Misskilningur mannréttindaráðsfulltrúans

Misskilningur mannréttindaráðsfulltrúans

Það fær m.ö.o. einfaldlega ekki staðist að reyna þannig að prívatísera trúarlegt félagsstarf og leitast við að ýta því út af hinu opinbera sviði, eins og Bjarni og samherjar hans vilja gera.
fullname - andlitsmynd Gísli Jónasson
20. júní 2011

Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar og fulltrúi í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, leitast við það í viðtali í Morgunblaðinu sl. miðvikudag að svara ummælum mínum sem birtust í viðtali laugardaginn 11. júní.

Í þessu viðtali bregður hann á það ráð að gera bæði mér og prestum almennt upp ákveðnar skoðanir og svara þeim síðan. Þetta er auðvitað mjög þægileg aðferð í rökræðum en málefnaleg er hún ekki.

Hér er ég að vísa til þess, að Bjarni gefur sér aftur og aftur þá forsendu, að prestar séu í endalausri ásókn inn í skólana og krefjist þess að fá að stunda „trúboð sitt þar óáreittir”. Mætti raunar halda af málflutningi hans og raunar fleiri fulltrúa mannréttindaráðs, að prestar séu stöðugt inni á gafli í skólunum og stundi þar margvíslega starfsemi, þannig að brýnt sé að grípa í taumana og stöðva þessa innrás.

En hver skyldi nú vera staðreynd þessa máls?

Í skýrslu leikskóla- og menntasviðs Reykjavíkur um samstarf kirkju og skóla frá 2007 kemur fram, skv. könnun, að þetta sé alls ekki raunin. Þar segir á bls. 6: „Ekki er algengt að prestar komi í heimsókn í grunnskólana”. Í þessari könnun er algengasta svarið raunar það, að presturinn komi aldrei eða þá aðeins mjög sjaldan og þá helst vegna andláta eða slysfara.

Af þessu er ljóst, að mannréttindaráðsfulltrúinn býr sér sjálfur til þá vindmyllu, um mikla „trúboðsásókn“ presta, sem hann er síðan að slást við. Enda hafa prestar aldrei farið fram á það í þeirri umræðu, sem átt hefur sér stað um tillögur mannréttindaráðs, að fá að stunda „trúboð“ innan skólanna. Um það atriði er því engin ágreiningur og er því hér um misskilning mannréttindaráðsfulltrúans að ræða.

En um hvað snýst þá sú gagnrýni sem undirritaður og fleiri hafa sett fram á tillögur mannréttindaráðs? Lítum á nokkur dæmi:

1) Við förum fram á það að söfnuðirnir fái að kynna félagsstarf sitt, s.s. barnastarf, æskulýðsstarf og kórastarf, í hverfisskólanum, á sama hátt og aðrir aðilar, sem bjóða upp á starf fyrir börn og unglinga í hverfinu. Þetta vill mannréttindaráð banna og bjóta þar með jafnræðisregluna.

2) Við förum fram á það, að börnin geti, með leyfi foreldra, tekið þátt í kirkjulegu félagsstarfi á starfstíma frístundaheimilana á sama hátt og þau geta tekið þátt í starfi annarra aðila, eins og t.d. skáta, íþróttafélaga, tónlistar- og dansskóla og ÍTR. Þetta vill mannréttindaráð banna þrátt fyrir það að það sé raunar yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar, að sem mest samþætting eigi sér stað milli frístundaheimilanna og annars félagsstarfs í hverfunum. Hér verður því spurning um brot á jafnræðisreglu og foreldrarétti.

3) Við viljum að fermingarbörn fái, að ósk foreldra sinna, leyfi til að taka þátt í fermingarnámskeiðum, eins og t.d. í Vatnaskógi, í einn eða tvo daga á fermingarárinu. Um þetta gildi einfaldlega sömu reglur, eins og t.d. gilda um það, þegar börn fá leyfi til að fara í keppnisferðir á vegum íþróttafélaga. Mannréttindaráð vill hinsvegar reyna að koma í veg fyrir slíkt. Enn skal því hvorki jafnræðisreglan virt né heldur foreldrarétturinn.

4) Við viljum að Gídeonfélagar fái áfram, þá að sjálfsögðu með leyfi foreldra, að dreifa Nýja testamentinu (NT) til þeirra tíu ára barna sem það vilja þiggja. Þetta vill mannréttindaráð banna.

Í þessu sambandi skal á það minnt, að þótt NT sé vissulega trúarrit, þá er það um leið einnig ein af meginstoðum og sterkustu áhrifavöldum evrópskrar menningar, þar með taldar bókmenntir, myndlist, tónlist, heimspeki o.s.frv. Menningin, hvort sem er íslensk eða vestræn, verður því ekki skilin án þess. Og svo virðist það auðvitað alveg hafa gleymst við tillögugerð Mannréttindaráðs, að NT er, skv. námsskrá, kennslugagn í kristinfræðikennslu. Það er því ljóst, að ef Gídeonfélagið fær ekki áfram að leggja börnunum til NT, þá verður Reykjavíkurborg að sjá börnunum fyrir þessu námsefni.

Þá hlýt ég að víkja að því, að Bjarni kemur í téðu viðtali fram með sína eigin túlkun á mannréttindahugtakinu. Ég vek hins vegar athygli á því, að samkvæmt dómatúlkun Mannréttindadómstóls Evrópu og umsögnum þeirra mannréttindasérfræðinga, sem ég hef borið þessi mál undir, þá virðist Bjarni misskilja ýmislegt í þessum efnum.

Skal þess þá fyrst getið, að samkvæmt 2. gr. fyrsta samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu er lögð sú skylda á herðar hinu opinbera, í öllum ráðstöfunum er miða að menntun, að „virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun... sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra“. Þetta ákvæði varðar ekki bara mannréttindi einhvers minnihluta, eins og Bjarni virðist telja, heldur réttindi allra, því mannréttindaákvæðin fjalla um alla menn og eiga að tryggja að allir hafi verðuga valkosti.

Mannréttindi minnihlutans, í þessu samhengi, eru því ekki fólgin í því, að hann geti með andstöðu sinni hindrað að aðrir taki þátt í því starfi sem honum hugnast ekki. Mannréttindi felast hins vegar í því, að minnihlutinn sé ekki þvingaður til þátttöku heldur bjóðist verðugir valkostir. Það er m.ö.o. hluti af trúfrelsinu að hafa rétt til að vera án trúar, en hins vegar ekki hitt, að vilja neita öllum öðrum um þann möguleika að lifa í samræmi við sína lífsskoðun. Þessi grundvallarafstaða til mannréttinda kemur svo skýrt fram í þeim mannréttindasáttmálum sem við Íslendingar höfum undirgengist og í dómatúlkunum Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim, að það hlýtur að valda mikilli undrun, að öðru skuli haldið fram. Hér er því vissulega um mikinn misskilning mannréttindaráðsfulltrúans að ræða.

Það fær m.ö.o. einfaldlega ekki staðist að reyna þannig að prívatísera trúarlegt félagsstarf og leitast við að ýta því út af hinu opinbera sviði, eins og Bjarni og samherjar hans vilja gera. Má í þessu sambandi benda á að Evrópuráðið hefur einmitt að undanförnu ítrekað fjallað um þetta atriði og bent á mikilvægi þess, að hið trúarlega hafi eðlilega aðkomu að hinu „opinbera rými“ þjóðfélagsins. Og eins og þegar hefur verið bent á, kemur þetta atriði einnig skýrt fram í mannréttindasáttmálum og hefur verið staðfest í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu (sjá t.d. 26. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, 2. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, 14. og 29. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og greinargerð með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu nr. 7442/29. júní 2007).

Að lokum skal svo á það minnt, að þeir uppeldisfræðingar, sem um þessi mál hafa fjallað, leggja mikla áherslu á nauðsyn umburðarlyndis milli ólíkra trúar- og lífsskoðanahópa og að allur mismunur sé þess vegna sýnilegur, svo hægt sé að temja nemendum virðingu fyrir einstaklingum, sem hafa aðra lífsskoðun en þeir sjálfir. Í því sambandi skal þá sérstaklega á það bent, að umburðarlyndi lærist ekki í því tómarúmi, sem Bjarni virðist leggja áherslu á. Sá skóli, þar sem ákveðin lífsviðhorf eru þögguð niður á kostnað annarra, er því ekki hlutlaus. Hlutlaus er hinsvegar miklu fremur sá skóli, þar sem hinar ýmsu hliðar eru kynntar, þannig að börnin fái möguleika og forsendur til að velja. Það hlýtur einmitt að vera grundvallarforsenda fyrir uppbyggilegu og þroskandi skólastarfi í fjölmenningarlegu nútímasamfélagi. Það er slíkur skóli sem ég vil stefna að, en ekki sá „trúræðisskóli“, sem virðist hugnast mannréttindaráðsfulltrúanum best - skóli, þar sem viss tegund trúleysis, sem hann sjálfur aðhyllist, skal vera hið eina viðurkennda viðmið.