans vöktu mig til umhugsunar. Þarna stóð hann, armeninn, frammi fyrir milljónum sjónvarpsáhorfenda með skotfærabelti um axlirnar og riffil í hendi og til alls líklegur. Hann var reiður út í ríkjandi þjóðskipulag sem hafði reyrt landa hans niður og meinað þeim að láta ljós sitt skína, meinað þeim þeirra sjálfsögðu réttinda að vera manneskjur og lifa lífinu sem slíkar.

Öll höfum við áhyggjur af þróun mála í Júgóslavíu þar sem landið virðist vera á barmi borgarastyrjaldar. Ekki voru áhyggjur okkar minni á dögunum þegar valdaránstilraunin var gerð í Sovétríkjunum. Hún rann jafnskjótt út í sandinn og hún hófst vegna þess að valdaránsmennirnir töldu að enn væri hægt að kúga fólkið með hervaldi. En þar misreiknuðu þeir sig hrapallega því að hinn almenni borgari stóð hugrakkur andspænis vígvélunum og hreyfði sig ekki úr stað enda þótt þeim væri ekið á þá. Sigurvegararnir voru fólkið sjálft sem var búið að fá nóg af ríkjandi þjóðskipulagi. En í sjötíu ár hafði verið reynt að steypa allt fólkið í sama mót með ómanneskjulegum lögum og reglugerðarákvæðum sem framfylgt var með einræðisstjórn og hervaldi. En þau lög og regur höfðu ekki þjónað fólkinu heldur þeim sem sátu við stjórnvölinn.

Þessu er öfugt farið í vestrænu lýðræðisþjóðfélagi. Þar er stjórnarskráin sett til verndar hinum almenna borgara til þess að almenn mannréttindi hans verði ekki fótum troðin. Hinn almenni borgari hefur rétt til þess að tjá sig um hvað sem er og hafa þær skoðanir sem honum þykir best henta og ekki síður að iðka þá trú er honum sýnist. En eins og flestum er kunnugt þá var guðleysi yfirlýst stefna stjórnvalda í umræddu landi og allt reynt til þess að kæfa kristna trúariðkun í landinu. Og þeir sem iðkuðu aðra trú máttu einnig sæta ofsóknum af ráðamönnum.

Það fær enginn kæft hið lifandi orð Guðs sem dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans og smýgur inn í innstu liðamót líkamans. Það vex svo af verður mikið tré. Nú þurfa kristnir bræður okkar og systur ekki lengur að fara leynt með trú sína. Nú geta þeir sem hafa sundurmarið og blæðandi hjarta þar austur frá haldið til fundar við Drottinn í helgidómi hans í því skyni að biðja hann um lækningu á meinum sínum án ótta við það að slík helgiganga sé bönnuð vegna tilskipana ríkisins. Hver veit nema á þessum degi sé stödd kona þar austur frá í helgidómi Drottins sem líkt er komið fyrir og hjá konunni sem greint er frá í guðspjalli dagsins.

Líkamlegt ástand konunnar í samkunduhúsinu er bágborið vegna þess að hún hefur að öllum líkindum verið kreppt í full átján ár og er alls ófær um að rétta sig upp. Andlegs ástands hennar er ekki getið en ef við reynum að setja okkur í hennar spor hvað það varðar og skyggnast inn fyrir hjartadyr hennar þá sjáum við blæðandi hjartasár, kvöl og angist vegna ástands síns og vegna þeirra háðsglósa sem hún hefur örugglega mátt þola þessi átján ár. En á þessum tímum tengdi fólk sjúkdóma við syndir einstaklinganna og gátu þeir því sjálfir sér um kennt hvernig komið var fyrir þeim.

Þarna stendur konan niðurlút og megnar ekki að lyfta upp höndum sínum til þess að ákalla nafn Guðs eins og þeir sem í kringum hana gera. Hún finnur til í hverjum liðþófa í bakinu. En samt lætur hún sig hafa það að þjást þarna standandi á gólfi samkunduhússins í staðinn fyrir að vera heima bak við luktar dyr. Hún hefði vafalaust getað verið heima á þessum hvíldardegi en hún vildi ekki missa af þeirri blessun sem helgihaldinu fylgir. Hún þráði að fá nýjan styrk og kraft til áframhaldandi lífsgöngu sinnar. Að þessu sinni fékk hún miklu meira en það því að Jesús var að kenna í samkunduhúsinu þennan laugardag.

Ég er nú forvitinn maður að eðlisfari en ég fæ sennilega aldrei að vita hvað Jesús var að kenna á þessum hvíldardegi í samkunduhúsinu þar sem var fullt út úr dyrum. E.t.v. var hann að kenna um það með hvaða hætti kærleikur Guðs birtist í garð manna. Hvað um það. Jesús kemur auga á þessa líkamlegu og andlega fjötruðu konu í mannmergðinni og kennir í brjósti um hana. En hann ávarpar hana: "Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn". Því til áréttingar gengur hann til hennar og leggur hendur sínar yfir hana og jafnskjótt réttist hún og megnaði hún þá að lyfta upp höndum sínum og vegsama Guð fyrir það sem hann hafði nú gert fyrir sig.

Jesús vissi vel að þetta var gert í óþökk samkundustjórans, prestanna og fræðimannanna sem skipuðu hefðarsætin í samkunduhúsinu þennan laugardag. En hann sá þá fyrir sér sem hjartalausa menn ef svo má segja. Þeir voru svo uppteknir af því að uppfylla allt lögmál gyðinga og öll reglugerðarákvæðin með ytri guðrækni að hjörtu þeirra voru skynlaus og köld. Jesús sagði á öðrum stað við félaga þessara manna að þeir væru að innan eins og kalkaðar grafir. Hann sagði að það sem skipti máli væri það að hafa hjartað á réttum stað og mæta þörfum allra manna enda þótt á hvíldardegi væri en þá mátti ekkert verk vinna að áliti prestanna og fræðimannanna, ekki einu sinni lækna sjúka. Jesús sagði þeim að hvíldardaguirnn hafi orðið til mannsins vegna en ekki öfugt. Það má ætla að öll þessi reglugerðarákvæði hafi orðið þeim þung byrði sem reyndu að uppfylla þau í einu og öllu því að það er í raun engum manni unnt. Það kom líka niður á þeim sem síst skyldi eins og í þessu tilviki með konuna. Lögmál Guðs var gefið lýð Guðs til verndar og leiðbeiningar en það virtist í sumum tilvikum snúast upp í andhverfu sína þannig að mönnum auðnaðist ekki að greina kjarnann frá hisminu. Þess vegna gaf Jesús þeim nýtt boðorð til þess að árétta það sem skipti öllu máli, að þeir skyldu elska hver annan eins og hann hefði elskað þá. Þetta er kristindómurinn. Þetta er það sem öllum máli skiptir. Jesús tekur þarfir konunnar fram yfir öll reglugerðarákvæði sem má lesa mjög þröngt af þeim sem það vilja eins og gerðist með prestana og fræðimennina.

Jesús uppfyllti þarfir konunnar svo að þeir og við mættum sjá hvað það er sem skiptir öllu máli.

Kristin trú leggur mikla áherslu á að sérhver einstaklingur er óendanlega dýrmætur og að réttur hans sé ekki fyrir borð borinn á neinn hátt. Án kristinnar trúar getur ekkert lýðræði þrifist vegna þess að það tryggir og stendur vörð um gildi hins venjulega sjálfstæða manns sem Guð skapaði og elskar. Guð þvingar engan mann til þess að halda boðorð sín. Þau eru sett til þess að þau megi verða okkur til leiðbeiningar þannig að líf okkar verði farsælla og blessunarríkara í andlegu og efnahagslegu tilliti.

Við höfum frelsi til að velja og hafa. Það veit armeninn sem ég hlustaði á í gærkvöldi. Hins vegar hefði ég viljað að hann notaði önnur meðul til þess að ávinna sér þetta frelsi en vopnavaldið. Hann hefur að öllum líkindum hafnað þeirri leið sem hinn almenni sovétborgari notaði með góðum árangri, að standa svo til vopnlaus andspænis ægilegum vígvélunum og sigra. Þessi sigur var stórkostleg bænheyrsla fyrir alla þá sem höfðu beðið fyrir þessu fólki um allan heim. Enn hefur þetta fólk þörf fyrir góðar bænir vegna þess að hungursneyð blasir við því á komandi vetri. Vonandi verður hægt að bægja henni frá með samstilltu átaki allra þeirra sem láta sér annt um manneskjuna, Guðs góðu sköpun.

Konan í guðspjalli dagsins er að mínum dómi fyrirmynd þessarar manneskju. Þörfum hennar til líkama, sálar og anda var fullnægt af Jesú Kristi sjálfum sem enn þann dag í dag biður fyrir þeim sem hann elskar, öllum mönnum, konum og börnum, þér og mér.

Hvers vegna ert þú hér í dag, á þessum morgni? Þú ert velkominn hingað á þennan helga stað þar sem nærveru Drottins Jesú Krists nýtur við. Vonandi hefur hann náð að snerta við hjarta þínu með orði sínu sem smýgur inn fyrir hjartadyrnar. E.t.v. hefur hann náð að snerta við einhverjum leyndum afkimum hjarta þíns sem enginn átti að komast að nema þú. Þú getur ekkert falið fyrir Guði, þarft þess heldur ekki vegna þess að hann þekkir þig, elskar þig eins og þú ert og vill eiga samfélag við þig. Hann vill ekki þvínga þig til náins samfélags við sig með reglugerðarákvæðum. Hann býður þér að koma með allar þínar byrðar, allar áhyggjur þínar, ótta þinn, gleði þína og hamingju. Hann er sá sem getur grátið með grátendum og samglaðst þeim sem gleðjast. Og hvað er þá betra en að þú komir að veisluborði hans hér á eftir, hins lifandi Drottins Jesú Krists með allt sem t.d. íþyngir þér, alla þá fjötra sem umlykja þig.

Fagnaðarerindið er það að Jesús vill hjálpa þér núna. Þú þarft ekki að fara heim og koma aftur seinna þegar þér líður betur. Það sér enginn hvernig þér líður innra fyrir nema Guð einn. Hann vill veita þér náð sína, sinn frið og blessun. Hann vill gefa þér nýjan kraft svo að þú megnir betur að takast á við verkefni komandi viku. Hann vill gefa þér þetta í þeirr samfélagsmáltíð sem senn verður haldin hér við borð Drottins. En Jesús hefur boðið okkur kristnum mönnum að gjöra það og hann hefur heitið því að frelsa okkur, lyfta hvers kyns fjötrum af okkur þannig að við getum rétt úr bökum okkar. Í altarisgöngunni nýtur nærveru Drottins við með sérstökum hætti sem okkur er ekki ætlað að skilja til fulls. En margir hafa vitnað um það að þeir hafi hlotið mikla blessun af því að ganga til altaris. Altarisgangan minnir okkur einnig á það að við erum þátttakendur í því samfélagi sem kirkjan er og við erum þar öll jafnrétthá og njótum jafn mikillar virðingar frammi fyrir Drottni Jesú Kristi. Amen.