Jósef og stóru draumarnir

Jósef og stóru draumarnir

Aukaleikarinn í jólasögunni er í raun aðalleikari. Hann var maðurinn á bak við konuna. Hann rataði í siðklemmu og brást stórmannlega við vanda festarkonu sinnar. Vegna manndóms og karlmennsku kastaði hann af sér karlrembunni og ákvað að axla ábyrgð á aðstæðum þeirra Maríu.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
29. desember 2014

Jósef

Aðalpersónur jólasögunnar eru María og Jesúbarnið. Svo koma auðvitað við sögu hirðar, vitringar og englar. En svo er Jósef þarna líka. Þó hann sé næstum ósýnilegur í helgileikjum skóla og kirkju er hann þó miðlægur í upprunasögunni.

Það var Jósef, sem studdi heitmey sína á förinni til Betlehem. Hann hentist inn á alla gististaðina og fékk afsvör. Það var hann, sem tók á móti barninu þegar það kom í heiminn, skildi á milli og batt fyrir naflastreng. Hendur hans hafa eflaust skolfið þegar hann hélt á smálífinu í lúkunum og vafði klæði um barnið til að varna að næturkælan næði því. Hann hefur sett það í móðurfang þegar María bar það fyrst að brjósti.

Jósef hafði atvinnu af smíðum, en við vitum ekki hvað hann smíðaði eða hvernig verkmaður hann var. Væntanlega var Jósef ekki mállaus, en þó er ekki eitt einasta orð haft eftir honum í Biblíunni. Jesús var fullkominn snillingur í samræðum og örlátur í samskiptum og væntanlega hefur Jósef lagt til þeirrar hæfni.

Maðurinn á bak við konuna

Aukaleikarinn í jólasögunni er í raun aðalleikari. Hann var maðurinn á bak við konuna. Hann rataði í siðklemmu og brást stórmannlega við vanda festarkonu sinnar. Vegna manndóms og karlmennsku kastaði hann af sér karlrembunni og ákvað að axla ábyrgð á aðstæðum þeirra Maríu. Hann veik sér aldrei undan að taka erfiðar ákvarðanir og fara langar leiðir og ferðir ef það mætti verða til að vernda líf og hamingju fjölskyldu hans. Jósef er raunar fyrirmynd um karlmennsku í jafnvægi. Í miðju glimmerskreyttrar draumafrásögu er saga um sterkan mann, sem þorði. Sá Jósef hafði karlmannslund í lagi. Jósef var fyrirmyndarmaður sem þorði, gat og vildi.

Draumar Jósefs

Brasilíski ritjöfurinn Paulo Coelho opnaði augu mín fyrir hve fáir draumamenn eru í Nýja testamentinu. Í Gamla testamentinu er fjöldi drauma og draumspakra - en í því nýja fyrst og fremst Jósef. Í guðspjöllunum er aðeins sex sinnum sagt frá draumförum. Í fjórum af þessum sex tilvikum var það Jósef sem dreymdi. Hann var tengdur dýptum tilverunnar og tók mark á sínum innri manni. Draumar hans breyttu afstöðu hans, skoðun og stefnu. Því var lífi Jesú bjargað.

Í fyrsta lagi ákvað Jósef að skilja ekki við Maríu vegna óléttunnar. Samkvæmt sið, venjum og stöðlum samtíðarinnar hefði Jósef átt að rifta trúlofuninni. En hann hlustaði á draum sinn og þorði að gera annað en það, sem nágrannar hans ætluðust til. Svo dreymdi hann í Betlehem, að hann ætti að drífa sig með sitt fólk til Egyptalands. Ættmennin hafa væntanlega álitið það galið - vera maníukast - að rjúka í slíka óvissuferð með ungabarn. Og maður með snefil af bisnissviti hefði ekki hlaupið svo frá verkum sínum og skyldum. En Jósef var reiðubúinn að hlusta á kall til heilla þótt það kostaði hann mikið. Í þriðja skiptið fáum við að heyra af þessum draumajóa þegar hann var búinn að koma sér fyrir í Egyptalandi, var væntanlega í góðri vinnu og átti til hnífs og skeiðar. Enn einu sinni hlustaði hann á boðskap, sem þó kom honum illa. En hann lagði í´ann og enn einu sinni fékk hann bendingu í draumi um að stoppa ekki í Jerúsalem á leið heim í þorpið í Galíleu.

Draumur Guðs

Aðalpersónur í jólasögunni og þar með í allri kristninni eru María og Jesús. En vert er að taka eftir og sjá líka hinn trausta Jósef. Hann var ekki bara flottur, heldur glæsilegur. Ég met mest hve vel tengdur hann var sínum innri manni. Hann þorði að breyta um skoðun. Hann þorði, vildi og gat axlað ábyrgð í vondum aðstæðum, tryggði og efldi þar með líf annarra, ekki aðeins síns fólks heldur veraldarinnar. Að hlusta á drauma er okkur nauðsyn og veröldinni lífsnauðsyn.

Draumar Jósefs voru merkir. Þeirra megum við vitja okkur til gagns. En við megum gjarnan fara í gegnum þá og vitja enn stærri drauma, raunar stærsta draums veraldar. Það er draumur Guðs um hamingju, gleði og réttlæti handa öllum mönnum: Þú ert í þeim draumi og þú ert ekki aukapersóna. Guð dreymir þig, bæði daga og nætur, dreymir að þér líði vel, að þú njótir elsku og hamingju, í einkalífi og vinnu.

Þegar Jósef tók með skjálfandi höndum hið litla líf í fangið birti Guð og auglýsti elskugerð veraldar, túlkaði drauminn um lífið og heiminn. Hið varnarlausa barn tjáir sögu um, að Guð lætur sig varða veröldina, vitjar fólks í raunverulegum aðstæðum en ekki bara í andlegri heilaleikfimi.

Vitjaðu draumsins þíns

Hver er draumur þinn? Hvers væntir þú? Á jólum og við áramót megum við gjarnan setjast niður, leyfa kyrrunni að koma. Hlustaðu á drauminn um gleðiefni þín, köllun þína. Hvert er þitt hlutverk? Hvað getur þú gert til að þú lifir vel? Hver er lífshamingja þín? Er eitthvað í lífi þínu, sem hindrar að þú sért hamingjusamur eða hamingjusöm?

Vegna þess að Jósef hlustaði á drauma sína bjargaði hann Maríu, Jesúbarninu og hamingju sinni. Guð dreymir þig og sá draumur situr í þér – býr í þér allt frá því að naflastrengur þinn var skorinn og bundinn - draumurinn um lífshamingju. Það er draumur til lífs.