Tekist á um Charles Darwin

Tekist á um Charles Darwin

Þróunarkenningin er ekki umdeild í náttúruvísindum og nær allar háskólakirkjudeildir hafa samþykkt og stutt grunnhugmyndir hennar. Arfleifð Charles Darwin hefur hinsvegar verið rænt, annarsvegar af andtrúarmönnum og hinsvegar þeim sem aðhyllast bókstafshyggju, með hætti sem stillir þróunarkenningunni gegn Biblíunni.

Ein lífseigasta ranghugmyndin um sögu vísinda og kristinnar trúar er sú að þau frá upphafi staðið í átökum. Sú hugmynd að trú og vísindi séu andstæðir pólar og að kirkjan hafi í gegnum aldirnar staðfastlega barist gegn framþróun vísinda verður til á 19. öld. Fram að því er í háskólasamfélögum Evrópu og Bandaríkjanna mikill samgangur á milli guðfræði og náttúrúvísinda. Gömlu háskólarnir voru margir stofnsettir af kirkjunni og eru enn í nánum tengslum við kirkjur og kirkjudeildir sem líta á framþróun þekkingar sem heilaga skyldu sína.

Á 19. öld reis upp bylgja andtrúarviðhorfa sem hafa áhrif til þessa dags. Þannig sagði Friedrich Nietzsche Guð dauðan, í merkingunni hið algilda siðferðisviðmið mannlegrar breytni, Ludwig Feuerbach réðst að Kjarna Kristindómsins, og sagði guðstrú mannsins vera hættulega yfirfærslu á löngunum einstaklinga og Karl Marx taldi trúarbrögðin ópíum fólksins, og að með útrýmingu þeirra myndi nást fram „raunveruleg” hamingja. Á grundvelli þessarar andúðar á kristindóminum skrifuðu tveir bandarískir höfundar Andrew Dickson White og John William Draper kirkjusögur sem markvisst sýndu fram á að kirkja og vísindi hafi verið í stríði frá upphafi kristinnar trúar.

Sá söguskilningur sem birtist í gríðarstórum verkum þeirra á meira skylt við áróður en sagnfræði og margar af helgisögnum vísindasögunnar eru frá þeim komnar. Þær þekktu staðhæfingar að uppgangur kirkjunnar hafi kæft forna vísindaiðkun, að miðaldarkirkjan hafi haldið á lofti þeirri hugmynd að jörðin sé flöt, að hún hafi bannað krufningar, bannfært Kópernikus og fangelsað og pínt Galíleó Galílei er haldið á lofti til þessa dags, þó þær eigi enga stoð í sögunni. Hið sanna er að jafnt við uppgang kristindómsins og á miðöldum fór fram víðtæk og vönduð fræðaiðkun, sem kirkjunnar menn tóku virkan þátt í. Nýjar og ögrandi hugmyndir hafa alla tíð vakið misjöfn viðbrögð í umræðu samfélaga og innan fræðigreina. Meðal kirkjunnar þjóna voru við hvern áfanga, þeir sem heilluðust með og þeir sem töluðu gegn, nýjum hugmyndum en það á ekki einungis við um presta kirkjunnar.

Fáar hugmyndir hafa breytt heimsmynd manna jafn mikið og þróunarkenning Charles Darwin, en honum hefur á 20. öldinni verið beitt jöfnum höndum af andtrúarmönnum og þeim sem halda á lofti bókstaflegri biblíutúlkun. Darwin ólst upp í samfélagi þar sem var trúarleg deigla og hann varð sjálfur fyrir miklum áhrifum af guðfræðiriti William Paley sem hélt því fram að í náttúrunni mætti greina fingraför Guðs. Á tímabili lærði hann til prests en áhugi hans á náttúruvísindum var meiri og sá áhugi leiddi til rannsókna hans á fjölbreytni dýralífs á kyrrahafseyjum, sem leiddi hann til að setja fram hugmyndina um náttúruval.

Þróunarkenningin varð valdur að miklum umræðum í ensku samfélagi og mörgum þótti sú hugmynd að maðurinn væri kominn af öpum móðgun við manninn. Umræður um biblíutúlkun og sköpunarhugmyndir spiluðu þar inn í en andstaða við kenningar hans var ekki síður úr vísindasamfélaginu en frá kirkjunnar mönnum. Samtímamenn hans voru sammála um að kenningin olli vatnaskilum í náttúruvísindum og honum var við andlát veittur æðsti heiður ensku kirkjunnar, að vera jarðsettur í Westminster Abbey innan um kóngafólk og kirkjuleiðtoga.

Þróunarkenningin er ekki umdeild í náttúruvísindum og nær allar háskólakirkjudeildir hafa samþykkt og stutt grunnhugmyndir hennar. Vísindin lýsa því hvernig að lögmál náttúrunnar starfa, með náttúruvali og samspili erfða, á meðan guðfræði kirkjunnar spyr um tilurð og tilgang sköpunarverksins. Arfleifð Charles Darwin hefur hinsvegar verið rænt, annarsvegar af andtrúarmönnum og hinsvegar þeim sem aðhyllast bókstafshyggju með hætti sem stillir þróunarkenningunni og Biblíunni upp sem andstæðum.

Í bandaríkjunum fóru fram á fyrri hluta 20. aldar sýndarréttarhöld í Tennesee fylki, sem fjölluðu um réttinn til að kenna þróunarkenningu Darwins í almenningsskólum. Þar höfðu fúndamentalistar fengið í gegn reglur um að ekki mætti í kennslu skóla andmæla þeirri hugmynd að sköpunarsaga Biblíunnar væri bókstaflega sönn og kennari kærði þær reglur með táknrænum hætti. Þessi aparéttarhöld, eins og þau hafa síðar verið nefnd, urðu afdrifarík og ruddu brautina fyrir það öngstræti sem að bandarískt grunnskólakerfi hefur verið í allar götur síðan. Þar ríkir til þessa dags feimni við þróunarkenninguna og hluti almennings velur frekar að kenna börnum sínum trúarleg sanninndi heima fyrir heldur en að hætta á að þau séu útsett fyrir náttúruvísindum í skólakerfinu. Sú hugmynd er útbreidd meðal sköpunarsinna að Darwin sjálfur hafi frelsast frá eigin villu á dánarbeðinu, hafnað kenningum sínum og gefið sig Kristi á vald. Sú helgisögn er tilbúningur frá grunni en ólíklegt er að Darwin hafi talið þörf á slíkri iðrun þar sem hann á ferli sínum skrifaði hvergi gegn kristni eða kirkju og naut eins og áður sagði virðingar innan hennar.

Á hinum enda umræðunnar er Richard Dawkins, sem er einn fremsti vísindamaður okkar daga á sviði þróunarfræða, en jafnframt öflugur talsmaður andtrúarviðhorfa. Dawkins hefur barist hatrammlega gegn þeim sem andmæla þróunarkenningunni en hann fordæmir jafnframt trúarbrögðin í heild sinni og minnir málflutningur hans ítrekað á andtrúaráróður 19. aldar. Dawkins er einlægur aðdáandi Darwin en hann gerir honum jafnframt upp andtrúarleg viðhorf sín og telur að þróunarkenningin afsanni tilvist Guðs og þar með réttmæti allra trúarbragða. Hvorugt er rétt og það er ekki almennur skilningur vísindamanna að trúleysi sé eini möguleikinn sem náttúruvísindin leyfa. Steingervingafræðingurinn Stephen Jay Gould hefur skrifað um viðhorf vísindamanna á sviði þróunarfræða til trúar og í andsvari við málflutningi Dawkins segir hann að annaðhvort séu helmingur kollega hans jafn heimskir og Dawkins heldur fram, eða að þróunarkenningin sé samrýmanleg bæði trú og trúleysi.

Það sorglega er að fyrirlitning Richard Dawkins og skoðanabræðra hans í garð trúaðra og trúarbragða hefur verið olía á eld þeirra sem vilja fordæma þróunarkenninguna með trúarlegum rökum. Frásagnir biblíunnar eru tilraun til að lýsa heiminum með orðfæri sem játar að Guð sé að baki skikkan heimsins. Sköpunarsagan er samtímis að fullu sönn og algjörlega ófullnægjandi sem náttúrufræði. Sagan af Adam og Evu boðar að við erum sem mannkyn systkini af sömu rót og mannfræðin hefur staðfest það, þó 10.000 ár aðgreini hinn sögulega forföður frá hinni sögulegu formóður mannkyns. Í ljóði lýsir Biblían sköpun heimsins af einu ljósi, sem varð til við stóran hvell, og þeirri atburðarás sem leiddi af sér allt það sem við fáum séð og mælt með okkar takmörkuðu skynjun. Engin vísindakenning eða niðurstaða mælingar mun leysa af hólmi þörfina fyrir heimsmynd sem felur í sér tilgang og samhengi tilverunnar með augum trúarinnar.

Yfirborðslestur á sköpunarsögum Biblíunnar leiðir í ljós þá fásinnu að lesa þessar frásagnir bókstaflega. Hlið við hlið í fyrstu Mósebók eru tvær sköpunarsögur, í beinni mótsögn hver við aðra og framvinda frásagnarinnar gefur ekki tilefni til að lesa þær sem sagnfræði. Í þeirri fyrri eru kynin sköpuð samtímis og í þeirri síðari er konan karlynja af rifi karlmanns og ef Adam og Eva voru ein sköpuð má spyrja hvaðan tengdadætur þeirra hafi komið? Mósebækurnar eru margbrotnar og heillandi trúarbókmenntir, sem gefa til kynna að þar séu að baki menntaðir höfundar, og þversagnir textanna eru því viljandi til komnir. Af því leiðir að textunum er ekki ætlað að lesa bókstaflega, heldur sem játningar á tilgangi og tilurð sköpunarinnar sem er heillandi í eðli sínu. Að baki sköpun heimsins býr ást og sú ást birtist í öllu lífi.

Páskar eru hátíð lífsins og táknfræði páskanna vísar með ólíkum hætti til sköpunarinnar. Egg eru vonboðar lífsins, páskaliljur vorboðar sem ryðja sér leið gegnum snjóinn og hérar frjósemistákn sökum fjölgunargetu. Páskar boða gleði yfir sigri vorsins yfir valdi vetrar, yfir sigri lífsins andspænis dauðanum og sigri elskunnar andspænis andúð og hatri. Þessi stef koma saman í táknfræði krossins, sem táknar vegamót vors og vetrar, lífs og dauða og ástar og andúðar. Á gleðidögum er því að fagnað að lífið og ástin finna sér ávallt farveg.

Túlkunarrammi trúarinnar glæðir tilveruna tilgangi en er ekki ætlað að vera vísindaleg greining á sköpuninni. Trú og vísindi hafa átt samtal og samleið frá upphafi mannkyns og hin vísindalega aðferð vestrænnrar hugsunar verður til í samtali við guðfræði og kirkju. Hið sama gildir um menntastofnanir múslima sem á miðöldum voru leiðandi á sviði raun- og hugvísinda samanborið við vestur-Evrópu. Augu trúarinnar krefja okkur um að kynnast birtingarmyndum sköpunarinnar með því að rannsaka hið stóra og smáa í tilverunni og til þess eigum við öflug verkfæri í hinni vísindalegu aðferð.

Heimsmynd okkar sem mannkyn breytist eftir því sem þekkingu okkar og samfélagi vindur fram og hin trúarlega heimsmynd kristninnar hefur sannarlega ekki haldist óbreytt frá fyrstu öld. Hið sígilda eðli kristinnar trúar er ekki fólgið í endanlegum sannindum sem kirkjan gerir tilkall til á hverjum tíma, heldur því sístæða erindi sem að textar Biblíunnar og boðun og saga Jesú Krists á við okkur á hverjum tíma. Líkt og hin vísindalega aðferð krefur okkur um að hafna því sem úrelt er og fagna hverju framfaraskrefi er kirkjan kölluð til sístæðrar siðbótar. Eitt af þeim skrefum sem við verðum að stíga á þeirri vegferð er að komast úr þeim skotgröfum að egna vísindum og trú saman í átökum um sannindi, heldur sameinast í því verkefni að fræðast um það kraftaverk sem lífið er og standa vörð um birtingarmyndir þess í sköpuninnni. Bækur sem stuðst er við:

Ludwig Feuerbach, Das Wesen des Christentums (The Essence of Christianity), 1841. Andrew Dickson White, A History of the Warfare of Science with Theology in Christendom, 1896. John William Draper, History of the Conflict between Religion and Science, 1874. Stephen J. Gould, Rocks of Ages: Science and Religion in the Fullness of Life, 1999. Richard Dawkins, The God Delusion, 2006. Alister and Joanna McGrath, The Dawkins Delusion, 2007. Ronald L. Numbers (ritstjóri), Galileo goes to jail and other myths about science and religion, 2009.