Konur og peningar

Konur og peningar

Í ljósi stöðu kvenna í þeim heimi sem lýst er í Nýja testamenntinu má hiklaust segja að það merkilegasta við texta dagsins er í raun að konurnar skuli nefndar.

Hvar voru allar íslenskar konur, einhverjar hafa verið hér?“ var sungið frá kvennafrídaginn 1975 þegar vaskur hópur söng baráttulög og hvatti konur áfram. Lagið heitir Um kvennmannslausa sögu Íslendinga. Þarna var meðal annars horft til Íslendingasagnanna, karlarnir voru að berjast og skrifa Íslendingasögurnar. Konurnar flestar nafnlausar að gera allt sem þurfti að gera á stóru heimili. Þeirra starfa hvergi getið.

 

Þekktar og áhrifavaldar

Lagið kom mér í hug þegar ég las guðspjall dagsins. „Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.“ Þessi setning í guðspjalli dagsins segir svo margt um konurnar sem fylgdu Jesú. Það þurfa til dæmis allir að borða og farandpredikari og fylgismenn hans veiða ekki fisk til matar meðan þeir eru á flakki um landið. Konurnar gerðu Jesú kleift að fara um og predika. Það er ekki lítið hlutverk. Þarna eru bara þrjár nefndar með nafni og greinilegt að höfundur guðspjallsins gerir ráð fyrir að þau sem lesa það eða heyra kannist við konurnar en auk þeirra voru margar aðrar. Þarna er María Magdalena, sem í aldaraðir var talað um sem bersynduga, sem vændiskonu, er séð hafði að sér. Ekkert í guðspjallinu bendir til þess að það sé rétt og þessi hugmynd kemur reyndar fyrst fram um 500 árum eftir að guðspjallið er ritað. Ég held að það sé alveg óhætt að afskrifa þá skýringu. Í texta dagsins eru hún þvert á móti nefnd um leið og Jóhanna kona Kúsa sem var háttsettur embættismaður.Þetta voru konur sem áttu peninga og svo sterka stöðu í hinu forna samfélagi að þær nutu talsverðs sjálfræðis. Og svo er hún Súsanna nefnd. Það er eins og allir eigi bara að vita hver hún var – já – Súsanna – einmitt, hún var þarna líka og svo allar hinar konurnar, of margar til að hægt sé að telja þær upp. Þessar konur voru þekktar. Og þær voru áhrifavaldar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum. 

 

Merkilegast að þær skuli nefndar

Setningin stingur svolítið. Manni finnst einhvern veginn næstum sagt að þær hafi ekki haft neitt fram að færa en auðvitað hafi verið hægt að nota peningana. En við nánari skoðun á guðspjalli Lúkasar sjáum við að það er ekki rétt. Lúkas er sá guðspjallamaður sem mest dregur fram hlut kvenna og lýsir sterkum konum. Í því guðspjalli eru frásagnirnar sem við þekkjum frá aðventu og jólum af Maríu og Elísabetu og fæðingu sona þeirra. Í guðspjallinu er meðal annars sagan af því þegar María fer af stað ólétt og hittir Elísabetu sem líka á von á sér. Þessa atburðar er minnst 2. júlí í kirkjualmanakinu og það kallað Vitjunardagur Maríu en einnig Þingmaríumessa. Sem er nýliðin.


En aftur að Lúkasarguðspjalli. Þar er einnig sagan af því þegar Jesús ver rétt Maríu í Betaníu til að læra í stað þess að þjóna gestunum. Þar eru sögur af því hvernig Jesús mætir konum sem áttu erfitt uppdráttar í samfélaginu eins og bersyndug kona sem smurði fætur hans, þar er frásögnin sem við heyrðum í dag um konurnar sem studdu Jesú með fjármunum og auðvitað greinir hann eins og aðrir frá því að konur voru fyrstu vottar upprisunnar. 

 

Í ljósi stöðu kvenna í þeim heimi sem lýst er í Nýja testamenntinu má hiklaust segja að það merkilegasta við texta dagsins er í raun að konurnar skuli nefndar. Og næst að þær höfðu greinilega mikilvæg hlutverk. María Magdalena hafði til dæmis greinilega veigamikið hlutverk í postulahópnum og hvar sem hún er nefnd í guðspjöllunum í hópi kvenna er hún alltaf nefnd fyrst. Hún var sú sem var send til postulanna með upprisufréttirnar. Og af því að postuli þýðir sá sem er sendur þá var hún postuli postulunum. 

 

Konur voru leiðtogar í frumkirkjunni

Pistillinn var úr Rómverjabréfinu. Páll hefur líklega skrifað bréf sitt til safnaðarins í Róm árið 56. Hann stofnaði ekki söfnuðinn og hafði ekki hitt hann þegar hann ritar bréfið en sendir það með konu sem hét Föbe og var djákni safnaðarins í Kenkreu. Hann lýsir henni sem lífgjafa margra, einnig sín. Og fleiri konur eru nefndar í bréfinu sem höfðu gengt mikilvægu hlutverki í lífi Páls og stutt hann í starfi og þjónustu. Að auki má nefna að fyrsti Evrópubúinn sem tók kristni fyrir orð Páls var kona, hún hét Lýdía og var vel stæð ekkja sem stundaði kaupskap. Hún hjálpaði honum aldeilis með fjármunum, því að hún hýsti meðal annars Pál og félaga. Ég held að ég sé ekki að ofætla ef ég segi að allar þær konur sem nefndar eru í tengslum við ferðir Páls og í bréfum hans sem samstarfsmenn hafi verið vel stæðar konur. Þær hýstu meðal annars söfnuðina, sem jafnan hittust í heimahúsum, stundum einar en stundum með eiginmönnum sínum – en eru þá nefndar til jafns við þá. Það er greinilegt að þær töluðu og þjónuðu í helgihaldinu í frumkirkjunni. Þær voru meðal leiðtoga í frumkristni. Svo hurfu þær sem leiðtogar þegar skipulag kirkjunnar byggðist upp. Og þó að vissulega megi lesa um einhverjar áhrifamiklar konur innan kristni á miðöldum og síðar þá er það staðreind að nærri 2000 ára hefðin taldi þær ekki verðar þess að vera leiðtogar safnaðanna. Það gerist fyrst á síðustu öld í okkar kirkjudeild og ýmsum öðrum, þó að margar geri það ekki enn. 

 

Framlag kvenna 

En konurnar voru samt áfram í kirkjunni. Og mörkuðu sér svið til að hafa áhrif – til dæmis með fjármunum. Lengi vel eru það helst tignar eða vel stæðar konur sem við heyrum af sem hafa áhrif, gefa fé, stofna klaustur, stýra klaustri. En það breyttist og á síðustu öld  mátti sjá hér á landi hvernig hópur kvenna hafði mikil áhrif í kirkjunni og nýtti þar meðal annars fjármuni. 

Fyrir áttatíu árum var stofnað félag hér í Nessókn sem félkk nafnið Kvenfélag Neskirkju. 

Reykjavík hafði verið skipt upp í fjórar sóknir árið 1940 og í kjölfarið voru stofnuð kvenfél0g við flestar sóknirnar.á höfuðborgarsvæðinu. Og þessi félög lyftu grettistaki þegar kom að kirkjubyggingu og fjáröflun. 

 

Kvenfélög voru auðvitað þekkt áður, fyrsta kvenfélagið hér á landi mun hafa verið Kvenfélags Rípuhrepps stofnað árið 1869. Stofnun kvenfélaga var það á vissan hátt til að styrkja rödd kvenna í mjög karllægum heimi, bæði samfélagi og pólitík og í kirkjunni. 

 

Og þegar kemur að kvenfélögum innan kirkjunnar sjáum við aftur þekkt mótív. Konurnar voru nefnilega ötular að safna peningum. Og þegar maður les fundargerðir kvenfélags Neskirkju þá má sjá að konurnar í því hafa frá fyrsta ári hjálpað með fjármunum sínum. 

 

Og það munaði um þær. Á aðalfundi 1944 sagði frú Ingibjörg Thorarensen formaður, að  óhætt væri að segja að fram á þennan dag beri kvenfélagið sigur af hólmi í samanburði við aðra í fjársöfnun innan prestakallsins á þessum þremur árum sem það hefði starfað.“

 

Kvenfélögin

Og peningarnir nýttust vel. Auk þess að kaupa margt fyrir kirkjuna, svo sem fyrsta pípuorgelið, hökul, altarisgöngubikara, kaupa kyrtla og bollastell og hnífapör – fyrir safnaðarheimilið var jafnan lagt lið góðu málefni. Til dæmis virtist vera fastur liður að kaupa jólagjafir fyrir fátæk börn – í fundargerðum sá ég Kamp knox sérstaklega nefndan  - en einnig fleiri fjölskyldur. Að auki stóð á einum stað: Gjöf til fótalausa mannsins, 1000 krónur. Þetta var nálægt 40000 að núvirði en engar frekari upplýsingar fann ég um fótalausa manninn.

 

Margt fleira styrktu konurnar. Á sjöunda áratugnum má meðal annars sjá fjárframlög til góðgerðarsamtaka og til Verndar en einnig styrktu konurnar Flóttamannahjálp sameinuðu þjóðanna og eru til bréfaskriftir þar að lútandi þar sem kemur fram að fyrir fé þeirra er greidd skólavist og styrkur til ungrar palestínskrar stúlku sem stundar iðnnám í Ramallah  á Vesturbakkanum. 

 

Það er mikið um kaffidrykkju og kaffisölu í fundargerðum kvenfélagsins. Það var bæði ánægjan og drjúg tekjuöflun. Mér er sagt að á tímabili hafi messur verið hér kl. 2 og í miðri messu hafi jafnan borist upp ilmur af nýbökuðum vöfflum því að kvenfélagskonur seldur vöfflur í safnaðarheimilinu í kjallaranum eftir messu. Ég er hálffegin að svo er ekki lengur, hrædd um að athygli bæði messugesta og prests færi alveg út um þúfur við ilminn. 

 

Þegar ég renndi í gegnum fundargerðarbækur og ársreikninga Kvenfélags Neskirkju dáðist ég að dugnaðinum og kraftinum. Og þetta var allt gert í sjálfboðavinnu. Einn sjálfboðaliðanna var Hrefna Tynes, skátahöfðingi sem var mjög virk í starfi hér. Henni til heiðurs sungum við áðan Sálminn Ver mér nær, ó Guð, sem hún orti út frá skátalaginu þekkta, kum bah yah, my lord.

 

Kvenfélagið hætti starfsemi hér fyrir allmörgum árum og fylgdi kannski ákveðinni hnignun kvenfélaga víðast hvar með breyttri stöðu kvenna í samfélaginu. En þegar upp er staðið má fullyrða að konur í kvenfélögum kirkjunnar lögðu mikið af mörkum í safnaðarstarfi en einnig í því að byggja kirkjurnar og búa þær þannig að þær væru tilbúnar til messuhalds og samfélags. „Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum“ á svo sannarlega við um kvenfélag Neskirkju og önnur kirkjukvenfélög. 

 

Valdeflandi félagsskapur

Það má líta á sögu kvenfélagsins frá að minnsta kosti tveimur sjónarhornum. Annað væri að tala um hve valdlitlar konur voru í formlegri stjórn kirkjunnar og hve lítil áhrif þær höfðu þar. Það er alveg rétt, þær voru hvorki prestar né biskupar í okkar prestmiðlægu kirkju, svo eitthvað sé nefnt. En við getum líka talað um hvernig þær skapa sér rými, taka sér rými og stjórnun og beita sér í sókninni – með því meðal annars að hafa fjárvald. Og þegar maður les fundargerðirnar má fljótt sjá að fundirnir voru líka vettvangur bæði fræðslu og skemmtunar. Svo að kvenfélögin voru líka valdeflandi félagsskapur fyrir konur sem sóttu þangað samfélag og fundu vettvang þar sem þær gátu haft áhrif. Og áhrifin af verkum þeirra búa með okkur enn í dag.

 

Þær studdu þá með fjármunum sínum. Allir sem hafa komið að rekstri félagasamtaka vita að fjármunir skipta máli. Í guðspjallinu er staða og framlag þeirra sem studdu Jesú, bakhjarlanna, viðurkennd sem mikilvæg. Þær eru nefndar með nafni. Án þeirra hefði þetta ekki gengið. 

 

Ég er afar þakklát að staða kvenna innan kirkjustjórnarinnar sé styrkari í dag en áður var. Þakklát að kyn mitt skuli ekki hafa áhrif á það hvort ég geti tekið vígslu. Þakklát fyrir sterka stöðu kvenna í íslensku samfélagi. En þannig er það vissulega ekki alls staðar og enn eru til dæmis til Lútherskar kirkjur sem ekki vígja konur. En ég er líka þakklát fyrir allar þær konur sem tóku þátt í að breiða út fagnaðarerindið með Jesú og í frumkirkjunni og æ síðar með því að nýta krafta sína og fjármuni. Þakklát því að ég veit að það var þeirra val og það var valdeflandi – þær fundu svið til að beita sér til góðs fyrir okkur öll. Og ég er þakklát fyrir að það skuli hafa verið nefnt og mikilvægi framlagsins undirstrikað. Í dag skulum við því minnast þess og þakka framlag þessara kvenna og einnig þeirra kvenna sem á síðustu öld áttu ríkan þátt í að byggja upp söfnuði og byggja kirkjur hér á landi.