Að dvelja í Drottni

Að dvelja í Drottni

Stundum er líkt og eitt orð úr einhverri frásögn Biblíunnar tali sérstaklega inn í líf þess sem les. Þá er gott að leyfa því orði að dvelja með sér, sökkva inn í vitund sína og fylla lífið merkingu og nánd.

Fyrir rúmum tuttugu árum rakst ég á bók eftir Rolf Slot-Henriksen í bókabúð við Kultorvet í Kaupmannahöfn. Þetta var veturinn sem ég las guðfræði þar í borg og gekk daglega eða hjólaði spölinn frá heimili prestsfjölskyldunnar í Jónshúsi inn á Köbmagergade þar sem guðfræðideildin var til húsa. Útgáfuár bókarinnar er 1982 og ber hún heitið Kristen meditation i 2000 år. Viðfangsefnið heillaði mig og allar götur síðan hef ég æft mig í kristilegri íhugun með einum eða öðrum hætti.

Mér þótti merkilegt að uppgötva að andleg iðkun, til viðbótar við vikulega kirkjugöngu og daglegar kvöldbænir, væri svo margbreytileg og djúp, ekki síður innan kristinnar trúar en annarra trúarbragða. Orð höfundarins í formálanum höfðuðu sterkt til mín, þau að við kristið fólk mættum ekki láta ræna okkur þeim arfi sem fylgt hefur kirkjunni frá upphafi vega, arfi hinna andlegu æfinga. Manneskjan hefur þörf fyrir andlega rækt og það er nútímafólk að uppgötva í æ ríkara mæli.

Arfur austurkirkjunnar, orþódoxukirkjunnar, er meðal annars fólginn í Jesúbæninni, sem á síðustu öld fékk aukna útbreiðslu um hinn vestræna heim og hefur undanfarna áratugi verið mörgum Íslendingnum til margfaldrar blessunar. Jesúbænin er sótt til Biblíunnar, til kanversku konunnar (Matt 15.21-28) og blinda mannsins við veginn (Lúk 18.35-43), sem bæði kölluðu á Drottin Jesú sér og sínum til lækningar. Bænina má samræma hjartslætti, andardrætti og skrefum göngunnar á einfaldan hátt. Í sinni upprunalegu mynd er hún svona:

Drottinn Jesús Kristur, sonur Guðs, miskunna þú mér.

Í vesturkirkjunni þróaðist á miðöldum andleg leið til að lesa Biblíuna. Á latínu nefnist slíkur lestur Lectio Divina, sem útleggst guðleg lesning, en ég hef tamið mér að nota hugtakið biblíuleg íhugun yfir þessa aðferð. Hún er kynnt á einfaldan hátt í bæklingnum Skóli Orðsins sem er að finna á efnisveituvef Þjóðkirkjunnar. Biblíulega íhugun má iðka hvort sem er í einrúmi eða hópi. Inntak hennar er, eins og orðin benda til, biblíutextinn, gjarnan frásögur úr lífi Jesú eða dæmisögur hans, sem lesandinn gengur inn í með sínum innri augum. Hin innri sýn er virkjuð, heyrn, ilmur og jafnvel snerting og bragð, til að iðkandinn fái dvalið með Jesú og lærisveinahópnum, heyrt orðin sem sögð eru, horft í augu Jesú og fundið hlýja nærveru hans.

Stundum er líkt og eitt orð úr einhverri frásögn Biblíunnar tali sérstaklega inn í líf þess sem les. Þá er gott að leyfa því orði að dvelja með sér, sökkva inn í vitund sína og fylla lífið merkingu og nánd. Þetta getur verið ávarp til Guðs og eiginleika hans, svo sem Faðir, kærleikur, miskunn, Jesús eða Heilagur andi. Þetta eina orð getur orðið svo samsamað vitund þess sem íhugunina iðkar að engin önnur hugsun fær komist að og sálin dvelur í sælli nánd við Guð sinn. Á síðustu tuttugu árum hafa fleiri og fleiri Íslendingar kynnst þessari tilbeiðslu- og íhugunaraðferð undir heitinu Centering Prayer, og hafa sumir viljað íslenska það heiti með hugtakinu Bæn Hjartans.

Innan sumra mótmælendakirkna hérlendis, frjálsu safnaðanna eins og þeir kalla sig stundum, hefur aðferð sem svipar mjög til þessarar verið að ryðja sér til rúms á undanförnum misserum. Sú aðferð kemur frá Toronto í Kanada og gengur undir nafninu Soaking, einnig kallað Flæðibæn á íslensku. Að sóka felur einfaldlega í sér að dvelja í nærveru Guðs, gjarnan útafliggjandi, sökkva sér niður í dásemdir Drottins og finna anda hans flæða inn í líf sitt. Spiluð er róleg tilbeiðslutónlist sem vekur huga og hjarta til vitundar um Guð og allt annað fær að víkja um stund.

Þessi stutta yfirferð um lendur hinnar andlegu iðkunnar, sem einnig má nefna spiritualitet uppá útlensku, sýnir að sá veruleiki birtist undir margvíslegum heitum hjá hinum fjölbreyttu kristnum kirkjum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan mínar daglegu leiðir lágu um miðborg Kaupmannahafnar, en ráð Rolf Slot-Henriksen hafa reynst mér drjúg, ásamt með öðru efni. Bókina góðu, Biblíuna, les ég mér til lífs, ein og með öðrum, og íhuga efni hennar í atvikum daglegs lífs. Þessar vikurnar er ég samferða á fjórða tug manns á námskeiði í Grensáskirkju um kristnar kyrrðarbænir, sem með einum eða öðrum hætti hefur verið mitt uppáhalds fræðsluefni frá því að ég hóf að kenna í Leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar fyrir tæpum áratug. Finnið og sjáið að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum (Sálm 34.9).