Hvar varstu Adam?

Hvar varstu Adam?

Þegar lofsöngurinn hljómaði skaut hann: Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Drottinn... Hann hafði aldrei fyrr með eigin hendi drepið mann, en nú skaut hann engil lofsöngsins, boðbera hinnar hreinu fegurðar. Hvað og hver er heilagur?

Fyrir mörgum árum fór að vitja konu, sem hafði ekki lengur fótavist. Þegar við höfðum rætt saman um stund, reis hún upp við dogg í rúmi sínu, horfði alvörugefin á prestinn sinn og spurði: “ Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Ég hváði við og hún endurtók: “Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Til skýringar bætti hún við, að hún hefði heyrt, að presturinn hefði gengið til rjúpna, henni væri illa við slíkt og teldi það löst á ráði allra manna og hvað þá klerks. Já, ég viðurkenndi að ég hefði skotið svoleiðis engla og hún áminnti sálgæti sinn að hætta slíku. Síðan hef ég ekki skotið engla mér vitandi. Sjokkspurning hinnar öldruðu konu hafði tilætluð áhrif. Ekki held ég þó, að það sé dauðasynd að skjóta rjúpur. Öll nærumst við á því, sem lifað hefur og gefur öðru líf. Sá er einn þátturinn í speki hinnar kristnu hefðar um líf Jesú og lífgjöf heimsins. Í brauði og víni eru lífefni.

Jesús kallaði vini sína til kvöldverðar á skírdegi. Við borðið skilgreindi Jesús lífið með ákveðnum hætti. Leiðtoginn laut til þjónustu. Hann þvoði fætur vina sinna. Og alla tíð síðan hafa vinir Jesú komið saman við borð. Lífið í ríki hins heilaga varðar þjónustu, samfélag, umhyggju, fórnfýsi, viðsnúning gilda, að smátt og stórt er sett í samhengi. Hver er miðjan í þessari kirkju, já flestum kristnum kirkjubyggingum heimsins. Það er borðið. Kristnin er borðátrúnaður, helgaður gestrisni, þjónustu, velvilja og umhyggju. Þau orð, sem presturinn hefur yfir við upphaf altarisgöngunnar, eru orð Jesú og það sem Páll postuli skrifaði. Kirkjan hefur síðan endurtekið, íhugað og tekið sér til hjarta. Þetta er líkami minn ... þetta er blóð mitt. Í þessum orðum er heilagleikinn tjáður. Hvað er heilagt? Hvernig er hið heilaga og hvernig birtist heilagleikinn? Hver er heilagur?

Líf er helgað af Jesú Kristi. Í veislu himins er samkvæmt kristinni túlkun allt fært til sinnar eigin veru. Veröldin er sætt við sjálfa sig og Guð. Allt er dregið út úr dimmri vonsku og inn í veröld ljósrar gæsku, helgað Guði. Hið heilaga hefur alltaf verið frátekið til ákveðins samhengis í gyðing-kristnum átrúnaði. Hið heilaga er það, sem er Guðs - og Guð einn er heilagur. Þegar menn játa þann sannleika, taka sér stöðu í því samhengi - og taka afleiðingum þess í lífi sínu og iðju - er rétt lifað og veröldin er helguð. Orðin hljóma í þeim anda, söngurinn verður með ákveðnu sniði og móti: Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn... Þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt. Það merkir m.a. að þú, stúlka, drengur, karl, kona, já þú ert heilagur og heilög - þú ert undursamlega sköpuð, þú ert stórkostlegur. Þú er mennsk vera, þú ert líka guðleg vera. Þú ert engill Guðs, sendiboði hins heilaga.

Hvar varstu? Í nokkur ár átti ég samleið með þýska rithöfundinum Heinrich Böll. Ég laðaðist að dýpt rita og sagnagáfu þessa merka Nóbelhöfundar og þess vegna voru þessar bækur ákjósanlegar til eigin þýskuæfinga. Ein af bókum Böll, sem ég las, var Wo warst du, Adam? (Hvar varstu, Adam?). Þetta er bók um mannlíf í stríði, hvernig mennska þverr í drápsaðstæðum og englarnir sjást. Hvers er ábyrgðin? Hvar varstu maður þegar stríðið geisaði? Hvar erum við þegar góð skipan samfélags er rofin, þegar elskusemi er gerð útlæg, lægstu hvatir ráða, vondir menn stjórna og ofsi er óhaminn? Hvar varstu? Það er spurning Guðs til Adams. Hvar varstu og hvar ertu þegar brot eru unnin? Ertu ábyrgur – ertu traustsins verður eða verð?

Böll segir í bókinni margar eftirminnilegar sögur. Meðal þeirra er frásögn um kristna stúlku af gyðingaættum og fund hennar og SS-foringja. Gyðingastúlkan var af ungverskum ættum, en hafði gengið í þýskan, kaþólskan, klausturskóla. Hún hafði notið góðrar söngmenntunar og líka tekið kristna trú. Hún frétti af útrýmingarherferð hinna þýsku hernámsafla og að fjölskylda hennar væri í hættu. Þvert á ráðleggingar þýskra vina hélt hún til síns heima. Þar fann hún systur sína, sem var í svipuðum erindagerðum og hún sjálf. Fólkið þeirra hafði verið flutt á brott og þær voru fljótt gómaðar og sendar í fangabúðir. Þar stjórnaði SS-foringi, sem hataði trú en elskaði tónlist. Músíkviðmið notaði hann við úrskurði sína. Eina lífsvon fanga í búðunum var að þeir gætu spilað á hljóðfæri eða sungið. Hinum ómúsíkölsku var fargað. Hinum söngvinu og hljóðfæraleikurum var þyrmt og til varð vel spilandi hljómsveit og öflugur kór í búðunum.

Lofsöngur engilsins Fólk var stöðugt flutt í þessa eyðingarstöð því hún var stórvirk. Og SS-foringinn settist í skrifstofu sína og dæmdi til lífs eða dauða allt eftir tónlistargetu fanganna. Þegar kom að kaþólska Gyðingi skipaði hann þessari grönnu stúlku að syngja fyrir sig. Hún lauk upp munni sínum og þvert á væntingar hljómaði mikil og fögur sópranrödd hennar og fyllti veröld tilheyrenda. Söngundrið barst út um opinn skrifstofugluggan og út í veröld þjáningarinnar. Búðirnar hljóðnuðu, menn hættu störfum og færðu sig nær til að hlusta. Nazistaforinginn hlustaði stjarfur á dásemdina. Hann vissi, að stúlkan söng af fullkominni snilli og kunnáttu. En hann vissi líka jafnvel hvað hún söng af slíkri innlifun að allir féllu í stafi - sanctus – lofgerðaróð hinnar kristnu messu – heilagur, heilagur, heilagur. Ástin til fegurðar og tónlistar bullaði annars vegar í manninum sem hlustaði – andúðin kraumaði gegn hinu trúarlega hins vegar. Hatrið réði för og fingrum. Maðurinn þreif í æði sínu skambyssu sína. Þegar lofsöngurinn hljómaði skaut hann: Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Drottinn... Hann hafði aldrei fyrr með eigin hendi drepið mann, en nú skaut hann þennan engil lofsöngsins, boðbera hinnar hreinu fegurðar. Hún féll og hann hélt áfram að skjóta og gata grannan stúlkulíkamann meðan síðustu hljómar hennar dóu út í kyrrð búðanna og í bland við skothvellina. Hvað er heilagt? Hvar varstu Adam? Hver er heilagur - maður – flokkur – manngert smælki eða Guð?

Nakið borð Í lok þessarar athafnar berum við út úr kirkjunni alla gripi, ljósastjaka, biblíu, handbók, sálmabók, bikara, brauðhús, dúk, þerrur – allt það sem er á altarinu. Veisluborð kirkjunnar verður strípað öllu því, sem á því er í messunni. Af altarinu verður allt tekið, myrkur tæmingar leggst að. Af hverju? Tákn hins heilaga eru tekin burtu þegar föstudagurinn langi sækir að.

Hið heilaga er það sem gefur líf og er líf. Allt það, sem veiklar og drepur lífið er fjandi hins góða. Óréttlæti er óvinur lífsins, hernaður gegn náttúrunni er af hinu illa. Mannréttindabrot eru verk óhelgi, mismunun fólks vegna kynferðis, litarháttar og trúar sömuleiðis. Þegar nafn hins heilaga er notað í þágu óttans og til að vanhelga og niðurlægja fólk er lífið sundurskotið. Þegar málstaður trúar og hins heilaga er misnotaður er borð veislunnar nakið og engum til lífs og gleði. Þegar við leyfum hinu illrætta að vera þá er lífi spillt. Píslarsagan er ekki aðeins saga um vonda menn, sem voru illir í garð eins manns. Hún er sagan um okkur öll, möguleika allra manna til að snúa baki við því, sem við þó erum, eigum að vera og erum kölluð til. Við erum ekki aðeins með lærisveinum Jesú við borð skírdagsins, heldur líka meðal og í hermönnum, sem veittust að honum. Við erum líka prestarnir, sem ekki vildu horfast í augu við að Guð talaði. Við erum öll Gyðingar, öll Rómverjar, öll fjandmenn Guðs - en samt líka lærisveinar sem er boðið til lífs í heilagleika.

Bæði og... Þegar við berum allt af altarinu tjáum við að við viðurkennum, að í okkur býr möguleiki sem í ákveðnum aðstæðum er hægt að beita og misnota. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka gera mistök og fremja afbrot. Þegar við berum út af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða. Við skjótum öll engla. Þegar við menn viðurkennum stöðu okkar, strikamerki, samhengi og hið eiginlega ríkisfang er Adam nálægur og ábyrgur.

Heilagur... Í messulok verða fimm afskornar rósir lagðar á nakið borðið. Föstudagurinn verður þeim langur og til fjörtjóns. Blómin munu slúta fram yfir brún og verða æpandi tákn fram á páskamorgun. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn síðusárs og meina heims og manna. Gróa sárin - verða páskar? Kemur lausnin heims og þín? Guð geymi þig á göngu þessara bænadaga, varðveiti þig í nótt, veiti þér styrk til að mæta þér og Guði í atburðum komandi daga. Hver er heilagur? Söngurinn hljómar, syngdu hann líka. Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn Guð allsherjar.

Amen

Hugleiðing á skírdagskvöldi 21. apríl 2011. Hljóðupptaka er að baki þessari smellu.

Bæn Kom Jesús Kristur. Ver hjá okkur - kvölda tekur og degi hallar. Við biðjum fyrir öllum þeim, sem eru okkur bundin kærleiksböndum.Hjálpa þeim og gæt þeirra á lífsvegi.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn...

Send heilagan engil þinn Drottinn að styrkja öll þau er syrgja og sakna allar stundir nætur þar til dagur rennur og ljós þitt kemur.

Hjálpa okkur til að heyra hvað við okkkur er sagt, hver lífsdómur okkar er, hver söngur okkar er í lífinu.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn...

“Í þínar hendur Drottinn Guð vil ég nú fela anda minn. Þú hefur endurleyst mig Drottinn, þú trúfasti Guð. Gæt vor Drottinn eins og sjáaldurs augans. Varðveit oss undir skugga vængja þinna. Frelsa oss Drottinn meðan vér vökum, varðveit þú oss er vér sofum svo að vér vökum með Kristi og megum hvíla í friði.”

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn...

Þú knýrð á allar lífsdyr, gengur í hús þitt, sest niður og brýtur brauðið. Brýtur brauð fyrir veröld, sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, lífsins orði. Kenn okkur að þiggja brauð þitt, þiggja svikalausa fyrirgefninu – vera þín börn. Heilagur, heilagur, heilagur ert þú, Drottinn.

Amen